26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (2605)

91. mál, sjálfvirk símastöð fyrir Ísafjörð

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þessa þáltill. ásamt hv. þm. N-Ísf. Þetta mál er hv. þm. kunnugt að nokkru. Við fim. höfum áður lýst því hér á Alþingi, hvernig þessar byggðir hafa tengzt nánari böndum til eflingar atvinnulífinu á undanförnum árum. Eitt af því, sem vaxandi atvinnulífi er nauðsynlegast, er greið sambönd. Í fyrsta lagi góð hafnarskilyrði. Þau eru enn ekki fullnægjandi á neinum þessara staða nema Ísafirði, en Bolvíkingar og Hnífsdælingar hafa að vísu hafið undirbúning til þess að bæta úr hafnarskilyrðum hjá sér. Í öðru lagi er gott vegasamband nauðsynlegt. Það má heita allgott nú á milli þessara staða mestan hluta ársins, en þó er enn ekki fengin lausn á hættu af skriðuföllum og grjóthruni á Bolungavíkurvegi, þótt hugmyndir hafi verið uppi um lausn þess máls. Í þriðja lagi er nauðsynlegt að hafa gott og öruggt símasamband allan sólarhringinn, bæði af viðskipta- og öryggisástæðum.

Við hv. þm. N-Ísf. fluttum þáltill. um úrbætur fyrir tveimur árum. Landssíminn brást mjög vel við því, og hefur tíminn, sem stöðvarnar eru opnar, verið lengdur verulega. En það má ekki láta staðar numið, fyrr en því takmarki er náð, að síminn sé opinn allan sólarhringinn milli þessara staða. Það er fyrst og fremst með það í huga, að lagt er til, að horfið sé að sjálfvirkum síma.

Um símasambandið frá Vestfjörðum við aðra landshluta er svipaða sögu að segja. Það hefur nokkuð verið bætt undanfarið, en notkunin vex svo ört, að fljótt sækir í sama horf og áður, og er því nauðsynlegt að hraða þeirri áætlun, sem mun hafa verið gerð um úrbætur á því sviði. Koma þar einkum til greina örstuttbylgjusendar með stefnuloftnetum, sem farið er að nota og hafa gefizt vel hér á landi. Fást með því tiltölulega margar rásir langan veg með viðráðanlegum stofnkostnaði.

Ég vil að lokum leggja áherzlu á, að okkur Ísfirðingum er meiri nauðsyn á bættu símasambandi en flestum öðrum, einmitt vegna þess, hvað við erum illa út undan um aðrar samgöngur. Samgöngur á sjó eru verri en fyrir aldarfjórðungi. Við höfum ekki akvegasamband, ekki einu sinni að sumrinu, nema með bílferju, sem annar ekki flutningum, þegar mest er eftirspurnin.

Um flugsamgöngur er það að segja, að flugvöllur er enn svo lítill, að ekki geta lent á honum nema sjúkra- og einkaflugvélar, en til að anna sjóflugi, sem nú er notazt við, skortir verulega á flugvélakost, og talið, að ekki muni unnt úr því að bæta.

Till. þessi er í samræmi við tillögur og áskoranir fjórðungsþings Vestfirðinga s.l. haust. Ég vil svo mælast til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.