29.11.1957
Sameinað þing: 16. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (2417)

60. mál, starfsreglur Norðurlandaráðs

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Haustið 1952 gerðist Ísland aðili að Norðurlandaráði, og voru starfsreglur ráðsins samþykktar af Alþingi með þál. hinn 10. des. 1952. Þremur árum seinna gerðust Finnar aðilar að ráðinu. Þurfti þá að gera breytingar á einstökum málsgreinum í starfsreglum ráðsins, og voru þær samþykktar með þál. á Alþingi 2. des. 1955. Síðan hafa starfsreglurnar í heild verið endurskoðaðar. Við þá endurskoðun hefur komið í ljós smávægilegt misræmi í orðalagi í textum á Norðurlandamálunum, og hefur þótt rétt að samræma textana betur. Enn fremur hefur þótt ástæða til þess að fenginni reynslu af starfsemi Norðurlandaráðsins undanfarin ár að breyta nokkrum minni háttar formsatriðum í starfsreglunum sjálfum. Helztu breytingarnar, sem nauðsynlegar eru taldar, eru þessar:

Í 2. gr. starfsreglnanna er ákveðið, að Alþingi skuli eiga varafulltrúa í ráðinu. Bein ákvæði um þetta höfðu fallið niður í núgildandi reglum, en varamenn hafa þó verið kjörnir hér, eins og kunnugt er.

Í 3. gr. er skýrt kveðið á um, að fulltrúar ríkisstjórnanna skuli ekki eiga atkv. í ráðinu, en í núgildandi reglum var þetta ákvæði á þá leið, að stjórnarfulltrúar skyldu ekki taka þátt í ályktunum ráðsins.

Í 4. gr. hefur tala þeirra kjörnu fulltrúa, sem krafizt geta aukaþings, verið hækkuð úr 20 í 25. Er þetta gert vegna þess, að með aðild Finnlands að ráðinu fjölgaði fulltrúum þar úr 53 í 69.

Þá er í 5. gr. tekið fram, að forsetar og varaforsetar ráðsins skuli kosnir úr hópi hinna kjörnu fulltrúa. Þessi háttur hefur verið hafður á í framkvæmd, enda þótt ekki væri ákvæði um það í núgildandi reglum.

Loks er í 7. gr. lagt til, að fastanefndir þingsins, sem kosnar skuli aðeins á aðalþingum, geti eftir ákvörðun stjórnarnefndar, þegar sérstaklega stendur á, komið saman á milli þinga. Áður var slíkt samkvæmt orðanna hljóðan háð ákvörðun ráðsins sjálfs. Einnig er skýrt kveðið á um, að ráðið megi kjósa sérstakar milliþinganefndir, eins og þegar hefur tíðkazt. Í laganefndinni var gert ráð fyrir þeirri aðalreglu, að í slíkar nefndir veljist fulltrúar og aðalfulltrúar í ráðinu. Ekki eru þó bein ákvæði um það í greininni, og var í því efni einkum tekið tillit til íslenzkra aðstæðna, því að bent var á það af hálfu íslenzku fulltrúanna, að stundum gæti orðið vandkvæði á því, að ráðsfulltrúar héðan eigi heimangengt til þess að sækja slíka nefndarfundi, enda hefur þegar svo til borið, að setið hafa milliþinganefndarfundi af Íslands hálfu menn, sem ekki hafa átt sæti í ráðinu sjálfu.

Á fimmta þingi ráðsins, sem háð var í Helsingfors í febrúarmánuði þessa árs, lagði stjórnarnefnd ráðsins fram frv. til nýrra starfsreglna, þar sem gerðar hafa verið þær breytingar, sem ég hef nú drepið á. Samþykkti ráðsþingið frv. með litlum breytingum, sem laganefnd þingsins ]agði til, og var jafnframt samþykkt ályktun um að mæla með því við ríkisstjórnir Norðurlanda, að þær legðu frv. fyrir löggjafarþing landanna til samþykktar. Þetta frv. er nú því lagt hér fyrir Alþingi, eins og það var að lokum samþykkt í ráðsþinginu, og hefur fyrrverandi ritari Íslandsdeildar Norðurlandaráðsins undirbúið frv. að öllu leyti í hendur ríkisstjórnarinnar.

Ég vil taka það fram, að um þessar mundir er einnig verið að leggja fram frumvarpið fyrir löggjafarþing hinna aðildarríkjanna, og er svo til ætlazt, að hinar nýju starfsreglur geti gengið í gildi 1. jan. 1958.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að umr. um málið verði frestað og frv. verði vísað til athugunar í hv, utanrmn.