23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (2889)

14. mál, skyldusparnaður

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. hefur lagt fram fsp. um framkvæmd á skyldusparnaði, og vil ég nú hér með svara þessari fsp. hans.

Í framsöguræðunni áðan staðhæfði hann, að því hefði ekki enn þá verið komið í verk að gefa út reglugerð um framkvæmd þessa skyldusparnaðar. En þetta er rangt, og leiðréttist það hér með.

Samkvæmt III. kafla laga nr. 42 frá 1. júní 1957, um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins, sparnað til íbúðabygginga o.fl., er öllum einstaklingum á aldrinum 16–25 ára skylt að leggja til hliðar 6% af launum sínum, sem greidd eru í peningum eða sambærilegum atvinnutekjum, í því skyni að mynda sér sjóð til íbúðarbyggingar eða til bústofnunar í sveit. Þó eru ákvæði í 2. gr. um undanþágu frá sparnaðarskyldunni, og loks segir í 12. gr., að sett skuli glögg ákvæði í reglugerð um alla framkvæmd þessa kafla. Lögin láta það alveg óbundið, með hverjum hætti umræddur skyldusparnaður skuli verða framkvæmdur.

Það virðast vera tvær leiðir fyrir hendi í þessu efni.

Í fyrsta lagi má hugsa sér útgáfu sparimerkja og leggja þá kvöð á kaupgreiðendur, að þeir greiði tilskilinn hluta launa með slíkum merkjum hverju sinni, sem kaup kemur til útborgunar. Helztu kostir þessa fyrirkomulags eru þeir, að slíkt sparifé kemur strax til innheimtu og vanhöld vegna innheimtunnar ættu ekki að verða teljandi. Hins vegar yrði óhjákvæmilegt að hafa strangt eftirlit með því, að kaupgreiðendur létu ekki undir höfuð leggjast að kaupa sparimerki og greiða umrædd 6% af launum með slíkum merkjum. Einnig þyrfti að hafa strangt eftirlit með því, að ekki verði um misnotkun merkjanna að ræða hjá launþegunum. Á þetta einkum við um þau tilvik, að sumir eru undanþegnir skyldusparnaði og eiga því rétt á endurgreiðslu sparimerkja svo fljótt sem við verður komið. Sparimerkjaleiðin krefur útgáfu sparimerkja og sparimerkjabóka og auk þess fjölda eyðublaða, sem töluverðan tíma þyrfti óhjákvæmilega til þess að útbúa og koma á rétta staði, þ.e.a.s. til pósthúsanna, póstafgreiðslna til afnota við slíka framkvæmd skyldusparnaðarins. Það var því augljóst, að ekki var mögulegt að ná sparnaði þessum þegar frá gildistökudegi laganna, en þau gengu í gildi þann 1. júní s.l. Að þessari leið hefði ekki verið mögulegt að koma skyldusparnaðinum í framkvæmd, fyrr en a.m.k. um miðjan júlí eða jafnvel um júlílok.

Í öðru lagi má framkvæma lögbundinn skyldusparnað á þann hátt, að skattanefndir geri skrá yfir alla þá, sem háðir eru ákvæðum laganna, og innheimtumönnum ríkissjóðs sé þá falin innheimtan með öðrum þinggjöldum. Höfuðkostur þess fyrirkomulags er sá, að ekki þarf að krefja þá, sem undanþegnir eru sparnaði samkv. 11. gr. laganna, og endurgreiðslur til þeirra koma þá heldur ekki til greina. Enn fremur er þessi leið miklu auðveldari í framkvæmd fyrir kaupgreiðendur, sem þá hefðu aðeins sömu skyldur gagnvart skyldusparnaðinum og þeir hafa nú í sambandi við greiðslu þinggjalda launþega sinna. Hins vegar eru þeir ókostir á þessu fyrirkomulagi, að spariféð innheimtist ekki fyrr en á manntalsþingum næsta árs og innheimtuvanhöld geta að sjálfsögðu orðið einhver.

Þar sem ekki var mögulegt að koma skyldusparnaðinum í framkvæmd frá gildistökudegi laganna með sparimerkjaleiðinni, var horfið að því ráði að láta skattanefndir leggja sparnaðinn á með öðrum þinggjöldum næsta árs, og verður þá að sjálfsögðu miðað við launagreiðslur frá 1. júní s.l. eða með öðrum orðum alveg frá gildistökudegi laganna. Reglugerð um þessa framkvæmd var gefin út hinn 1. okt. s.l. Það er nú í athugun að taka upp heldur sparimerkjaleiðina frá 1. jan, n.k., og hefur reglugerð um sparnað á þeim grundvelli einnig verið samin í ráðuneytinu.

Ég vil svo vona, að þessar upplýsingar nægi hv. þm. vegna áhuga hans á því, að skyldusparnaður komist í framkvæmd.