14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

73. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til 1. umr, hér, lét ég í ljós nokkra undrun yfir þeim hraða, sem hafður var á því að koma málinu til 1. umr., á sama tíma sem því var útbýtt svo að segja, vitandi það, að þm. höfðu yfir höfuð ekki haft tíma til að kynna sér málið. Hæstv. forseti sagði út af þessu nokkur orð og virtist taka það sem ásökun í sinn garð, sem ég hafði látið mér um munn fara, og benti á það, að deildin hefði veitt afbrigði fyrir málinu og væri ekki við sig neitt að sakast. Það var heldur ekki minn tilgangur að sakast neitt við hæstv. forseta um afgreiðslu málsins eða upphaf afgreiðslu þess, heldur var það við þingflokka þá, sem að því standa. Það var til þeirra, sem ég beindi minni ádeilu, en alls ekki til hæstv. forseta, sem í þessu máli sem öðru hagar sér ógjarnan þannig, að þingmenn geti haft ástæðu til þess að setja út á hans störf sem forseta. Ég fór nú ekki að rísa upp við þetta tækifæri til þessa, en ég vildi, áður en málið fer út úr deildinni, m.a. af virðingu minni fyrir hæstv. forseta, láta þess arna getið.

Síðan þetta mál kom fram, hefur maður af ýmsum utan þingsala verið spurður um ákvæði þess og gildingu á ýmsa lund, og ég verð að segja það fyrir mitt leyti, þegar það hefur komið fyrir mig, að ég hef ekki getað gefið alveg glöggar upplýsingar um, hvað saknæmt væri og ekki saknæmt samkvæmt ákvæðum frv., og vildi gjarnan að einhverju leyti leita upplýsinga hv. nm., sem um þetta mál hafa fjallað, eða t.d. hv. frsm., t.d. um það atriði, sem um fjallar í 3. gr., þar sem segir: „Óheimilt er með öllu að senda af kjörfundi upplýsingar um það, hvaða kjósendur koma og neyta atkvæðisréttar síns.“ Til þess að hægt sé að senda eða bera út af kjörfundi upplýsingar um það, hvaða kjósendur hafa neytt atkvæðisréttar, verður viðkomandi maður sennilega að hafa verið á kjörfundi og komið á kjörfundarstað.

Nú skulum við segja t.d., að ég fer á kjörfund og kýs, og svo verður mér það á að segja frá því, kannske óaðspurður, kannske aðspurður, einhvers staðar úti í bæ. Er þetta saknæmt samkvæmt 3. gr., því að það er óneitanlegt, að það eru upplýsingar af kjörfundi bornar út af manni, sem á kjörfundinn hefur komið?

Ég vildi gjarnan vita, hvort kjósanda er samkvæmt þessu, ef að lögum verður eða þegar að lögum verður, heimilt að skýra frá því, að hann hafi kosið, eða hvort það kostar þessar þungu refsingar í fjársektum, sem ákveðnar eiga að vera, skilst mér.

Enn fremur vildi ég spyrja að því, hvaða skrár er átt við í 3. gr., þar sem umboðsmönnum frambjóðenda eða lista er óheimilt að hafa með sér á kjörfund kjörskrá eða nokkra aðra skrá. (Gripið fram í.) Það stendur: nokkra. (Gripið fram í.) Ha? (Gripið fram í.) Aðra slíka? (Gripið fram í.) Er það leiðrétt á nefndinni? Nú, ég kem nú ekki auga á, að það sé í brtt. hv. nefndar. (Gripið fram í.) Nú, jæja. Það getur vel verið, að það sé. Ég kem bara ekki auga á það í brtt., sem er við 3. gr. (Gripið fram í.) Jæja, það hefur ekki verið ákveðið neitt um það um kjósanda sjálfan, og ég veit það, að margir skilja ákvæði 3. gr. um það, hvort segja megi til, að þessi og þessi hafi kosið. Það er óljóst í frv., hvort kjósandi sjálfur hefur leyfi til þess að segja til þess, að hann hafi kosið.

Ég hef milli umræðna verið svolítið að kynna mér umræður um nefndarskipunina frægu 1954, sem átti að hafa það verkefni að athuga um breytingar á þessum sömu lögum, sem þetta frv. fjallar um, og ég sé hvergi í þeim umræðum, að það komi nokkurs staðar fram, að það þurfi að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir gagnvart þessum atriðum, sem þetta frv. leggur megináherzluna á. Í umr. og raunar í rökstuðningi um hegðun manna á kjörstað eða hvað menn megi þaðan bera eða hafa með sér er það talið vera til þess að hafa meiri frið um kosningarnar, og ég held, að það hafi komið fram í ræðum sumra þeirra, sem talað hafa fyrir málinu, að þetta væri gert, þetta frv. væri mest til fram komið til þess að hafa frið um kosningarnar o.s.frv. En það er einkennilegt, að í umræðunum 1954 er alls ekki á það minnzt, að neinna sérstakra ráðstafana sé þörf til að halda uppi friði á kjördag, frekar en aðra daga. Og vitaskuld er það, að það fylgir lýðræðisfyrirkomulagi, að viðhafður er svokallaður áróður fyrir kosningar, áróður í blöðum og áróður á ýmsum stöðum. Þó hefur það alltaf verið bannað og er bannað í lögum að hafa áróður á kjörstað, og þarf enga nýja löggjöf um það. En þessi röksemd fyrir svona breytingu eins og hér er gerð, sem er aðallega rökstudd með því, að þetta sé til þess að halda friði um málið, gæti alveg eins vel átt við, ef hv. meiri hluti þessarar hv. d. og meiri hluti þingsins færu inn á aðrar, enn ýtarlegri, ráðstafanir í þessu efni, — í friðarins nafni, bara í friðarins nafni. Það er sennilega ekki mikill ófriður í löndunum, sem banna að hafa annað, en einn einasta lista. Það er líklega ekki um mikið að rífast þar. Og auðvitað fylgir því banni, að áróður er líka bannaður eða „agitation“, sem heitir á útlendu máli. Þar er friðurinn, það er sú fullkomna friðarhöfn, sem t.d. einræðisríkin kommúnistísku eru komin í, í þessum efnum, og þetta frv. er spor í áttina til þess að hefta bardagaaðferðir, sem annars í lýðræðislöndum eru taldar leyfilegar. Með því að lögfesta þessi ákvæði, sem hér er verið með, er það spor í áttina að frekari hömlum á rétti kjósendanna í þessu máli heldur en hérna liggja fyrir og spor í áttina að einræði, og það mætti sem sagt með jafnviturlegum og hógværum röksemdum eins og að ég held hv. þm. Ak. beitti í þessu máli, tala fyrir einum lista á friðarins grundvelli.

Þó að þetta mál sé að allra skyni borinna manna vitund fram komið hér sem kosningahælkrókur, aðallega Framsóknarflokksins, á Sjálfstfl. í landinu og sérstaklega Sjálfstfl. í þessum bæ núna fyrir bæjarstjórnarkosningar, — þó að maður viti það og það sé öllum ljóst og kemur fram bæði í blaðaskrifum og öðru frá hálfu Framsfl., þá vil ég benda hv. deildarmeirihluta á það, að með þessum hömlum, sem hér eru lagðar á lýðræðislega baráttu fyrir sínum lista eða fyrir manni eða hvað það nú á að heita eða sínum málstað við kosningar, með þessum hömlum er stigið spor í einræðisáttina og liggur beint yfir í kommúnistískt fyrirkomulag, þar sem það er orðið svo fullkomið, að allir listar andstæðinganna og þeirra flokka eru bannaðir og ekki má koma með nema einn lista. Það getur vel verið, að hv. deildarmeirihluti geri sér þetta ekki fullljóst og hafi ekki hugsað svo langt í þessu að sjá, hvert þessar aðferðir liggja, en það er jafnaugljóst fyrir því.

Ég held, að það verði erfitt að koma því inn í réttarmeðvitund þjóðarinnar, að það sé bannað að segja frá því, hver hafi kosið eða komið á kjörfund til þess að kjósa, það verði erfitt að koma því inn í réttarmeðvitund þjóðarinnar, að þetta sé athæfi, sem eigi að varða miklum sektum. Það var hér á ferðinni fyrir nokkru í þessari hv. deild frv. um ökuhraða, sem fjallaði m.a. um ökuhraða, leyfilegan eða óleyfilegan, á vegum, og ég man eftir, að ég held, að sérstaklega hv. þm. Ak., sem er nú lögfræðingur, eins og allir vita, hafi lagt á það talsverða áherzlu, að það þýddi ekki að samþykkja ákvæði í lögum, sem almenningur gerði sér ekki ljóst að þyrftu að varða við lög, og var þess vegna fylgjandi meiri ökuhraða en sumir aðrir vildu vera láta, aðallega á þeim grundvelli, að það gengi ekki inn í almenning, að þetta gæti verið refsivert, og væri þess vegna ekki rétt að banna það eða gera það hegningarvert. Þessi röksemd kemur oft fram og jafnvel hjá góðum lögfræðingum, að löggjöfin þurfi að hafa styrk og stoð í réttarmeðvitund þjóðarinnar, sem á við löggjöfina að búa, m.ö.o. í réttarmeðvitund hvers einstaks borgara. Og ég ætla, að það verði talsvert erfitt að koma því fram, að fólk finni til þess, að það hljóti að vera refsivert í sjálfu sér að segja frá því, þó að það viti til, að þessi og þessi maður hefur kosið, farið á kjörfund og notað atkvæðisrétt sinn.

Það, sem enn fremur kom fram í þessu máli við 2. umr. í ræðu hv, þm. Ak., var það, að hann sagði, að það gætu verið deildar skoðanir um það, hvort kjördagurinn ætti að standa til kl. 23. til kl. 11 að kvöldi, eða til kl. 12 að kvöldi, og þetta vil ég líka viðurkenna, að um það geta verið deildar skoðanir, ef menn vilja stytta kjördaginn á annað borð. En um hitt getur tæplega verið nein deila, að dagur, hvort það er kjördagur eða annar dagur, er ekki að fullu liðinn fyrr en um miðnætti, fyrr en kl. er orðin 12. Þó að hv. framsóknarmenn berjist fyrir því núna að láta kjördaginn vera liðinn kl. 11 að kvöldi, þá er kjördagurinn í vitund þjóðarinnar ekki liðinn fyrr en kl. 12. Ég veit að vísu, og það kann að vera hv, deildarmeirihluta einhver huggun, að klukkan er sjálfsagt orðin eitt og kannske meira hjá Rússum, þegar hún er 11 hjá framsóknarmönnum á Íslandi. (Gripið fram í.) Ég sagði, að hjá Rússum væri klukkan sjálfsagt orðin 1 og meira, þegar hún er 11 hjá framsóknarmönnum. Þeim kann að vera nokkur huggun í því. En kjördagurinn er samt sem áður ekki liðinn á Íslandi, fyrr en næsti dagur tekur við, og hann tekur við á miðnætti. Það held ég sé óhrekjanlegt, þó að deildar meiningar kunni að vera um það, hvort hann ætti að enda kl. 23 eða kl. 11 — eða kl. 10, eins og var fyrst í þessu frv.

Sem sagt, frv. er vitanlega flutt fram, eins og ég sagði áður, sem bellibragð af hálfu Framsfl., aðallega með tilliti til bæjarstjórnarkosninganna í Rvík til að byrja með. Það er stigið með frv. spor í einræðisátt, sem vel gæti til þess leitt í framtíðinni, að hér væri uppi sú stefna ráðandi að banna vissum mönnum algerlega að nota kosningarrétt sinn og hafa ekki nema einn lista, allt í friðarins nafni, allt til þess, að allt gæti verið nógu kyrlátt og rólegt.

Hv. þm. Ak. minntist líka á það og nefndi tvö þjóðlönd, sem búa við lýðræðisskipulag og hann fullyrti að létu kosningu enda miklu fyrr á kjördegi, en hér er talað um. Ég hef ekki neina ástæðu til þess að halda því fram, að hv. þm. sé að búa þetta til. Hins vegar hef ég ekki séð nein rök fyrir því. En hitt er víst, að hv. þm. lagði engar upplýsingar fram um það, þegar þessi ákvörðun hefur verið tekin í viðkomandi löndum, hvort það hefur verið gert augljóslega til þess að hnekkja einum ákveðnum stjórnmálaflokki í þeirra landi. En það liggur berlega fyrir hér. Það leiðir sem sagt hvort af öðru og er eðlilegt, að hv. Framsfl. villist inn á ofbeldisbrautir í þessu efni. Þegar valdaaðstaða hans í þjóðfélaginu er, eins og vitanlegt er, grundvölluð á misnotkun kosningalaganna, þá er ekki nema eðlilegt, þegar valdið er fengið á þann rangláta hátt, að áfram sé haldið á braut ranglætisins, þó að það sé gert á kostnað lýðræðisins. Kjósendum landsins, sem eiga að búa við þessi lög, er þarna skammtaður þrengri tími til sinna athafna og umhugsunar á kjördaginn, en verið hefur, og ég tel, að með þessu sé gengið á þeirra rétt, sé gengið á rétt hins frjálsa kjósanda í landinu.

Já, herra forseti, ég ætla ekki að fara að halda neina lengri ræðu um þetta. Ég vildi óska, að það væri upplýst hreint og skýrt, hvort fyrirsvarsmenn þessa frv. telja, að samkvæmt 3. gr. sé kjósanda leyfilegt eða óleyfilegt að segja frá því úti í bæ, ef hann hefur farið á kjörstað og notað sinn atkvæðisrétt. Hins þurfa þeir, sem standa að þessu máli í þeim hug, sem ég lýsti, hafa haft sérstakar brellur í frammi við kjósendur hér í Rvík. miðað við næstu bæjarstjórnarkosningar, ekki að vænta, að almenningur í þessum bæ og almenningur á landinu yfir höfuð, sé það glámskyggn, að hann sjái ekki í gegnum þetta mál, þótt látið sé í veðri vaka, að það sé flutt í friðarins nafni. Það er falskt flagg, eins og er um margt annað, sem hv. stjórnarflokkar hafa leyft sér að veifa framan í þjóðina, síðan þeir settust hér að völdum í þetta sinn.