14.03.1958
Neðri deild: 66. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (2671)

143. mál, verslunarviðskipti við herlið Bandaríkjanna

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil einungis leiðrétta þann misskilning hjá hæstv. utanrrh., að ég hafi hreyft nokkurri gagnrýni á vöruútflutning Aðalverktaka, að svo miklu leyti sem hann kann að vera á þeim vörum, sem þeir sjálfir hafa flutt inn. Gagnrýnin hefur eingöngu beinzt að því leyti, sem þeir hafa keypt vörur af varnarliðinu, verkfræðingadeild þess eða þeim aðilum, sem hingað hafa fengið að koma í skjóli varnarliðsins, og síðan flutt þær vörur á brott. Hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir, að ekkert af þeim vörum, sem Sameinaðir verktakar fluttu burt, hafi verið komið til á þennan veg, og þess vegna er það alveg rétt, sem ég lagði áherzlu á áðan, sá meginmunur, sem einmitt eftir skýringum hæstv. ráðh. sjálfs er á þessu tvennu.

Þá er það einnig villandi hjá hæstv. ráðh., þegar hann vill nú miða verðmæti þeirra ráðstafana, sem Aðalverktakar höfðu í huga, við þær vörur, sem þeir voru búnir að flytja út af vellinum, í hans eigin ráðuneytistilkynningu er einmitt sagt, að hann hafi stöðvað útflutninginn, vegna þeirra raka, sem ég áðan gerði grein fyrir, og þess vegna gefur verðlagið á þeim vörum, sem nú kunna að liggja í vöruskemmum Regins, enga hugmynd um, hvaða verknaður það er, sem hæstv. ráðh. hefur hér í raun og veru stöðvað, hversu miklu fé þær ráðstafanir hefðu numið, ef þær hefðu náð fram að ganga, svo sem tilætlun var. Það verður sjálfsagt ætíð ágizkunar- og deiluefni. Ég skil það út af fyrir sig vel, að hæstv. ráðh. vilji nú gera lítið úr þessu, eins og málum er háttað, og mér virðist sannast að segja af ummælum hans hér, að hann hugsi sér nú að afturkalla stöðvun sína og leyfa sölu á þeim varningi a.m.k., sem út hefur verið fluttur, og ef til vill einhverju smávegis til viðbótar til að leyfa Aðalverktökum að bjarga sínu skinni, ef svo má segja. Maður getur skilið þær stjórnmálaástæður, sem liggja til slíkrar ákvörðunar, ef tekin yrði, en hæstv. ráðh. var í raun og veru að tala fyrir því, að þannig mundi farið að. En mjög fer þá af honum sjálfum skörungsskapurinn í þessu máli, ef hann lætur hafa sig til þess.