21.11.1957
Neðri deild: 25. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

56. mál, sjúkrahúsalög

Flm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Við hv. 2. landsk. þm. (KGuðj) höfum leyft okkur að flytja frv. það, sem hér liggur fyrir til 1. umr. og er um breytingar á gildandi sjúkrahúsalögum frá 31. des. 1953.

Breyting sú, sem hér er farið fram á að gerð verði á sjúkrahúsalögunum, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrri mgr. 11. gr. laganna orðist svo:

Úr ríkissjóði greiðist árlegur rekstrarstyrkur til viðurkenndra almennra sjúkrahúsa sýslu-, bæjar- og sveitarfélaga, og miðast hæð styrksins við legudagafjölda sjúklinga á sjúkrahúsum á ári hverju og nemur 15 kr. á hvern legudag. Þó skulu þau sjúkrahús, er hærri styrks njóta, er lög þessi taka gildi, halda honum óskertum.“

Í grg., sem fylgir þessu frv., er bent á, að í gildandi sjúkrahúsalögum er ríkisstyrkur til sjúkrahúsa ákveðinn í þrennu lagi eftir því, hvað sjúkrahúsin eru stór eða hafa mörg sjúkrarúm, þannig að stærstu sjúkrahúsin, þau sem hafa 100 sjúkrarúm eða fleiri, fá hæstan dagstyrk, þ. e. 20 kr. á hvern legudag sjúklinga sinna. Sjúkrahús með 20–100 sjúkrarúmum fær 10 kr. dagstyrk. En minnstu sjúkrahúsin, þau sem hafa innan við 20 rúm, fá aðeins 5 kr. dagstyrk á hvern legudag. Þannig er þessum málum fyrir komið, að þau sjúkrahús, sem mesta þörf hafa fyrir að fá háan styrk vegna rekstrarörðugleika, sem m. a. orsakast af því, hvað sjúkrahúsin eru lítil, eru ekki talin styrkhæf nema að ¼ eða helmingi á við hin stærri sjúkrahús.

Einhver skilyrði munu vera sett um þjónustu á hinum styrkhærri sjúkrahúsum a. m. k., en það stendur þó óhagganlegt, að hversu fullkomna þjónustu og aðbúnað sem hin smærri sjúkrahús veita, eru þau ekki talin styrkhæf nema að ¼ og helmingi á við stærri húsin.

Þessi ákvæði í núgildandi sjúkrahúsalögum eru í fullkomnu ósamræmi við þá alkunnu reglu, að rekstur fyrirtækja er í langflestum tilfellum fjárhagslega erfiðari, eftir því sem umsetning þeirra er minni. Ekki verður séð, að rekstur sjúkrahúsa sé nein undantekning frá þessari almennu reglu, nema síður sé. Það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir, að sjúkrahús, stór og smá, verða að vera útibúin með sem beztum og fullkomnustum tækjum. Mörg af nauðsynlegustu áhöldum sjúkrahúsanna eru mjög dýr og oft og tíðum ofviða fátækum bæjar- og sveitarfélögum að geta eignazt þau, ef ekki kæmi til fjárhagslegur stuðningur og bein aðstoð margs konar menningar- og líknarfélaga og svo alls almennings í viðkomandi bæjar- og sveitarfélögum. Þetta er svo algengt og á allra vitorði, að um það þarf út af fyrir sig ekki að hafa fleiri orð. Til kaupa á nauðsynlegum sjúkratækjum þarf mikið fé, og sem sagt verður það ekki leyst á hinum smærri stöðum, nema til komi almenn aðstoð og hjálp almennings, sem bæina og sveitarfélögin byggir.

Hið mikla misræmi og óréttlæti, sem í því liggur, að ríkisstyrkurinn til sjúkrahúsanna skuli ekki vera að mestu sá sami á legudag, hvar sem er á landinu, er hrein og bein óhæfa. Slíkt fyrirkomulag er vart þolandi öllu lengur.

Við flm. viljum með frv. þessu freista þess að fá fram leiðréttingu á því ósamræmi, sem er í núgildandi styrktarákvæðum til sjúkrahúsanna. Við bendum á í grg., að ef allur sjúkrahússtyrkurinn yrði jafnaður, þannig að hann yrði 15 kr. á legudag til allra sjúkrahúsa, sem hann skv. sjúkrahúsalögunum nær til, mundi ekki verða um neina teljandi útgjaldabreytingu að ræða fyrir ríkissjóð frá því, sem nú er. En við lítum þó svo á, að hafi einhver réttlæting verið til að ákveða stærstu sjúkrahúsunum 20 kr. styrk á hvern legudag, eins og gert var við setningu laganna frá 1953, þá sé vart forsvaranlegt eða sanngjarnt að lækka hann nú, þar sem vitað sé, að sjúkrahúsarekstur mundi ekki hagkvæmari nú, en þá var. Fyrir því höfum við flm. ekki viljað hrófla við 20 kr. gjaldinu og leggjum því til, að það gjald haldist óbreytt hjá þeim sjúkrahúsum, sem það nú hafa og hafa yfir 700 sjúkrarúm, en að styrkur allra smærri sjúkrahúsanna hækki úr 5 eða 10 kr. á legudag í 15 kr. og verði þannig stefnt að jöfnuði milli stórra og minni sjúkrahúsa og þar með lagfært það ranglæti, sem í gildi hefur verið undanfarin ár.

Það er mikið rætt og ritað um nauðsyn þess að koma á jafnvægi í byggð landsins, stöðva fólksflutninga hingað suður o. s. frv. Ekki duga nú orðin ein. Athafnir þurfa að fylgja í kjölfar loforðanna. Misræmið og óréttlætið í þessu eina máli hefur sína sögu að segja og er lítt viðunandi og verður að leiðréttast. Fátæk bæjar- og sveitarfélög fá vart undir því risið að greiða árlega hundruð þúsunda króna í rekstrartap til sjúkrahúsanna, sem lægstan styrk fá, á sama tíma sem þau sjúkrahús, sem fá hæsta styrkinn, eru rekin hallalítil eða jafnvel með ágóða.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál, svo ljóst sem það virðist liggja fyrir. Að lokinni þessari umr. legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. og til fjhn.