14.12.1957
Neðri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

69. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég verð að vísu að láta uppi nokkra undrun yfir því, að lagabreytingu þurfi að gera til þess að taka af öll tvímæli um það, sem hæstv. ráðh. segir að sé tvímælalaust. Það getur ekki þurft að gera það að nýju, sem búið er að gera. Ef það er tvímælalaust, þá er ástæðulaust að setja þessa löggjöf, og út af fyrir sig væri þá fróðlegt að heyra, hver hefur dregið í efa þann tvímælalausa skilning, sem hæstv, ráðh, segir að á þessu sé. En látum það vera. Út af fyrir sig er það þá hans mál að setja tvenn lög um hið sama. En það, sem ég vildi aðallega benda á, er það, að ég tel eða vil beina því til hv. nefndar, sem málið fær til meðferðar, að hún afgreiði þetta mál ekki fyrr, en hún hefur tekið afstöðu til þess frv., sem ég hef borið fram og ég hygg að sé einnig á dagskrá nú og vonast til þess að verði afgreitt til nefndar.

Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að í fyrra hafi verið meirihluti í þessari hv. deild fyrir því að leggja ekki þetta gjald á kvikmyndahúsin. Ég hygg, að ég sé ekki mikill huglesari, þótt ég segi, að t.d. hæstv, forseti þessarar deildar var því mjög andvígur að velja þá leið, sem valin var í þessu efni, og vildi miklu heldur fallast á þá till., sem aðrir báru fram, að afla teknanna fyrst og fremst með sérstökum hluta af áfengisgróðanum. Þá fékk hann ekki þeim vilja sínum fram komið fyrir ofríki hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. Nú hef ég þá trú, að sjálfstæði hans og dugur hafi svo hresstst, að hann muni nú fylgja því, sem hann veit betur, hæstv. forseti, og hans félagar verða með þeirri breytingu, sem fram er borin. A.m.k. vil ég vænta þess, að hv. nefnd kanni það til hlítar, hvort meiri hluti er fyrir þeirri grundvallarbreytingu, sem lögð er fram, áður en smábreytingin er tekin til ákvörðunar, sem hæstv, menntmrh. leggur til,

Nú vildi ég raunar einnig í þessu sambandi óska upplýsinga um afstöðu hæstv. menntmrh. til þess, hvort hann sé að athuguðu máli ekki fáanlegur til að stuðla að því að létta gjaldinu af kvikmyndahúsunum og taka hinar nauðsynlegu tekjur frekar af áfengisgróðanum.