19.02.1958
Sameinað þing: 28. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (3011)

Fríverslunarmálið

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur flutt hér mjög ýtarlega skýrslu um fríverzlunarsvæðið og þau vandamál, sem í sambandi við það standa, og enn fremur um það tollabandalag, sem sex Vestur-Evrópuríki nú hafa sett á hjá sér. Ég álit mjög nauðsynlegt að við ræðum þetta mál ýtarlega, ekki máske vegna þess, að þetta sé svo ákaflega brýnt. Tollabandalagið er að vísu staðreynd nú þegar, en við vitum enn þá ekki hvort fríverzlunarsvæðið kemst á né hvernig það verður, ef það skyldi komast á. Hins vegar er hér um það mikið vandamál að ræða fyrir Ísland, alla okkar atvinnuvegi og allt okkar þjóðlíf, að það er nauðsynlegt fyrir okkur frá upphafi þess, að þetta mál kemur á dagskrá, að reyna að hugsa það sem bezt, brjóta þetta vandamál til mergjar og freista þess að móta sameiginlega okkar skoðun og þar með okkar afstöðu til þessa máls.

Ég vil fyrir mitt leyti setja fram mínar hugleiðingar um þetta mál, eins og það horfir við nú, eftir þeirri þó takmörkuðu þekkingu, sem ég hef á því, og láta í ljós þá kosti og galla, sem mér finnst á þessu vera.

Ég vil þá í fyrsta lagi ræða um tollabandalagið. Hæstv. menntmrh. ræddi formlega hlið þess máls annars vegar og síðan um þau beinu áhrif, sem stofnun þess kynni að hafa á næstu árum á okkar atvinnu og sérstaklega verzlunarlíf, ef þróun þess yrði svipuð og ýmsir forsvarsmenn þess gera nú ráð fyrir. Í því sambandi verðum við alltaf hins vegar að muna, að sjálft tollabandalag þessara sex þjóða er ekki á sett með algeru samkomulagi allra þessara þjóða, heldur eftir allýtarlega baráttu innan þessara þjóða, þar sem jafnvel ýmsir af stærstu stjórnmálaflokkum þessara þjóða eru algerlega andvígir þessu bandalagi og mundu, ef þeirra áhrif vaxa í framtíðinni eða pólitískar aðstæður breytast í þessum löndum, vafalaust breyta þessu tollabandalagi, þannig að þarna er um bandalag að ræða, sem er pólitískt engan veginn í föstum skorðum og þar fyrir utan á fyrir sér til þess að komast í þær skorður, sem núverandi forsvarsmenn þess hugsa sér, að þróast í ein 10–12 ár eða máske lengur. Við skulum hins vegar jafnframt þeim hugleiðingum, sem fram hafa þegar komið um þá formlegu og þá verzlunarlegu hlið þess máls, líka gera okkur nokkra grein fyrir öðrum atriðum í því sambandi.

Eðli tollabandalagsins hvað þjóðfélagsleg áhrif snertir verður að mínu áliti það, að vestur-þýzka auðmagnið verður ráðandi í þessum löndum. Við skulum muna eftir, að þau lönd, sem þarna er um að ræða, eru mörg af mest þróuðu iðnaðarlöndum Evrópu. Á milli tveggja af þessum löndum, stærstu og ríkustu og voldugustu landanna, Vestur-Þýzkalands og Frakklands, hefur löngum verið mjög mikil deila, og ákaflega hörð deila á milli auðmannastéttanna í þessum löndum, sem m. a., eins og við vitum öll, hefur leitt til styrjalda á milli þeirra. Ég held, að það sé óhætt að ganga út frá því, að þetta ástand sé nú að allmiklu leyti breytt. Vestur-Evrópa er nú svo minnkandi þáttur í pólitík og viðskiptum veraldarinnar, að franska og þýzka auðmannastéttin eru ekki lengur þær miklu stærðir, sem þessar stéttir hafa verið undanfarna öld, og ég álít þess vegna mjög lítið til fyrirstöðu, að það náist nú samkomulag á milli þessara stétta, sem oft hefur að vísu verið reynt á undanförnum áratugum, en venjulega misheppnazt, — ég álít það engan veginn óhugsandi, að það takist nú. Hins vegar er nokkurn veginn auðséð, að í slíku samstarfi verður það vestur-þýzka auðvaldið, sem verður hið ráðandi, vegna þess að Frakkland stendur nú, eins og sakir standa, í þeirri erfiðu aðstöðu að vera hnignandi nýlenduveldi, sem er að missa sínar nýlendur, verður að heyja harðvítug, löng og dýr nýlendustríð til þess að reyna að lafa í vonlausri aðstöðu, og þessi stríð, bæði í Indó-Kína og nú Alsír, lama þannig franska auðmagnið, að þess aðstaða verður miklu lakari, en oft hefur verið á undanförnum árum og sérstaklega, en var t. d. eftir styrjöldina 1914–18. Vestur-þýzka auðvaldið hins vegar er nú laust við allar sínar nýlendur, en hefur fengið aðstöðu vegna þess, hve litlu það hefur þurft að eyða í herkostnað, til þess að skapa sér gífurlegan auð. Með þeim alkunna dugnaði, sem þýzkir hugvitsmenn og vísindamenn hafa til að bera, og með þeirri mjög svo fullkomnu hringaskipulagningu,sem vestur-þýzkt auðvald alltaf hefur haft fram yfir margar auðmannastéttir Evrópu, er nokkurn veginn gefið, að vestur-þýzka auðhringavaldið nær alveg yfirtökunum yfir því franska og þar með algerlega forustuaðstöðunni meðal þessara sex ríkja, sem mynda tollabandalagið. Og þetta er náttúrlega aðstaða, sem við þurfum að muna eftir, þegar við ræðum þessi mál, vegna þess að þarna er ekki bara um almennt lögfræðilegt form að ræða í þessu tollabandalagi, heldur verðum við að gera okkur alveg skýra hugmynd um, hvers konar þjóðfélagsleg öfl eru þarna að verki, og þar af leiðandi m. a., hvers konar keppinautum, viðsemjendum eða öðru slíku við komum til með að mæta, ef við ættum eftir að komast í nánari kynningu við þetta, að vísu máske ekki í tollabandalaginu, eins og enginn mun vafalaust leggja til, en á svæði fríverzlunarinnar.

Við skulum svo í öðru lagi gera okkur ljóst, hver muni verða þróunin um lífskjör og þá fyrst og fremst lífskjör almennings í þessu tollabandalagi. Þegar ég ræði hér um tollabandalagið fyrst, þá er það líka m. a. vegna þess, að margt um þá stefnu, sem ofan á verður í tollabandalaginu, býst ég við að endurtaki sig hvað fríverzlunarsvæðið snertir, ef það skyldi komast á.

Lífskjörin innan þessara landa, sem tollabandalagið mynda, eru allmismunandi, og það fyrsta, sem við verðum að átta okkur á fyllilega, Íslendingar, það er, hve þessi lífskjör eru miklu lakari hjá mörgum, m. a. af stærstu þjóðunum þarna, heldur en hjá okkar þjóð. Ef auðvaldssamkeppnin fær óhindrað að eiga sér stað, eins og meiningin mun vera, innan þessa tollabandalags, þá þýðir það, að sterkustu, bezt skipulögðu og tæknilega bezt útbúnu auðsamsteypurnar hafa bezta aðstöðu til þess að verða þarna voldugastar, og það þýðir um leið, að þær, eins og alltaf gerist í einu auðvaldsskipulagi, nota sér þá aðstöðu, sem fyrir er, til þess að reyna að skapa sér sem mestan gróða með því m. a. að reyna að koma kaupgjaldi með samkeppni á milli þess verkalýðs, sem er í þessum löndum, niður á það stig, að það gefi þeim sem mestan arð.

Í Frakklandi er ástandið þannig, að lífskjör verkamanna þar munu vera rúml. 50% máske nú nokkru meira — af því, sem þau voru fyrir stríð, en a. m. k. mjög miklu lélegri en þau voru á atvinnuleysisárunum og kreppuárunum fyrir styrjöldina síðustu. Það hefur orðið þveröfug þróun þar við það, sem orðið hefur hér hjá okkur, þar sem almenningur hefur átt við miklu betri lífskjör að búa, en við áttum á tímabilinu fyrir síðustu styrjöld. Í Ítalíu, sem tilheyrir þessu svæði líka, er atvinnuleysið það landlægt, að þar eru stöðugt atvinnulausir milli 1 og 2 millj. manna. Og í öllum þessum löndum er meira eða minna atvinnuleysi. Í Vestur-Þýzkalandi hefur auðvaldinu þar tekizt að halda allmikið niðri launum, þó að harðvítug barátta hafi verið háð fyrir að bæta þau.

Það er litlum efa bundið, að það auðvald, sem hugsar sér að fá þessi sex lönd sem sinn sameiginlega markað, það hugsar sér um leið að láta lögmál markaðsins, hins frjálsa framboðs og eftirspurnar, gilda vægðarlaust á þessu sviði. Það hugsar sér að láta atvinnuleysið, sem er lífsskilyrði þess, að auðmagn geti drottnað í einu þjóðfélagi, að nota atvinnuleysið, sem er landlægt í stórum hluta þessa bandalags, til þess að þrýsta niður lífskjörunum á það stig, sem þau eru lægst í þessari samsteypu. Ég varð líka var við það, þegar rætt var um þetta tollabandalag í Norðurlandaráðinu í Helsingfors síðast, að það kom greinilega fram sá ótti, ekki sízt hjá ýmsum af forsvarsmönnum sósíaldemókratísku flokkanna á Norðurlöndum, að afleiðingar af svona bandalagi mundu verða þær, að tilhneiging yrði, t. d. ef eitthvert Norðurlanda tæki þátt í svona tollabandalagi, til að þrýsta lífskjörunum niður á það stig, sem þarna væri lægst, og allir vitum við, að lífskjör á Norðurlöndum eru allmiklu hærri, en þau eru í þessum löndum, sem þátt taka nú í tollabandalaginu. Og sömuleiðis varð maður var við það í einkaviðtölum við ýmsa hægri menn í stjórnmálaflokkum Norðurlanda, að þeir sögðu allhvatskeytlega, að sósíaldemókratar væru auðsjáanlega að hugsa um það, að tryggingakerfið þeirra og svoleiðis nokkuð geti haldizt. Það væri nú ekki alveg vist, að það væri hægt að flíka öllu slíku, ef menn væru komnir inn í svona landalög.

Ég held það sé engum efa bundið, að stóru auðfélögin í þessum tollabandalagslöndum, og sum þeirra, ekki sízt í Svíþjóð, sem hafa nú orðið voldugust og helzt fær um að keppa á erlendum vettvangi, mundu hugsa sér gott til glóðarinnar að knýja niður lífskjörin með vægðarlausri samkeppni og með atvinnuleysissvipunni, sem verkamennirnir í þessum löndum ættu þá alltaf yfir höfði sér. Við verðum þess vegna að gera okkur ljóst, að hættan á þróuninni um lífskjör í þessum löndum er sú, að þau þróist til hins lakara, að þau fari niður á við og að þær auðhringasamsteypur, sem ráðandi yrðu í þessum löndum, mundu af eðlilegum ástæðum beita sér fyrir slíku.

Ég held, að okkur sé ákaflega nauðsynlegt í sambandi við allar okkar umræður um Vestur-Evrópu og það tollabandalag þessara Vestur-Evrópuríkja, sem þarna er um að ræða, að gera okkur grein fyrir þeirri gífurlegu breytingu, sem orðið hefur í veröldinni á síðustu áratugum. Þegar við lærðum okkar mannkynssögu í skóla eða jafnvel okkar landafræði, þá hætti okkur alltaf við að líta á Vestur-Evrópu í raun og veru sem heiminn. England, Frakkland, Þýzkaland, þetta voru iðnaðarveldi veraldarinnar, þetta voru brautryðjendalöndin, og þetta voru löndin, sem næstum því höfðu skipt á milli sín veröldinni. Vesturlönd, það voru þau lönd, sem svo að segja réðu heiminum í krafti þess, að þau höfðu orðið þau fyrstu til að skapa stóriðjuna, skapa þar með hærri lífsstandard og stórkostlegri framleiðslu, en öll önnur lönd í veröldinni. Við skulum gera okkur ljóst, að þessi stóriðjueinokun Vestur-Evrópu er horfin og kemur aldrei aftur. En mörgum af forgöngumönnum í Vestur-Evrópu hættir enn þá við að halda, að Vestur-Evrópa sé eins konar, ja, einblína á naflann sinn og halda að þetta sé miðpunktur heimsins. Það er ekki svo. Vestur-Evrópa er í hnignun. Vestur-Evrópa er að missa þau tök, sem hún hefur haft á heiminum, og það eru að rísa upp aðrar þjóðir utan Vestur-Evrópu, eru að skapa sér stóriðju í stórum stíl og munu skapa hana í enn þá stærri á næstu áratugum. Einokun Vestur-Evrópu er farin veg allrar veraldar. Við sjáum aðeins þróunina hvað iðnaðarframleiðsluna snertir, þar sem Vestur-Evrópa 1913 hafði helminginn af öllum iðnaði heimsins. Þróunin er sú t. d. frá því 1913 til 1952 hvað snertir hlutfallið í iðnaði veraldarinnar, að Ameríka hefur farið úr 36% upp í 41%, Sovétríkin hafa farið úr 4% upp í 16% og Vestur-Evrópa hefur minnkað úr 62% niður í 33% og á það auðsjáanlega fyrir höndum að minnka stórkostlega enn þá. Það, sem raunverulega er að gerast núna hvað snertir Asíu og Afríku og Suður-Ameríkulöndin, sem Evrópumönnum hættir við að líta á sem eins konar hráefnalindir og markaði fyrir sig, það er, að það fer fram samkeppni í veröldinni á milli sósíalistísku landanna annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar um að skapa stóriðju í öllum þessum löndum.

Þetta þurfum við að gera okkur ljóst, þegar við metum það vald og þau áhrif, sem tollabandalag í Vestur-Evrópu hefur annars vegar fyrir heiminn og hins vegar gagnvart okkur, og svo verðum við að taka tillit til, hvernig þessu tollabandalagi verður háttað hvað þjóðfélagsfyrirkomulag snertir, að við göngum út frá því, að þar verði engar stórar þjóðfélagslegar breytingar á næstunni.

Í tollabandalagi Vestur-Evrópu megum við búast við kreppum og atvinnuleysi, eins og er hið eðlilega hlutskipti auðvaldslanda. Við höfðum nokkra reynslu af, hvað fyrir okkur þýddi slík kreppa og slíkt atvinnuleysi þar á árabilinu 1930–40. Við fengum ofur lítinn smjörþef af því aftur 1950–52 og við sáum þá, hve valt var að byggja okkar verzlun og viðskipti á þessum löndum, þó að við hefðum um langan tíma haft við þau mikil viðskipti, og hve fjarri því var, að við gætum treyst á þau ein.

Allt þetta verðum við að muna: þjóðfélagslegt eðli þessara landa, þróunina, sem þar er um lífskjör, hætturnar, sem þar eru af þeim kreppum og því atvinnuleysi, sem með vissu millibili mun þar geisa og við mundum þá jafnt verða hluttakendur að, ef við værum bundnir slíku bandalagi, sem þetta núverandi tollabandalag, sem myndað hefur verið, væri aðalþátturinn í.

Þetta eru almennar hugleiðingar viðvíkjandi eðli þessa bandalags og þess vegna líka þess þjóðfélagslegu áhrifum á okkur. Við skulum svo hins vegar athuga þau beinu áhrif, sem það mundi hafa nú, ef þetta tollabandalag væri komið til framkvæmda, og það, sem hæstv. menntmrh. benti á í því sambandi.

Þegar við reiknum út, hvaða vörur það eru af okkar útflutningsvörum, sem þetta tollabandalag að einhverju leyti hefði áhrif á, þá þurfum við að muna, að um vissa hluti af okkar útflutningsframleiðslu erum við ekki háðir því nokkurn skapaðan hlut, þó að við flytjum ýmislegt af henni til þessara landa nú. Um þorskalýsi, fiskimjöl og annað slíkt, sem margt af þessum löndum kaupir af okkur, erum við ekki háðir þeim með nokkurn skapaðan hlut. Það eru vörur, sem þeir sækjast eftir og allur heimurinn sækist eftir, þannig að sá hundraðshluti af okkar útflutningsframleiðslu, sem fer til þessara landa í formi þessara útflutningsvara, gerir okkur ekki að neinu leyti háða þessu tollabandalagi eða skapar neinar hættur fyrir okkur af því. Það, sem hins vegar skapar þarna hættu, er fyrst og fremst nokkuð af óverkaða saltfiskinum og skreiðinni. Og varðandi óverkaða saltfiskinn, þá er það, eins og hæstv. menntmrh. ræddi um, fyrst og fremst Ítalía. 1957 höfum við flutt út til Ítalíu óverkaðan saltfisk fyrir 19 millj. kr. Við skulum ekkert fullyrða um það, að sá markaður mundi tapast, þó að tollabandalagið væri myndað. Ef Vestur-Þýzkaland færi að koma sér upp allmikilli saltfisksframleiðslu til þess að geta tekið þann markað af okkur, þá er það hugsanlegt, að þessi markaður mundi tapast. Út af fyrir sig er það slæmt. En það er engin hætta, sem getur haft áhrif á þjóðarbúskap Íslendinga, í því fólgin, þó að markaður tapaðist fyrir 19 millj. kr., þó að þetta sé vitanlega góður markaður, sem við vildum gjarnan halda. Með okkar fiskútflutningi upp á 800–900 millj. er okkur enginn vandi að bæta okkur þetta upp og meira til. Við höfum nú á síðustu áratugum unnið meira þrekvirki, en að breyta okkar fiskverkun þannig, þó að þau gömlu Suðurlönd, sem áður voru svo að segja okkar úrslitamarkaðir í þessu, brygðust okkur. Í heimskreppunni síðustu höfum við sýnt, að við höfum verið færir um að margfalda okkar fiskframleiðslu og verka fiskinn meira og hagnýta. Það er því engin hætta fyrir okkur af þessu, þó að það séu viss óþægindi.

Þá er viðvíkjandi skreiðinni. Ítalía kaupir nú fyrir um 7 millj. af þeirri útflutningsframleiðslu upp á 93 millj. á s. l. ári. Vestur-Þýzkaland kaupir rúma eina milljón, og það má vel vera, að þeir fari að taka upp líka skreiðarframleiðslu í þessum löndum, — hingað til höfum við haft það einir, Norðmenn og Íslendingar, — þá gætu þeir tekið þennan markað af okkur. Það er ekki sérstaklega líklegt, en það er hugsanlegt. Og það eru ekki heldur hundrað í hættunni, þó að svo færi, að þessi ítalski markaður kynni að glatast, sem ekki er nú að mínu áliti sérstaklega líklegt. En ég skal þó fyllilega reikna með því, að það sé til í málinu, sérstaklega að Vestur-Þýzkaland mundi reyna að leggja þessa markaði undir sig.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að okkar hluti í heimsverzluninni mundi rýrna við tilkomu tollabandalagsins. Það er rétt að því leyti, að það mundi falla máske í burtu þarna ofur lítil prósenttala af þeim útflutningi, sem við höfum haft til ákveðinna landa. En það liggur ekki fyrir, að það sé nokkur vandi fyrir okkur Íslendinga að vinna það tap upp hjá öðrum þjóðum, því að það er vitanlegt, að við erum í vandræðum með að framleiða nægan fisk til þess að geta sinnt þeirri eftirspurn, sem er eftir okkar fiski, þannig að þarna er ekki um það að ræða, að við þurfum neitt að óttast af þessu tollabandalagi. Við yrðum þarna fyrir ofur litlum óþægindum, sem við með því að hugsa fyrir þessu í tíma gætum alveg afstýrt, þannig að það kæmi aldrei við okkur.

Þá talaði hæstv. menntmrh. um, að við mundum hafa von um freðfiskmarkað í Frakklandi og fleiri löndum, af því að ætla mætti, að þarna kæmi upp í framtíðinni mikið kerfi ísskápa í verzlunum, þannig að hægt væri að selja okkar freðfisk á þann hátt.

Ég býst við, að við séum nú allir sammála um, að ekki viljum við selja neina vissu, sem við höfum um að selja okkar freðfisk nú, fyrir von um markað í framtíðinni í Frakklandi eða öðrum slíkum löndum. Og það er rétt að athuga annað. Ef svo skyldi fara, að Vestur-Þýzkaland og sá mikli togarahringur, sem þar er að verki og er nú að auka í sífellu sína framleiðslu, ef það yrði aðalkeppinauturinn fyrir okkur og hugsaði til þess að fara að reyna að keppa á þessum mörkuðum, sem ekki væri ólíklegt, ekki aðeins á saltfisks- og skreiðarmörkuðum innan tollabandalagsins, heldur líka gera mögulega sölu á freðfiski, þá er það ekki ólíklegt, því að við vitum, að hér er um mjög voldugan og sterkan auðhring að ræða, að þegar þeir færu að vinna að slíku, mundu þeir koma sér upp all-margþættu kerfi, þar sem fælist í mikill kæliútbúnaður: kæliflutningalestir, kæliskápar eða ísskápar í verzlunum og öðrum lagerplássum, og að mjög mikið af slíku mundi vera í eigu slíks hrings, og við þekkjum það, að á þeim stöðum, þar sem samkeppnis- eða auðvaldsskipulag fær að viðgangast tiltölulega skefjalaust, þar reyna hringarnir í krafti síns mikla fjármagns að einoka slík tæki fyrir sig til þess að tryggja sér og framleiðslu sinni þar með sölumöguleikana, einoka fyrir sig markaðinn, og það er hætta á, að innan svona tollabandalags, ef t. d. þýzku fiskframleiðsluhringarnir fara inn á það að berjast þarna og ætla sér þessa markaði, að þeir reyni að einoka þá með slíkum tækjum í krafti síns fjármagns, og þá mundi hvort sem er af slíkum ástæðum verða mjög erfitt fyrir okkur sem litla aðila að eiga að fara að keppa að, eins og líka hæstv. menntmrh. kom inn á, þegar hann ræddi um, að ekki mundum við geta sett upp neitt ísskápakerfi í þessum löndum til þess að vinna þar upp markað fyrir freðfisk. Hins vegar er ég nú ekki alveg viss í, að þessi verði einu sinni þróunin, við skulum segja t. d. í Frakklandi. Mér sýnist með þeirri pólitík, sem Frakkland nú rekur, að þar komi lífskjörin til með að hrörna, enda franska þjóðin í slíkri sífelldri kreppu og vandræðum, að þeir menn, sem þar ráða, virðast ekkert sjá út úr því. Ég er hræddur um, eigi sú pólitík, sem nú er þar rekin, að halda áfram, að þar sé frekar útlit fyrir lækkandi lífskjör og minnkandi möguleika á markaði fyrir eins góða vöru og freðfiskinn. Hins vegar ef þetta breytist, ef sú stefnubreyting verður í Frakklandi, að hætt verði við stríð eins og Alsírstríðið og þessar nýlendur í Afríku endanlega gefnar upp, þá verður það ekki gert nema af svo mikilli þjóðfélagslegri breytingu í Frakklandi, að það þýðir um leið að raska þessu tollabandalagi.

Þess vegna höfum við viðvíkjandi tollabandalaginu engu að kvíða. Það er rétt fyrir okkur að gera í tíma ráðstafanir til þess, að ef við kynnum að tapa þessum markaði fyrir 20–30 millj. kr. í óverkuðum saltfiski og skreið, sem þar kann að vera, þá verðum við aldrei í neinum vandræðum út af þessu tollabandalagi.

Þá er fríverzlunarsvæðið. Það er miklu stærra og alvarlegra mál. En um það mál er rétt að segja það strax, að þar erum við raunverulega að ræða um teoríu, þar erum við að ræða um hugmynd, ekki um staðreynd, eins og tollabandalagið er, byrjandi staðreynd, hún er á frumstigi enn þá.

Hvað fríverzlunarsvæðið snertir er allt enn þá í óvissu, hvort þetta fríverzlunarsvæði verður nokkurn tíma til, eða ef það verður til, hvernig það verður, og það held ég að sé rétt að við gerum okkur alveg greinilega ljóst, þegar við erum að ræða þetta núna. Þar fyrir álit ég alveg rétt, að við ræðum þetta ýtarlega núna og að hvað það snertir sé þess vegna ræða og skýrsla hæstv. menntmrh. orð í tíma töluð, það sé alveg nauðsynlegt, að við skiptumst á skoðunum um þetta mál og reynum að gera okkur sem raunhæfasta mynd af, hvað þessi hugmynd um fríverzlunarsvæðið mundi þýða, ef hún yrði framkvæmd og ef hún yrði eitthvað í líkingu við þá mynd, sem ýmsir af hennar forsvarsmönnum vilja gera sér um það svæði nú. Og eitt vil ég segja strax viðvíkjandi því. Eitt finnst mér a. m. k. víst um þessa hugmynd, og það er, að við Íslendingar getum aldrei annað en tapað á henni, ef hún kemst í framkvæmd. Við höfum ekkert á neinu sviði við hana að vinna, en nokkru að tapa, ef hún kemst í framkvæmd, þannig að ef það ætti að standa í okkar valdi að ráða því, hvort þetta kæmist í framkvæmd, sem ég veit nú að vísu að ekki verður, þá álít ég, að við ættum að gera allt, sem í okkar valdi stendur til þess að hindra að sú hugmynd yrði nokkurn tíma að veruleika. En með þeim forsendum, sem eru þær sömu og hæstv. menntmrh. hafði, ef þessi hugmynd skyldi komast í framkvæmd og ef hún skyldi verða í einhverju svipuðu formi og ýmsir forsvarsmenn hennar gera sér nú ljóst, því að þeir gera sér ekki allir sömu hugmyndirnar um það, þá er rétt fyrir okkur frá upphafi að hugleiða þetta, því að því ýtarlegar sem við hugleiðum það og betur, fordómalausar, því meiri möguleikar ættu að vera á því fyrir okkur að skapa þá aðstöðu hjá Íslendingum gagnvart því, sem heillavænlegust yrði.

Hæstv. menntmrh. skýrði frá því, að það mundi raunverulega einkenna þetta fríverzlunarsvæði, ef það kæmist á, að innan fríverzlunarsvæðisins yrðu tollar afnumdir milli landanna, sem í því væru, en hins vegar mundi hvert ríki um sig innan fríverzlunarsvæðisins sjálft ráða því, hvaða tolla það hefði annars staðar, og hæstv. ráðh. dró þá ályktun út af þessu, að við mundum verða að afnema tolla gagnvart þeim ríkjum, sem væru á fríverzlunarsvæðinu.

Hins vegar út frá okkar miklu viðskiptum bæði við sósíalistísku löndin og við Bandaríki Norður-Ameríku mundi það vera óhugsandi ástand fyrir okkur að ætla að mismuna Vestur-Evrópulöndunum annars vegar og svo Bandaríkjunum eða Sovétríkjunum og öðrum löndum kannske í Austur-Evrópu hins vegar. Við mundum þess vegna, ef við yrðum í fríverzlunsvæðinu, ekki aðeins verða að afnema tollana gagnvart samstarfslöndum okkar í fríverzlunarsvæðinu, heldur líka gagnvart öllum öðrum viðskiptalöndum okkar, m. ö. o.: við yrðum að vera líklega eina tollfrjálsa landið í veröldinni, og mikið væri okkur þá farið undarlega fram, ef við gætum það.

Enn fremur tók hann greinilega fram, að við yrðum að afsala okkur öllum mögulegum innflutningshömlum, það yrði eingöngu að gera fjármálalegar ráðstafanir, ef við ætluðum að beita einhverjum áhrifum hins opinbera á innflutning, verðlag og annað slíkt, eða m. ö. o. gengisbreytingar.

Við skulum ofurlítið athuga þetta. Í fyrsta lagi, þegar hæstv. menntmrh. talar um að afnema tollana og gerði svo nokkurn greinarmun á verndartollum annars vegar og fjáröflunartollum hins vegar, þá held ég við þurfum nú frá upphafi, þegar við byrjum að ræða þetta, a. m. k. okkar á millj. alveg hreinskilnislega að gera okkur ljóst, hvað það er, sem við tölum um. Ég held, að við höfum sett mjög lítið af okkar tollum á á Íslandi í því skyni, að þeir væru verndartollar. Að vísu höfum við kannske gert það með einstaka þeirra, en flesta þeirra höfum við sett á til þess að afla okkur fjár, og síðan hafa á eftir kannske innlendar iðngreinar sprottið upp í skjóli þessara fjáröflunartolla. Og ég vil segja það hér: Er það okkar meining, að þó að við værum í fríverzlunarsvæði Vestur-Evrópu og skuldbindum okkur til að afnema verndartolla, að þá hefðum við eftir sem áður rétt til að setja á hvers konar fjáröflunartolla, sem við viljum, hvers konar söluskatt á innfluttar vörur, sem við viljum, hvers konar innflutningsgjald á innfluttar vörur, sem við viljum, og hvers konar önnur ný heiti, sem við með okkar hugviti kunnum að finna upp í framtíðinni til þess að leggja á ýmsar vörur til þess að afla okkur fjár í ríkissjóðinn og til þess að hafa ýmis áhrif á okkar þjóðarbúskap? Má það bara ekki heita verndartollar? Er það m. ö. o. klauflaxinn og sú pólitík, sem við eigum að fara inn á, eða er meiningin, að við eigum að vera heiðarlega með í svona fríverzlunarsvæði, að við eigum ekki að leggja á neina tolla í neinni mynd á þá vöru, sem inn kemur, hvort sem þeir kæmu til með að heita fjáröflunartollar, söluskattur eða annað slíkt, innflutningsgjöld, útflutningsgjald eða hvað sem það annars heitir?

Þetta held ég að við verðum að gera okkur ljóst frá upphafi. Það getur máske verið allt í lagi, að við segjum: Jú, við ætlum að vera með, ef við fáum að plata náungann, ef við fáum að snúa á þá þarna alla saman hina og kalla þetta klauflax, þegar þar að kemur. — En við skulum gera okkur það ljóst sjálfir, hvort við ætlum að gera þetta, hvort við viljum gera þetta, hvort við viljum vera með upp á slíkar spýtur eða hvort við göngum út frá því, að við fengjum ekki einu sinni að vera með upp á slíkar spýtur, heldur yrðum við að vera heiðarlega með.

Hæstv. menntmrh. kom svo hins vegar inn á það, að við yrðum að afsala okkur öllum innflutningshömlum. Það þýðir, að við verðum að samræma okkar verðlag við það verðlag, sem væri í þessum fríverzlunarlöndum, og við yrðum að gera þetta með fjármálaráðstöfunum.

Við skulum gera okkur ljóst, hvað þetta mundi þýða og hvað það er, sem við eigum við, þegar við tölum um þetta svona, að við ætlum að gera okkar land að eina tollfrjálsa landinu í heiminum, þar sem allir mættu flytja inn allar vörur og þar sem engir tollar yrðu lagðir í neinu formi á neina vöru, sem inn væri flutt, og við yrðum síðan að samræma allt verðlag hér innanlands. Og þegar við tölum um verðlag, þá er það ekki aðeins, hvað mjólk eða kjöt á að kosta, heldur líka, hvað vinnuaflið á að kosta, það þýðir verðlag og kaupgjald á öllu slíku. Það þýðir sem sé að samlaga verðlag á vinnuafli verkamanna, bænda og sjómanna því verðlagi, sem gildir á þessu fríverzlunarsvæði. En þó erum við þar berskjaldaðri, en allir aðrir. Við mundum, eins og hæstv. menntmrh. kom inn á, verða að ganga lengra, en allir aðrir í því að opna landið fyrir öllum með tollaleysi og afnámi innflutningshamla, fyrir öllum löndum, ekki aðeins Vestur-Evrópu, heldur líka þeim í Ameríku og Austur-Evrópu, sem kærðu sig um að flytja hingað eða hafa við okkur viðskipti. Og við skulum alveg gera okkur ljóst, að þetta þýðir að gera íslenzka verkamenn og bændur og aðra vinnandi menn á Íslandi fátækari og skapa þeim lélegri lífskjör og setja verðlagið á þeirra vinnu og þeirra afurðum langt niður fyrir það, sem það er nú, samræma þetta niður á við, vegna þess að okkur hefur með okkar stefnu hér á Íslandi yfirleitt tekizt að skapa hærri og betri lífskjör fyrir þetta fólk, en eru á mestöllu þessu svæði, sem mundi tilheyra fríverzluninni, og það mun ég nú á eftir koma nánar inn á.

En viðvíkjandi þessu tollaspursmáli, þá vil ég aftur taka það fram, að ef við erum að ræða þetta í alvöru, þá álít ég, að það sé ekki hægt að fara þannig að, ef við ætlum að vera í fríverzlunarsvæðinu, að við endursköpuðum tollana undir nýjum nöfnum. Það mundi okkur ekki haldast uppi, og við yrðum þess vegna að reikna þetta dæmi út frá því, að við værum að afnema alla tolla. Og hvaða afleiðingu mundi það hafa? Hvaða áhrif mundi það hafa á okkar núverandi atvinnuvegi?

Við skulum taka landbúnaðinn, eins og hv. þm. V-Húnv. var að tala um sem okkar elzta atvinnuveg. Það er rétt hjá honum, að mjólkurframleiðslan fyrir neyzlumjólk mundi haldast. Og þá neyzlumjólk, sem við þurfum, getur örlítill partur af þeim bændum, sem nú starfa á Íslandi, framleitt. Það er rétt, að íslenzkt dilkakjöt er að mörgu leyti betra, en margt útlent kjöt og við sérstaklega vanari við það. En það er ekki víst, að það yrði afgerandi, þegar miklu fátækara fólk á Íslandi, en nú er hér ætti að fara að kaupa ódýrar vörur í búðum hér og hefði til samkeppni helmingi eða þrefalt ódýrara argentískt kjöt eða annað slíkt, að menn hefðu efni á að kaupa það dilkakjöt. Hvað snertir ost og smjör og annað slíkt er greinilegt, hvernig fara mundi. Þetta mundi þýða að koma landbúnaðarframleiðslunni niður í það að vera framleiðsla á neyzlumjólk og minnka bændastéttina sem því svaraði. Ef til vill tækist okkur að halda einhverjum sauðfjárbúskap við, en hann væri a. m. k. allur í hættu. Og við mun lélegri kjör mundu þeir bændur þá lifa, en þeir þó lifa nú.

Ég er hræddur um, að okkar landbúnaður, sem hvað mest hefur nú verið verndaður af öllu hér, mundi standa mjög erfiðlega að vígi í slíku fríverzlunarvæði og að það rót mundi verða á íslenzkri bændastétt, íslenzkri bændamenningu og öllum íslenzkum landbúnaði, það skjótt og það mikið, að ekki bara okkar atvinnulíf, heldur sérstaklega okkar þjóðlíf mundi ekki bíða þess bætur.

Hvað okkar iðnað snertir, sem er sú grein, sem flestir lifa hér af og margt má um segja, ýmislegt af honum er vissulega skapað í skjóli hárra tolla, hvað sem þeir nú kunna að heita, en annað allgott og sérstaklega sjávarútvegsiðnaðurinn. Hræddur er ég samt um, að það yrði ekki sérstaklega mikið af þeim iðnaði, sem stæðist, ef allt væri opnað hér. Það er eðli iðnaðarþróunar, að þeir stóru bylta burt þeim smáu, og allur íslenzkur iðnaður er smár samanborið við það, ef einhverjir útlendir stóriðjuhringar hefðu áhuga fyrir þyí að koma hér upp stóriðnaði í einhverri mynd. Þannig er hætta á, að iðnaðurinn hér á Íslandi mundi kollvarpast, meginið af honum.

Sjávarútvegurinn er tvímælalaust það, sem mundi standast skást, og færi það þó eftir atriðum, sem hæstv. menntmrh. benti réttilega á að erfitt væri að gera sér grein fyrir nú, hvernig okkur gengi að halda þeim mörkuðum, sem við höfum bæði í Austur-Evrópu og Bandaríkjunum, ef við værum þátttakendur í svona fríverzlunarsvæði. Það mundi skapa nokkra möguleika, ef við opnuðum tollamúrana eða afnæmum tollana gagnvart Bandaríkjunum og ríkjum Vestur-Evrópu, en þá væri það alveg undir hælinn lagt, hvernig færi með samkeppnina frá þeim löndum um iðnaðarvörurnar, sem þeir seldu hingað, og vörurnar frá Vestur-Evrópu, vegna þess að þegar ætti að fara að selja frjálst hér, — við skulum bara taka dæmi um það, sem við kaupum nú fyrst og fremst frá Sovétríkjunum, eins og olíuna, — ef amerískir hringar eru að selja hér olíu eða vestur-evrópsku hringarnir eru að selja hér olíu og ef Sovétríkin og þeir ríkishringar, sem þar eru, selja hér olíu og allir þessir aðilar eru að keppa hér um þetta, þá er það alveg undir hælinn lagt, hve mikið það er, sem seljast kann af olíu t. d. frá Sovétríkjunum, og þess vegna, hve mikið það er, sem við gætum í staðinn selt þangað af fiski. Nú ráðum við þessu með okkar viti. Þá eigum við það undir tilviljunum, sem við höfum ekki hugmynd um.

Þess vegna gæti eins svo farið, þegar svona væri opnað, að við misstum meira eða minna af þeim mörkuðum, sem við höfum. Það gæti gengið vel þetta árið og illa hitt. Við höfum aldrei hugmynd um, hvað út úr því kæmi. Og okkar fiskframleiðendur, sem núna geta verið öruggir og við getum núna sagt við: Framleiðið eins og þið getið. Við seljum allt. Við höfum öruggan markað fyrir allt saman. Og ef þið getið framleitt enn þá meira en þið gerðuð s. l. ár, þá gerið það, — við gætum aldrei sagt neitt slíkt við þá. Bankarnir mundu meira að segja verða dauðhræddir að lána þeim fé, lána þeim út á birgðir, vegna þess að þeir hefðu ekki hugmynd um, hvort þessar birgðir mundu seljast. Þeir mundu muna gamla tíma, þegar keyra varð birgðirnar í sjóinn að lokum, af því að hvergi fengust neinir til að kaupa þær, eða þá að hætta hins vegar við að framleiða, af því að enginn markaður var öruggur.

Þetta er það, sem við verðum að horfast í augu við, ef til þess kæmi, að við opnuðum þetta allt saman.

Fyrsta afleiðingin af slíku hér á Íslandi mundi vera gífurlegt atvinnuleysi og veruleg uppflosnun í sveitunum og stórkostleg lækkun á kaupi og rýrnun á lífskjörum. Þetta væri óhjákvæmilega höfuðafleiðingin af því, að við yrðum að opna landið með afnámi allra okkar tolla og innflutningshamla fyrir öllum þeim aðilum, sem við hefðum von um að vildu kaupa af okkur fisk og selja hér vörur. Við leiddum með því þá algeru óvissu yfir allt okkar athafnalíf, sem einkenndi okkur á tímabilinu eftir 1930 og við vorum að reyna að brjótast út úr þá.

Ég held, að þetta verðum við að horfast í augu við, vegna þess að þetta er það raunhæfa innihald, ef þetta fríverzlunarsvæði yrði myndað og ef þetta kæmist á í einhverju svipuðu formi og við höfum þarna verið að gera okkur hugmynd um. Þetta yrði innihaldið í því.

Það er gefið, að í fríverzlunarsvæðinu mundi verða sú eðlilega tilhneiging að samræma verðlag. Það þýðir um leið að samræma lífskjör, — það verðum við að gera okkur ljóst, — og það þýðir að samræma lífskjör t. d. íslenzkra verkamanna og íslenzkra bænda þeim lífskjörum, sem yfirleitt eru með þeim lélegustu á þessu svæði, vegna þess að þeir hringar, sem drottna fyrst og fremst í atvinnulífinu á svona fríverzlunarsvæði, hafa gróðann einan að sínum tilgangi, hagnýta þær aðstæður, sem þar eru fyrir hendi, samkeppnina um vinnuaflið, atvinnuleysið, sem þar er til, og það þýðir alltaf, að þeir þrýsta hjá þeim vinnandi fjölda lífskjörunum niður á við, niður í það, sem lélegast er. Þetta er hættan, sem þarna er fram undan. Og þetta er sú hættan, sem ég varð líka alveg greinilega var við, eins og ég gat um áðan, að þeir menn á Norðurlöndum ýmsir, sem mest hugsa um þetta frá báðum hliðum, gera sér nokkuð ljósa grein fyrir margir hverjir.

Það er nefnilega svo, að við erum oft að skammast út í alla þessa tolla og allar þessar innflutningshömlur og allt þetta eftirlit með innflutningi og allt saman slíkt og oft ekki að ástæðulausu, bæði af því að okkur þykja múrarnir háir og af því að okkur fer þetta, eins og eðlilegt er, misjafnlega úr hendi. En við gáum ekki að því um leið, þegar við förum að tala um máske að afnema þetta allt saman, að þetta eru samt sem áður múrar, sem vernda okkur gegn ýmsum holskeflum, sem færu máske nokkuð illa með okkur, ef þær fengju að dynja óbrotnar hér yfir. En að því skal ég koma nánar.

Hæstv. viðskmrh. talaði um, að ef við værum með í fríverzlunarsvæðinu, þá mundum við losna við erfiðleika, sem búast má við. Það er rétt út af fyrir sig að vera alltaf við erfiðleikum búinn. En við höfum sem stendur ekki erfiðleika um markaði fyrir okkar vörur, og við höfum fyrirsjáanlega ekki erfiðleika með þá. Við, sem munum kreppuna 1930 og þar á eftir, vitum, hvað það þýðir að vera lausir við þann ótta, að slíkt kunni að koma yfir. Ég sé satt að segja ekki þá erfiðleika, sem við þurfum að búast við á þessu sviði. Þá örlitlu erfiðleika, sem ég sé í sambandi við tollabandalagið, er auðvelt að losna við, og eins og ég skal koma inn á nú á eftir, þá held ég, að við getum líka yfirunnið þá erfiðleika, sem mundu vera á fríverzlunarsvæðinu, þó að það væri myndað án okkar þátttöku.

Hæstv. menntmrh. talaði um, að ef við værum utan við fríverzlunarsvæðið og Norðmenn væri innan þess, þá mundu af því hljótast allmiklir erfiðleikar fyrir okkur. Jú, vissulega nokkrir. Aðstaðan er þannig nú milli okkar og Norðmanna, að okkur vantar fisk til þess að geta selt, til þess að geta selt meira, en við framleiðum. Norðmenn eru sem stendur í vandræðum með að selja þann fisk, sem þeir framleiða. Við getum áfram selt okkar fisk og getum skapað okkur stórkostlega markaði fyrir hann. Ég mundi satt að segja unna frændum okkar, Norðmönnum, þess vel, ef þeir gætu búið að þessu fríverzlunarsvæði og bætt ofurlítið sína erfiðu aðstöðu í fisksölumálunum. Þeir hafa verið í nokkrum vandræðum með að bjarga sér á þessu sviði, en við höfum ekki verið í neinum vandræðum með að bjarga okkur.

Hæstv. menntmrh. talaði um, að ef við værum utan við fríverzlunarsvæðið, þá mundi það þýða gífurlega erfiðleika fyrir íslenzka útflutningsatvinnuvegi, og talaði hins vegar um, að hagurinn gæti orðið mjög mikill, ef við værum með. Við skulum ofurlítið athuga þetta.

Í fyrsta lagi hvað snertir þá, sem væru með okkur á þessu fríverzlunarsvæði, en þetta fríverzlunarsvæði yrði fyrst og fremst tollabandalagslöndin og jafnvel þó að það yrði meginið af þeim löndum Vestur- og Norður-Evrópu, sem hann talaði um, þá skulum við muna eitt hvað fiskinn snertir og fiskframleiðslu og fisksölu, að innan þessa svæðis eru einmitt mörg af mestu fiskframleiðslulöndum Evrópu og heimsins, þannig að innan þessa svæðis mundum við hvort sem er vera í harðvítugri samkeppni við Norðmenn og aðrar fiskframleiðsluþjóðir, eins og Englendinga, Dani og Vestur-Þjóðverja, þannig að þarna mundu alls staðar vera okkar keppinautar að verki, — keppinautar, sem á þessu svæði stæðu að ýmsu leyti vegna þess, hve þeir eru stórir og ríkir, eins og t. d. Vestur-Þjóðverjar og Englendingar, betur að vígi en við vegna síns auðmagns. Og af því að við ættum að keppa á þessu svæði við þá, stæðum við sem litlir og fjárvana oft erfiðlega að vígi í þeirri keppni og hætta á, að við yrðum oft troðnir niður, og það er sú reynsla, sem við höfum, þegar við höfum ætlað að takmarka okkur við þetta svæði. Ég býst satt að segja við, að einmitt þeir, sem höfðu mesta reynsluna af því, hvað það þýddi að vera takmarkaðir við t. d. Suður-Evrópulöndin, þó að það reyndust þrátt fyrir erfiðleikana í kreppunni að mörgu leyti okkar föstustu markaðir, og þeir, sem höfðu reynsluna að, að vera upp á Bretann komnir á millistríðsárunum, þeir líta flestir svo á, að það væri ekki gott fyrir okkur Íslendinga að vera einvörðungu upp á þessa aðila komnir aftur. Hvað snertir hins vegar, ef við færum meira að skapa hér hjá okkur stóriðju, eins og okkur dreymir um í framtíðinni, og við ættum jafnframt sjávarútveginum sem útflutningsafurð að lifa af stóriðjuframleiðslunni til útflutnings, þá skulum við líka muna, að þarna eru margar mestu stóriðjuþjóðir heimsins, sem við þá einmitt yrðum þar að keppa við. Við erum því síður en svo öruggir um nokkurn skapaðan hlut, þó að við séum innan þessa svæðis, vegna þess, hve stórir þessir aðilar eru á sömu sviðum og við tölum um, enda sagði hæstv. menntmrh. nýlega: Hagurinn getur orðið mikill, en hins vegar talaði hann ekki um, að það væri víst, að hann yrði það. Við höfum aðeins möguleikana, mikla möguleika til þess að fá að keppa, en að mínu áliti frekar litla möguleika til þess að standast í þeirri samkeppni.

Þá skulum við hins vegar athuga, ef við yrðum utan við, hverju við töpuðum. Ítalíu hef ég rætt um og þarf ekki að endurtaka það. Og þá er það viðvíkjandi hinum löndunum. Portúgal er vissulega eitt af þeim löndum, sem yrði tilfinnanlegast fyrir okkur, ef það yrði þarna í, með 41 millj. kr., sem við seljum þangað af óverkuðum saltfiski. En þegar við athugum viðvíkjandi fríverzlunarsvæðinu aðstöðuna fyrir okkar útflutning, þá skulum við nú sjá, hvaða mynd kemur út, því að við verðum að muna það, að við megum ekki bara reikna þetta í hundraðshlutum af okkar núverandi útflutningi til þessara landa. Hvað snertir freðfisk, síld, lýsi, hvers konar lýsi sem er, fiskimjöl, og allt þetta flytjum við núna fyrst og fremst — að undanteknum freðfiskinum og síldinni — til þessara Vestur-Evrópulanda, fiskmjölið og lýsið sérstaklega, þá erum við hvað þessar vörur allar snertir, alveg óháðir frvíverzlunarsvæðinu, við erum ekkert upp á það komnir. Það er fríverzlunarsvæðið eða þau lönd, sem nú eru á því, sem biðja okkur um þessar vörur. Fiskimjöl er eftirsótt alls staðar í veröldinni, lýsið er eftirsótt alls staðar í veröldinni, við erum ekkert upp á fríverzlunarsvæðið komin með þetta. Síldin er eftirsótt alls staðar í veröldinni, og því miður gengur okkur bara alltaf of erfiðlega að fá hana, — hún veit ekki, hvað hún er velkomin, – og freðfiskinn erum við heldur ekki í neinum vandræðum með að selja. Hvað ísfiskinn snertir, þá vildi ég helzt sem minnst um hann tala. Við þyrftum að losna við að vera að flytja hann út, þannig að við skulum ekki reikna með þeirri hundraðstölu, sem Vestur-Þýzkaland og England hafa hvað það snertir. Ef við notum alla okkar togara til framleiðslunnar hér heima, þá er það bezt fyrir okkur. Við getum lofað okkar sjómönnum að fara í frí erlendis, þó að það sé ekki á togurum, þegar þeir gera það, ef þá langar til að komast í útlendar borgir og m. a. kaupa inn og annað slíkt, þannig að við þurfum ekki endilega að stunda ísfiskframleiðslu með tapi fyrir þjóðarbúið, ef þeir vilja endilega útiloka okkur frá henni. Annars munum við, að það hefur verið reynt að útiloka okkur frá ísfiskframleiðslu, og þá voru það ekki við, sem vorum upp á þá komnir, Englendingana, þegar þeir voru með hafnbannið. Það voru þeir, sem urðu að biðja okkur um að koma með ísfiskinn til sín aftur, af því að fólkið hjá þeim heimtaði það. Ég held því, að við séum ekkert háðir þessum löndum hvað þetta snertir. Útflutningur freðfisks er orðinn yfir 325 millj., um 110–120 millj. af síld síðasta árið, af lýsi og fiskimjöli og slíku líklega um 140, og ég býst við, að af þessum vörum einum sé útflutningurinn um 600 millj., sem við erum ekkert sérstaklega háðir því hugsanlega fríverzlunarsvæði með.

Það verður þá fyrst og fremst, sem það kæmi við okkur, ef fríverzlunarsvæðið yrði þannig, að það útilokaði okkur á þessum sviðum, ef við hugsum okkur það versta, — það er skreiðin og saltfiskurinn, þurrkaður og óverkaður eða mikill partur af honum. Skreiðin er nú síðasta ár, útflutningur af henni, 93 millj. kr. Þurrkaði saltfiskurinn er 41 millj., saltfiskurinn óverkaði 100 millj., hann er 140 millj., saltfiskurinn óverkaður og þurrkaður, og 93 millj. skreiðin, það þýðir 230 millj. Þetta er það, sem við yrðum raunverulega háðastir þessu hugsanlega fríverzlunarsvæði með.

Nú eru hins vegar ekki öll þessi lönd á þessu fríverzlunarsvæði. Spánn, sem er þarna allmikilvægur aðili og hefur alltaf verið fyrir okkur með um 11 millj. kr. markað, það er engan veginn öruggt, að hann yrði innan fríverzlunarsvæðisins, það er vel hugsanlegt, að hann verði þar utan við. Brazilía, sem er með 21 millj. eða 22 millj., verður — held ég — nokkurn veginn örugglega algerlega utan við þetta svæði, og ég veit ekki betur, en einmitt Brazilíumenn hafi algerlega mótmælt þessari myndun fríverzlunar, eða þessum fyrirhuguðu hugmyndum um fríverzlunarsvæði, sennilegt, að þeir séu þar frekar í andstöðu við. Það er engan veginn óhugsandi, ef við gætum okkar í tíma, að við getum jafnvel við þá Brazilíumenn reynt að undirbúa að efla okkar viðskipti sem allra mest við þá, svo framarlega sem svo kynni að fara, að þeir t. d. kysu heldur að vera utan þessa svæðis og einbeita sér á þann markað, sem þar væri, því að það er ekki ólíklegt, að þau lönd, sem utan þess yrðu, mundu líka svara með ýmsum aðgerðum. Þá skulum við enn fremur aðgæta það, að brezku nýlendurnar í Afríku eru með um 70 millj. kr. markað af skreiðinni. 70 millj. af 93 mill,j. kr., sem við flytjum skreið út fyrir, koma frá brezku nýlendunum í Afríku, og við skulum ekki reikna með því, að það verði lengi nýlendur Breta. Það er nokkurn veginn gefið, að hvorki Bretar né aðrir ráða við þá þróun, sem er að verða í þessum löndum. Við sjáum þróunina, sem nú á sér stað í þessum Afríkulöndum, og þessi lönd, sem hafa verið nú í svona gífurlega vaxandi mæli að verða okkar markaðir, ættu vissulega að geta verið það áfram, ef Vestur-Evrópa kýs að einangra sig og mynda eins konar svæði á móti öllu öðru mannkyni.

Ég held þess vegna, að það ættu að vera fyllilega möguleikar á því, ef við höfum allan vara á í tíma, að við ættum að geta unnið upp markaði fyrir skreiðina í þeim gífurlega mörgu löndum, sem vafalaust mundu kunna að meta okkar vöru. Við höfum séð, hvernig þessi lönd hafa gleypt við henni, sem þegar hafa kynnzt henni, og það bendir okkur til, hvernig þar muni vera mögulegt að halda áfram. Saltfiskurinn verður erfiðari, það er alveg gefið mál, og það getur farið svo, að hans hlutfall í íslenzkri fiskvinnslu, sem einu sinni var næstum því 100%, eigi jafnvel eftir að falla enn þá meira og við eigum eftir að fara meir og meir inn á freðfisksframleiðslu annars vegar og skreiðarframleiðslu hins vegar, eins og tilhneigingin hefur verið í þróuninni síðustu áratugina. Ég held þess vegna, þó að þetta fríverzlunarsvæði kæmist á og þó að það sé fyrst og fremst skreiðin og saltfiskurinn, sem það kæmi þarna við okkur, og þó að það snerti, eins og pappírarnir liggja fyrir núna, vöruútflutning upp á um 200 millj., eða upp undir það, — ef Brazilía er reiknuð frá, þá minnkar þetta mjög mikið, hún er um 20 millj. þarna af, — þá mundi vera hægt fyrir okkur sumpart að vinna upp nýja markaði fyrir saltfiskinn, en þó alveg sérstaklega að margfalda skreiðarútflutninginn til annarra landa, bæði í hitabeltinu og annars staðar, sem víð erum ekki farnir að selja til enn þá, m. a. vegna þess, að við höfum ekki getað framleitt eins mikinn fisk og við höfum getað selt.

Ég held þess vegna, að ef þetta fríverzlunarsvæði kæmist á og ef það yrði eitthvað í þá líkingu, sem við höfum mesta ástæðu til að óttast, og ef það kynni og kysi að hafa þá aðferð að reyna að fara að útiloka okkur og ef þau lönd í því, sem núna hafa verið mikil viðskiptalönd okkar, kysu að beita okkur harðræði með tollum, þá mundum við samt geta bjargað okkur. En ég á eftir að sjá, að öll þessi „ef“ eigi eftir að verða að veruleika. Ég held, að það eigi mjög langt í land, þannig að ég efast ekki um, og það var nú einmitt eitt af því, sem mér fannst sérstaklega jákvætt hjá hæstv. menntmrh., ég held, að við höfum alveg ótakmarkaða aðstöðu til þess að skapa okkur sérstöðu í þessum fríverzlunarlöndum, ef við erum utan við þetta allt saman og hagnýtum okkar aðstöðu til þess, vegna þess hvað það er, sem við höfum að bjóða, hvað okkar fiskur er eftirsóttur í þessum löndum og hann er vel unninn og hvað við, ef við tökum okkur á í tíma og starfrækjum vel okkar sambönd við öll þau lönd, sem við getum haft markaði í, getum verið búnir að vinna okkur þarna vel inn. En svo skulum við alveg sérstaklega hafa það í huganum, — það hefði einhvern tíma þótt skrýtið, að við hér í Norðurhöfum færum að hugsa til þess að flytja sérstaklega mikið út til Afríkulanda, en þetta er orðinn einn af okkar stóru mörkuðum, markaður, sem fer sívaxandi og getur vaxið enn þá meira, — og við skulum gera okkur ljóst, að þessi lönd, sem í dag heita nýlendur í hagskýrslum okkar, eiga eftir að verða frjáls og það innan skamms og gera sína sjálfstæðu viðskiptasamninga við okkur. Og við höfum sýnt það nú þegar, þegar eitt af þessum löndum hefur orðið frjálst, að við höfum viljað vera skjótir um að ná þar samböndum og viðurkenna það og skilið sjálfstæðislöngun þessara þjóða, og við skulum halda því áfram með því að skapa okkur sem allra bezt tengsl.

Hvað snertir þau lönd, sem nú eru ekki nýlendur, löndin í Suður-Ameríku, löndin í Afríku og Asíu, þá er engum efa bundið, að þarna eru alveg ótæmandi markaðir fyrir okkur. Í flestum þessara landa fara lífskjörin að batna, þau hafa verið ákaflega langt niðri. Þau eru öll að ganga í gegnum meiri eða minni iðnaðarþróun, sem lyftir þeim upp á hærri stig. Þau eru öll að dragast meir og meir inn í verzlunarviðskiptalíf veraldarinnar, og við höfum sýnt það, enda sést það bezt á hverju verzlunarskýrsluyfirliti, sem frá okkur kemur, hvað við Íslendingar erum duglegir í því að reyna að ná samböndum við sem allra flest lönd veraldarinnar.

Ég held þess vegna að við þurfum ekkert að óttast, þó að við yrðum utan við þetta fríverzlunarsvæði landanna í Vestur-Evrópu, ef við bara í tíma undirbúum okkur undir það. Hins vegar óttast ég að afleiðingin af því að vera í því og bundinn við það, innlimast í það, sé dauði fyrir okkur, vegna þess að þá samkeppni, sem í því er við þá voldugu, vel skipulögðu, tillitslausu hringa, sem þar mundu drottna, hana stöndumst við ekki, í þeirri glímu föllum við, okkar atvinnulíf. Það er „teoretískt“ rétt hjá hæstv. menntmrh., að það getur verið hagur að því að vera innan svona sambands, ef það væri ekki hins vegar, — það er mín viðbót, — sú vægðarlausa samkeppni ráðandi innan þess svæðis, þar sem þeir smáu eru traðkaðir undir og þar sem þeir stóru verða æ stærri og voldugri.

Hæstv. menntmrh, talaði um, að aðild að fríverzlunarsvæðinu væri óhugsandi fyrir okkur, ef við misstum okkar viðskipti við jafnvirðiskaupalöndin. Það er rétt hjá honum. Ég held, að það sé hins vegar óhugsandi að halda hvoru tveggja, vegna þess að það er óhugsandi, að Ísland geti orðið raunverulega eina tollfrjálsa landið í veröldinni, þegar öll lönd önnur girða sig af. Það er þess vegna rétt hjá honum, að það er óhugsandi fyrir okkur að vera þarna meðlimir, ef við eigum að missa þessi viðskipti, og við hlytum að missa þau, því að það er engin aðstaða til þess að geta haldið þeim með því að opna Ísland fyrir öllum heiminum.

Hins vegar sagði hæstv. menntmrh., að það væri jafnóhugsandi fyrir okkur að vera utan við fríverzlunarsvæðið. Það er ekki rétt. Það er ekki jafnóhugsandi, enda hefði afleiðingin af þessum röksemdum hans orðið sú, að við gætum hvorki lifað né dáið. Ég held þvert á móti, að við getum lifað án þess að vera innan þessa fríverzlunarsvæðis. Við mundum reyna að verzla við öll þessi lönd, eins og við höfum reynt hingað til, alveg eins og við gætum, og ég efast satt að segja ekki um, að okkur mundi takast það. En við gætum ekki lifað með því að vera inni í því og bundnir við það. Ég hef enga trú á, að við yrðum nokkurn tíma útilokaðir frá því öllu saman. Við yrðum að setja okkur það að reyna að hafa þau viðskipti við það, sem við gætum, en efla að öðru leyti okkar viðskipti við allan heiminn, við jafnt Suður- og Norður-Ameríku sem Austur-Evrópu, við jafnt Afríku sem Asíu, og það má þá undarlega til ganga í Vestur-Evrópu, ef okkur tekst ekki alllengi, hvernig sem fríverzlunarsvæðið þróaðist, að halda þar okkar tökum að meira eða minna leyti, jafnvel þó að þau kynnu að minnka.

Nú get ég búizt við því eftir allar þessar bollaleggingar mínar, að hæstv. menntmrh. vildi spyrja mig, þegar ég finn svona margt til foráttu þessu fríverzlunarsvæði og því að innlimast í það, hvað ég vilji og hvaða kerfi ég hugsi mér fyrir Ísland og hverjar séu mínar skoðanir jákvætt á þessum málum og hvað ég vilji gera meira, en bara gagnrýna í sambandi við það. Og ég skal gjarnan segja mína skoðun á því, hvaða afstöðu við Íslendingar eigum að hafa í þessu efni, m. a. vegna þess, að ég held, að það sé ákaflega nauðsynlegt, að við gerum okkur það ljóst, hvað við viljum, hvers konar kerfi við viljum skapa hér á Íslandi. Okkar lega er nú þannig, jafnvel þó að samgöngur hafi gert allar fjarlægðir minni, að við erum nú samt sem áður alltaf einbúi hér í Atlantshafi. Með því að vera slíkur einbúi, þá höfum við hins vegar þá aðstöðu, að við sjáum svo að segja um heim allan. Og við þurfum engan veginn að einblína á Vestur-Evrópu eina sér. Við höfum lönd til beggja handa og lönd hinum megin á hnettinum og við höfum sýnt það, að við getum ákaflega vel með allri okkar tækni, öllum okkar siglingum í lofti og legi haft samband við öll þessi lönd og með okkar dugnaði og okkar hugviti brotið okkur leið til viðskipta við öll þessi lönd. Það má vel vera, að einhver vilji segja: Ja, getum við Íslendingar það, sem engar aðrar þjóðir geta, ef aðrar þjóðir eru að sameinast í ákveðin kerfi? Ég vil a. m. k. ekki fyrir fram útiloka það, að við Íslendingar getum það, sem aðrar þjóðir geta ekki. Forfeður okkar gátu það a. m. k. Þeir vissu betur, en þjóðirnar á meginlandi Evrópu. Þeir vissu, að jörðin var hnöttótt, þegar þær héldu, að hún væri flöt, þar á meginlandi Evrópu. Þeir fundu Ameríku, meðan þeir á meginlandi Evrópu héldu, að við mundum detta út af heimskringlunni, ef við héldum áfram að sigla þangað. Og ég held, að okkur nútíma Íslendingum væri engin skotaskuld úr að byggja okkar land upp þannig fjárhagslega og atvinnulega, að við réðum við þá hluti í verzlunarviðskiptum heimins, sem aðrar þjóðir réðu ekki við, ef við aðeins hefðum skipulag til þess að geta beitt okkar viti til fullnustu og okkar stjórnsemi á þessum hlutum.

Við höfum sýnt það á þessum áratugum, sem við höfum verið sjálfstæð þjóð, að við höfum getað skjótar, en margar aðrar þjóðir, tileinkað okkur nútímatæki og nútímaaðferðir í viðskiptum og þjóðfélagsháttum og rutt okkur braut til viðskipta við flestar þjóðir heims, þó að við höfum fyrir daga okkar feðra verið bundnir við örfáar. Ég held, að við getum framleitt áfram mat fyrir hálfan heiminn, meira að segja þótt Vestur-Evrópa kynni að útiloka okkur, og við skulum muna eftir því, að enn þá er ástandið svo, að helmingurinn af mannkyninu sveltur og vantar mat, og sá hluti mannkynsins er í sífellu að afla sér betri skilyrða til þess að geta borgað sinn mat, þ. e. a. s. batnandi lífskjara, þannig að sé rétt haldið á málum í veröldinni, þá á ekki að þurfa að skorta markað fyrir mat.

Ég held, að við eigum ekki að innlimast í neitt kerfi í heiminum. Ég held, að við eigum ekki að opna okkar land fyrir þeirri flóðbylgju, sem hér mundi dynja yfir okkur, flóðbylgju atvinnuleysis, flóðbylgju kreppu, viðskiptakreppu, flóðbylgju erlendra auðhringa, sem yrði, ef við opnuðum okkar land fyrir t. d. svæði eins og hugsanlegu fríverzlunarsvæði Vestur-Evrópu. Við skulum alveg gera okkur ljóst, að slík flóðbylgja mundi skola burt okkar gömlu þjóðlegu atvinnuvegum, þeir mundu ekki standast, og það mundi skapa slíkt rót í okkar þjóðlífi, að með því skolaðist burt allt það, sem hefur einkennt okkar þjóðlíf fram að þessu og gert okkur að eins sérstæðri þjóð í veröldinni og við höfum verið. Við skulum ekki gleyma því, að það er sérstakt atvinnulíf, sem hefur skapað þessa sérstöðu, og þó að ég þyki byltingagjarn, þá vil ég segja, að mér finnst ganga meir, en nógu fljótt að skola burt því, sem hefur einkennt og verið hið sérstæða í okkar þjóðlífi fram að þessu, og ég sé alveg fyrir mér, hvernig því yrði sópað burt með innlimun í stóriðjukerfi Vestur-Evrópu og fríverzlunarsvæði þess, ekki bara atvinnugreinunum, heldur þjóðlífinu þar með. Hafi menn talað um flótta úr sveitum og uppflosnun fram að þessu, þá skyldu menn sjá, hvað yrði þegar þannig væri komið. Það yrði ekki sérstaklega mikið eftir þar nema á einu litlu svæði, í Árnes- og Rangárvallasýslum, og menningin, sú þjóðmenning, sem við höfum með réttu verið stoltir af og ekki aðeins við höfum ástæðu til að vera stoltir af, heldur allur heimurinn, ef hann bara þekkti hana eins og hún er, hún mundi fara með því. Það er ekki allt unnið með auði og peningum, heldur er þvert á móti verið að granda þeim dýrmætustu verðmætum, sem hafa haldið okkar þjóð og þjóðerni uppi og hafa skilið okkur frá flestöllum þjóðum veraldar. En með því að opna á svona hátt erum við að opna fyrir þeim flóðbylgjum auðs og peninga, sem að vísu margir mundu grípa við, ef þeir fengju eitthvað af því, en raunveruleikinn mundi verða, að flestir yrðu troðnir undir í þeirri vægðarlausu samkeppni, sem þannig skapast, og flestir mundu hljóta þau rýrnandi lífskjör, sem yrðu afleiðing af slíku, og samferða þessum rýrnandi lífskjörum og slíkri undirtroðslu í samkeppninni yrði það merkilegasta í okkar þjóðmenningu.

Ég álít, að við eigum að byggja um þetta land brimgarð, sem verndi okkar þjóð og hennar lífskjör gegn allri slíkri flóðbylgju atvinnuleysis og erlends auðmagns, kreppu og viðskiptasveifla. Ég álít, að við verðum að byggja nógu háan brimgarð til þess, að það standist allar slíkar flóðbylgjur, og slíkur brimgarður getur aðeins verið stjórn okkar Íslendinga sjálfra á okkar utanríkisverzlun og ráð okkar einna og ákvörðun okkar einna á því, hvað sá brimgarður sé hár og sterkur. Og satt að segja hefur það verið svo, að í hvert skipti, sem við höfum rökrætt þessi mál, hugsað um þau frammi fyrir vandamálunum á þessum áratugum, sem við höfum verið sjálfstæð þjóð, þá höfum víð komizt að þessari niðurstöðu, að við eigum hér á Íslandi að skapa svona brimgarð með algeru eftirliti og yfirstjórn okkar Íslendinga sjálfra á okkar utanríkisverzlun, slíkan múr í kringum okkar land. Hver var niðurstaðan, þegar við stóðum frammi fyrir erfiðustu málunum, þegar við stóðum frammi fyrir heimskreppunni eftir 1930, þegar atvinnuleysið varð landlægt og neyðin svarf hvað mest að okkur, þegar fátæktin hjá bændunum var hvað tilfinnanlegust, skuldasöfnunin ægilegust og spurningin stóð um, hvort við gætum tórt af með því að hafa rétt í sig og geta borgað vexti og afborganir af skuldum — hver var niðurstaðan, þegar menn fóru að rannsaka þessi mál þá? Niðurstaðan var í þeirri skipulagsnefnd atvinnumála, sem þá var sett, að við ættum einmitt að girða okkar land með múr á slíkan hátt, koma hér á áætlunarbúskap með utanríkisverzlunina í höndum landsins, og einmitt af hálfu Alþfl., sem hafði forgönguna um þessi mál, var ekki aðeins stofnuð Rauðka, sem þá var, og hennar álit samið, heldur líka flutt þau frv. um þessi mál einmitt af núverandi hæstv. forseta Sþ. um okkar utanríkisverzlun, um okkar verzlunarmálaráðuneyti og um þann seðlabanka, sem ætti að vera eins konar miðstöð fyrir okkar áætlunarbúskap ásamt viðskiptamálaráðuneytinu, flutt hér á Alþ. 1937. Þetta var niðurstaðan, sem þeir komust að, þegar okkar stjórnmálamenn þá voru að athuga og rannsaka með hliðsjón af reynslunni þau viðfangsefni, sem þá blöstu við okkur.

Hvað gerist svo aftur, strax og stríðinu lýkur 1944? Þá komum við aftur niður á það, að það, sem við verðum að gera hér, það sé, að sjálf ríkisstj. og ráð, sem hún skipi, taki í sínar hendur stjórnina á því, hvernig atvinnumálum Íslendinga skuli hagað. Það er algert kontrol á utanríkisverzluninni, og það er tekin í hendur ríkisstj. og hennar ráðs, nýbyggingarráðs, alger stjórn á, hvernig byggja skuli upp atvinnuvegina í landinu. Það er niðurstaða, sem við þá komumst að, og á þeim aðgerðum, sem þá voru gerðar til þess að framkvæma að nokkru leyti þá stefnu, byggjum við enn í dag. Og þegar farið er að ræða um þetta 1947, þegar fjárhagsráð er sett, þá er því slegið föstu í þeim lögum, að slíkir hættir skuli á hafðir, þó að hins vegar væri síðan horfið frá því í praksís af annarlegum ástæðum.

Alltaf höfum við komizt að sömu niðurstöðunni um þetta. Alltaf höfum við raunverulega komizt að þeirri niðurstöðu, að utanríkisverzlunina yrðum við alla að kontrolera, við yrðum að stjórna henni sjálfir. Möguleikarnir eru að mínu áliti óþrjótandi í öllum álfum heims fyrir okkar markaði, en við hagnýtum aldrei þessa markaði öðruvísi, en við ráðum hér sjálfir yfir, hvert við beinum okkar viðskiptum, okkar innflutningi og okkar útflutningi. M. ö. o.: við þurfum að skapa okkur þennan brimgarð, sem við höfum myndað meira eða minna brotgjarnan á undanförnum árum, — við þurfum að gera hann sterkari og betri. En innan þessa brimgarðs þurfum við svo að sjá um, að það sé stjórnað af viturleik og réttsýni, af atorku og framsýni, þannig að það sé stjórn mannanna sjálfra, ef maður mætti nota það gamla orð, að að beztu manna yfirsýn högum við þannig stjórninni á þessu, að það sé vit, mannlegt vit og hugsun, sem þar ræður, en landið verði ekki vettvangur fyrir hvers konar sveiflur og hvirfilvinda á viðskiptasviðinu, sem geta feykt okkar litla atvinnulífi og veika um koll.

Með þeim takmörkuðu aðferðum, sem við höfum notað fram að þessu á þessum undangengnu áratugum, og með þeirri brotalöm, sem verið hefur í þessu hjá okkur, — þrátt fyrir góðan vilja, skulum við segja, — þá höfum við nú samt sem áður komizt það langt, að við höfum skapað með beztu lífskjörum í veröldinni, og við höfum skapað þó það ástand hér, að þegar menn meira að segja frá Norðurlöndum, sem hafa svipuð lífskjör og við, eru að flýja burt út til annarra heimsálfa, af því að mönnum finnst ekki pláss fyrir þá þar, þá erum við að flytja inn fólk. Við þurfum á fólki að halda í okkar atvinnuvegi. Og þegar lönd eins og Kanada hafa jafnvel verið að ímynda sér, að þau gætu tekið á móti fólki, og jafnvel hefur verið boðað hér á Íslandi, að þangað væri gott fyrir Íslendinga að fara, þá sýnir það sig, að þar skellur atvinnuleysið með öllum þess afleiðingum, neyð og fátækt yfir, á sama tíma sem okkur tekst þó að skapa okkar fólki hér öryggi.

Þótt ófullkomið sé okkar kerfi í þessum efnum og okkar brimgarður ekki öruggur, þá erum við þó komnir það langt, að okkur vantar fiskinn til þess að geta selt hann. Við höfum markaði fyrir hann, þegar aðra vantar markaði.

Ég held, að við eigum að setja okkur að hafa Ísland þannig, að það geti verið í sambandi við öll þau kerfi, sem kunna að myndast í heiminum, hvort þau heita sósíalistísk eða kapítalistísk eða hvort það er kerfi, sem nýlenduþjóðir, sem verið hafa og nú eru að verða eða eru orðnar frjálsar, eru að skapa sér sjálfar.

Við eigum frá okkar útsýni hér sem einbúi í Atlantshafinu að geta séð um allan heim til þess að geta hagnýtt þær aðstæður, sem til kunna að vera, hvar sem er, til þess að búa þessari þjóð slíka aðstöðu um hennar efnahagslíf, að hún geti búið við ekki lakara öryggi en það, sem hún þó hefur búið við undanfarið, þótt því hafi verið ábótavant, þannig að við þó ekki rífum niður þann brimgarð, sem verndað hefur okkur fram að þessu, heldur gerum hann það sterkan og beitum um leið það mikilli stjórnsemi, atorku og viðsýni í okkar viðskiptum við allar þjóðir heims, að okkur takist að vernda þau lífskjör, sem við höfum skapað með viturlegum og framsýnum stjórnarráðstöfunum oft á undanförnum áratugum, þótt stundum hafi brostið þar á, og bæta þau lífskjör, strax og við getum. Ég skal viðurkenna, að það hefur gengið með ýmsum rykkjum og kippum hjá okkur, eins og eðlilegt er, um þetta. Það hafa verið átök um þessi mál og menn verið sinn á hverri skoðun. Okkur hefur ekki tekizt að skapa sameiginlegt álit um það, hvað okkur Íslendingum væri fyrir beztu. Það hefur verið og var sérstaklega hér á árunum 1944–47 skapaður sá hæsti lífsstandard, þau beztu lífskjör, sem verið hafa á Íslandi, og jafnvel einhver þau beztu, sem til hafa verið í veröldinni. Og þó að þau hafi nokkuð rýrnað síðan, þá efast ég ekki um, að við getum náð þeim aftur. Við verðum þess vegna að gera ráðstafanir til þess ekki að lækka þennan lífsstandard, heldur að geta í framtíðinni jafnað lífskjörin hér og bætt þau sem heild.

Ég veit, að menn munu segja: Er ekki mikið af okkar smáiðnaði og mikið af okkar landbúnaði óþarft? Er ekki bezt að losna við það? Og má færa ýmis efnahagsleg rök fyrir því. En við skulum gá að öðru. Við höfum fest fé í þessum hlutum. Við höfum vinnuafl í þessum hlutum, og það byggjast viss þjóðleg verðmæti, sem ekki verða til peninga metin, á því, að menn eru að vinna einmitt í þessum hlutum. Það yrði ekki eins harðgerð kynslóð, sem yxi upp á Íslandi, ef hún yxi öll upp á því svæði, sem markast annars vegar af skulum við segja Eyjafjalla- og Mýrdalsjökli og hins vegar af Hvítá í Borgarfirði. Þjóðin gæti öll búið þar, og það væri hægt tæknilega að hafa framleiðslu hennar betri og hafa svo nokkrar verstöðvar á öðrum stöðum á landinu. En það yrði önnur þjóð, en sú íslenzka þjóð, sem lifað hefur í landinu fram að þessu. Við höfum þess vegna mörg tillit að taka, áður en við tökum þær ákvarðanir að útsetja okkar þjóð fyrir öllum þeim sveiflum, sem það tillitslausa stóriðjuvald Vestur-Evrópu mundi skapa. Að svo miklu leyti sem við álítum nauðsynlegt að breyta til á þessum sviðum, draga kannske úr landbúnaði á vissum svæðum, draga kannske úr einhverju af stóriðnaði, þá verðum við að gera þetta vitandi vits, með okkar skipulagslegu ráðstöfunum, en ekki láta þetta gerast af hvirfilvindum, sem blása inn yfir okkur, án þess að við ráðum nokkurn skapaðan hlut við. Við höfum fest fé í þessum hlutum, og við þurfum að hagnýta okkur allt, sem við höfum fest fé í. Við erum það fátækir, við höfum það lítið fjármagn, að við megum ekki við því, að með þeirri voldugu samkeppni, sem ríkir hjá stóriðjuhöldum, sé fjármagnið, sem maður setur í lítil fyrirtæki og máske ópraktísk, gert einskis virði undireins af þeim miklu framförum, sem stóriðjan flytur.

Ég veit ósköp vel, að það er þægilegt og það er hægt að skapa stórkostlegar byltingar í atvinnumálum með því að hleypa stóriðju inn. En við skulum heldur hafa stjórn á þeim byltingum, sem við ætlum að gera í okkar landi, heldur en láta þær gerast án þess, að við ráðum nokkurn skapaðan hlut við þær og hvað upp úr þeim sprettur. Við skulum gera okkur ljóst, að það, sem er að gerast í Vestur-Evrópu, ef forvígismenn þess fá að fara sínu fram, þá væri verið að mynda ekki aðeins tollabandalag á ákveðnu svæði og máske síðar fríverzlunarbandalag á öðru svæði, það er verið að mynda raunverulegt sameiginlegt markaðsbandalag, þar sem þeir, sem stærstir eru, bera sigur úr býtum, og þar sem þeir smáu eru traðkaðir undir. Og við verðum alltaf í hópi þeirra smáu.

Það stórauðvald, sem mundi drottna í slíku fríverzlunarsvæði, yrði okkur engin trygging fyrir neinu af því, sem við höfum nokkra tryggingu fyrir nú, með þeim brimgarði, sem við höfum skapað okkur á móti slíku stórauðvaldi. Það auðvald og þátttakan í fríverzlunarsvæði yrði okkur engin trygging fyrir góðri lífsafkomu, þvert á móti trygging fyrir atvinnuleysi. Það yrði okkur engin trygging að taka þátt í slíku fyrir góðu kaupi, þvert á móti trygging fyrir kauplækkunum. Það yrði okkur engin trygging, svo að ég noti það slagorð, sem mikið er notað hérna í þinginu núna, fyrir jafnvægi í byggð landsins. Það er eitt af því, sem fyrst yrði þurrkað burt. Það yrði hlutur, sem ekki yrði tekið tillit til, frekar en ég veit ekki hvað, þegar stórauðvaldið færi að leggja slíka hluti í þróun. Öll hugsunin um jafnvægi í byggð landsins og annað slíkt, það er hugsun, sem grundvallast á því, að við, mennirnir sjálfir, séum að ráðstafa atvinnutækjum á þeim stöðum, þar sem við álitum eðlilegt, að okkar land sé byggt, En hömlulaus stóriðjuþróun og annað slíkt og hömlulaust fríverzlunarsvæði tekur ekki tillit til þess háttar hluta.

Ég álít, að sú stefna, sem ég hef verið að lýsa, eða þær hugmyndir, sem ég hef í þessum efnum, um Ísland þannig með okkar eigin kerfi, án þess að vera innlimaður í nokkurt annað, ég álit, að baráttan fyrir því að halda þeirri sérstöðu, sem við höfum, auka hana og bæta og nota hana betur og af meira viti, það sé baráttan fyrir valdi okkar Íslendinga sjálfra, yfir okkar atvinnulífi og yfir þess þróun. Ég álít, að við eigum að úthugsa þróunina, sem við viljum láta verða í atvinnumálum á Íslandi, og skapa hana í samræmi við þá hugsun, sem við höfum. Ég álít, að við eigum að ræða og grundvalla, hver slík þróun eigi að vera, og síðan móta hana, þannig að sú þróun sé gerð að beztu manna yfirsýn, að vandlega athuguðu máli, út frá hagsmunum okkar þjóðar, út frá sögu okkar þjóðar og öllu okkar þjóðlífi, en að þróunin, sem hér verði á Íslandi, megi ekki verða nein tilviljunarþróun út frá hagsmunum erlendra auðhringa, út frá sveiflum á erlendum mörkuðum, út frá máske vonum erlendra auðhringa um gróða hér, m. ö. o.: að í staðinn fyrir, að við köstum þessu öllu saman frá okkur með því að innlimast í eitt stórt svæði og vitum ekkert, hvað út úr því kemur, vitum bara að við verðum að berjast og höfum möguleika á að verða undir, þá eigum við að ráða þróuninni, sem verður á Íslandi, skapa hana vitandi vits, að vel yfirlögðu ráði, og reyna sem allra mest að koma okkur saman um, hver sú þróun eigi að verða og hvernig hún eigi að ganga fyrir sig. Og ég álít það ekki aðeins lífsskilyrði fyrir því, að við getum viðhaldið þeim lífskjörum, sem nú eru, og að þau geti batnað, heldur líka lífsskilyrði fyrir okkar menningu og okkar sjálfstæði.

Og að síðustu, hæstv. menntmrh. kom inn á í sambandi við þessi mál, auk spurningarinnar um sjávarútveginn, hans markað og annað slíkt, þá kom hann inn á stóriðjuspurninguna, spurninguna um okkar framtíð, um hagnýtinguna á þeim miklu auðlindum, sem við eigum í okkar fossum og okkar jarðhita, og hvernig við ættum að hagnýta hana, og að það mundu vera miklir möguleikar — og það undirstrikaði hv. þm. V-Húnv. líka — að geta hagnýtt þessa miklu möguleika Íslands viðvíkjandi stóriðjunni, þannig að ef við værum í fríverzlunarsvæði Vestur-Evrópu, þá mundi verða, eins og hv. þm, V-Húnv. komst að orði, möguleiki á fjárhagslegri fyrirgreiðslu við uppkomu stóriðju, og eins og hæstv. menntmrh. komst að orði, það mundi verða auðveldara að sinna því, þ. e. að koma stóriðju upp, ef Íslendingar væru þarna aðilar að.

Þetta spursmál, sem er spursmál um framtíð Íslands og hagnýtingu okkar auðlinda, sem beztar eru, við hliðina á okkar fiskimiðum, það er stórvægilegt mál og mál, sem við þurfum að fara að ræða miklu ýtarlegar, en við höfum gert. Ég hef að vísu gert till. um það mál og rætt það mál allýtarlega hér í þinginu fyrir 10 árum, þegar ég lagði fram alveg ýtarlegar og greinilegar till. hér í maí 1947 um þróun stóriðju á næstu 10 árum þar á eftir, 1947–57, og um allan undirbúninginn að því að koma þeirri stóriðju upp. Því var lítt sinnt þá út af því, hvernig á stóð um þróunina, sem þá var að verða hér. En það er mál, sem — þótt því hafi verið frestað, — blasir við okkur nú.

Ég vil taka það fram um mína skoðun á uppkomu stóriðju, að við Íslendingar eigum að ráða því sjálfir, hvaða stóriðja kemur hér upp, hvort stóriðja kemur hér upp og með hvaða móti. Ég álit, að eitt eigum við frá upphafi að útiloka, og það er, að gróðasjónarmið útlendra auðhringa geti ráðið því, að stóriðja komi hér upp eða hvaða stóriðja kemur hér upp, þannig að ef við yrðum hluti af fríverzlunarsvæði, þá mætti það aldrei verða til þess, að útlendir auðhringar gætu sett hér upp stóriðju og átt hér stór atvinnufyrirtæki. Ég álít, að sú stóriðja, sem við sköpum hér í framtíðinni, þurfi að vera í eign Íslendinga sjálfra, að það sé skilyrði fyrir því, að stóriðja verði okkur til nokkurrar blessunar. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég vil heldur, að það bíði og okkar fallvötn falli áfram ónotuð til sjávar, heldur en þau séu virkjuð af erlendum auðhringum, sem eignist þau eða þær verksmiðjur, sem reistar yrðu við þau, og þeirra afl. Ég álít, að þjóðin þurfi að eiga þessa stóriðju, ýmist þjóðin sem slík, hennar þjóðfélag, eða Íslendingar sem einstaklingar eða félög, okkar hugmynd um stóriðju, sem hér á að komast upp í framtíðinni og þarf að komast upp, eigi að vera íslenzk stóriðja í þjónustu okkar þjóðar, en ekki útlend stóriðja, þar sem við fáum að láta auðlindirnar í té og fáum að þræla við hana, en ráðum engu um hana. Ég álít, að við eigum að byggja upp okkar stóriðju sjálfir. Hitt er rétt, að við getum það ekki nema með útlendu auðmagni, útlendu fjármagni. Það þýðir: við verðum að fá að láni útlent fjármagn til þess að byggja það upp. Okkar ríki á að taka þetta að láni erlendis, og við eigum síðan að byggja þetta sjálfir, eiga þetta sjálfir, ýmist þjóðin sem slík eða einstaklingar eftir því, hvað okkur þykir praktískt, eða blanda því saman, eins og við höfum gert með okkar atvinnuvegi fram að þessu. Ég efast ekki um, að á sama hátt og okkar verzlunarviðskipti eru möguleg við allan heim, ef við hagnýtum okkar aðstöðu og erum sjálfir okkar eigið kerfi, en ekki innlimaðir í neitt annað, þá höfum við sömu möguleikana á lánsviðskiptum alls staðar í heiminum, og okkar ríki getur tekið slík lán og byggt upp slíka stóriðju. Við þurfum að vanda það vel, gæta þess vel að standast vel þær sveiflur, sem eru að verða í tækni og uppfinningum á þessum sviðum, reyna að vera þar sem öruggastir, og ég vil benda þar t. d. á það fordæmi Norðmanna, að þeir hafa í eigu ríkisins, norska ríkisins, byggt upp t. d. alúminíumverksmiðju, þar sem þeir taka sjálfir að láni fé, meira að segja, held ég nú, hjá kanadíska alúminíumhringnum, þeim volduga auðhring, eiga hins vegar sjálfir verksmiðjuna og orkuverin og tryggja sér síðan að geta borgað þessum auðhring í afurðum, í alúminíum, þannig að hluti af þeirra alúmíníumframleiðslu fer til þess að borga vexti og afborganir af þessum lánum, sem þeir hafa fengið. Slíkt kerfi álít ég að við getum vel skapað okkur hér á Íslandi og byggt upp okkar stóriðju þannig, að við eigum hana sjálfir, þjóðin sjálf og dugandi og áhugasamir einstaklingar hennar, en hleypum aldrei útlendu auðmagni inn í landið sjálft öðruvísi, en á þennan hátt, þ. e. a. s. ríkið, okkar ríki, tekur sem lán erlent fjármagn og notar það á þennan hátt í þjónustu þjóðarinnar. Og ég vil taka það fram, að ég álít, að það komi aldrei til mála að opna landið fyrir útlendu auðmagni á þann hátt, að útlendir auðhringar fái sjálfir að eiga hér stórverksmiðjur og reka þær. Ég álít, að það mundi þýða, að þeir útlendu auðhringar, sem slíkar verksmiðjur eignuðust, –og við skulum gera okkur ljóst, að það yrðu engar smáverksmiðjur, ef útlendur alúmíníumhringur kemur t. d. upp verksmiðju við eina af okkar stórám, hvort það væri Þjórsá, Jökulsá eða önnur slík, og ef þar ættu að vinna tvö, þrjú, fjögur, fimm þús. manns, — jafnvel þótt byggja ætti slíka verksmiðju einhvers staðar á Húsavík eða Seyðisfirði eða hér suður frá, þá mundi það þýða að þurrka burt sveitirnar að miklu leyti, sem þarna væru, en það mundi þýða að skapa því auðvaldi, sem þessa verksmiðju ætti, þá aðstöðu á Íslandi, að það yrði voldugasti aðilinn, sem á íslandi væri til, sá sem hefði tök á öllu okkar atvinnulífi, — og það er það, sem við þurfum að forðast. Og ég segi þetta ekki bara sem sósíalisti. Ég segi þetta sem Íslendingur, sem vill forða sínu landi frá því, að útlent auðvald komi inn í það, frá því sama sjónarmiði, sem kom fram, þegar fyrst var verið að ræða hagnýtingu fossanna hér á Íslandi, og bæði Stephan G. og Þorsteinn Erlingsson settu þá fram, en þeir, skáldin okkar, voru ekki einir um. Við getum munað eftir, hvað sagt var hér á Alþingi af mönnum eins og t. d. Jóni Þorlákssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, þegar hann ræddi fossanefndarálitið og bað menn um að láta heldur fossana okkar bíða ónotaða, en láta fara eins og þá var hættan á, að þeir lentu í — eins og þeir voru þá að sumu leyti lentir í — eigu útlendra auðhringa og yrðu síðan notaðir til þess að skapa hér útlend stóriðjufyrirtæki í landinu. Við skulum muna það, að það voru sjálfir pólitísku brautryðjendurnir í íslenzkri borgarastétt eins og Jón Þorláksson, sem höfðu vit fyrir ýmsum öðrum þá, sem voru skammsýnir í þessum efnum, og hindruðu 1923 hagnýtingu fossanna á Íslandi til stóriðju, til þess að þetta fengi að bíða til þess tíma, að Íslendingar gætu notað þetta sjálfir í sína þágu, í sína þjónustu, en yrði hvorki Títan né neinir útlendingar, sem klófestu okkar miklu auðlindir. Og það væri þá illa farið, ef þeir menn, sem á árunum 1915–23, meðan fossamálin voru rædd og ákveðin hér á Alþingi, ef þeir menn, sem forðuðu okkur þá frá því, að við lentum í klóm útlends auðvalds, sem klófesti okkar fossa, þeirra afl og þá stóriðju, sem risi upp við þá, ef við ættum núna í miklu ríkara Íslandi, en þá var að verða til þess að glopra því úr höndunum á okkur í helgreiparnar á útlendu auðvaldi.

Við skulum muna, að þá byrjun, sem við höfum gert á stóriðju, þótt ekki sé sérstaklega mikil, þá höfum við þó gert hana samkvæmt þessari stefnu, að þjóðin eigi að eiga þetta. Það hefur gengið seint með sementsverksmiðjuna. En við vitum m. a., að það hafa verið allíhaldssamar stjórnir, sem hafa setið að völdum hér á Íslandi, á meðan mest hefur verið deilt um sementsverksmiðjuna, meira að segja um tíma bara Sjálfstfl, og Framsfl. í stjórn, og við vitum ósköp vel, að það hefur allan þann tíma verið reynt að fá þessa flokka til þess að láta sementsverksmiðjuna verða einkafyrirtæki og taka hana úr ríkiseign. Og þeir hafa staðið á móti því. Þeir hafa ekki látið undan þeim mikla þrýstingi, sem var allan tímann frá Ameríkumönnum um að gera sementsverksmiðjuna að einkaeign, sem hins vegar var pínulítið látið undan í sambandi við áburðarverksmiðjuna, þó að ég voni nú, að það komi aldrei til með að verða til bölvunar, af því að við getum alltaf, hvenær sem Alþingi vill, afturkallað þann hlut. Sementsverksmiðjan og áburðarverksmiðjan, þessi byrjun á stóriðju hér heima, eru raunverulega hvorar tveggja í eigu þjóðarinnar. Og hvað sem okkur kann að finnast, að okkur gangi seint um þetta á vissum sviðum, þá skulum við halda áfram þessari stefnu um stóriðju á Íslandi. Við skulum skapa hana sjálfir. Við skulum eiga hana sjálfir, ýmist eiga hana þannig, eins og þjóðin á nú áburðarverksmiðjuna og sementsverksmiðjuna, eða gefa Íslendingum, sem vilja vinna saman að þessu, hvort heldur í formi samvinnufélaga, hlutafélaga eða annars slíks, eða einstaklingar, möguleika á því að eiga slíkt. Við skulum koma upp þeirri stóriðju, sem hér á að koma upp, eingöngu sem eign Íslendinga sjálfra, ýmist íslenzka ríkisins eða einstakra Íslendinga, sem eiga þetta út af fyrir sig eða slá sér saman um það. Við þurfum erlent fjármagn, en við verðum að pína það fram, að það erlent fjármagn fáist aðeins inn í landið með því, að ríkið tekur það að láni, en ekki beint með því, að það geti ráðið sjálft í íslenzku atvinnulífi. Og þetta erlenda fjármagn, sem við þurfum, verðum við að reyna að pína fram með sem allra beztum kjörum. Á sama hátt og við reynum með því að reyna að velja úr öllum löndum heims nú um okkar markaði að tryggja okkur sem bezt verð og sem víðtækasta markaði fyrir okkar vörur, eins eigum við viðvíkjandi fjármagninu í heiminum að reyna að tryggja okkur með því sem víðast að geta fengið slíkt lán og sem bezt kjör á því.

Svo að ég ljúki mínu máli: Ég vil, í stað þess að við Íslendingar verðum innlimaðir í eitt eða annað kerfi í framtíðinni, að víð byggjum upp vitandi vits gott þjóðfélag á Íslandi, afkastamikið þjóðfélag, eins og hæfir okkar dugandi þjóð. Það þýðir m. a. þjóðfélag, þar sem atvinnuleysi getur ekki verið til, þjóðfélag, sem er vel skipulagt, þannig að það sé vit okkar sjálfra, eins og það getur orðið bezt á hverjum tíma, sem ræður því, hvers konar skipulag er á þjóðfélaginu hjá okkur, en ekki blind lögmál framboðs og eftirspurnar á einhverju stóru svæði, þar sem við erum eins og lítill leiksoppur á úthafi. Ég vil, að við byggjum upp þjóðfélag, þar sem við getum sjálfir ráðið við það, að hér sé afkomuöryggi fyrir menn, en ekki hætta á atvinnuleysi og kreppu, þjóðfélag, þar sem við búum við góð og batnandi lífskjör með meiri jöfnuði og meira réttlæti, en við höfum nú, en ekki þjóðfélag þannig, að við værum innlimaðir í stórt kerfi, þar sem lífskjörin fara rýrnandi. Ég vil, að við sköpum okkur vitandi vits slíkt þjóðfélag, og við höfum ofur lítið verið að reyna að miða í þá áttina með ýmsum þeim ráðstöfunum, sem við höfum gert, en ekki og aldrei að ofurselja okkar þjóðfélag flóðbylgjum erlends auðmagns, hvirfilvindum kreppnanna og þeim skelfingum, sem atvinnuleysi og kauplækkanir mundu leiða yfir okkar land.