11.04.1958
Efri deild: 76. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (2175)

166. mál, félagsmálaskóli verkalýðssamtakanna

Flm. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. samflokksmönnum mínum frv. um félagsmálaskóla verkalýðssamtakanna, sem hér liggur fyrir til 1. umr.

Þessu frv. er ætlað að bæta úr þörf, sem margir telja brýna og vaxandi á almennri fræðslu fyrir hinn mikla fjölda, sem skipar verkalýðssamtökin, um málefni verkalýðssamtakanna og þau mikilvægu verkefni, sem þeim er ætlað að leysa af hendi fyrir alþýðuna í landinu.

Enda þótt sýnt sé, að sú hugmynd að koma fræðslumálum alþýðusamtakanna í fastara og betra horf, en verið hefur, eigi vaxandi viðurkenningu að fagna, tel ég ástæðu til að víkja nokkuð að höfuðástæðunum fyrir því, að við flm. höfum kosið að beita okkur fyrir lausn málsins í því formi, sem frv. okkar gerir ráð fyrir.

Svo vill til, að í grannlöndum okkar, Norðurlöndum, hafa um áratugaskeið starfað skólar hliðstæðir þeim, sem hér er rætt um að stofnsetja. Reynslan af þeim skólum er sú, að verkalýðshreyfing viðkomandi landa telur sér þá ómissandi. Svo vel hafa þeir verið sóttir, að orðið hefur að auka þá með árunum og bæta nýjum við.

Þegar þess er gætt, að við Íslendingar búum á margvíslegan hátt við líkar aðstæður, félagslegar og menningarlegar, virðast ríkar ástæður til að ætla, að slíkar menntastofnanir gæfu hér svipaða raun, ef rétt væri á haldið. Miklu víðar um heim eru slíkir skólar starfandi og þykja nýtar stofnanir fyrir félagsfólk verkalýðssamtakanna, trúnaðarmenn þeirra og forustumenn.

Reynslan af hinum erlendu verkalýðsskólum er því augljós vísbending um það, að félagsmálaskóli verkalýðssamtakanna eigi hér mikilsverðu hlutverki að gegna, þótt ekki telji ég hana þurfa að hafa úrslitaþýðingu.

Sterkustu röksemdirnar þarf ekki að sækja út fyrir landssteinana. Þær liggja fyrir, ef athuguð eru viðfangsefni íslenzku verkalýðshreyfingarinnar, sem án alls vafa munu vaxa með hverju ári sem líður og reyna því meira á hæfni hennar, menntun og félagslegan þroska. Tökum t. d. eina af frumskyldum verkalýðssamtakanna við félagsmenn sína, samningsgerð við vinnuveitendur um laun, vinnutíma, aðbúnað á vinnustöðum, öryggisráðstafanir og hvers konar kjaraatriði. Slíkar samningsgerðir krefjast víðtækrar þekkingar, ekki aðeins á högum þeirra, sem við þær eiga að búa og eiga kjör sín og afkomu undir ákvæðum þeirra, heldur líka á fjölmörgum sviðum félagsmálalöggjafarinnar, svo sem vinnulöggjöf, tryggingalöggjöf, öryggislögum o. s. frv., og enn verður við slíkar samningsgerðir að kunna í meginatriðum skil á atvinnurekstri þeim, sem kemur við sögu, og síðast, en ekki sízt á þeim verkunum, sem samningsgerðin hefur á almenningshag.

Þetta eina verksvið alþýðusamtakanna krefst mikillar þekkingar, sem ætlazt er til að félagsmálaskólinn hjálpi til að veita.

Samningsgerðir við atvinnurekendur eru nú í höndum margra hundraða stjórnarmanna og forustumanna í verkalýðsfélögunum um land allt og eftirlit með framkvæmd þeirra í höndum enn fleiri trúnaðarmanna á velflestum vinnustöðum verkafólks á sjó og landi, en úrslitavaldið í öllum þessum málum er í höndum þeirra tugþúsunda manna og kvenna, sem skipa samtökin og hljóta að beita dómgreind sinni og þekkingu við endanlegar ákvarðanir.

Því fer þó víðs fjarri, að hin beinu faglegu mál í þrengstu merkingu séu hin einu verkefni verkalýðshreyfingarinnar og þau séu hin einu þeirra, sem krefjast þekkingar og menntunar.

Viðfangsefnin ná þvert á móti langt út fyrir þann ramma. Forganga verkalýðshreyfingarinnar í atvinnumálum þjóðarinnar í heild og nær því í hverri byggð sérstaklega er alkunnug. Margvísleg afskipti af hvers konar framfaramálum hið sama. Forusta um tryggingamál og margvíslega löggjöf, um réttindamál, sem varða hagsmuni verkalýðsstéttarinnar, samstarf og margs konar skipti við ríkisstjórnir um efnahagsmál þjóðfélagsins, barátta fyrir lausn húsnæðismála, rekstur hvíldar- og dvalarheimila almennings, rekstur félagsheimila og fjölþætt menningarleg starfsemi, barátta fyrir auknu vinnuöryggi á sjó og landi, barátta fyrir aukinni framleiðslu og fullkomnari atvinnutækjum, allt eru þetta málefni verkalýðshreyfingarinnar, misjafnlega vel á veg komin, viðfangsefni, sem hún mun glíma við næstu ár og áratugi, og verkefnin eru þess eðlis, að þau halda stöðugt áfram að vera viðfangsefni, hversu vel sem að þeim er unnið og hve góður árangur sem næst. Og þeim mun ekki fara fækkandi, heldur þvert á móti, jafnvel næsta framtíð kann trúlega, a. m. k. ef verkalýðshreyfingin fær aðstöðu til að gera sjálfa sig hæfa til þess, að færa henni í hendur stórfelldari verkefni, en nokkru sinni fyrr, og ný svið opnast henni til starfa og áhrifa.

Nú munu ef til vill einhverjir segja, að hingað til hafi verkalýðshreyfingin getað sinnt verkefnum sínum án þess að eiga nokkurn sérskóla og að hún hafi getað alið upp fjölda vel hæfra forustumanna og kvenna úr sínum röðum. Svipaðar röksemdir munu oft hafa heyrzt áður, þegar um nýjungar í skólamálum hefur verið rætt. Ekki munu t. d. allir hafa verið sammála um hina víðtæku húsmæðrafræðslu á sínum tíma og jafnvel ekki um þörf búnaðarfræðslunnar áður fyrr, en litla stoð hygg ég, að röksemdir gegn þeim þáttum menntunar teldust nú hafa.

Víst er rétt, að verkalýðshreyfing okkar hefur alið upp margt hinna mætustu manna og hæfustu, sem hafa átt sinn mikla þátt í þeim stórvirkjum, sem unnin hafa verið með þjóðinni síðustu 50–60 árin. Svo mundi sjálfsagt enn verða reyndin framvegis, hversu sem um það málefni fer, sem hér er um fjallað. En hér ber að setja markið enn hærra. Hver félagsmaður í verkalýðssamtökunum þarf að fá aðstöðu til að afla sér slíkrar fræðslu, að hann kunni góð skil á öllum helztu viðfangsefnum samtakanna, hlutverki þeirra í þjóðfélaginu og markmiðum. Öllum, sem falinn er trúnaður sem stjórnarmönnum eða trúnaðarmönnum á öðrum sviðum, er það lífsnauðsyn. Margt í okkar þjóðlífi hefur breytzt á þá lund á síðari tímum, að aðstaða öll hefur farið versnandi fyrir hvers konar meiri háttar félagshreyfingar að veita félögum sínum viðhlítandi upplýsingar og fræðslu í venjulegu félagsog fundarstarfi einu saman.

Menn kjósa nú fremur aðrar leiðir í þeim efnum. Öldin er nú orðin önnur, en þegar félagshreyfingar, svo sem verkalýðshreyfingin og samvinnuhreyfingin, voru tiltölulega fámennir áhugamannahópar og viðfangsefnin auk þess einfaldari og auðskildari, en þau nú eru.

Ég hef hér í örstuttu máli lýst nokkrum forsendum fyrir nauðsyn þess, að stofnaður verði félagsmálaskóli verkalýðssamtakanna. Í því sambandi mætti benda á, að samvinnuhreyfingin hefur lengi átt sinn skóla og mun telja sér tilvist hans lífsnauðsynlega, en samvinnuhreyfingin og verkalýðshreyfingin eru um margt hliðstæður. Að vísu er samvinnuskólinn að verulegu leyti menntastofnun til starfsmenntunar, en er þó félagsmálaskóli að verulegum þræði. Líkt er um skóla verzlunarstéttarinnar og að nokkru um bændaskólana. Félagsmálaskóli verkalýðshreyfingarinnar yrði einnig hvort tveggja í senn, menntastofnun til starfsþjálfunar framkvæmdamanna samtakanna og jafnframt skóli, sem veitti almenna fræðslu, sem hverjum manni yrði hollt að hafa notið, til hverra starfa sem hann siðar yrði kvaddur í þjóðfélaginu. Því skyldi ríkið ekki kosta slíkan skóla fyrir verkalýðshreyfinguna, eins og það gerir að öllu leyti hvað við kemur skóla samvinnuhreyfingarinnar og verzlunarstéttarinnar svo og marga skóla fámennra starfsstétta?

Í sambandi við hugmyndina um sérskóla verkalýðsfélaganna hefur komið fram sú skoðun hjá einstöku mönnum, að ekki væri líklegt, að slíkur skóli yrði mikið sóttur, og jafnvel, að nauðsynlegt mundi reynast að greiða nemendum laun, meðan á námi stæði.

Erfitt er að sjálfsögðu að fullyrða um þetta atriði að óreyndu. Athyglisvert er þó, að ótta um þetta hefur ekki orðið vart í verkalýðsfélögunum eða á þingi Alþýðusambands Íslands, þegar þetta mál hefur borið þar á góma, og ættu þessir aðilar þó að hafa bezta aðstöðu til að vita hug almennings í þessu efni.

Hin erlenda reynsla er líka athyglisverð að þessu leyti með þeim þjóðum, sem á margan hátt búa við lík skilyrði og við, Norðurlandaþjóðunum. Skóli sænska alþýðusambandsins í Brunsvík hefur starfað óslitið frá 1928, yfir 30 ár, og fyrir 7 árum þótti sænsku verkalýðsfélögunum nauðsynlegt að bæta við nýrri glæsilegri menntastofnun fyrir meðlimi sína, skólanum í Runö. Í Finnlandi tók fyrsti verkalýðsskólinn til starfa fyrir rúmum tug ára, og reynslan af honum varð slík, að fyrir tveim árum reyndist nauðsynlegt að setja annan skóla þar á stofn, stærri og glæsilegri hinum fyrri. Með Dönum starfa nú tveir verkalýðsskólar, þar af annar nýr. Í Noregi hefur slíkur skóli starfað um aldarfjórðungsskeið. Ég hygg, að það væri mikið vanmat á þroska íslenzka verkalýðsins að ætla honum svo miklu minni vilja til menntunar, en stéttarbræðrum hans á Norðurlöndum, að hann mundi láta sinn verkalýðsskóla veslast upp vegna lítillar aðsóknar, meðan slíkar stofnanir sækja stöðugt á í grannlöndum okkar. Sá munur er áreiðanlega ekki á verkalýðsstéttinni hér og í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi, að slíkar ályktanir séu réttlætanlegar. Sá reginmunur er hins vegar á, að með þessum grannþjóðum hefur alþýðustéttunum verið gefið tækifæri og aðstaða til að sækja sína félagsmálaskóla, meðan hér hefur ríkt tómlæti um þau efni, tómlæti, sem nú er orðið til vansæmdar fræðslumálum þjóðarinnar.

Þetta mál er ekki nýmæli hér á hv. Alþingi Núv. hæstv. félmrh. bar fram á Alþingi 1954 frv. um gagnfræðaskóla verkalýðssamtakanna og enn flutti hann á Alþingi 1955 frv. um skóla verkalýðssamtakanna, en hvorugt þessara frv. varð þó útrætt.

Frv. þessi vöktu hins vegar hina mestu athygli, og áhugi verkalýðssamtakanna fyrir framgangi þeirra kom fram í fjölda áskorana frá einstökum félögum innan þeirra og einnig í einróma samþykki Alþýðusambandsþings 1954.

Þetta frv. er að meginefni hið sama og frv. Hannibals Valdimarssonar frá 1955, en þó breytt í nokkrum atriðum. Þannig er nú í frv. heimilað að skipta námstímanum í tvö þriggja mánaða námskeið, ef betur reyndist henta sú skipan, en halda skólann í 6 mánaða samfelldu starfi. Þá eru enn fremur gerðar minni háttar breytingar aðrar, svo sem um stjórn skólans og greiðslu kostnaðar við rekstur hans svo og um námsgreinar, en tilgangur þessa frv. er að öllu hinn sami og var með frv. Hannibals Valdimarssonar, enda nú flutt í samráði við hann.

Nú eins og áður er gert ráð fyrir því, að stjórn skólans verði að mestu í höndum heildarsamtaka verkalýðsfélaganna, svo sem tíðkast um Norðurlönd. Verkalýðshreyfingin er ekki og á ekki að vera háð ríkisvaldinu og mundi því að sjálfsögðu ekki una því, að fræðslumál hennar yrðu sett undir þess stjórn. Verkalýðshreyfingunni sjálfri er líka bezt treystandi til að ráða fram úr þeim vandamálum, sem verða kynnu á vegi þessarar stofnunar hennar.

Flutningsmenn hafa þó talið rétt, að tryggt yrði samráð við hið opinbera með því, að félmrn. veldi einn mann í skólanefnd og staðfesti reglugerð fyrir hann, sem samin yrði af skólanefndinni.

Um einstök ákvæði frv. að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða nú við 1. umr. Til þess gefst að sjálfsögðu tækifæri, þegar frv. hefur verið rætt og athugað í hv. heilbr.- og félmn. og álit hennar liggur fyrir.

Við flm. höfum talið rétt, þar sem hér er um að ræða algerlega nýja menntastofnun, að reyra ekki of fast að henni með lagabókstaf, svo að verkalýðssamtökunum, sem ætlað er að njóta hennar og stjórna henni, gefist nægilegt svigrúm til að haga ýmsum framkvæmdaatriðum að vilja sínum og í samræmi við reynsluna, jafnóðum og hún fæst.

Ég leyfi mér að leggja til að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. heilbr.- og félmn.