02.06.1958
Efri deild: 115. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (1852)

157. mál, kostnaður við skóla

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það er eiginlega fátt, sem ég þarf að taka fram til viðbótar þeim upplýsingum, sem ég gaf og ekki verður raskað, nema að svo miklu leyti sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að skólarnir væru ekki fullsetnir. Það er náttúrlega svo fjarri því, að ég segi það. Þeir eru ekki með þeirri lágmarkstölu, sem er leyfilegt að reka þá með, og er vitanlega órafjarri því, að þeir séu fullsetnir, og þá er bara spurningin þetta, sem fyrir liggur: Á að fara að setja hér upp nýjan húsmæðraskóla þjóðkirkjunnar, á sama tíma og það vofir yfir, að það þurfi að leggja tvo af ríkisskólunum niður? Þetta er það, sem fyrir liggur. En ég ætla ekki að fara að þreyta umr. um þetta mál frekar, vil þó aðeins geta þess, að það er ekki eins og það eigi að leggja þennan skóla niður, því að hann nýtur mikils ríkisstyrks og heldur að sjálfsögðu áfram að starfa með sama fyrirkomulagi og hann hefur starfað, þangað til ákvörðun verður tekin um málið að athuguðu máli. Ég endurtek þess vegna till. mína, sem ég gerði áðan.