21.12.1957
Neðri deild: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (1934)

81. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég fagna því, að hv. 1. þm. Reykv. skuli hafa farið viðurkenningarorðum um þau markmið, sem lagasetningin um menningarsjóð og menntamálaráð og skemmtanaskatt og þjóðleikhús á s. l. vori átti að þjóna. Það kom mér raunar varla á óvart. Það getur varla verið um það ágreiningur, að brýna nauðsyn hafi borið til þess að verja mun meira fé, en undanfarin ár hefur verið gert til eflingar menningar, æðri vísinda og lista.

Hv. þm. gat þess, að hann hefði á s. l. vori viljað og vildi enn fara aðra leið, en ofan á varð til þess að afla þessa nauðsynlega fjár, hann hefði verið þeirrar skoðunar, og svo hefði verið um marga fleiri þm., að æskilegra hefði verið að taka það fé, sem samkomulag gæti orðið um að verja í þessu skyni, af hagnaði áfengisverzlunarinnar, en ekki hækkun á skemmtanaskatti, en um það er hér raunverulega að ræða.

Nú efast ég ekki um, að hv. þingmanni, eins og raunar öllum hv. þm., er ljóst, að í raun og veru er ekki rétt að tala um tekjuafgang áfengisverzlunar sem sérstakan skattstofn, sem komi til greina að nota í þessu skyni eða einhverju öðru. Tekjur áfengisverzlunar eins og tekjur tóbaksverzlunar eru einn af hinum almennu aðaltekjustofnum ríkisins. Það, sem tekið er af tekjuafgangi áfengisverzlunarinnar, er í raun og veru tekið úr ríkissjóði. Það að ætla ákveðinn hluta af tekjum áfengisverzlunar í einhverju ákveðnu skyni jafngildir því algerlega að leggja til, að jafnhá fjárhæð sé veitt á fjárlögum ríkisins. En það er einmitt fyrir þetta, sem um mörg undanfarin ár hefur ekki getað náðst neitt samkomulag hér á hinu háa Alþingi að taka beinlínis inn á fjárlög ríkisins verulegar fjárhæðir til eflingar menningar, æðri vísinda og lista.

Í þessu sambandi má einnig minna á það, sem hv. 9. landsk. þm. hélt fram í ræðu um annað mál fyrir skömmu, þar sem hann mælti mjög eindregið gegn því, að tekinn yrði hluti af ákveðnum tekjustofnum ríkisins og varið í tilteknu skyni. Ég skil vel og þekki þau rök, sem hann flutti fyrir því máli sínu. En hafi það verið rétt, sem hann sagði um það tiltekna tollamál, er auðvitað ekki rétt að lögbinda að veita ákveðnum hluta af tekjum ríkis af áfengisverzlun í tilteknu skyni.

Ástæðan til þess, að sú leið var farin á s. l. vori að leggja sérstakt gjald á kvikmyndasýningar, var einfaldlega sú, að skemmtanaskattur hefur frá upphafi hér á Íslandi — og svo mun raunar vera í fleirum löndum — verið innheimtur í því skyni að efla menningarmál. Skemmtanaskattur var hér á landi fyrst lagður til þess að byggja þjóðleikhúsið, sem þá var talið eitt brýnasta menningarverkefni, sem um væri að ræða. Eftir að þjóðleikhúsi var fulllokið, var skattinum skipt til helminga milli þjóðleikhúss og byggingar félagsheimila, sem talin voru og eru mjög brýnt menningarviðfangsefni, sérstaklega í dreifbýlinu. Þá voru lestrarfélög og kennslukvikmyndir einnig látin njóta góðs af skemmtanaskattinum. M. ö. o.: skemmtanaskatti hér á Íslandi hefur frá upphafi vega verið ætlað það hlutverk að vera lyftistöng menningarmálum, æðri vísindum og listum.

Það kom í ljós, þegar ég athugaði þetta mál á s. l. vori, að skemmtanaskattur hér á Íslandi var orðinn hlutfallslega lægri, en hann gerðist í nálægum löndum. Þá má segja, að beinast hefði legið við að gera ráð fyrir því, ef meiningin væri að nota skemmtanaskattinn áfram sem tekjustofn í þágu menningarmála, að hækka hann. Á því voru hins vegar þeir annmarkar, að mjög verulegar undanþágur höfðu verið lögleiddar frá gjaldskyldu skemmtanaskatts. Mjög mörg af hinum stærstu kvikmyndahúsum voru undanþegin greiðslu skemmtanaskatts, þannig að það hefði verið mjög óeðlilegt, komið ranglátlega niður, ef við það eitt hefði verið látið sitja að hækka skemmtanaskattinn. Það var eingöngu vegna þessara undanþágna, sem í gildi voru, sem sú leið var farin að hafa það gjald, sem ákveðið var og samkomulag varð um að leggja á, sérstakt gjald, en ekki einfaldlega hækkun á skemmtanaskatti, sem annars hefði verið eðlilegasta og sjálfsagðasta leiðin, ef á annað borð tilætlunin var að láta skemmtanaskatt standa áfram undir ýmsum kostnaði við ýmis menningarmál.

Ég er alveg sammála því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um nytsemi kvikmynda sem hinna hollustu skemmtana, sem unglingum er völ á, ef þær eru rétt valdar, og sem einna hentugustu og ódýrustu dægradvalar, sem almenningur getur átt kost á.

Ég mundi ekki hafa lagt til, að sú fjáröflunarleið væri farin, sem farin var á s. l. vori, ef ég hefði ekki vitað, að þrátt fyrir hið nýja gjald mundi skemmtanaskattur hér á Íslandi ekki verða hærri, en hann gerist í nálægum löndum. Mér hefði ekki fundizt rétt að fara inn á þá braut að hækka skemmtanaskatt umfram það, sem hann er í nálægum löndum, því að þá hefði verið hægt að segja með réttu, að verið væri að íþyngja íslenzkum kvikmyndahúsgestum með óeðlilegum hætti. Skal ég nú í örfáum orðum gera grein fyrir því, hvernig skemmtanaskatti er varið hér og í nálægum löndum.

Hér kosta aðgöngumiðar að kvikmyndahúsum, svo sem kunnugt er, nú 10 kr., 12 kr. og 14 kr. Algengasta verðið mun vera 12 kr. verðið. Skemmtanaskattur er hér af hverjum 12 kr. miða 29.77%. En í nálægum löndum er skemmtanaskatti farið svo sem hér segir: Í Danmörku er skemmtanaskattur 5/11 af brúttóverði miðans eða 45.4%. Í Svíþjóð er hann þannig, að hann er 30% af fyrstu krónunni, en 45% af afganginum, þannig að á 3 kr. miða er skemmtanaskattur 40%. Í Noregi er skemmtanaskattur 30% af útsöluverðinu, en þess er að gæta, að flest kvikmyndahús í Noregi eru rekin af sveitarfélögum, og þess vegna hefur hækkun skemmtanaskatts á undanförnum árum ekki fylgt hækkun ýmissa annarra skatta. Í Englandi er skemmtanaskattur 31.2% af brúttóverði miðans og í Frakklandi 32% af brúttóverði miðans. Hér á Íslandi er skatturinn, eftir að hið nýja gjald hefur verið talið með, undir 30%, 29.77% af brúttóverði miðans, en í nálægum löndum er hann frá 30, þar sem hann er allra lægstur, og upp í 45.4% af brúttóverði miðans. Vegna þessara staðreynda get ég ekki fallizt á þá skoðun, að með hinu nýja gjaldi hafi kvikmyndasýningum verið íþyngt óeðlilega.

Þess má enn fremur geta, að kvikmyndasýningar hér á Íslandi eru tiltölulega mun ódýrari í hlutfalli við meðalmánaðarkaup manna, en þær eru nokkurs staðar í nálægum löndum. Þetta var auðvitað önnur meginorsök fyrir því, að þessi litla hækkun, sem varð á verði kvikmyndahússmiðanna, 1 kr., gæti ekki talizt óeðlileg. Ég endurtek, að ég hefði ekki mælt með þessari leið til þess að afla hins nauðsynlega fjár til eflingar menningar, ef það hefði haft í för með sér annaðhvort, að skemmtanaskattur hér hefði orðið tiltölulega hærri, en í nálægum löndum, eða verð aðgöngumiða í kvikmyndahús hefði hér orðið tiltölulega hærra, en er í nálægum löndum.

Þessar skýringar vildi ég láta fram koma þegar við 1. umr. málsins.

Að síðustu langar mig svo til að geta eins atriðis varðandi grg. þá, sem fylgir þessu frv., þar sem er um lítils háttar misskilning eða mishermi að ræða. Í henni segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefnd sú, sem fyrrverandi menntmrh., hv. 1. þm. Reykv., skipaði í samvinnu við þáverandi landbrh., Steingrím Steinþórsson, skilaði tillögum sínum ásamt greinargerð til menntmrh., sem þá var orðinn Gylfi Þ. Gíslason, með bréfi, dags. 4. jan. 1957. Á grundvelli þessara tillagna lét ráðherra — með aðstoð nýrrar nefndar, er hann skipaði — semja þrjú lagafrv., sem lögð voru fyrir síðasta Alþingi og náðu samþykki þess. Sú lagasetning hefur nú tekið gildi undir þessum heitum: Lög um vísindasjóð, lög um menningarsjóð og menntamálaráð og lög um breyt. á l. nr. 56 frá 31. maí 1927, um skemmtanaskatt og þjóðleikhús.“

Hér er ekki farið með af fullri nákvæmni. Endurskoðun laganna um skemmtanaskatt, þar sem hin nýja gjaldheimta var ákveðin, var alls kostar óháð endurskoðuninni á lögunum um menntamálaráð. Sú endurskoðun hafði verið ákveðin áður, en þessi nefnd, sem fyrrverandi ráðh. skipaði, lauk störfum. Raunar var það svo, að þegar ég tók við störfum í menntmrn., hafði sú nefnd, sem fyrrverandi ráðh. skipaði, enn ekki tekið til neinna verulegra starfa, en ég hafði samráð við hana og hún lauk störfum tiltölulega fljótlega og starfaði vel samkvæmt þeim skoðunum, sem þar urðu ofan á. En sú nefnd lagði einmitt til, að lagt yrði 1 kr. gjald á hverja flösku af seldu áfengi, svo að í raun og veru er þar um sömu hugsun að ræða og felst í þessu frv. Þegar ég fékk þessar till., hafði önnur nefnd, sem ég hafði skipað til þess að endurskoða gildandi lög um menningarsjóð og menntamálaráð, þegar tekið til starfa, og fól ég þá þeirri n. að athuga um aðrar tekjuöflunarleiðir en þá, sem hin n. hafði stungið upp á, ásamt öðrum verkefnum sínum, auk þess sem ég fól henni í samráði við tollstjóra og sérfræðing í menntmrn. varðandi innheimtu skemmtanaskatts að athuga till. um að gera gagngerar breytingar á innheimtufyrirkomulagi skemmtanaskattsins, sérstaklega að því er varðar undanþágurnar, sem í gildi voru. Hin n., sem ekki var skipuð fyrst og fremst með tilliti til flokkssjónarmiða, en í áttu þó sæti menn, sem tilheyrðu öllum þeim stjórnmálaflokkum, sem í landinu starfa, varð sammála um þá tekjuöflun, sem það frv., sem ég síðan lagði fram, gerði ráð fyrir, þ. e. um hið nýja gjald á kvikmyndasýningarnar, svo að það er ekki hægt að líta þannig á, að aðeins ein n., sem um tekjuöflun til menningarmála hafi fjallað, þ. e. n., sem Birgir Kjaran var formaður í, hafi lagt til að afla fjárins sem hluta af tekjum áfengisverzlunarinnar. Önnur n. var á einu máli um að fara hina leiðina, þá leið, sem raunverulega var farin. Og ég veit, að það, sem mest áhrif hafði á þá n., var athugun, sem hún lét gera á hæð skemmtanaskattsins í nálægum löndum. Það var fyrst og fremst það sjónarmið, sem ég gat um áðan, að þrátt fyrir þetta nýja gjald yrði hvorki skemmtanaskatturinn hærri, en þar né heldur aðgöngumiðaverð hærra en þar, sem réð því, að sú nefnd mælti með þeirri leið, sem raunverulega farin var.

Annað hef ég ekki fram að taka í sambandi við frv., en vildi láta þessar upplýsingar koma fram þegar við 1. umr.