19.03.1958
Sameinað þing: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (2941)

151. mál, verðlagning á bensíni og olíu

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh, fyrir hans svör, að svo miklu leyti sem þau ná, en ég heyrði ekki, að hann gæfi skýr svör við því, hvers vegna lækkunin hefur ekki enn komið til framkvæmda á benzíni og olíu, sem verðlagsstjóri hefur staðfest að gæti átt sér stað. Og það er ekki neitt leyndarmál lengur, að benzínið gat lækkað 1. des. eða í nóvembermánuði um 8 aura, og það hefur ekki verið gert, — að það gat lækkað 1. marz um 17 aura og að olían gat lækkað um 4 aura frá 1. marz. Þetta hefur ekki enn komið til framkvæmda, og hæstv. ráðh. var að reyna að gefa skýringar á því, að það væri m.a. vegna þess, að það væri ekki samkomulag innan innflutningsskrifstofunnar um dreifingarkostnað eða álagningu á olíuverðinu.

Það er þó ekki svo mikið sem ber á milli á innflutningsskrifstofunni eða í ríkisstj., að það geti numið neitt sem nálgast þeirri lækkun, sem hér er um að ræða. Á meðan þessir herrar eru að deila og koma sér ekki saman, gætu þeir þá aðeins haldið eftir einhverju, sem næmi því, sem deilt er um, og látið lækkunina að öðru leyti koma til framkvæmda strax, og það er það, sem almenningur í landinu vill og á fullan rétt á að fram komi.

Hæstv. ráðh. gerði að umtalsefni dálítið álagningarreglur á olíu- og benzínverði, eins og þær voru 1957 í febrúar, þegar nýtt hámarksverð var sett á vegna Súezdeilunnar, og minnti þá á, hver álagningin hafði verið, t.d. á benzíni 475 kr. á tonn, en þá höfðu olíufélögin dreifinguna á sínum herðum og fengu lítið fyrir hana greitt. Dreifingarkostnaðurinn var innifalinn í álagningunni. Eftir álagningarreglurnar, sem settar voru í júlílok 1957, er álagningin, eins og hæstv. ráðh. sagði, 460 kr. á tonn á benzín, plús 41/2 eyrir á hvern lítra útkeyrðan, þegar komið er yfir vissa fjarlægð, og 3 aurar á hvern lítra hér í Reykjavík og nágrenni, og auk þess 1% álagning á kostnaðarverð og 2% á útsöluverð, en þessir liðir voru ekki áður nema að litlu leyti, aðeins 1 eyrir í staðinn fyrir 3 í útkeyrsluna, og sú álagning, sem hann nefndi, var ekki heldur með.

Þegar þetta er tekið saman, kemur í ljós, að olíufélögin hafa nú hærri álagningu, en þau höfðu með þeim reglum, sem giltu 27. febr. 1957. Og hæstv. ráðh. er óánægður með þær reglur, sem nú gilda, það heyraði ég á honum. Það kom líka greinilega fram í Þjóðviljanum 1. ágúst s.l., því að þar segir Þjóðviljinn berum orðum, að olíufélögunum hafi verið gefnar alveg „extra“ 13 millj. kr.

Ég skil ekki þá góðsemi, og ég hafði haldið, að þegar áfrýjað væri frá innflutningsskrifstofunni til hæstv. ríkisstj., hefði sá hæstv. ráðh., sem með verðlagsmálin fer, eitthvað að segja um þessi efni. Ég skil ekki í því, hvernig á því stendur, að hæstv. ráðh., sem fer með verðlagsmálin, skuli ekki, þegar mál ber þannig að, hafa neitunarvald.

Þess vegna er það, að almenningur trúir því fastlega, að hæstv. verðlagsmálaráðherra hafi samþykkt með þögninni nýju álagningarreglurnar, sem gengu í gildi 1. ágúst s.l., —álagningarreglur, sem eru olíufélögunum miklu hagstæðari en þær, sem áður giltu, þegar þessi hæstv. ráðh. talaði um okur í sambandi við álagningu hjá olíufélögunum, áður en hann komst í ríkisstj.

Það er ekki af því, að ég hafi neina löngun til þess að vera að deila við hæstv. ráðh. um þessi mál, að ég ber fram þessa fsp. hér, og hæstv. ráðh. virtist hafa skilning á því, hvers vegna það er gert. En ég er þess vegna ekki ánægður fullkomlega með þau svör, sem hæstv. ráðh. gaf. Það kemur ekki greinilega fram, hvers vegna lækkunin kemur ekki til framkvæmda, og það kemur ekki greinilega fram, hvers vegna hæstv. ráðh. stöðvaði ekki þær álagningarreglur 1. marz, sem hann er svo mjög óánægður með og gera olíufélögunum miklu léttara fyrir og skapar þeim betri aðstöðu, en þau áður höfðu undir stjórn þeirra manna, sem hæstv. núv. verðlagsmálaráðherra átaldi mjög, áður en hann komst í ríkisstj.

Ég vænti nú þess, að hæstv. ráðh. reyni að gera í fáum orðum gleggri grein fyrir því, hvers vegna útsöluverðið er ekki lækkað nú þegar. Eftir hverju er verið að bíða? Hann upplýsti, að það væri nú a.m.k. ein milljón, sem safnazt hefði fyrir, vegna þess að dráttur hefði orðið á lækkuninni. Hvers vegna fær ekki almenningur að njóta þeirrar verðlækkunar, sem orðin er á þessum vörum, þegar hann verður að taka á sig strax allar utanaðkomandi hækkanir? Og er ekki hæstv. ráðh. mér sammála um það, að byrðarnar á öllum almenningi í þessu landi í dag séu nógu þungar, þótt hæstv. ráðh. legði sitt lóð á vogarskálina til þess að létta að einhverju leyti þá bagga, þegar hann hefur vald og möguleika til þess.