27.02.1958
Neðri deild: 57. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (1991)

101. mál, hegningarlög

Frsm. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Því fer nú mjög fjarri, að ég ætli mér að hafa nokkra íhlutun um það, hvenær hv. 1. þm. Reykv. tekur til máls hér á hv. Alþ., enda held ég, að ummæli mín hafi ekki gefið nein tilefni til að ætla slíkt.

Ég vil aðeins út af því, sem ég sagði áðan um það, að þetta mál hefði verið nokkrum sinnum til meðferðar í allshn., áður en það var flutt, leyfa mér að vitna hér til fundargerðar nefndarinnar, sem ég hef hér fyrir framan mig.

Málið er fyrst tekið fyrir á fundi n. fimmtudaginn 7. nóv. og þá bókað, að lagt sé fram bréf dómsmrh., dags, 14. okt., þar sem þess er óskað, að nefndin flytji frv. um breytingar á almennum hegningarlögum. Næst er málið tekið fyrir á fundi 6. des. og þá ákveðið að flytja frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum. Þá er málið tekið fyrir á fundi n. 11. febr. Þar er ákveðið — og vitnað til fundargerðar frá 6. des. — að flytja breytingar á hegningarlögum þannig, að frv. því, er n. var sent, verði skipt skv. ábendingum skrifstofustjóra Alþingis. Þetta er á fundi n. 11. febr.

Það fer ekki á milli mála, hvað hér hefur gerzt, að n. ákveður að flytja breytingar á hegningarlögunum þannig, að frv. því, er n. var sent, verði skipt. Svo er það orðað í fundargerðinni. Það er tekið fram, að þetta sé gert skv. ábendingum skrifstofustjóra Alþingis. En að sjálfsögðu er það ekki skrifstofustjóri Alþingis, sem ákveður það, hvernig frv. skuli flutt, heldur er það n., sem frv. flytur. Málinu var síðan útbýtt hér á hv. Alþingi með þeirri grg., sem því fylgir, og frv. og grg. hafa legið frammi til sýnis öllum þingmönnum síðan. Málið hefur nokkrum sinnum verið tekið á dagskrá, og hefur engin aths. verið gerð í n. eða utan við orðalag grg. fyrr en nú. Þess vegna leyfði ég mér að fara eftir orðalagi grg. í framsöguræðu minni.

Ég held, að ég hafi svo ekki meira um þetta að segja. Það var auðvitað aðeins mín skoðun, að ekki hefði verið mikið tilefni til þeirrar aths., sem hv. þm. gerði í öndverðu, og lét ég hana koma fram. En hv. þm. þarf af þeim ástæðum ekki að óttast það, að ég ætli að fara að gera hér neinar tilraunir til þess að varna honum máls, enda ekki í mínu valdi, og ég hef heldur ekki neina löngun til þess, enda hlýði ég oft með ánægju á mál þessa hv. þm.