18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

67. mál, fasteignamat

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er ákaflega litið, sem ég hef að segja út af þessari ræðu hv. 6. þm. Reykv. Hún ber alveg eins og framkoma hans á nefndarfundi í gær meira vott um slæmt skap, heldur en hann hafi haft ástæðu til að halda þá ræðu eða gera þær athugasemdir, sem hann gerði.

Ég held, að það sé alveg ljóst, hvað átt er við með lagagreininni, eins og hún er orðuð. Hann virtist líta svo á, að það félli niður réttur sveitarfélaga til þess að innheimta fasteignagjöld eftir eldri reglum, en það er í niðurlagi 1. gr. einmitt ákveðið, að það megi innheimta þau eftir sömu reglum og eru í l. nr. 29 1952. Að frv. hafi verið gerbreytt í hv. Nd., eins og hv. þm. sagði, get ég ekki séð, þó að meginefni þess væri fært undir bráðabirgðaákvæði, sem áður var breyting á lagagreininni. Það þótti formlega réttara.

Hvað snertir meðferð málsins í fjhn., þá mótmæli ég því alveg, að þetta sé nokkurt einsdæmi, þegar komið er að annaðhvort þinglokum eða þingfrestun, að það sé ekki frestað afgreiðslu máls í n. eða á þingi, því að ef sá siður væri tekinn upp að verða jafnan við slíkum kröfum, gæti vitanlega minni hl. hvenær sem er komið í veg fyrir afgreiðslu mála. Ef sú frestun, sem hv. þm. fór fram á á nefndarfundinum í gær, hefði verið tekin til greina, þá sé ég ekki, að hægt hefði verið að afgreiða þetta mál á þeim hluta þings, sem nú stendur yfir. Hann talaði að vísu um, að það hefði getað komið til mála að fresta því um stund, þangað til seinna í gærdag, en ekki orðaði hann það á fundinum. Mér skildist, að hann vildi láta fresta því þar til í dag eða einhvern tíma síðar. E.t.v. er hv. þm. á móti frv. Þó kom það ekki fram, hvorki á nefndarfundinum í gær né í ræðu hans nú, að hann væri frv. mótfallinn, og þykir mér það satt að segja ótrúlegt, að hann sé það, því að eins og ég gat um áður, var frv. samþykkt með öllu ágreiningslaust í hv. Nd., og þar eiga þó sæti nokkrir af þm. Reykv., sem hefðu sjálfsagt komið auga á það, ef þessi lög kæmu eitthvað óþægilega við Reykjavík.

Ég veit nú ekki heldur, hvort hv. þm, hefði þá komið á fund, sem haldinn hefði verið síðar í gær. Hann virtist hafa mjög lítinn tíma, og m.a. má sjá það af því, að ég var að taka fyrir mál, sem hann sjálfur flutti, á þessum nefndarfundi í gær, en þá lýsti hann því yfir, að hann hefði ekkert að gera lengur á þessum fundi og gekk á dyr, svo að tími hans virðist hafa verið mjög naumur.

Ég hef svo ekki frekar við þetta að bæta. Meðan hann nefnir ekki neitt efnisatriði, sem hann er óánægður með, finnst mér það ekki skipta miklu máli, hvort frv. er afgreitt nú eða á morgun, ef það væri hægt, en það er aðeins sá galli á, að það er ekki hægt að afgreiða það á morgun. Í dag er síðasti dagurinn, býst ég við, sem hv. deild getur afgreitt mál á þessum þinghluta.