22.05.1958
Neðri deild: 102. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

56. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Gunnar Jóhannesson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur rætt frv. á þskj. 89 á nokkrum fundum sínum. Í n. hafa komið fram dálítið skiptar skoðanir á efni frv. Allir nm. eru þó sammála um, að ég tel, að nauðsynlegt sé að gera breytingar á sjúkrahúsalögunum frá 31. des. 1953 í þá átt að hækka ríkisstyrkinn til hinna ýmsu sjúkrahúsa og þá fyrst og fremst til þeirra sjúkrahúsa, sem veita viðhlítandi þjónustu. Eins og þessum málum er nú háttað, er ríkisstyrkurinn ákveðinn í þrennu lagi, og er styrkveitingin miðuð við stærð sjúkrahúsanna, T. d. fá sjúkrahús, sem hafa 100 rúm eða fleiri, 20 kr. á hvern legudag, sjúkrahús með 20–100 sjúklinga fá í dagstyrk 10 kr., en minnstu sjúkrahúsin hafa aðeins 5 kr. dagstyrk,

Síðan þessi dagstyrkur var ákveðinn, hefur allt verðlag stórlega hækkað og er nú því í engu samræmi lengur við tilkostnaðinn. Það er því hin mesta nauðsyn að dómi okkar flm. á því að hækka dagstyrkinn frá því, sem nú er.

Flm. frv. hafa rætt frv. við hæstv. félmrh., sem hefur tjáð sig vera samþykkan því, að gerðar yrðu breytingar á daggjöldunum til hækkunar. Hæstv. félmrh. hefur kynnt sér brtt. þær, sem heilbr.- og félmn. flytur við frv. og eru á þskj. 503, og tjáð sig samþykkan þeim. Brtt. heilbr.- og félmn. eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 1. gr. Greinin orðist svo:

11. gr. laganna orðist svo:

Úr ríkissjóði greiðist árlega styrkur til sjúkrahúsa sem hér segir:

1. Almennt sjúkrahús bæjar-, sýslu- eða sveitarfélags svo og einkasjúkrahús, sem áður hefur notið dagstyrkja úr ríkissjóði: 10 kr. á legudag.

2. Sjúkrahús bæjar-, sýslu- eða sveitarfélags, sem að dómi landlæknis er vel búið tækjum og hefur a. m. k. tvo fastráðna lækna, yfirlækni og fyrsta aðstoðarlækni: 15 kr. á legudag.

3. Fjórðungssjúkrahús (sbr. 10. gr.): 20 kr. á legudag.“

Í frv. var lagt til í upphafi, að öllum viðurkenndum sjúkrahúsum landsins, reknum af sýslu-, bæjar- eða sveitarfélagi, yrðu greiddar 15 kr. á hvern legudag. Þau sjúkrahús, sem hærri dagstyrks njóta, þegar lög þessi taka gildi, skyldu halda honum óskertum áfram, þ. e. 20 kr. á hvern legudag. Í brtt. n. er lagt til að flokka sjúkrahúsin í þrjá flokka: 1) Almenn sjúkrahús bæjar-, sýslu- eða sveitarfélaga svo og einkasjúkrahús fái greiddar 10 kr. á legudag. 2) Sjúkrahús bæjar-, sýslu- eða sveitarfélaga, sem að dómi landlæknis er vei búið tækjum og hefur a. m. k. tvo fastráðna lækna, yfirlækni og fyrsta aðstoðarlækni, 15 kr. á legudag. 3) Fjórðungssjúkrahús 20 kr. á legudag, eins og verið hefur að undanförnu.

Við till. heilbr.- og félmn. á þskj. 503 hafa komið fram brtt. frá hv. þm, Borgf. á þskj. 522, að færa sjúkrahús bæjar-, sýslu- eða sveitarfélaga upp í sama flokk og fjórðungssjúkrahús, eða í 20 kr. Þá flytur hv. 2. þm. Eyf. brtt. á þskj. 520 um, að sjúkrahús fái 25 kr. á legudag.

Heilbr.- og félmn. hefur ekki haft tækifæri til að ræða fram komnar brtt., og get ég því ekki sagt neitt um skoðun meðnefndarmanna minna á þessum brtt. Ég tel, að til mála geti komið, að flm. tækju till. aftur til 3. umr., án þess þó að ég mæli með brtt. á þessu stigi.

Flest, ef ekki öll sjúkrahús landsins, hafa sótt það allfast að fá hækkun daggjalda. Er það ekki nema eðlilegt, þegar tekið er tillit til þess, að verðlag hefur stórlega hækkað, eins og ég hef áður bent á, og að sífellt eru gerðar auknar og meiri kröfur til sjúkrahúsanna um aukna og betri þjónustu. Ég skal taka það fram, að ég tel, að fara verði eða eigi mjög varlega í það að auka útgjöld ríkissjóðs frá því, sem nú er, og að því ber að stefna að koma á frekari sparnaði, en nú er í rekstri hins opinbera, en óeðlilegur sparnaður í heilbrigðisþjónustu landsins er stórhættulegur. Það er öllum ljóst, að sjúkrahúsin eru yfirleitt rekin með stórtapi, og févana bæjar- og sveitarfélög verða að greiða þetta tap úr févana sjóðum sínum. Tap sumra sjúkrahúsanna nemur árlega mörgum hundruðum þúsunda króna. Allir hljóta að vera sammála um það, að hér er um stórt vandamál að ræða. Það er því ekki að ófyrirsynju, að fram hafa komið kröfur til ríkisvaldsins um aukna fjárhagslega aðstoð til sjúkrahúsanna frá því, sem nú er.

Flm. hafa látið reikna út, hvað kostnaður við þessar breytingar muni nema hárri upphæð, eftir því sem hægt er að komast næst, og er þá miðað við till. n. á þskj, 503. Baldur Möller fulltrúi í dómsmrn. hefur látið framkvæma þennan útreikning, og segir þar m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef miðað er við, að breytingin á sjúkrahúsalögunum komi til framkvæmda um greiðslur þessa árs, sem greiddar eru af fjárveitingu 1958, en miðaðar við legudagafjölda 1957, nema St. Jósefssjúkrahús í Reykjavík og Hafnarfirði, sem fá greiðslu með sérstakri fjárveitingu og fá greitt eftir á skv. legudagafjölda ársins, mundi kostnaðaraukinn vegna þeirra sjúkrahúsa, sem notið hafa 5 kr. styrks pr. legudag, miðað við styrki vegna legudagafjölda 1956 skv. fjárlögum 1957, en gert er ráð fyrir að fái 10 kr. pr. legudag“ — og svo er hér upptalning á þeim sjúkrahúsum, sem falla undir þetta ákvæði eða þessa grein frv., það eru Húsavík, Hvammstangi, Seyðisfjörður, Patreksfjörður, Blönduós, Hólmavík, Hvítabandið í Reykjavík, Flateyri, Egilsstaðir, Sauðárkrókur, Vopnafjörður, — „verða 252.395 kr.“

Svo segir áfram, með leyfi hæstv, forseta: „Ekki er unnt að sjá fyrir, hvaða sjúkrahús yrðu talin fullnægja kröfum 2. tölul. 11. gr. sjúkrahúsalaganna samkvæmt frv. En ætla verður, að það mat yrði að miðast við ástand ársins 1957, þar sem miðað er við legudaga á því ári um greiðslu 1958. Ef miðað er við, að Siglufjörður, Ísafjörður, Vestmannaeyjar, Akranes, Keflavík, Neskaupstaður og bæjarspítalinn í Reykjavík uppfylltu skilyrði frv., þá mundi kostnaðaraukinn af þeirri upphæð, úr 5 kr. eða 10 í 15, og er þá reiknað með legudagafjölda 1957 á öllum stöðum nema Siglufirði, sem er reiknað með legudögum 1956, nema 436.080 kr. eða samtals eftir þessum útreikningi mundi kostnaðaraukinn fyrir ríkissjóð nema 688.475 kr.“

Eftir þessum útreikningi er sem sagt þessi kostnaðarauki, sem þarna er og hefur verið reiknaður út, tæpar 700 þús. kr. Það verður ekki annað séð, en hér sé mjög hóflega í farið, enda benda fram komnar brtt. frá hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Eyf. á, að þeim finnst, að of skammt sé gengið með hækkun á daggjaldinu. Þegar það er haft í huga, að ríkið greiðir á annað hundrað krónur á hvern legudag til landsspítalans, verður að teljast fyllsta sanngirni, að önnur sjúkrahús fái einhverja daggjaldahækkun frá því, sem nú er.

Ég vil svo að lokum enn á ný mæla með samþykkt brtt. heilbr.- og félmn. á þskj. 503.

Þess skal svo að lokum getið, að einn af meðlimum hv. heilbr.- og félmn., hv. 1. þm. Skagf., hefur skrifað undir frv. með fyrirvara.