17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

73. mál, kosningar til Alþingis

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir og lagt var fram í hv. Ed. af hæstv. ríkisstj., hefur valdið allmiklum umr. hér í deildinni og enn fremur í Ed. Það merkilega skeður í þessu máli, að hv. alþm. Sjálfstfl. hafa beitt sér mjög ákveðið á móti framgangi þessa máls og á móti því, að frv. næði fram að ganga.

Hv. alþm. Sjálfstfl. telja, að frv. gangi mjög í þá átt að torvelda kjósendum að geta notað atkvæðisrétt sinn á kjördegi, og enn fremur, að frv. væri stórt spor aftur á bak frá því, sem nú er í gildandi kosningalögum. Það er nú mál út af fyrir sig að ræða um það, hvort frv. sem slíkt torveldar kjósandanum að komast að kjörborðunum á kjördegi. Ég álít, að það sé alveg öfugt. Ég held, að kjósandinn ætti að hafa miklu meiri frið til þess að mynda sér sjálfur sínar ákveðnu skoðanir um það, hvort hann ætlar sér að kjósa eða kjósa ekki. En það er augljóst öllum þeim, sem eitthvað hafa fylgzt með kosningum hérlendis undanfarin ár, að á því hafa verið mikil vandkvæði, að kjósandinn hefði frið heima hjá sér eða annars staðar til að ákveða það, hvort hann ætlaði að kjósa eða kjósa ekki.

Í 1. gr. frv., eins og það liggur nú fyrir frá Ed., eru ný ákvæði um kosningar utan kjörfundar. Þessi ákvæði eiga að verða til þess að útiloka það, að menn greiði atkvæði utankjörstaða, nema til þess liggi gildar ástæður, sem kjörstjórn tekur gildar. Ég tel þessa breytingu til stórbóta. Mér er vel kunnugt um það og gæti fært dæmi þar að lútandi, að það hefur alloft komið fyrir, að freklega hefur verið gengið fram í því að fá hv. kjósanda til að kjósa utankjörstaðar, án þess að fyrir lægju fyllilega næg rök fyrir þeirri kosningu.

Um þá fullyrðingu, sem fram kom hjá hv. þm. A-Húnv. (JPálm) í þingræðu í gær, að kjósandinn geti ekki sagt til um það, hvar hann verði staddur á kjördegi, þá held ég, að ef það mál er athugað dálítið niður í kjölinn, sé þetta hin mesta fjarstæða. Mikill hluti þess fólks, sem kýs utankjörstaðar, er t.d. sjómenn, og það er alveg vitað undir flestum kringumstæðum, að þeir muni ekki verða heima í sinni heimasveit á kjördegi. Ef út af því bregður, ber þeim skylda til, hér eftir sem hingað til, að staðfesta atkvæði sitt á kjörstað, ef þeir eru komnir í heimahöfn. Sama gildir vitanlega um aðra, sem kjósa utankjörstaða. Ef þeir koma heim aftur, verða þeir að staðfesta atkvæði sitt á kjördegi. Ég held, að hér sé einmitt mjög þarft ákvæði, þörf lagfæring á kosningalögunum frá því, sem áður hefur verið.

Eins og hv. Ed. gekk frá málinu, er 2. gr. í frv., þar sem gert var ráð fyrir, að kjörfundir skuli hefjast kl. 10 f.h. Þó er hægt með samþykki kjörstjórnarinnar að leyfa, að kjörfundir hefjist kl. 9 árdegis. En það er annað ákvæði, sem þarna er sett inn, og það er það, að kjörfundi skuli lokað kl. 23. Ég tel þetta ákvæði mjög til bóta. Þó skulu þeir kjósendur, sem þá hafa gefið sig fram, hafa leyfi til þess að greiða atkvæði. Með þessari breytingu er ákveðið mjög skýrt um það og á ótvíræðan hátt, hvenær kosningu skuli lokið. Eftir kosningalögunum eins og þau eru nú, er það talið leyfilegt að láta kosningarnar standa langt fram á nótt, næsta dag eftir kjördag. Ég veit ekki, hvernig þetta er annars staðar, en ég veit það, að hér t.d. í Reykjavík hafa kosningarnar oft staðið til tvö og jafnvel lengur fram á nótt fyrir næsta dag. En í kosningalögunum er þó ákveðið, að ekki skuli vera nema einn kjördagur. Þarna virðast hafa verið göt í l., þegar frá þeim var gengið, sem hefur vitanlega verið notfært sér út í yztu æsar og þó einkanlega hér í Reykjavík.

Útkoman af þessu hefur því orðíð sú við allar kosningar undanfarinna ára, að kosningasmalarnir hafa farið hús úr húsi, rifið fólk upp úr rúmum sínum, drifið það á kjörstað og oft og tíðum þvernauðugt. Flestir munu sammála um það, að með svona aðferðum er hafður í frammi óeðlilegur kosningaáróður. Fólk, sem ekki hefur komið til að kjósa frá kl. 9 eða 10 árdegis til kl. 10 eða 11, er undir flestum kringumstæðum ákveðið í því að kjósa ekki. En fyrir ákveðinn áróður er þetta fólk oft og tíðum drifið á kjörstaðinn nauðugt viljugt. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Það eru hundruð dæma um svona aðferðir. Ég tel, að svona áróður sé algerlega andstæður við anda kosningalaganna og friðhelgi kosningarréttarins. Þessi æðisgengni áróður, sem hafður er í frammi við kosningar, er mjög varhugaverður og nálgast í sumum tilfellum að vera brot á kosningalögunum.

Ég skal taka það alveg skýrt fram, til þess að það valdi ekki neinum misskilningi, að þessi mikli áróður flokkanna til að fá fólk á kjörstað, er ekkert bundinn frekar við Reykjavík, en aðra staði. Þessi áróður á sér stað um allt land, og þetta er kannske eitt af allra ljótustu atvikum í sambandi við allar kosningar, það er það, að hv. kjósandi hefur ekki haft frið fyrir kosningasmölunum um það, hvort hann ætlar að kjósa eða hvern hann ætlar að kjósa.

Ég tel, að það sé mesta fjarstæða, og ég er alveg hissa, að það skuli hafa komið hér fram hjá hv. þingmönnum Sjálfstfl., að þessu frv. sé alveg sérstaklega beint gegn þeim. Hvaða ástæðu hafa hv. sjálfstæðismenn hér á þingi til að halda slíkri skoðun fram? Það eru til margir aðrir flokkar en Sjálfstfl., og þessi l. verka alveg jafnt á alla flokka. Hafa þeir beitt eitthvað meiri áróðri en aðrir? Hafa þeir gengið eitthvað ósvifnara fram við kosningar hér, en aðrir flokkar? Ég veit það ekki. Ég held, að allir flokkar, hvað sem þeir heita, hafi yfirleitt beitt þeim áróðri, sem þeir hafa haft yfir að ráða, og það séu allir flokkar meira og minna sekir um það að hafa gengið mjög freklega fram, í því að draga fólkið nauðugt viljugt niður í kjördeildirnar.

Mér kom það ákaflega einkennilega fyrir, þegar ég heyrði hvern af öðrum af þm. Sjálfstfl. halda því hér fram, að þessu frv. væri alveg sérstaklega miðað gegn þeim. Af hverju ætti því að vera miðað gegn þeim sérstaklega? Ég veit það ekki. Þeir ættu að geta sagt það. Nei, svona málflutningur er engin rök. Það eru ekki rök að segja það, að einu frv., sem nær til allra landsmanna, sé beint gegn einum aðila. Þetta eru breytingar á kosningalöggjöfinni, sem allir flokkar, sem þátt taka í kosningum, verða að beygja sig fyrir og ganga jafnt út yfir alla. Það þarf enginn annan um að saka, það er engum gert órétt þar í.

Um ákvæði 4. gr., eins og Ed. hefur gengið frá frv., segir, að aftan við 103. gr. kosningalaganna bætist ný málsgr., svo hljóðandi: „Frambjóðendum og umboðsmönnum þeirra er óheimilt: 1) að hafa meðferðis á kjörfundi kjörskrá eða aðra slíka skrá; 2) að rita til minnis á kjörfundi nöfn þeirra, er neyta atkvæðisréttar; 3) að senda af kjörfundi eða láta í té upplýsingar um, hverjir neyta atkvæðisréttar eða hverjir hafa ekki sótt kjörfund.“ Það hefur verið mikið fundið að þessu, og menn telja, að þetta atriði í frv, sé einna alvarlegasta atriðið. Hvað er það, sem hér er farið fram á? Það, sem frv. gerir ráð fyrir, er það, að flokkarnir, sem bjóða fram, skuli ekki hafa leyfi til þess að skrifa upp, hverjir það eru, sem greiða atkv. Það er fyrst og fremst það.

Ég tel þetta ákvæði frv. mjög þýðingarmikið og stórt atriði til þess að gera kosningarnar algerlega leynilegar. Það er mjög vafasamt, hvort hægt er að tala um leynilegar kosningar, þegar hver einasti kjósandi, sem greiðir atkv., er skrifaður upp og listinn er sendur beint á skrifstofur flokkanna. Þar með geta þeir fylgzt með nákvæmlega, hverjir hafa kosið og hverjir ekki. Útkoman af því verður svo sú, að þegar fer að líða á kosningadaginn, er sendur út heill her af kosningasmölum með bíla og fólkið í sumum tilfellum þvingað til að kjósa, þvingað til að fara á kjörstaðinn, hvort sem það vill eða vill ekki. Það má segja það, að fólk, sem er tregt til að fara og vill af einhverjum ástæðum ekki greiða atkv., hefur tæplega frið til þess að vera heima á sínum heimilum. Það eru dæmi til þess, að fólk, sem ekki hefur ætlað að greiða atkvæði, hefur farið burt af sínum heimilum til annarra til þess að hafa frið fyrir þeim, sem sendir hafa verið heim til þeirra til þess að láta það kjósa eða fá það til að fara á kjörstaðinn.

Ég vil álíta, og það er mín skoðun, að svona lagaður áróður eins og beitt hefur verið við allar kosningar mörg undanfarin ár og ekkert frekar hér í Reykjavík, en annars staðar nálgist það að vera brot á friðhelgi kosningarréttarins. Þetta ákvæði í frv. er stórt atriði í þá átt að tryggja kjósandann fyrir óeðlilegum áróðri á kjördag.

Þá hefur því verið mjög á loft haldið, að þetta frv. sé stórt spor í einræðisátt, þetta sé spor í þá átt að torvelda kjósandanum að geta notað atkvæðisrétt sinn. Ég sé ekki með bezta vilja, hvar í frv. eru nokkur ákvæði, sem torvelda kjósandanum að koma á kjörstað og greiða atkvæði. Það er ekkert einasta orð um það, siður en svo, ekki eitt einasta orð. Það er annað, sem er í frv., og það er það, að það er verið að friða hann fyrir óeðlilegum áróðri, óeðlilegum heimsóknum o.s.frv. Á Norðurlöndum t.d. og í Englandi eru ákvæði í kosningalögum mjög í sama anda og hér er lagt til að verði. Ég hef haldið, að hv. alþm. Sjálfstfl. telji þessi lönd sæmilega góð lýðræðisríki. Ég hef ekki heyrt annað. Ég hef aldrei heyrt því haldið fram, að það ríkti neitt einræði í Noregi, Danmörku eða Svíþjóð eða Finnlandi, en ákvæði mjög í anda þessa frv, eru einmitt í kosningalögum þeirra landa. Mér er t.d. nær að halda, án þess að ég þori þó að fullyrða það, að t.d. í Englandi sé flokkunum bannað beinlínis að nota bíla við kosningar. Ég veit ekki annað, en Íslendingar hafi í mörgum tilfellum talið alveg sjálfsagt að taka sér til fyrirmyndar margt af því, sem er í löggjöf Norðurlanda, og talið sér það til tekna, að þau hafa verið að mörgu leyti á undan okkur í mörgum málum, sem til heilla hafa horft bæði fyrir þá og okkur, og ég hef aldrei heyrt öðru haldið fram, en í þessum löndum ríkti hið prýðilegasta lýðræði að dómi þeirra manna, sem þar þekkja bezt til.

Nei, það merkilega skeður í þessu máli, eftir að það kom hér fram á Alþingi, að hv. alþm, Sjálfstfl. hafa beitt sér mjög hatramlega á móti málinu, þrátt fyrir það þótt þeir sjálfsagt viti alvel eins vel og við, sem erum málinu fylgjandi, að lík ákvæði og hér er lagt til að verði gerð að l. eru einmitt í kosningalögum flestra, ef ekki allra Norðurlandanna, enn fremur í Englandi og víðar. Ég vil álíta, að þetta frv. sé til stórbóta frá því, sem nú er, og með samþykkt þess muni skapast miklu meiri friður um kjördaginn, en áður hefur verið. Verði það, er tilgangi þessa frv. náð.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta mál, en tel sem sagt, að málið sé mjög þarft og bein nauðsyn að flytja það hér á Alþingi, og það ætti að verða til þess að setja annan og betri blæ á kosningadaginn, en verið hefur að undanförnu.