16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (2305)

77. mál, rafveitulína frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér virðist gæta nokkurs misskilnings í máli hv. þm. Vestm., og hefði ég ætlað honum, þeim mæta manni, meiri víðsýni, en mér virtist koma fram í ræðu hans, Ég fæ ekki séð, að það mundi verða nokkurt mein Vestmanneyingum, þó að jafnframt því, sem þangað yrði lögð raforkulína, yrðu lagðar línur að fleiri stöðum á landinu, þar sem einnig er þörf raforku. Og þykir mér ólíklegt, að Vestmanneyingar mundu telja sinn hlut lakari, þó að fleiri en þeir yrðu þessara gæða aðnjótandi.

Brtt. mín, og á það sjálfsagt við um aðrar brtt., sem hér hafa komið fram, sem raunar eru nú ekki margar, er vitanlega á engan hátt fram borin til þess að spilla fyrir því máli, sem hann og hv. meðflm. hans hafa flutt, heldur er hún aðeins flutt af ríkri þörf annars byggðarlags fyrir framkvæmdir af þessu tagi, þörf, sem ég hef nú reynt að rökstyðja nokkuð.

Ég þakka hv. þm. Vestm. fyrir þau ráð, sem hann virtist vilja gefa mér áðan um flutning minna mála hér í þinginu. En hins vegar mun ég haga mínum málflutningi hér eftir sem hingað til eftir því, sem mér sýnist henta á hverjum tíma, og þegar um mál míns kjördæmis er að ræða, þá eftir þörfum þess, hvað sem líður góðum ráðum hv. þm. Vestm. En það, að ég hafi vanrækt að flytja fram þetta mál fyrir mitt hérað, um það held ég að hv. þingmanni sé alls kostar ókunnugt, og honum hefði verið sæmra að ræða það ekki, fyrr en hann var búinn að kynna sér, hvað ég hef gert í þessu máli, sízt í þeim tón, sem hann leyfði sér að láta koma fram í ræðu sinni.

Annars vil ég endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég vil mælast til þess við hæstv. forseta og við hv, fjvn., að þessu máli verði frestað. Ég á auðvitað enga kröfu á því, að það sé gert, það eru aðeins tilmæli, sem mér virðast sanngjörn. Mér kom satt að segja nokkuð á óvart afstaða hv. fjvn. í þessu máli, svo að ekki sé meira sagt, og af því að ég á hér brtt., sem hefur legið hér fyrir nokkuð lengi eða álíka lengi og aðaltill., sem hér liggur fyrir, þá finnst mér ekki nema sanngjarnt, að málinu verði frestað lítils háttar. Sú frestun á ekki að þurfa að tefja það að neinu ráði eða hindra framgang þess, enda ekki til þess ætlazt.