14.02.1958
Neðri deild: 52. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (1722)

120. mál, dýralæknar

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Það kemur ávallt betur og betur í ljós, að þjónusta sú, er dýralæknar veita, er bændastétt landsins mjög mikils virði. Á síðari árum hafa verið gerðar miklar kynbætur búfjár, og fer þar saman áhugi bændastéttarinnar, hvatning af hálfu ráðunauta í landbúnaðarmálum og nokkur fjárhagslegur stuðningur, sem veittur er til þess skv. lögum um búfjárrækt. En eftir því sem bændur kosta meira kapps um að kynbæta búfé sitt, svo að hver einstaklingur skili sem beztum arði, eftir því er nauðsynlegra, að dýralæknar veiti þá þjónustu, sem þeim er ætlað og þeir geta veitt.

Skv. lögum eru nú 12 dýralæknaumdæmi í landinu. Sum þeirra ná yfir eina sýslu, en önnur yfir stærra landssvæði. Það dýralæknaumdæmi, sem er stærst, er Austurlandsumdæmi, sem nær yfir landssvæðið frá Langanesi að Skeiðarársandi. Það er augljóst, að þetta er svo stórt landssvæði og torvelt yfirferðar, að einum dýralækni er það um megn að veita fullnægjandi þjónustu á öllu þessu svæði.

Dýralæknir á Austurlandi hefur aðsetur á Egilsstöðum. Þaðan er mjög löng leið, eða um 200 km, til Hornafjarðar, og að vetrarlagi er sú leið illfær eða ófær bifreiðum. Reynslan hefur því orðið sú, að Austur-Skaftfellingar eru nær útilokaðir frá því að njóta þjónustu dýralæknis. Það hefur því fyrir nokkru vaknað áhugi á því meðal bænda í héraðinu, að stofnað yrði nýtt dýralæknisumdæmi, Hornafjarðarumdæmi, á þann hátt að umdæmi Austurlands yrði skipt í tvennt. Hafa fulltrúafundir bænda í Austur-Skaftafellssýslu gert ítrekaðar samþykktir í þessa átt:

Þetta frv. er flutt í því skyni að verða við óskum héraðsbúa um það, að hv. Alþ. taki þetta mál til meðferðar. Það er efni frv., að lagt er til, að dýralæknaumdæmi Austurlands verði skipt þannig, að dýralæknirinn á Egilsstöðum veiti þjónustu í Norður-Múlasýslu, Seyðisfirði, Neskaupstað og nyrðri hluta Suður-Múlasýslu, að Berufirði, en stofnað verði nýtt dýralæknaumdæmi, Hornafjarðarumdæmi, og starfssvið þess dýralæknis verði frá Skeiðarársandi að Berufirði.

Ég legg til, að þessu frv. verði vísað til hv. landbn., þegar þessari umr. lýkur.