21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2137)

8. mál, vegalög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að þetta frv. til breytingar á vegalögunum, sem hér liggur fyrir, fari til nefndar og verði, eins og venja er, athugað af samgöngumálanefndum beggja deilda, þ. e. a. s. af 1/5 af öllum þingmönnum, svona hér um bil.

Það er oft búið að breyta vegalögunum, síðan ég kom í þing. En átök um þau mál hafa ekki orðið hér nema einu sinni, ef ég man rétt, í þessari deild, 1940. Þá var minni hl. í þessari d., sem vildi breyta alveg um stefnu í vegamálunum, ekki halda áfram eins og gert hafði verið fram að þeim tíma og þó miklu meira síðan, að taka upp í þjóðvegatölu alla mögulega vegi, jafnvel heimreiðir á einstaka bæi. Þessi átök, sem hér voru þá í deildinni, leiddu til þess, að þá kom ákaflega greinileg og skýr skýrsla frá vegamálastjórninni um vegina. Það kom lengd á þeim vegum, sýsluvegunum, á þjóðvegunum í heild í hverri einstakri sýslu, hvað mikill hluti af þeim væri akfær, hvað mikill hluti slarkfær, þegar góð tíð væri, og hvað mikill hluti ófær bílum, og svo náttúrlega líka fyrir landið í heild.

Þetta yfirlit, sem þá kom, sýndi, að sumar sýslur landsins voru búnar að fá alla sína þjóðvegi ágætlega akfæra, aðrar ekki nema að mjög litlu leyti. Síðan hefur orðið gróflega mikil breyting, og það fyrsta, sem ég vildi biðja þessa stóru tíu manna nefnd, sem fær þetta mál til athugunar, er það að fá nú aftur slíkt yfirlit, svo að maður geti séð, hvernig ríkisvegirnir eru á vegi staddir í hverri einstakri sýslu. Gangurinn í þessu hefur verið sá, að um leið og ríkið hefur tekið upp sem ríkissjóðsveg einhvern veg einhvers staðar í einhverri sýslu, hvar sem það er, hafa sýsluvegirnir stytzt að sama skapi. Þess vegna þarf þessi nefnd líka að afla upplýsinga um það, hvað nú eru langir sýsluvegir í hverri sýslu og hvernig þeir eru á vegi staddir. Sumir af þeim eru orðnir ágætir, eins góðir og þjóðvegirnir, aðrir ekki færir á bil nema part úr ári og sumir aldrei. Þessa skýrslu langar mig líka til að fá, bæði fyrir landið í heild sinni og sundurliðaða fyrir hverja einstaka sýslu. Þetta gefur upplýsingar um málið, sem ég tel alveg nauðsynlegt að komi fram og komi skýrt fram.

En að fengnum þessum upplýsingum tel ég að eigi að athuga og athuga mjög gaumgæfilega, hvort það ætti að breyta hér til, flokka þjóðvegina sundur í ákveðna flokka. Það var talað um þrjá flokka 1940, þegar deilt var um þetta harðast hér í þessari deild: Einn, sem væri hreinir þjóðvegir, sem engum blandaðist hugur um að væru lagðir fyrir ríkisheildina. Þeir væru lagðir til að tengja saman einstaka landshluta, stærri og minni, og þeir ættu að vera góðir og vel við haldið að öllu leyti. Þeir ættu að vera fyrsta flokks, þeir tengdu saman hinar einstöku heildir þjóðarinnar, einstakar sýslur og einstakar heildir og þéttbýli við þær, þannig að þeir væru góðir hvenær sem væri allt árið um kring. Í annan flokk kæmu svo þjóðvegir, sem væru að vísu fyrir heildina, en þó fyrst og fremst fyrir minni takmörkuð svæði og þá, eins og nú hagar til hér á landi, fyrst og fremst fyrir sýslurnar. Þar tæki ríkið þátt í með því t. d. að leggja til hálfan stofnkostnað þeirra og hálft viðhald. Það væri ekki nauðsynlegt að hafa þá eins ágæta og hina veginn og ekki eðlilegt, að ríkið tæki þá að öllu leyti á sig. Í þriðja flokk kæmu svo vegir, sem væru enn þá meira „lókalt“, en þó samt fyrir minni eða stærri heildir, en ekki bara vegur heim á einn einstakan bæ, eins og nú er komið þó nokkuð af í þjóðvegatölu.

Ég vildi biðja nefndina að athuga þetta. Og ég vildi nú helzt sjálfur, að málið fengi þá meðferð núna, að vegamálastjórnin — kannski í sambandi við einhverja mþn., sem sett væri í málið — athugaði um hvern einstakan veg og athugaði það svo fljótt, að fyrir næsta þingi gæti legið hvort tveggja. Það er hugsanlegt að flokka alla þjóðvegina niður í þessa þrjá flokka, sem ég hef nú nefnt, og svo sýsluvegi og hreppavegi þar fyrir utan. En ef þessi leið er farin áfram, sem við höfum verið á, bætist þetta við, og þá verður það svona og svona. Ég hefði langhelzt viljað forðast þá afgreiðslu á málinu. En hvort sem ofan á verður nú hér á þessu þingi, þá óska ég alveg ákveðið eftir því, að það komi góðar og glöggar upplýsingar um þjóðvegina og sýsluvegina í heild, lengd þeirra í heild, yfir landsheildina og yfir hverja einstaka sýslu og í hvernig ástandi þeir eru, því að ef það væri nú svo, að nokkuð mörg hundruð kílómetrar af þeim vegum, sem ríkið á að sjá um, væru nú alls ekki farandi út á í bíl, þá er náttúrlega spurning, hvort það á að bæta miklu við, meðan ástandið er þannig. Ég segi ekkert um, að það sé þannig, — ég segi: ef það væri svona.

Það, sem ég vildi með þessu sérstaklega meina og leggja áherzlu á, er að n. athugi þetta tvennt og láti það koma greinilega fram til Alþ., annaðhvort núna eða síðar, hvernig ástatt sé með þá vegi, sem nú séu ríkissjóðsvegir, hvað þeir séu langir og hvað mikill hluti af þeim sé í því ástandi, að þeir séu færir, ágætlega færir alltaf allt árið, hvað mikill hluti slarkfær tíma úr árinu og hvað mikill hluti alveg ófær, og hvort það gæti ekki verið vit í því að flokka vegina niður eftir þeirri þýðingu, sem þeir hafa fyrir þjóðarheildina, og láta viðkomandi sýslufélög sjá um bæði nýlagningu og viðhald að einhverju leyti í þá vegi, sem hafa meira „lókala“ þýðingu fyrir viðkomandi héruð. Þetta vildi ég biðja n. að athuga, og skal svo bæta því við, að í þingtíðindunum 1940 getur hún bæði séð þær umræður, sem urðu um þetta hér í þinginu þá, og eins þær till., sem þá komu fram og hnigu í þessa átt.