21.10.1957
Neðri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (1874)

10. mál, selja Skógarkot í Borgarfjarðarsýslu

Flm. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um að heimila ríkisstj. að selja jörðina Skógarkot í Andakílshreppi, Óskari Hjartarsyni bónda að Grjóteyri. Bæði Grjóteyri og Skógarkot eru í Andakílshreppi í Borgarfjarðarsýslu. Eins og getið er í grg., er Skógarkot algerlega húsalaus eyðijörð, sem ekki hefur verið notuð um alllangan aldur, en einu not, sem vitað er um á seinni árum, er nokkur hrossabeit að sumri til frá Hvanneyri.

Þetta kot er eins og tunga inn í Grjóteyrarland og aðstæður því allar þannig, að geti nokkur hagnýtt þetta landssvæði, þá eru það og verða ábúendur á Grjóteyrarlandi. Virðast því öll skynsamleg rök benda til þess, að það sé rétt að fella kotið undir Grjóteyri og því skynsamlegt að heimila ríkisstj. að selja það bóndanum á Grjóteyri.

Ég vil svo leggja til, að þetta frv. gangi að lokinni þessari umr. til landbn.