11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í D-deild Alþingistíðinda. (2928)

38. mál, innheimta opinberra gjalda

Fyrirspyrjandi (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi bar ég fram þáltill. um breytingu á innheimtu opinberra skatta, sem gekk í þá átt, að skattar yrðu innheimtir jafnóðum og teknanna væri aflað. Ég varð þess var, að það var mikill áhugi hjá almenningi fyrir því, að slík breyting yrði á innheimtu skattanna, en sérstaklega varð ég var við þennan áhuga hjá daglaunamönnum og verkamönnum.

Meiri hl. allshn. fékkst ekki til þess að vera með frv. En þegar málið hafði svo legið lengi hjá n., kom formaður n, með þau skilaboð frá hæstv. fjmrh., að þetta mál hefði verið sent í athugun eða í n., ekki vissi ég, hvort heldur var, og þess vegna lagði meiri hl. n. til, að málinu yrði vísað til ríkisstj.

Ráðh. staðfesti svo við mig í samtali, að þetta væri rétt, að þetta mál væri komið í athugun. En hann fékkst ekki til að segja til um, hvenær málið hefði verið sent í athugun eða hverjir hefðu með þá athugun að gera.

Nú sást fyrir skömmu, að ríkisstj. hefur bundið sig í þetta mál í sambandi við samninga, sem hún gerði við Alþýðusamband Íslands, en ekki kemur fram af þeim samningum, hvenær af þessari framkvæmd verði, því að það fer tvennum sögum um það, hversu ákveðið loforð ríkisstj. hefur gefið Alþýðusambandinu um framkvæmdina.

Ég hef því leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. um þetta efni til hæstv. fjmrh.:

1) Hvað líður athugun fjmrn. á innheimtu skatta, um leið og teknanna er aflað?

2) Hvenær má búast við, að þessi innheimta komist í framkvæmd?

3) Er gert ráð fyrir, að samvinna komist á milli ríkis og bæjarfélaga um þetta innheimtuskipulag?