19.03.1958
Sameinað þing: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (2659)

50. mál, brúar- og vegagerð

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg, að mér sé óhætt að segja það fyrir hönd okkar flm., að við getum eftir atvikum sætt okkur við þá afgreiðslu, sem till. okkar hefur fengið í hv. allshn.

Okkar till. er nokkuð annars eðlis, en sú till., sem samþ. var í marz 1956. Okkar till. fer einungis fram á það, að rannsökuð sé ákveðin leið, þ.e. leiðin frá Galtalæk í Landsveit um Holtamannaafrétt og Sprengisand að Mýri í Bárðardal, og að rannsakað verði brúarstæði á Tungnaá hjá Búðarhálsi og ekki annars staðar, vegna þess að við, sem erum nokkuð kunnugir á þessum slóðum, erum öruggir um, að á þessari leið er heppilegast að halda sig við brúarstæði hjá Búðarhálsi, en ekki austar og fara inn á Þóristungur, því að þá yrði að brúa Köldukvísl líka, sem rennur á milli Þóristungna og Holtamannaafréttar. En það vill nú svo vel til, að vegna þeirrar till., sem samþ. var í marz 1956, hefur vegamálastjóri í samráði við raforkumálastjóra látið fara fram allýtarlegar rannsóknir í sambandi við þetta, og má því segja, að rannsóknirnar séu komnar nokkuð áleiðis, og skv. því bréfi, sem fyrir liggur frá vegamálastjóra, má gera sér fulla grein fyrir því, að hann hefur hug á því að ljúka þessum rannsóknum að fullu. Það er þess vegna ástæðulaust fyrir okkur flm. annað en sætta okkur við þessa afgreiðslu málsins í trausti þess, að fullnaðarrannsókn verði gerð á málinu. Þetta er ekki neitt smámál, ef hægt væri að fá góðan veg yfir sumarmánuðina stytztu leið, og það eru líkur til, að það verði ekki svo mjög kostnaðarsamt. Það er brúin á Tungnaá og Fjórðungakvísl, sem ætla má að kosti ekki yfir 3 millj. kr., og svo vitanlega nokkur kostnaður við það að ryðja fjallaleiðina.

Ég vil sætta mig við það og ætla, að ég tali fyrir hönd annarra flm. till., að till. fái þessa afgreiðslu, og vil treysta því, að málið verði rannsakað að fullu.