12.03.1958
Sameinað þing: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (2454)

141. mál, afnám tekjuskatts

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég verð nú að segja það, að það er ævinlega fagnaðarefni, þegar einhverjir menn gerast til þess að flytja till. til endurbóta á því ástandi, sem ríkir, og þess vegna vil ég segja það, að ég fagna þessari till., sem er áframhald af viðleitni hv. fyrrv. þm. Barð. í þessu máli. En það hygg ég að öllum hv. alþm. megi vera ljóst, að skattalögin og framkvæmd þeirra eru og hafa verið lengi eitt af mestu vandamálum okkar þjóðfélags, því að þar er um margvíslegar skaðræðislegar reglur að ræða, fyrst og fremst vegna þess, að tekjuskatturinn hefur verið notaður sem tekjujöfnun eða auðjöfnun í stað þess að vera eðlilegt gjald, sem ætti þá að koma hlutfallslega jafnt niður eftir tekjum manna, en ekki vera notað á ræningjamáta, ef svo mætti segja, þannig að taka allt af sumum mönnum og tiltölulega miklu minna af öðrum.

Það er nú orðið nokkurn veginn ljóst, að okkar fjármál eru yfirleitt að komast eða komin alveg úr reipunum í margvíslegum skilningi og þar á meðal varðandi skattana, því að það er á öllum sviðum okkar ríkisrekstrar að verða meira og meira áberandi, að þau gjöld, sem á eru lögð, innheimtast ekki nema að nokkru leyti, og það síðasta, sem við sjáum hér í reikningi, sem fyrir liggur á borðunum hjá alþingismönnum, að í árslok 1956 var óinnheimt af beinum sköttum yfir 37 millj. kr., og hafði þó á því ári verið niður fellt rúmlega 3 millj. kr. af þessum sköttum. Ég hef nú að vísu ekki sundurliðun á því, hvernig þetta liðast á milli tekju- og eignarskatts annars vegar og annarra skatta hins vegar, en það er þó áreiðanlegt, að stærsti liðurinn er óinnheimt af tekju- og eignarskatti. En svona gæti maður haldið áfram á margvíslegum sviðum í okkar ríkisrekstri.

Það er nú engin furða, þó að mönnum fari að detta í hug, að hér þurfi eitthvað að breyta til, og m.a. má segja, að samkv. gildandi fjárlagafrv. fyrir þetta ár er áætlað, að það kosti rúmar 7 millj. að innheimta tekju- og eignarskattinn í starfsemi skattstofu og skattanefnda o.s.frv.

Margt af því, sem hv. 1. flm., þm. Hafnf., sagði, var auðvitað hárrétt og mjög merkilegt, að menn geri sér grein fyrir því, hvernig ástandið er. En það hefur lengi verið svo. Og eitt af því er mjög eftirtektarvert og þó alkunnugt, að það hefur lengi gengið svo, að menn, sem hafa háar tekjur, hafa litið svo á, þegar komið er eitthvað fram á árið: Ja, það er þýðingarlaust fyrir mig að halda áfram að vinna, því að það er þá allt tekið af mér. Allar þær tekjur, sem ég afla eftir þennan tíma yfir árið, það fer allt saman í ríkissjóð og bæjarsjóð. — Þetta veit maður að mörg dæmi eru til um, um ýmsar stéttir í þjóðfélaginu, og það er alveg hárrétt, sem flm. tók fram, að lög, sem svona eru, miða að því að draga úr tekjuviðleitni manna og vinnuviðleitni og draga niður fjármál þjóðarinnar. Þetta er atriði, sem er mjög þýðingarmikið að gera sér grein fyrir.

Annað mál er það, sem hér hefur töluvert verið deilt um og er deila um, og það er það, hvort eigi að leggja tekjuskatt á hjón í einu lagi eða skipta á milli þeirra. Það hafa verið miklar kröfur um það, og meira að segja er því haldið fram og það mjög ákveðið, að það séu mjög mikil brögð að því, að fólk forðist að giftast vegna skattalaganna, heldur búi saman ógift alveg eins og hjón væru. Ef það væri farið inn á þá leið, sem ég álít réttu leiðina, að hafa tekjuskattinn sem prósentugjald af tekjum, þá er slegið striki yfir þetta vandamál, vegna þess að þá er það alveg sama varðandi hjónin, hvort þau eru saman eða lagt á þau í einu lagi eða tvennu. Og ég tel það mjög eðlilegt og sanngjarnt, að maður, sem hefur 100 þús. kr. tekjur, borgi 10 sinnum meira en sá, sem hefur 10 þús. kr. tekjur, en að hann borgi kannske 70–80 sinnum meira, eins og dæmi munu vera til um, það er ekki á neinu viti byggt. Þó er annað verra í framkvæmd skattalaganna, sem lengi hefur verið, og það er, að það, sem á er lagt, er ekki raunverulegar tekjur, það eru tilbúnar tekjur. Og það, sem er stærsti liðurinn í því efni, er það, að sú regla gildir, eins og kunnugt er, að það er ekki heimilt að draga það, sem menn láta í tekjuskatt og útsvar, frá tekjum ársins, og allir vita þó, að það verður að borga. Ég get sagt ykkur, að það hafa ýmsir menn, háttsettir menn, sem hafa há laun, sagt við mig: Það er augljóst, að mikið af þessum tekjum, sem mér eru reiknaðar og lögð eru gjöld á, fæ ég aldrei að sjá, því að það er tekið allt í skatta og útsvar, áður en það kemur til mín. — Þessi regla er náttúrlega hrein óhæfa og hefur alltaf verið, en hún var knúin fram árið 1942 og hefur verið í gildi síðan.

Eitt af því, sem hv. flm. sagði og ég tel ekki rétt, er það, að hann taldi, að tekjuskatturinn væri nánast orðinn eingöngu launaskattur. Þetta er alveg fjarri lagi. Vitanlega er það þó orðið kunnugt, að launastéttir eru orðnar í yfirgnæfandi meiri hluta í okkar landi, en hitt er líka vitað, að framleiðslustéttirnar borga ekki síður tekjuskatt heldur en þeir, sem eru á föstum launum, og ég vil segja það um þá stétt, sem mér er kunnugust, sem er mín eigin stétt, bændastéttin, að hún er þannig sett, að eftir því sem dýrtíðin hefur vaxið og upphæðirnar vaxið, eftir því hafa skattarnir á þeirri stétt farið sívaxandi, án þess að afkoman í raun og veru væri nokkurn hlut betri og oft í mörgum tilfellum verri. Þar eru mörg dæmi til þess, að menn borga skatta, tekjuskatta af tekjum, sem eru ekki neinar tekjur, vegna þess að það fæst ekki að draga frá þann eðlilega kostnað nema að nokkru leyti, sem á búunum er. Ég vil leyfa mér að fullyrða það hér, að ef bú allra bænda á Íslandi væru gerð upp til tekjuskatts á eðlilegan hátt á svipaðan veg og gerð eru upp ríkisbúin og önnur bú, sem rekin eru á félagslegum grundvelli, þá kæmist ekki eitt einasta bú á landinu í tekjuskatt. En bara vegna þess að þetta er gert upp á annan máta, eru miklir skattar, sem á bændastéttinni lenda, einkum nú síðustu árin, síðan dýrtíðin hefur verið blásin svo mjög út sem raun er á og tölurnar hafa hækkað, enda þótt afkoman hafi ekki að sama skapi batnað.

Nú má um það deila náttúrlega, hvað á að koma í staðinn, eins og hv. þm, Eyf. (BSt) var að nefna. Ég fyrir mitt leyti, eins og ég gat um hér um daginn og get endurtekið hér, álít það vafasamt, hvort það eigi að afnema allan tekjuskatt eða þá breyta honum gersamlega í það horf, að það sé jafnt prósentugjald eftir tekjum. Það getur líka hvort tveggja komið til mála, en þetta ástand, eins og það er, er óhafandi með öllu.

Ég býst við, að það verði margt fleira, sem kemur til greina og þarf að breyta í okkar fjármálum og gerbreyta frá því, sem er, heldur en það, hvort tekjurnar, þær sem ríkið nauðsynlega þarf á að halda, eru teknar með beinum sköttum eða óbeinum. En ég tók aðallega til máls til þess að segja um þetta örfá orð og fagna því, að einmitt sá flokkur, sem áður var hvað harðastur í því að leggja á beina skatta og taka tekjuskatta með svona gífurlegum hætti eins og raun er á, einmitt sá flokkur skuli nú leggja fram till. eins og þessa. Ég tel þetta flokknum, síður en svo til lasts, heldur miklu fremur til hróss, því að það er alltaf öllum mönnum til hróss, ef þeir sýna það, að þegar þeir hafa áður gert rangt, þá vilji þeir snúa því í rétta átt og bæta úr þeim vandamálum, sem hlotizt hafa af því, sem áður hefur verið gert.