10.02.1958
Neðri deild: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

Bréfaskipti forsætisráðherra Sovétríkjanna og Íslands

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. spurði hér hvað eftir annað um það, í hverju væri vikið frá fyrri stefnu Íslendinga í utanríkismálum í því bréfi, sem hann hefur nú sent forsrh. Sovétríkjanna, og vill byggja á því, að þar sem hvergi sé vikið frá því, sem áður hafi verið gert, hafi verið óþarft að leita ráða Alþ., utanrmn. eða samráðs við stjórnarandstöðuna um svarið, og hyggur sig á þessum grundvelli geta talað fyrir alla íslenzku þjóðina, eða a. m. k. meiri hluta hennar, eins og fram kemur bæði í hans ræðum hér í dag og í bréfinu sjálfu. Hann heldur því fram og styður mál sitt með því, að hér horfi töluvert öðruvísi við, en í Danmörku, þar sem Danir þurfa að taka afstöðu til þess, sem þeir áður hafi ekki haft til ákvörðunar, hvort ætti að vera eins konar friðlýst belti, a. m. k. laust við atómvopn, í Mið-Evrópu, er tæki einnig til Danmerkur.

Hv. þm. G-K. (ÓTh) sagði alveg réttilega, að áður en svarað var, þá hefði verið skynsamlegt af hæstv. forsrh. að spyrja, og vel væri hugsanlegt, eins og hann sjálfur verður að viðurkenna mjög breytta afstöðu sjálfs hans í utanríkismálum frá því, er áður var, að aðrir breyttu einnig um sína stefnu. En látum það vera. Ekkert slíkt liggur fyrir varðandi okkur sjálfstæðismenn. En þess er hér að gæta, að það, sem fyrst og fremst er tekin afstaða til í bréfi hæstv. forsrh., er atriði, sem aldrei fyrr hefur þurft að taka afstöðu til af íslenzkum stjórnarvöldum. Það er algerlega nýtt mál fyrir Íslendinga, sem ekki hefur verið rætt á Alþ., í utanrmn., milli flokka og þá hvergi, nema ef hæstv. ríkisstj. hefur rætt það, sem mjög fer tvennum sögum af. Sú staðreynd, sem hér liggur fyrir og er alveg ný og við komumst ekki hjá að gera okkur grein fyrir, sú staðreynd, sem kann að hafa mikla þýðingu eða litla þýðingu, er, að eitt af stórveldum heimsins, það, sem sennilega í dag er voldugasta herveldi í heiminum og voldugasta herveldi, sem nokkurn tíma hefur verið til í þessum heimi, Sovétríkin, hefur sent íslenzku ríkisstj. tilboð um það, sem kallað er í bréfi forsrh. Sovétríkjanna „tryggt hlutleysi Íslands“.

Við gætum verið með eða á móti þessu tilboði. Við gætum talið, að tilboðið kunni að vera af undirhyggju gert eða að það sé af heilum hug mælt. En fram hjá þeim sannleika komumst við ekki, að með þessu er okkur Íslendingum boðin trygging á hlutleysi, sem aldrei áður hefur verið fram boðin. Það hlutleysi svokallaða, sem var eftir sambandslögunum 1918, var aldrei viðurkennt af neinum öðrum, nema ef vera skyldi hinu mikla herveldi Danmörku. Það var nánast þýðingarlaus yfirlýsing okkar Íslendinga sjálfra. Það hlutleysi er fyrir löngu úr sögunni fyrir atburðanna rás. En það er algerlega nýtt í okkar sögu, að nokkur, hvað þá mesta herveldi heimsins, snúi sér til íslenzku stjórnarinnar og segi: Ég býð fram tryggingu á hlutleysi landsins.

Ég skal ekki í dag ræða efnishlið þess tilboðs. Jafnskjótt og það kom fram, ritaði ég grein, þar sem ég tók fram, með leyfi hæstv. forseta, — það er hinn 18. des., þá rita ég grein, þar sem stendur:

„Íslendingar verða eins og aðrir að fylgjast með öllum veðrabrigðum í heiminum. Af reynslunni er rétt að læra, en gamlir fordómar mega ekki verða mönnum fjötur um fót. Sjálfsagt er, að íslenzk stjórnarvöld verða af fullri alúð að kynna sér og meta tilboð sovétstjórnarinnar um ábyrgð og öryggi Íslands.“ Og ég bætti við: „Þess vegna hlýtur það að vekja ugg, að ríkisstj. skyldi ekki nota það tækifæri, er henni gafst við fyrirspurn Bjarna Benediktssonar á Alþ. í fyrradag, og lýsa tafarlaust yfir því, að samráð yrði haft við Alþ. um svar Bulganinbréfsins.“

Það var ekki ástæðulaust, að þarna var sagt, að þessi afstaða stjórnarinnar hlyti að vekja ugg, vegna þess að nú er komið á daginn, að stjórnin hefur talið sér fært að taka ákvörðun um þetta mjög þýðingarmikla atriði án þess svo mikið sem virða stjórnarandstöðuna viðtals um þetta mál, þrátt fyrir það þó að jafnskjótt kæmi fram á Alþ. ósk frá okkur um það, að samráð yrði við okkur haft, og þrátt fyrir það að upplýst er nú, að stjórnarflokkarnir eru gersamlega ósammála um það svar, sem gefið hefur verið. — Þó að þeir séu ósammála, þá haggar það ekki því, að hæstv. sjútvmrh. og félmrh. bera í einu og öllu ábyrgð á því svari, sem gefið hefur verið, eftir þingræðislegum reglum og stjórnlögum Íslands. Það má vel vera, að þeir hafi, og er alveg eftir hæstv. sjútvmrh. t. d. að hafa samþ. það við hæstv. utanrrh. og hæstv, forsrh., að svarið væri sent, eins og það var gert, þó að hann áskildi sér rétt til þess að láta Þjóðviljann skamma þá fyrir það. Það er eftir þeirra vinnubrögðum. En það liggur fyrir, hvað sem hinni stjórnskipulegu ábyrgð þessara manna liður, að stjórnarflokkarnir eru gersamlega klofnir í málinu og að ekki hefur verið haft samráð við Sjálfstfl. um málið, þann flokk, sem er langsamlega stærstur samkvæmt úrslitum síðustu alþingiskosninga og hefur nú við nýafstaðnar bæjar- og sveitarstjórnarkosningar unnið meiri kosningasigur en þekkzt hefur í innanlandsmálum á Íslandi nokkru sinni fyrr. Svo leyfa sér þessir tveir flokkar, sem aldrei hafa haft, frá því er Alþ. nú kom saman eftir síðustu alþingiskosningar, nema réttan þriðjung þjóðarinnar á bak við sig, — svo leyfa þeir sér að taka afstöðu til slíks tilboðs sem hér liggur fyrir algerlega upp á eigin spýtur og berja sér svo á brjóst og þykjast bæði hér innan þingsalanna og gagnvart umheiminum tala í nafni meiri hluta íslenzku þjóðarinnar.

Það má vel vera, að niðurstaða að lokum leiði til þess, að Bulganin-tilboðinu eigi að hafna vegna íslenzkra hagsmuna. Fyrir fram þykir mér það mjög sennilegt. En það er atriði, sem þó vissulega er þess vert, að um það sé rætt, og það þýðir ekki að koma hér og segja, að menn einhvern tíma áður fyrr hafi tekið ákvörðun um mál, sem feli það í sér, að slíku tilboði eigi að neita. Hvenær hefur slíkt tilboð áður legið fyrir?

Og því miður verður að segja, að það er fleira en þetta eitt, sem leiðir til þess, að alvarlega verður að gagnrýna, hvernig þessu bréfi hefur verið svarað. Það hefur ekki enn þá gefizt kostur á að skoða það nema að litlu leyti og þarfnast auðvitað rækilegrar íhugunar við, en það eru þó í því augljós ósannindi, sem ekki er rétt að ganga fram hjá strax við þetta fyrsta tækifæri án þess að benda á, Ja, ég segi augljós ósannindi, ef miða má og marka nokkuð orð hæstv. forsrh. Þegar hann verður gersamlega tvísaga, þá veit ég ekki, hvort hann hefur áður sagt ósatt eða segir nú ósatt. En í þessu bréfi segir hæstv. forsrh. varðandi það, sem gerðist í utanríkismálunum í nóv. og des. 1956, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna óvæntra og hörmulegra atburða, sem gerðust haustið 1956, óx uggur og óvissa í alþjóðamálum svo að nýju, að sjaldan hafa horfur verið uggvænlegri, og voru því tilmælin um endurskoðun samningsins afturkölluð.“

Ég spyr: Hvenær hefur Íslendingum fyrr verið sagt frá því, að íslenzk stjórnarvöld hafi afturkallað tilmælin um endurskoðun varnarsamningsins í nóv. eða des. 1956. Ég hef a. m. k. hér eitt vitni, sem sagði þá allt annað í þessum sama þingsal, það var hæstv. forsrh., og ég hef hér Tímann fyrir framan mig, gefinn út föstudaginn 7. des. 1956, þar sem með heilsíðufyrirsögn er sagt: „Ákveðið að fresta viðræðum um brottför varnarliðsins.“ Samkvæmt því var alls ekki verið að afturkalla óskina, heldur var aðeins viðræðunum frestað. Það er sú mynd, sem Íslendingum var gefin af þessum atburðum, þegar þetta skeði, og daginn eftir, hinn 8. des. 1956, voru birt í Tímanum nokkur atriði úr ræðu Hermanns Jónassonar forsrh. við lok umr. Alþ. og mikið látið yfir, hvað hann hafi staðið sig þar vel, eins og líklegt var, og það er m. a. eftir honum haft: „Langur eða skammur frestur. — Forsrh. vék nokkrum orðum að ræðum manna um það, hvort frestun sú, sem nú hefur verið gerð, verði langvinn eða skammvinn. — Þarna er einungis talað um frestun, en alls ekki það, að niður sé fallin sú ósk eða afturkölluð, sem fram hafi verið borin. Og öll munum við það, að þegar hv. þm. Siglf. seinna í fyrravetur hélt því fram, að ályktunin frá 28. marz 1956 væri úr gildi fallin, þá var því mjög eindregið mótmælt í Þjóðviljanum, og Tíminn tók undir það, að það væri ekki réttur skilningur, að ályktunin væri úr gildi fallin, Að vísu heyrum við það svo nú, að það sé verið að framkvæma ályktunina. Hæstv. forsrh. hélt því fram áðan, blygðaðist sín ekki fyrir það. Það var bara með þeim breytta skilningi, sem stjórnarflokkarnir höfðu lagt í ályktunina. Það var sem sagt að gera hana að engu.

Nei, hér er varðandi mjög mikilvægt atriði alveg ný mynd, sem kemur fram fyrir íslenzku þjóðina, en er sennilega ekki ný mynd hjá þeim, sem áreiðanlega hafa lagt til alveg að ólöstuðu frumdrögin að þessu svari, Atlantshafsráðinu. Þetta er það, sem því hefur verið tilkynnt, og það hefur verið látið vita, að það væri búið að afturkalla ályktunina, og það er vitað mál, að frumdrögin að því svari, sem hæstv. forsrh. sendir nú Bulganin, eru komin frá höfuðbækistöðvum Atlantshafsráðsins, svo að það er eðlilegt, að þessi okkur nokkuð annarlegi vísdómur komi þarna fram og einmitt við þetta tækifæri.

Hitt er svo enn annað, að ekki hefur verið haft fullkomið samræmi varðandi þær kenningar, sem í Atlantshafsráðinu að öðru leyti er haldið fram um heimsástandið, við það, sem hæstv. forsrh. er látinn halda fram í sínu bréfi. Honum er sem sagt ætlað að flytja fjarstæðari kenningar en forsvarsmenn þessara samtaka vilja sjálfir taka sér í munn.

Í þessu bréfi tekur hæstv. forsrh. það upp eftir Bulganin, að vegna hins alvarlega ástands, sem nú ríkir, og vaxandi ófriðarhættu sé ekki hægt að láta varnarliðið fara burt héðan að svo stöddu. Og þessi setning er gripin úr bréfi Bulganins til þess að sýna fram á, að hann geti ekki vonazt eftir því, að Íslendingar láti herinn hverfa héðan á braut.

En er það nú rétt, sem þarna kemur fram? Er það í samræmi við það, sem hinir fróðustu menn telja, þegar þeir tala áróðurslaust, að það sé vaxandi ófriðarhætta í heiminum? Ja, um það leyfi ég mér að vitna til orða Spaaks, framkvæmdastjóra Atlantshafsráðsins, sem sagði í ræðu, er hann hélt 14. sept. s. l., á þessa leið m. a., með leyfi hæstv. forseta.

„Að þessu leyti er það mitt einkasjónarmið, og það er sjónarmið, sem ég hef öðlazt, síðan ég varð framkvæmdastjóri NATO, að ég held ekki, að á komandi árum, og með því meina ég svo langt fram, sem maður getur séð stjórnmálaviðburði, muni ganga yfir okkur þriðja heimsstríðið. Ég hygg, að mér beri að skýra bjartsýni mína um þetta.“

Þetta er orðrétt tekið eftir honum. Síðan gerði hann rækilega grein fyrir, á hverju hann byggði skoðun sína um, að þriðja heimsstyrjöldin muni ekki verða. Og hann lauk þeim skýringum með þessu, orðrétt á þessa leið:

„Að því áskildu, að við höldum áfram að vera sterkir, er enginn efi á, að þriðja heimsstríðið verður umflúið.“

Þetta eru orð Spaaks. Þarna kemur fram hjá honum, að hann telur enga bráða hættu á heimsstyrjöld, en hann byggir þá bjartsýni sína á því, að hvergi verði slakað til á vörnum Atlantshafsbandalagsins. Á þennan boðskap Spaaks hefur hvað eftir annað verið bent nú í haust af okkur sjálfstæðismönnum, en stjórnarliðið hefur aldrei fengizt til þess að ræða það, þeir sem þar eru í forsvari um utanríkismálastefnu stjórnarinnar. Það er vegna þess, að ef tekin eru orð Spaaks, eins og þau eru töluð og liggja fyrir, þá er það óvefengjanlegur vitnisburður um, að ef ætlunin er á annað borð að láta varnarliðið, herinn hverfa frá Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð, þá er ekki eftir neinu að bíða. Það eru ekki líkur til þess, að það verði friðvænlegra um langt bil, svo langt sem við sjáum, heldur en er einmitt í dag. En það fylgir með, að Spaak segir: Mín bjartsýni hvílir einungis á því, að ekki sé slakað á vörnunum. — Þar af leiðir, að Íslendingar verða að gera sér grein fyrir, að sú ákvörðun að láta varnarliðið hverfa á braut kann að breyta heimsástandinu á þann veg, að þriðja heimsstyrjöldin geti færzt nær.

Það eru þessi meginsjónarmið, sem menn verða að hafa kjark til að skýra fyrir Íslendingum: að segja þeim eins og er, að það er rangt, sem segir í bréfi Bulganins og Hermann Jónasson gerir að sínum orðum, að þriðja heimsstyrjöldin hafi verið að færast nær okkur undanfarið, að ófriðarhættan hafi verið að vaxa. Ófriðarhættan er ekki meiri nú, en allar líkur eru til, að hún verði um ófyrirsjáanlegan tíma, og menn verða að gera upp við sig: Vilja menn leggja það á sig til þess að halda ófriðarhættunni burtu að okkar leyti að leggja það af mörkum að láta þetta lið vera hér eða ekki? Þetta er mál, sem núverandi stjórnarflokkar reyna að skjóta fram af sér, reyna að dylja kjarnann í fyrir almenningi vegna þess, hvernig þeirra völd eru til komin. En þetta er meginkjarni þessa máls, eins og það nú liggur fyrir. Og ég tel, að það sé ekki aðeins rangt, heldur stórlega vítavert, þegar hæstv. forsrh. tekur með þeim hætti, sem hann gerir, setningar út úr bréfi Bulganins til þess að rökstyðja á þann veg, að ófriðarhættan sé að aukast, þegar einmitt þeir menn, sem að öðru leyti hafa leiðbeint honum mest um samningu þessa bréfs, segja hiklaust: Þessi hætta er ekki fyrir hendi og hefur ekki farið vaxandi að undanförnu, heldur fer rénandi, að því áskildu, að við höldum allir saman og leggjum okkar fram.

Það er því miður svo í þessu máli eins og mörgum öðrum, að hæstv. ríkisstj. vill forðast málefnalegar umr. Hún reynir að breiða yfir brestina í sínu eigin ósamkomulagi með því að dylja sannleikann fyrir almenningi og sínum fylgismönnum, og það er ekki það, að stjórnin hafi viljað vera svo trygg fyrri utanríkisstefnu, að hún hafi talið þess vegna óþarft að leita samráðs við stjórnarandstöðuna. Það er annars vegar, að það er gengið fram hjá Alþ., utanrmn. og stjórnarandstöðu vegna þess, að það á að gera hlutskipti kommúnistanna ívið mildara, að þeim er sagt: Ja, þið fyrirgefið, þó að við höfum ykkar orð í blöðunum að engu, við virðum okkar andstæðinga ekki meira heldur, það er ekki við þá talað, þó að lög bjóði, að svo skuli gert. — Þetta er önnur ástæðan, sem allur þingheimur veit að er fyrir því, að ekki hefur fengizt kosin undirnefndin í utanrmn. Til viðbótar þessu kemur svo hitt, að stjórnin hefur tekið við völdum með blekkingum í utanríkismálunum. Þeim blekkingarhjúp var svipt í sundur með atburðunum, sem gerðust haustið 1956. Stjórnin hefur ekki kjark í sér til þess að taka upp ærlegar og hreinar umr. frammi fyrir alþjóð um hið raunverulega ástand í utanríkismálum nú, vegna þess að hún metur meira að lafa við völd eitthvað lengur, heldur en að segja satt til um það, hvernig stendur í hinum þýðingarmestu málefnum þjóðarinnar.