20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í D-deild Alþingistíðinda. (2696)

27. mál, fræðslustofnun launþega

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þessi till., sem flutt er öðru sinni, fjallar um það, að Alþ. feli ríkisstj. að semja og leggja fyrir næsta reglulegt þing frv. til laga um fræðslustofnun launþega. Það er skoðun flm. og væntanlega fleiri, að það sé þjóðfélagsleg nauðsyn, að starfsemi launþegasamtaka sé sem farsælust og að þau nái höfuðtilgangi sínum að bæta kjör félagsmanna sinna, eftir því sem efni standa til og án þess að mikil vinna eða verðmæti tapist í verkföllum. Öruggasta leiðin til þess að stuðla að því, að slíkt takmark náist, er aukinn félagsþroski og skilningur á heilbrigðu hlutverki og starfsháttum þessara samtaka.

Ég hygg, að allir séu sammála um það, að æskilegt væri, að launþegasamtökin gætu sjálf annazt þá fræðslu, sem hér um ræðir, en þau hafa ekki bolmagn til þess í nægilega stórum stíl. Þess vegna er þetta mál hér fram komið á Alþingi.

Frumvörp um verkalýðsskóla hafa áður legið fyrir Alþ. Og í málefnasamningi núverandi ríkisstj. var stofnun slíks skóla heitið. Er flutningsmönnum kunnugt um, að fram hefur farið allmikil söfnun á gögnum til undirbúnings því máli, en ákvörðun mun ekki hafa verið tekin enn um framkvæmdir.

Með þessari till. er málið tekið upp á nokkuð öðrum grundvelli, en það hefur áður verið rætt hér á Alþingi. Hingað til hefur verið gert ráð fyrir verkalýðsskóla. En við erum þeirrar skoðunar, að það sé ekki tímabært að stofna skóla til að gegna þessu hlutverki í venjulegri merkingu þess orðs. Okkur þykir ólíklegt, að það verði hægt að fá marga forustumenn eða tilvonandi forustumenn verkalýðsfélaga til að setjast á skólabekk heilan vetur eða jafnvel fleiri, en einn vetur til þess að búa sig undir störf, sem óhjákvæmilega hljóta að verða með fáum undantekningum — ólaunuð hjáverkastörf á næstu árum.

Reynsla í öðrum löndum sýnir og að ef slíkur skóli á að ná verulegum árangri, hafa þeir menn, sem mest eiga erindi þangað, ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að fórna atvinnu sinni og sækja slíkan skóla, og það er ekki hægt að fá þá til að setjast á slíkan skólabekk nema með því að greiða þeim jafnframt fullt kaup. Virðist okkur því allar aðstæður benda til þess, að hyggilegra muni að reyna að ná þessu takmarki eftir öðrum leiðum. Fyrirmyndir að slíkri fræðslustofnun, sem við leggjum til, má finna víða um heim, bæði í nágrannalöndum okkar og lengra frá. Slík stofnun gæti á margan hátt með stuttum og löngum námskeiðum, með ýmiss konar upplýsingastarfsemi með nútímaaðferðum unnið að því takmarki, sem hér greinir, að auka þekkingu hinna starfandi félaga launþegasamtakanna og þjálfa leiðtoga þeirra í forystustörfum slíkra samtaka.

Okkur virðist, að slík stofnun gæti unnið mikið starf að sumarlagi í samvinnu við þá skóla, sem fyrir eru, þannig að ekki þyrfti að byggja fyrir hana sérstakt nýtt húsnæði, og okkur virðist sem möguleikar ættu að vera á því, að hægt væri að tengja slíka fræðslu með góðum árangri við sumarleyfi viðkomandi manna og halda slík sumarleyfisnámskeið í héraðsskólunum, svo að dæmi séu nefnd.

Í stuttu máli sagt: við teljum, að fræðslustofnun eins og við lýsum henni hér muni ná meiri árangri, en verkalýðsskóli, sem við teljum ekki tímabæran enn þá, hvort sem svo verður seinna eða ekki. Við teljum, að slík fræðslustofnun sé miklu ódýrari og þar af leiðandi meiri líkur á, að hún verði okkur viðráðanleg, hún hefur líka þann stóra kost, að hún getur byrjað í mjög smáum stíl og aukið starf sitt, eftir því sem mönnum sýnist ástæða til, þegar nokkur reynsla er fengin.

Ég vil svo að lokum leggja til, að umræðunni verði frestað og málinu vísað til allshn.