11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (2902)

28. mál, togarakaup

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég er ekki einn af þeim, sem álíta mesta nauðsyn fyrir okkur eins og nú standa sakir að leggja höfuðáherzlu á að flýta kaupum og smíði nýrra togara, þar sem vitanlegt er, að við borð liggur, að togarafloti landsins verði að hætta, af því, hversu erfið rekstrarafkoman er. En ég skal ekki fara út í þá sálma.

Mig langaði í þessu sambandi að spyrja hæstv. ráðh. tveggja spurninga út af þeim upplýsingum, sem hann gaf. Hann sagði út af lánsskilmálum í sambandi við báta, sem keyptir eru frá Austur-Þýzkalandi, að fengið væri lán til eins eða tveggja ára. Er það svo að skilja, að bátarnir eiga að greiðast framleiðendum eftir 1–2 ár, og hafa þá verið tryggð lán annars staðar, eða geta kaupendur bátanna og bankarnir greitt og yfirfært þessar upphæðir, þegar til kemur, eftir þennan stutta lánstíma, sem hann gat um?

Í öðru lagi gat hann þess í sambandi við væntanlega smíði á togurunum, að heppileg lánstilboð væru ekki fyrir hendi, en samningar um smíði skipanna verði ekki látnir dragast af þeim ástæðum. Er það svo að skilja, að ríkisstj, muni gera samninga um smíði á þessum 15 togurum, án þess að hún hafi nokkur viðunandi tilboð um lán til þess að greiða fyrir togarana?

Það er vitanlegt, að hvorki ríkisstj. né bankarnir, eins og nú standa sakir, hafa fjármagn til þess að greiða út þessa 15 togara eða greiða út fyrir smiði þessara 15 togara, ef ekki fæst lán erlendis.

Ég skildi yfirlýsingu hæstv. ráðh. þannig, að ríkisstj. mundi fara í það að láta byggja þessa 15 togara, hvort sem hún hefði viðunandi lánstilboð erlendis eða ekki.

Ég vildi gjarnan óska, að hæstv. ráðh. vildi svara þessari fyrirspurn.