21.04.1958
Efri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (1739)

175. mál, útsvör

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Lögum um útsvör hefur lítið verið breytt síðan 1945, og mörg ákvæði þeirra eru vitanlega miklu eldri og sum orðin mjög gömul. Hins vegar hafa margs konar breytingar orðið í þjóðlífinu síðan 1945 og ekki að undra, þótt til sé í lögunum ákvæði, sem breytingar þurfi með.

Þetta fyrirferðarlitla frv., sem við hv. þm. Barð. leyfum okkur að flytja til breytinga á lögunum, er við ákvæðin um, hvar leggja skal á gjaldþegn útsvar og hvaða sveit fái útsvar hans. Þær breytingar eru aðallega miðaðar við það að ráða bót á annmarka, sem þarna er á löggjöfinni og veldur miklum árekstrum, ekki aðeins milli gjaldenda og sveitarstjórnar, heldur milli sveitarstjórna, og veitist þar ýmsum betur í átökum og alls ekki alltaf eftir málstað, eins og vera bæri, heldur sigrar sá oft, sem er aðgangsharðastur og stendur bezt að vígi til að beita skjótfengnum úrskurðum og lögtaksaðförum, af því að lagaákvæðin, sem nú gilda, eru svo óskýr.

III. kafli útsvarslaganna er með fyrirsögninni: „Hvar leggja skal á gjaldþegn hvern og hvaða sveit fær útsvar hans.“ Þegar landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga var síðast haldið, leitaðist formaður þess við að fá lögfræðing til að flytja erindi fyrir landsþingið og svara til hlítar í því erindi spurningunum: hvar skal útsvar á lagt og hvar goldið? En allir, sem leitað var til, færðust undan því að gera þetta, af því að lögin væru ekki nægilega skýr um þessi atriði, m. ö. o. óskýranleg að því er snertir þessi mikilsverðu atriði.

Ég get um þetta af því, að það er vottur þess, að þarna er breytinga þörf, hvort sem okkur flm. þessa frv. hefur tekizt með frv. eða ekki að finna heppilegustu úrbótina.

1. gr. III. kaflans er 8. gr. laganna. Hún hefst á þessa leið: „Þar skal leggja útsvar á gjaldþegn, sem hann hafði heimilisfang vitanlega eða samkvæmt manntali næst á undan niðurjöfnun.“ Útsvarsskyldan er eftir orðanna hljóðan þar, sem maður á heimili vitanlega eða samkvæmt manntali næst á undan niðurjöfnun.

Þetta „vitanlega eða samkv. manntali“ hefur verið teygt og togað, enda reynzt teygjanlegt eins og hrátt skinn.

Árið 1945, þegar Alþingi athugaði lögin seinast í heild, var ekki búið að koma jafngóðri skipan á aðsetursskráningu fólks og nú er. Umrædd ákvæði urðu þá óhjákvæmilega að vera rúm. Skráningin var svo ófullnægjandi.

Lögin um þjóðskrá og almannaskráningu, sem sett voru 1956, skapa nú aftur á móti skilyrði til að eyða hráskinnaleiknum um heimilisfang. Nú geta niðurjöfnunarnefndir útsvara fengið hjá þjóðskránni með stuttum fyrirvara ábyggilegar upplýsingar um aðsetur og lögheimili. Nú er hægt að byggja lagaákvæði um útsvarsskyldu á því, að þessar upplýsingar geti verið fyrir hendi, og þarf ekki að nota teygjanlegt orðalag til þess að ná yfir það eins og 1945.

Í frv., sem hér liggur fyrir, er þess vegna lagt til að leggja þjóðskrána til grundvallar í þessu efni. En með því er auðvitað ekki allur vandinn leystur. Í þjóðfélaginu fer margt fólk milli héraða til að fá sér atvinnu um stundarsakir. Það er mjög eðlilegt. Þetta fólk hefur aðsetur utan heimilissveitar um lengri eða skemmri tíma, mánuði, missiri, ár og stundum árum saman, án þess að breyta um lögheimili.

Ákvæði vantar í lögin um það, hvenær slík dvöl í aðseturssveit gerir fólk útsvarsskylt þar. Frv. felur í sér slík ákvæði. Í grg. frv. eru þessi ákvæði rökstudd allýtarlega. Lagt er til, að gjaldþegn, sem hefur haft skráð aðsetur í öðru sveitarfélagi en lögheimilissveit sinni í 2 ár óslitið og er þar enn, þegar niður er jafnað útsvörum, verði útsvarsskyldur í aðseturssveitinni eins og lögheimilissveit væri, hins vegar skili aðseturssveitin lögheimilissveitinni 5/12 af útsvarinu í það skiptið, af því að lögheimilissveitin hefur vitanlega haft útgjöld af manninum á útsvarsárinu.

Vera má, að einhverjum þyki dvalartíminn 2 ár langur, sem útsvarsskyldan er miðuð við skv. frv. Hvort það er langur eða stuttur tími í þessu sambandi, er auðvitað matsatriði. En þegar lítið er á það, hvað þjóðfélagið leggur mikið fram til atvinnumála, og þau framlög skapa einstaklingum í raun og veru mikinn rétt til vinnu, hvar sem þeir eru staddir, þá er ekki ástæða til að telja gengið á hlut dvalarsveitar með því að hafa tímann talsvert langan. Þar að auki eru stéttarsamtök orðin svo sterk, að utanhéraðsmaður fær varla tækifæri til tekjuöflunar í því sveitarfélagi, sem er sjálfu sér nóg eða hefur enga þörf fyrir vinnu hans. Dvalarmaðurinn er venjulega ekki aðseturssveitinni til baga, nema síður sé. Lögheimilissveitin hefur öll sveitarleg skyldustörf hans vegna og ber sveitarlega ábyrgð á honum, ef hann ber upp á sker efnalega.

Að skylda menn til þess að flytja lögheimili, tel ég varla viðeigandi. Hins vegar gerum við flm. ráð fyrir því í frv., að allt tilkall frá lögheimilissveit til útsvars falli niður, ef ¼ hluti tekna er ekki það, sem maðurinn aflar í lögheimilissveitinni, eftir að atvinnusveitin hefur fengið álöguréttinn.

Ég hygg, að ef þessi ákvæði gengju í gildi, mundi varla líða langur tími til þess, að heimilisfangið er flutt, eftir að álögurétturinn færist til aðseturssveitar.

Ég er viss um það, að ef þessi ákvæði yrðu lögleidd, sem í frv. eru, mundi deilum fækka stórlega um það, hvar útsvör skuli lögð á almenna gjaldþegna og hvar þau skuli goldin.

Mér hefur verið tjáð með heimildum, sem ég veit ekki annað en séu góðar, að niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkurbæjar hafi s. l. haust lagt útsvör á, á annað þúsund manns, sem hafði dvöl, en ekki lögheimili hér í borginni, og gert það a. m. k. í mörgum tilfellum án vissu um gjaldskyldu fólksins, en til að prófa rétt sinn til útsvars frá þessu fólki. Ég lái stjórn Reykjavíkur þetta ekki. En mikill úlfaþytur heyrðist, mörg útsvarsmál gengu til úrskurðar, sem féllu á ýmsa vegu, mikil fyrirhöfn varð af þessu, leiðindi og hrein og bein ómök. Ef ákvæði laga um útsvarsskylduna hefðu verið skýr, hefði höfuðborgin ekki þurft að stofna til þessarar álagningar upp á von og óvon um árangurinn og réttmætið. Þessi leið, sem þarna var farin og varð að fara, er orðin á allt of tæpu vaði. Ég nefndi dæmið um Reykjavík, af því að það er stærsta dæmið um árekstra í landinu, þar sem Reykjavík er fjölmennasta sveitarfélagið.

Frv. þetta hefur dálítið verið athugað af aðilum, sem málið skiptir miklu. Fulltrúaráð Sambands íslenzkra sveitarfélaga hélt ársfund sinn hér í Reykjavík seint í fyrra mánuði. Ég lagði frv. fram á þeim fundi. Ég lagði áherzlu á, að frv. væri uppkast, og bað um aths. og bendingar til lagfæringar. Frv. var vísað til n., sem tók það til athugunar og skilaði nál., sem ég tel rétt að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta:

N. hefur athugað uppkast að frv. til l. um breyt. á l. nr. 66 frá 12. apríl 1945, um útsvör, sem Karl Kristjánsson alþingismaður lagði fram á fundinum.

N. leggur til, að fulltrúaráðið lýsi því yfir, að það telji tillögur þær, sem í uppkastinu felast, stefna í rétta átt, að því leyti sem þær miða að því að gera lagaákvæði um rétt sveitarfélaga til útsvarsálagningar skýrari, en nú er og stefna að því að fyrirbyggja útsvarsálagningu á einstaklinga á tveim stöðum. Skýrari ákvæði um þessi atriði mundu fyrirbyggja margvíslegan ágreining, sem nú á sér stað milli sveitarfélaga annars vegar og einstaklinga hins vegar. En með því að fundurinn hefur ekki haft tíma til þess að athuga framlagðar till. nægilega vel, vísar hann málinu til stjórnar sambandsins til nánari athugunar í samráði við flutningsmann.“

Þetta nál. var samþ. Stjórn Sambands íslenzkra sveitarfélaga hafði frv. til athugunar. Ég gat ekki mætt á þeim fundi, sem hún hélt um málið, en mér hefur borizt útdráttur úr fundargerð frá stjórninni, þar sem hún segir álit sitt. Útdrátturinn er í bréfi frá formanni sambandsins, og ég vil lesa það hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Reykjavík, 15. apríl 1958.

Stjórn Sambands íslenzkra sveitarfélaga hefur í samræmi við samþykkt síðasta fulltrúaráðsfundar tekið til athugunar frv. það um útsvör, er þér, hr. alþingismaður, lögðuð þar fram. Á stjórnarfundi hinn 14. apríl s. l., þar sem mál þetta var rætt, komst stjórnin að eftirfarandi niðurstöðu:

Stjórnin telur mjög æskilegt, að sett verði skýrari ákvæði um útsvarsskyldu gjaldþegna til þess að koma í veg fyrir ágreining á milli sveitarfélaga, en telur hæpið, að í þessu frv. sé tekið nægilegt tillit til allra atriða, sem athuga þarf í því sambandi.

Þetta viljum vér tjá yður hér með. Virðingarfyllst,

Jónas Guðmundsson.“

Ég viðurkenni, að það er vandi að setja ákvæði um það efni, sem frv. fjallar um. Hins vegar er nauðsynlegt, að það sé gert. Nauðsynina viðurkennir bæði fulltrúaráðið og sambandsstjórnin í ályktunum sínum. Aftur á móti hikar bæði fulltrúaráðið og sambandsstjórnin samkvæmt ályktununum við að lýsa yfir samþykki á frv. eins og það liggur fyrir, en benda heldur ekki á sérstaka annmarka, sem ætla má þó að þessir aðilar hefðu gert, ef þeir hefðu komið auga á þá með fullri vissu. Ég bað einmitt um slíkar bendingar.

Þó að við flm. höfum tekið stefnu á ákveðið vað með frv. þessu, tökum við að sjálfsögðu þakksamlega brtt. um betra vað, ef einhver kemur auga á það, en gamla vaðið er ófært og óviðunandi orðið og þess vegna skylt að leita að nýju.

Ég óska þess, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og til n., en mér er ekki alveg ljóst, hvaða n. það væri, sem eðlilegast væri að fengi frv. til umr. Mér skilst, að frv., sem eru um sveitarstjórnarmálefni, en það er þetta frv. um útsvör, hafi áður fyrr venjulega verið vísað til fjhn., en upp á síðkastið hefur þeim áreiðanlega stundum verið vísað til allshn. Nú er ein n. enn til, heilbr.- og félmn., sem er að vísu yngsta n., og eftir nafni hennar að dæma mætti telja eðlilegt, að hún fjallaði um svona mál. En af því að ég er í þeirri n. og af því að mér þykir æskilegt, að sem flestir fjalli um þetta mál, og það mundu verða fleiri nýir menn, sem kæmu að því, ef það færi til annarrar n. en félmn., þá ætla ég að leggja til, að því verði vísað til allshn., en geri það þó ekki að neinu kappsmáli, því að ég tel, að málið gæti farið til hverrar af þessum þremur n., sem ég hef nefnt, og átt þar heima til athugunar.