03.06.1958
Sameinað þing: 51. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (2508)

195. mál, silungseldi í Búðaósi á Snæfellsnesi

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Víða er nú meira en nokkru sinni áður skrifað og skrafað um möguleika á fiskvernd og fiskrækt. Ofveiði hefur smátt og smátt lagt heil fiskimið í auðn og önnur orðið svo fátæk af nytjafiski, að jafnvel sífellt fullkomnari veiðitæki hafa ekki hrokkið til að gefa þann afla í aðra hönd, sem þarf til þess, að útgerð geti gefið viðunandi arð. Það er talað um það með nokkuð vaxandi skilningi, að friða beri hrygningar- og uppeldisstöðvar og möguleikana á því að rækta firði og flóa og jafnvel heil landgrunn og líklegasta leiðin í því efni er talin sú að bera á vissar tegundir tilbúins áburðar og auka þannig lausan og fastan sjávargróður og lágdýralíf, sem vitað er að eykur og bætir lífsskilyrði nytjafiska. Í stórum stíl eiga þessar framkvæmdir sennilega langt í land, en svo mikil reynsla er þegar fengin fyrir klaki og fiskrækt og jafnvel áburðartilraunum í sjó og vötnum, að ekki er hægt að kalla þessar ráðagerðir staðlausa stafi. Það er vitað, að ýmsir nytjafiskar hafa jafnvel öldum saman verið aldir upp í tjörnum og smávötnum í ýmsum löndum Asíu og Afríku og nú orðið einnig í ýmsum vestrænum löndum, t.d. Danmörku, en þar er ræktun regnbogasilungs vel þekktur atvinnuvegur, og þann góðfisk er talið að Danir flytji út með góðum árangri.

Hér á landi hefur silungs- og laxklak verið framkvæmt alllengi með sæmilegum árangri. Hafa frjóvguð hrogn þessara góðfiskitegunda verið klakin út og síðan seiðunum sleppt í ár og vötn, þar sem þau hafa orðið að bjarga sér til þroska á þann hátt, sem verkast vildi.

Í Skotlandi hefur nú verið gerð tilraun með að auka næringarefni í sjó, þar sem gætti flóðs og fjöru, og einnig í innilokuðu vatni. Ein tilraunin var þannig, að fjörður, sem þótti heppilegur til tilraunanna, var að mestu lokaður og síðan tilbúinn áburður settur í vatnið. Kom þá í ljós, að svif og annar gróður margfaldaðist, og koli, sem í firðinum var, óx þrisvar sinnum hraðar, en áður og varð söluvara tveggja ára gamall í staðinn fyrir sex ára áður. Sagt er, að víðar, t.d. í Bandaríkjunum, hafi nú verið gerðar svipaðar tilraunir, sem gefa líklegan árangur.

Til skamms tíma var ekki önnur fiskrækt stunduð hér, en silungs- og laxklak. En fyrir nokkrum árum réðst áhugamaður í að koma hér upp stöð til að ala upp regnbogasilung, og hefur Alþingi nokkuð styrkt þessa tilraun með fjárframlagi og ríkisábyrgð og þannig sýnt skilning og áhuga fyrir málinu.

Nú hefur annar áhugamaður, að nafni Gísli Indriðason, komið fram með þá hugmynd að rækta hinn íslenzka sjóbirting. Hefur hann keypt jörð við Búðaós á Snæfellsnesi og ætlar að nota ósinn sem eldisstöð. Hyggst Gísli að safna þar saman silungi á lokuðu svæði og gera tilraunir með að auka þar gróður og lágdýralíf og flytja svo silunginn til hrygningar í þar til gerðar tjarnir, sem verða þar á staðnum.

Ég skal ekki fara nánar út í einstök framkvæmdaatriði, enda ekki nógu fróður til þess, en svo virðist sem ráðagerð Gísla sé að nokkru byggð á tilraunum Skotanna. Verður að ætla, að þessi tilraun sé allrar athygli verð, enda hefur veiðimálanefnd ríkisins og veiðimálastjóri gefið henni meðmæli sín.

Gera verður ráð fyrir, eins og líka áætlun liggur fyrir um, að tilraun þessi verði æði kostnaðarsöm, enda hefur Gísli Indriðason sótt til fjvn, bæði um styrk og ríkisábyrgð.

Styrkur gat að dómi n. ekki komið til greina, þar sem formleg umsókn lá ekki fyrir í tæka tíð, áður en fjárlög voru samþ. Hins vegar vill fjvn. stuðla að því, að Gísla verði veitt dálítil ríkisábyrgð, ef það mætti verða til þess að auðvelda honum byrjunarframkvæmdir í þessu athyglisverða máli, og væntir fjvn. þess, að hv. alþm. taki vel till. hennar þar um, sem borin er fram á þskj. 610.

Að lokinni þessari umr. óska ég þess, að málinu verði vísað til síðari umr. og ef unnt er að síðari umr. fari fram fyrir þinglok.