17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

73. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Fram er komin í þessum umr. skrifleg brtt. frá hæstv. fjmrh. við 6. gr. frv. Við nm. í meiri hl. allshn., sem stöndum að nál. á þskj. 170, höfum ekki átt þess kost að ræða saman um þessa brtt. í dag, síðan hún kom fram, og get ég því ekkert um hana sagt af hálfu þessa nefndarhluta. Þó vil ég segja það sem mína skoðun og með tilliti til þeirra viðræðna, sem fram fóru í gær meðal nm., að ég geri ráð fyrir, að meiri hl. n. muni ekki hafa neitt á móti því, að þessi brtt. verði samþykkt, og tel ég reyndar, að þar sem dregið hefur verið í efa, að hið nýja orðalag, sem í frvgr. felst, sé til bóta frá því, sem áður stóð í lögum, þá sé eins rétt í þessu tilfelli að hafa það orðalag, sem áður var.

En það, sem í þessari brtt. felst, er það, eins og hæstv. ráðh. mun hafa gert grein fyrir, að tekið er upp aftur hið eldra orðalag, þ.e.a.s. orðalag laganna um, að það, sem bannað er í gr., skuli vera bannað í næsta nágrenni. Það er orðalag laganna. Í frv. var þetta orðað á þá lund, að bannið skyldi ná til næstu húsa og aðliggjandi gatna, og hefur þá tilgangurinn vafalaust verið sá að gera orðalagið skýrara, en í lögunum var. Það kann hins vegar að orka nokkurs tvímælis, að það sé nokkuð skýrara á þennan hátt, og að sjálfsögðu hafa menn þegar fyrir löngu gert sér grein fyrir því, hvað þetta orðalag, sem búið er að standa lengi í lögunum, „næsta nágrenni“, eigi að þýða. Get ég því a.m.k. fyrir mitt leyti vel á það fallizt, að þetta orðalag standi áfram. En varðandi fyrirspurnir, sem einstakir hv. þm. hafa verið með nú í umr. í sambandi við þetta orðalag, er því vitanlega til að svara, að það mun þýða hið sama í hinum nýju l., ef samþ. verða, eins og það hefur þýtt í kosningalögum þeim, sem í gildi hafa verið.

Nú hefur verið útbýtt á fundinum nál. hv. minni hl. allshn. Hv. 1. þm. Reykv. (BBen), frsm. minni hl., hefur hér á fundinum gert nokkra grein fyrir þessu minnihlutaáliti eða það mun hafa verið ætlun hans að gera grein fyrir því. Það var sumt í ræðu hv. 1. þm. Reykv., sem ég kunni ekki alls kostar vel við, eins og þegar hann sagði, að við meirihlutamenn hefðum í nál. okkar gengið fram hjá því að minnast nokkuð sérstaklega á 3. gr. frv., um hana væri ekkert sérstaklega rætt í nál., og talaði hann eitthvað á þá leið, að þetta mundi vera af því, að við hefðum skammazt okkar fyrir að minnast á þetta atriði í nál. Þetta er nú kannske viðleitni af hálfu hv, þm. til þess að vera þinglegur í orði, og hann um það. En nái. okkar er mjög stutt, og þar af leiðandi var þar ekki farið nákvæmlega í einstakar greinar frv. En ég vil benda á það, sem hv. þm. var kunnugt eins og öðrum hv. þm., að ég flutti hér í deildinni í gær af hálfu meiri hl. nokkuð ýtarlega framsöguræðu, þar sem ég lýsti öllum gr. frv. og þar á meðal þessum, sem hv. þm. gerði að umtalsefni, og gerði mér far um að gera það eftir því, sem kostur var á, í ekki lengri ræðu. Ég fæ því ekki annað séð, en þessi ummæli hv. þm. um það, að við höfum gengið fram hjá því að ræða sérstaklega um þessa gr., séu algerlega tilefnislaus.

Annars er það svo, og það er einkennilegt í þessum umr., að það er eitt aðalumræðuefni þeirra hv. þm., sem hafa mælt gegn þessu frv., og það, sem þeir telja óskaplegast í þessu máli, ef svo mætti segja, að lagt skuli hafa verið fram stjórnarfrv., sem hafi þurft að breyta í þinginu. Bæði hv. 1. þm, Reykv. og hv. 2. þm. Reykv. hafa gerzt mjög fjölorðir um það, um þá óhæfu, sem þeir virðast telja, að breytt hafi verið atriðum í frv. Þetta virðist þeim finnast furðulegt, enda byrjar álit minni hl. á því, að frv. beri að með furðulegum hætti.

Nú getur það vel verið, að þess séu dæmi, og eru vafalaust, að lögð séu fram stjórnarfrv., sem þingið breytir ekki, sem samþ. eru orðrétt eins og þau koma frá ríkisstj. Það kann að vera, að þetta hafi átt sér stað um frv., sem eru mjög sérfræðilegs efnis. En hitt hygg ég að sé þó miklu algengara og hafi komið fyrir meira að segja um frv., sem hv. 1. þm. Reykv. átti þátt í að flytja sem ráðherra, að þeim hafi verið breytt í þinginu. Þetta er því sannarlega engin nýlunda, að breytt sé frv., jafnvel þótt um stjórnarfrv, sé að ræða.

Í hv. Ed. virðist frv. hafa fengið allýtarlega athugun í n., og þar voru gerðar á því nokkrar breytingar, og nú er fram komin í þessari hv. deild sú brtt., sem ég nefndi hér áðan.

Það er annars einkennilegt, hvernig tekið er undir þetta mál í hv. Alþ. eða hér í hv. deild. Ég get litið sagt um umr. í hv. Ed., því að ég heyrði lítið af þeim. En ég fæ ekki séð annað, en þessi frumvarpsákvæði, sem hér liggja fyrir, hvort sem þau eru til bóta eða ekki, snerti alla stjórnmálaflokka jafnt. Kjördagurinn á að enda kl. 11 fyrir alla kjósendur, í hvaða flokki sem þeir eru. Það eru lagðar hömlur, ef svo mætti segja, á fulltrúana í kjörfundarstofunum, frá hvaða flokki sem þeir eru, og yfirleitt taka þessi ákvæði að sjálfsögðu til allra flokka, og það er líka eins og það á að vera. En nú ber svo einkennilega við, að það er einn flokkur hér í þingi, sem rís upp gegn þessu frv., hv. Sjálfstfl., og talsmenn hans halda því fram, að þessum ákvæðum sé sérstaklega beint gegn Sjálfstfl.

Ég get nú varla hlustað á rök eins og þau, sem fram koma hér í deildinni í dag, að þetta komi þyngst niður á Sjálfstfl., af því að hann sé stærsti flokkurinn hér í Reykjavík. Vitanlega eru það ekki rök í málinu. Þetta er mér sem sagt varla skiljanlegt, hvers konar órói hefur hlaupið í fulltrúa þessa sérstaka flokks út af þessu máli. Ég get ekki annað séð en þetta komi nokkuð jafnt við alla eða á sama hátt við alla.

Eins er það vitanlega misskilningur, sem fram kom hér við 2. umr. í gær og aftur í dag, að þessi ákvæði snerti eingöngu þéttbýlið og helzt eingöngu Reykjavík, en þau snerti ekki dreifbýlið. Ég held, að það hafi verið sérstaklega nefnd ákvæðin um, hvenær slíta skuli kjörfundi. Þetta er vitanlega misskilningur og kannske ekki óeðlilegt, þó að hann komi fram hjá hv. 1. þm. Reykv., sem er borinn og barnfæddur Reykvíkingur og hefur ekki sérlega mikinn kunnugleika í dreifbýlinu, eða a.m.k. minni kunnugleika, en ýmsir aðrir. En mig furðar meira á því hjá hv. þm. A-Húnv., sem á að vera kunnugur ástæðum í dreifbýlinu, og ég undraðist það nokkuð og mér fannst það allt að því broslegt, þegar hv. þm. A-Húnv. var að tala um það hér við 2. umr., hvað það gæti orðið erfitt fyrir Reykvíkinga að sækja kjörstað, ef það kæmi nú stórhríð, það yrði svo voðalega erfitt fyrir Reykvíkinga þá að komast á kjörstað. Það getur nú verið, að það sé erfitt fyrir Reykvíkinga að komast á kjörstað í stórhríð. En ég hefði nú haldið, að það væri t.d. erfiðara fyrir Húnvetninga og ýmsa aðra að komast á kjörstað í stórhríð heldur en Reykvíkinga.

En vitanlega geta þessi ákvæði á ýmsan hátt snert dreifbýlið. Ef kjörfundurinn er of stuttur, þá er það ekki síður, gæti maður ætlað, óþægilegt fyrir dreifbýlið, þar sem vegalengdir eru miklu lengri, en í bæjunum og þar sem sums staðar kannske stendur svo á, að fólk verður að skiptast á um að fara á kjörstað, þar sem ekki komast allir að heiman í einu. Mætti ætla, að á þeim stöðum væri kannske erfiðara að framfylgja þessum ákvæðum, sem hér eru sett, t.d. um lengd kjördagsins. En ég kvíði því samt ekkert. Ég held, að menn muni komast af á dreifbýlinu og geta sótt sinn kjörfund á fjórtán klukkustundum eða þótt minna sé, ef á annað borð er fært veður.

Hitt vita menn líka, að það kemur oft fyrir og er gert ráð fyrir, að atkvæði séu greidd utan kjörstaðar fyrir kjördag og oft í fjarlægð. Þessi atkv. geta verið lengi á leiðinni, og það kemur vitanlega alveg eins fyrir í dreifbýlinu, að atkvæði, sem greidd eru utan kjörstaðar, komi of seint, eins og í þéttbýlinu, og ef kjörfundurinn er styttur, þá hefur það að sjálfsögðu að þessu leyti alveg eins áhrif þar.

Ég held nú helzt, að andstaða hv. sjálfstæðismanna gegn þessu frv. hljóti að stafa af einhvers konar misskilningi. Þegar frv. kom fram, var það auðsætt á þeirra aðalmálgagni hér í Reykjavík, að einhver órói hafði gripið menn í flokknum, meira en lítill. Einn morguninn man ég eftir því, að það stóð í Morgunblaðinu, sem hv. 1. þm. Reykv. er nú ritstjóri að, eitthvað á þá leið, að það væri verið að eyðileggja Reykjavík með þessu máli. Nú, þegar búið er að segja svona mikið í aðalblaði flokksins, þó að það hafi kannske verið gert í ógáti eða augnabliksæsingi, er náttúrlega við því að búast, að menn vilji halda þessu máli eitthvað áfram, og það hafa hv. þm. Sjálfstfl. verið að reyna að gera hér.

En það var alveg sérstaklega áberandi um hv. þm. A-Húnv., sem talaði hér í gærkvöld og talaði nú af talsverðum móði, að hann hafði í rauninni ákaflega lítið út á þetta frv. að setja. Hann kom hér í ræðustólinn þannig, að honum var sýnilega mikið niðri fyrir, en svo að segja allt hans mál var um allt aðra hluti. Hann var að ræða um frv., sem flutt hefði verið hér í Alþ. fyrir fjórum árum af, ef ég man rétt, hæstv. menntmrh. og hæstv. félmrh. um breytingar á kosningalögum, sem ekki snerta neitt þetta mál, sem hér er um að ræða, og svo eyddi hann alllöngum tíma í að ræða um kosningabandalög í síðustu kosningum. En þegar kom að því að ræða þetta frv., virtist mér hv. þm. hafa ákaflega lítið út á það að setja í raun og veru.

Og sama er nú í rauninni um hv. 1. þm. Reykv., sem er frsm. minni hl., að efnislega finnst mér hann ekki hafa sérlega mikið út á frv. að setja. Að minnsta kosti hefur ekkert orðið úr því fyrir honum að sýna fram á, að hér geti verið um sérlega varhugavert mál að ræða.

En það er svona, að þegar búið er að láta mjög mikið ummælt í upphafi, þá þykjast menn ekki geta dregið strax í land, og af því munu þessi ræðuhöld stafa af hálfu hv. sjálfstæðismanna. Það er líka eftirtektarvert og sýnir eiginlega, að þeir eru í nokkrum vandræðum í þessu máli, að það breytist nokkuð frá degi til dags, sýnist mér, hvað það er, sem þeir telja hættulegast við frv. (Gripið fram í.) Frv. hefur ekki breytzt neitt síðustu dagana, síðan það kom frá Ed. Nú er að vísu fram komin brtt., sem skiptir mjög litlu máli, og ekki búið að samþykkja hana enn þá. En hv. þm. Sjálfstfl. hafa ekki sérstaklega deilt um þá brtt. og ég hygg, að þeir telji hana til bóta, ef eitthvað er. En það er alltaf að breytast frá degi til dags, sem hv. þm. Sjálfstfl. telja hættulegt í frv. Fyrst virtist það vera þetta, að ekki mætti kjósa á nóttunni. Það kemur greinilega fram í Morgunblaðinu, og mér fannst nú í fyrstu ræðu hv. 1. þm, Reykv. í þessu máli, að hann væri enn þess sinnis, að þetta væri einna versta ákvæðið. En svo er þetta komið þannig nú, að eiginlega er það ekki þetta, sem er verst, og þetta gerir kannske ekki svo mikið til eftir ræðum þeirra að dæma í dag, heldur er það hitt, sem er nú allra verst og er beinlínis valdníðsla, segja þessir þm., bæði hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Reykv., að leyfa ekki umboðsmönnum flokka að skrifa upp nöfn kjósenda í kjörfundarstofu. Þetta er það, sem er einna verst núna. En þetta, hvað þeir eru hvarflandi í því, hvað það eiginlega sé, sem þeir eru svona afar órólegir út af í frv., sýnir, hvað þeir hafa hér litla haldfestu, en á móti málinu skulu þeir vera.

Það hefur ýmislegt einkennilegt komið fram í þessum umræðum, sem ástæða gæti verið til að rekja, þó að ég geri það ekki, eins og það, þegar hv. þm. A-Húnv. fór um það mörgum orðum, hvað það hlyti að vera ákaflega erfitt fyrir allt að því 40 þús. kjósendur í Reykjavík að kjósa á einum degi. Hann gat eiginlega aldrei fyllilega skilið það, hvernig þeir kæmu þessu í verk, 40 þús. manns, að kjósa á einum degi. Auðvitað er þetta erfitt, ef kjósa á aðeins í einni stofu, En menn vita, að það er ekki svo hér í höfuðstaðnum. Og hvernig ætli menn fari þá að því að kjósa og komi því af að kjósa í borgum eins og Osló og Kaupmannahöfn, sem hefur vist meira en millj. íbúa, eða jafnvel í London eða New York? Þessar borgir, sem hafa milljónir af kjósendum, koma því einhvern veginn af að kjósa á einum degi og eru jafnvel búnar fyrr á kvöldin, en við hér í Reykjavík. En þetta sýnir, að menn eru að tala um þetta mál eiginlega meira, en efni standa til og reyna að setja út á frv. og tilgang þess öllu meira, en efni standa til að gera.

Ég fyrir mitt leyti lít ekki á þetta frv. sem neitt stórmál. En ég tel og er því sammála, sem stendur í áliti meirihluta allshn., að ákvæði frv. í heild séu til bóta frá því, sem nú er. Það er ég ekki í neinum vafa um, að það hefur mælzt sérlega illa fyrir, einkum hér í Reykjavík, þar sem það hefur nú aðallega tíðkazt, þetta næturgöltur fram til kl. 3 eða 4 á nóttu og að sendimenn frá flokkunum, — ég býst við, að þeir séu ekki eingöngu frá Sjálfstfl., — séu að koma inn í hús, hringja dyrabjöllum eða berja á dyr og spyrja eftir fólki, sem stundum er þá háttað og jafnvel sofnað, í þeim erindum að fá það til að kjósa. Og svo þegar nánar er athugað, þá er þetta fólk, sem farið var að sofa, e.t.v. búið að kjósa. Þetta held ég að hafi yfirleitt mælzt heldur illa fyrir meðal fólks, og ýmsir munu verða því fegnir, að þetta næturgöltur hætti hér í Reykjavík og annars staðar, þar sem það kann að hafa tíðkazt.

Einhver hv. þm. — það mun hafa verið margnefndur hv. 1. þm. Reykv., eða má vera, að það hafi verið 2. þm. Reykv, — skaut því hér fram áðan, að menn mundu verða fyrir meira ónæði eins og lögin nú yrðu. Það held ég verði nú ekki. En vera má, að skipuleggjendur kosninga hér séu búnir að hugsa út einhver ný ráð til þess að gera mönnum ónæði, og kemur það þá í ljós á sínum tíma. Mér hefur líka alltaf fundizt það heldur óviðfelldið, frá því að ég sá það fyrst, að menn frá flokkunum sætu inni í kjörstofunni hjá kjörstjórninni og skrifuðu nafn hvers manns, sem kýs, og hefðu svo í förum sendisveina, sem færu með nöfnin til kosningaskrifstofanna. En þetta hefur tíðkazt hér í Reykjavík og sennilega í öllum kaupstöðum og líklega víðar. Þar sem ég er kunnugastur, þekktist þetta ekki, fyrr en eftir 1950. Þá tók einn flokkur sig til og tók upp þennan sið. Þar gerðu menn þá gaman að þessu, töluvert. En ég held, að það sé ágætt, þar sem þetta er ekki orðið algengt, að það verði ekki tekið upp og það verði lagt niður á þeim stöðum, þar sem það nú tíðkast. Og ég sé ekki, að neinum sé mein með því gert, að fyrir það sé tekið.

Yfirleitt finnst mér, að þau stóryrði, sem hv, þm, hafa verið með hér um frv., séu mjög ástæðulítil, — ég vil segja ástæðulaus, — og ég hef ekki, eins og ég áður sagði, fullkomlega getað skilið þau. Og sérstaklega á ég erfitt með að skilja það, hvers vegna þessir hv. þm, eru svona órólegir, ef það er eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði og fleiri hv. sjálfstæðismenn, held ég, að ákvæði þessa frv. mundu hafa alveg öfug áhrif við það, sem ætlazt væri til. Það er þá vonandi, ef frv. kemur til með að hafa öfug áhrif og ef því er að einhverju leyti stefnt gegn hv. Sjálfstfl., að þetta verði til góðs fyrir þann ágæta flokk, og mætti sú hugsun verða til þess að hv. þm. Sjálfstfl. taki þessu máli með meiri ró, en þeir sýnast hafa gert að þessu.