12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í D-deild Alþingistíðinda. (2802)

61. mál, menntaskólasetur í Skálholti

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að menntaskóli hefur nú um nokkurra ára skeið starfað á Laugarvatni. Enginn efi er á því, að reynslan hefur sýnt, að skólinn er þarna að ýmsu leyti illa settur. Húsakynni eru óhentug og erfitt að bæta úr nema með gífurlegum kostnaði, enda mun það sannast mála, að skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni lét sér mjög umhugað um, að menntaskólinn tæki við húsi, sem upphaflega hafði verið ætlað héraðsskólanum, eftir að sýnt var orðið, að húsið var ekki hentugt og á því mjög stórvægilegir gallar.

Sambýli skólanna á Laugarvatni hefur og ekki að öðru leyti verið heppilegt. M.a. hefur orðið árekstur hvað eftir annað út af mötuneyti, sem ætla skyldi þó að auðvelt hefði verið að forðast eða leysa úr, ef nægileg lipurð hefði verið sýnd. Segja má raunar, að húsið, sem menntaskólinn notar nú á Laugarvatni, þurfi að nota til einhvers, og rétt er það. En víst er, að það verður ekki notað til menntaskóla nema með mjög miklum og kostnaðarsömum breytingum. Óbyggt er á Laugarvatni fyrir íþróttaskóla, sem þar er fyrirhug- aður, og væri þá miklu ráðlegra að nota þetta hús eða húshluta réttara sagt, sem menntaskólanum nú er ætlaður, fyrir íþróttaskólann eða héraðsskólann, eftir því sem hann von- andi smám saman eflist.

Í Skálholti mundi aftur á móti vera mögulegt að byggja upp alveg frá grunni, miðað við þarfir menntaskólans eins, og haga öllu þannig, sem honum bezt hentaði. Mér er ljóst, að það mundi taka töluverðan tíma og verða allkostnaðarsamt. Ég efast þó mjög um, að það verði kostnaðarsamara en að klastra við það, sem nú er á Laugarvatni. ærið ófullkomið og mjög óhentugt fyrir menntaskóla. Skál- holt er söguhelgur staður, og það mundi hafa ósegjanleg áhrif varðandi uppeldi ungmenna að gefa þeim kost á að dveljast í Skálholti árum saman á viðkvæmasta aldri, þegar helzt má ætla, að unglingar yrðu fyrir áhrifum vegna fornra minninga og við að kynna sér sögu landsins, sem saga þessa staðar er ná- tengd og margsamfléttuð við. Ég er því ekki í nokkrum vafa um, að ef því verður við komið sökum kostnaðar að flytja skólann frá Laugarvatni að Skálholti, þá er það til mikillar blessunar. Ég játa hins vegar, að ég hef ekki átt kost á því að kynna mér það til hlítar, hvort þetta sé fært kostnaðar vegna, m.a. hvort húskumbaldinn á Laugarvatni, sem menntaskólanum nú er ætlaður, er ef til vill óhæfur til allra annarra nota en þeirra, sem hann hefur nú og hann var þó ekki í upphafi ætlaður til. En það kann að vera, að ekki verði hægt að hafa hann til annarra nota á Laugarvatni, úr því sem komið er, heldur en til þessara, og þá verður að sjálfsögðu á það að líta.

Till. fer ekki fram á að taka ákvörðun um það að flytja menntaskólann á Laugarvatni að Skálholti, heldur einungis að hæstv. ríkisstj. láti kanna, hvaða kostnaður muni verða þessu samfara, og gefi síðan Alþ. skýrslu um málið, þannig að Alþ. geti að fengnum öllum upplýsingum tekið fullnaðarákvörðun um þetta mál. Með því er ekki til mikils ætlazt, að þetta verði rannsakað til hlítar, og er því furðulegt, að sumir, sem hafa látið sig þetta mál nokkru skipta, hafa snúizt með fjandskap á móti þessari till. Það getur eingöngu verið af því, að þeir óttist, að ef efnisathugun fer fram, verði hún óhagstæð þeirra hugðarefni að halda skólanum föstum á Laugarvatni. Slík tilfinningasemi má ekki með nokkru móti ráða ákvörðunum Alþ., og vil ég því mega vona, að þessi till. nái samþykki. Mér finnst eftir atvikum eðlilegast, að hún fari til athugunar hjá hv. allshn., og legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.