12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (2804)

61. mál, menntaskólasetur í Skálholti

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér skilst, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, þurfi samhliða að athuga fleira og þó sérstaklega gagnvart Skálholti. Menntmrh. tók fram áðan, að Alþ. hefði ákveðið, að menntaskóli í sveit skyldi vera að Laugarvatni, og búið væri að veita til þess þó nokkurt fé. Alþingi ákvað líka, að stofna skyldi búnaðarskóla í Skálholti. Um það eru lög. Og svo veitti Alþ. fé og aftur fé, og ef ég man rétt, er það í kringum 3 millj., sem búið er að veita til bændaskólans í Skálholti. Hvað er búið að gera fyrir það? Hvar er féð? Áður en farið var að framkvæma nokkuð að ráði eftir þeim lögum, var byggt í Skálholti hús fyrir biskup. Engin fjárveiting, það var bara byggt. Allir voru spenntir og ákveðnir að gera nú eitthvað til hátíðarbrigða ákveðinn dag til minningar um biskupa, sem höfðu dregið undan bændunum flestar jarðir landsins og kúgað þá eins og þeir gátu. Svo var húsið byggt. Hvað á að gera við Skálholt? Á að hafa þar menntaskóla, flytja skólann frá Laugarvatni? Á að hafa þar bændaskóla? Á að flytja þangað biskup? Þetta á allt að athugast í einu. Sú n., sem fer að athuga út af fyrir sig eitt málið, verður að taka hin málin fyrir líka, því að Alþ. er raunverulega búið að ákveða óbeint með byggingu íbúðarhúss fyrir biskup, að þar skuli vera biskupssetur. Og nú er húsið boðið til leigu, bara ef maður vill hita það upp. Af því að það er enginn biskup til að vera í því, má hver fara í það sem vill núna, ef hann bara vill hita það upp, það vill ríkissjóður helzt vera laus við. Og svo er búið að ákveða að stofna bændaskóla, búið að veita fé til þess og ekkert gert í því. Hvað á þess vegna að gera við Skálholt? Á að flytja þangað mennta- skóla, byggja þar líka bændaskóla, setja þar líka biskup, eða á eitthvað eitt af þessu að vera, en ekki allt, — og þá hvað? Ég hugsa, að nefndin þurfi þess vegna að athuga þessa till. og það þurfi að breyta henni í þá átt, að hún eigi að athuga í sambandi við þessa till. líka að öðru leyti, hvað á að gera við Skálholt. Með þáverandi hv. 2. þm, Árn. í broddi fylkingar barðist Sjálfstfl. á sínum tíma fyrir því að setja upp bændaskóla í Skálholti. Það tók nokkur ár. Svo var það samþykkt, og svo var tekin upp barátta fyrir því að fá fjárveitingu í hann. Fyrst kom 11/2 millj. og svo kom — held ég — önnur 11/2 millj. Hvar er það fé? Hvað er búið að gera í bændaskólamálinu? Ég bara spyr. Ég hef ekki séð það.