08.05.1958
Neðri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (1836)

157. mál, kostnaður við skóla

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins fyrir hönd okkar flm., en meðflm. minn, 2. þm. Skagf., er ekki í bænum sem stendur, en það vorum við, sem fluttum frv. hér í öndverðu, — ég vil leyfa mér að þakka hv. menntmn. fyrir góða afgreiðslu á frv.

Það er rétt, eins og frsm. n. gat um, að eftir að við lögðum frv. fram, hafði komið ósk frá forstöðukonu og eiganda skólans, Ingibjörgu Jóhannsdóttur, um það, að tryggt væri, að fjárhagsstuðningur eða rekstrarkostnaður við að koma upp námskeiðum á þeim grundvelli, sem hv. frsm. lýsti, yrði viðurkenndur í frv. Nú hefur hv. frsm. lýst því, hvernig menntmn. lítur á þetta atriði, og veit ég, að við flm. getum vel sætt okkur við það, án þess að nokkuð sé farið að hrófla við frv. Ég tel það alveg bindandi í þessu sambandi, og mun alveg rétt skilið hjá hv. n., að það sé í raun og veru óþarfi að taka þetta fram, þar sem þetta er viðurkennt einmitt fyrir húsmæðraskólana almennt.