16.10.1957
Sameinað þing: 3. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja það út af því, sem hér hefur verið rætt um tekjuáætlunina, að hún er, eins og ég hef tekið fram, miðuð við þróunina fram til 1. sept. Endanlega verður tekjuáætlunin sett með hliðsjón af reynslu ársins, svo langt sem vitað verður fram eftir árinu, og horfum fram undan.

Út af ræðu hv. 2. þm. Eyf. vil ég taka fram nokkur atriði.

Þessi hv. þm, byrjaði að tala um það í hálfgerðum umvöndunartón, að nú væri fjárlagaumræðan höfð að kvöldinu. Ég beitti mér fyrir því, að þessar umræður yrðu að kvöldinu, til þess að fólk hefði möguleika á því að hlusta á framsöguræðu fjárlaganna. Þessi hv. þm. var í því sambandi að tala um, að það væri ójöfn aðstaða. Ég fellst alls ekki á, að fjárlagaræðan sé þannig, að ástæða sé til þess að hengja aftan í hana þrjár jafnlangar pólitískar áróðursræður. Fjárlagaræðan er ekki pólitísk áróðursræða, eins og þeir mega bezt um dæma, sem heyrðu framsöguræðu mína áðan, þar sem um 90 eða 95% af ræðunni eru beinar upplýsingar um það, hvernig ástatt er um þjóðarbúskapinn. Það væri undarlegt jafnrétti, ef það ætti að hengja aftan í slíka ræðu nákvæmlega jafnlangar pólitískar áróðursræður, eina frá hverjum flokki, að fjmrh. mætti aldrei opna sinn munn í áheyrn alþjóðar, án þess að slíkt væri hengt aftan i. En hitt getur maður skilið, að hv. stjórnarandstæðingum var nokkuð illa við þessa nýlundu, að þjóðin fengi að hlusta á fjárlagaræðuna, og það er vegna þess, að hugsanlegt er, að blekkingar núverandi hv. stjórnarandstæðinga gangi ekki alveg eins vel út, eftir að rétt samhengi í þessum málum hefur verið upplýst. En við það verður nú að sitja.

Þá sagði þessi hv. þm., að ríkisstj. hefði lofað nýjum leiðum í efnahagsmálunum. Við framsóknarmenn gerðum fulla grein fyrir þessu máli í fyrravetur og greindum, að það hefði ekki orðið samkomulag um annað, en að fara uppbótaleiðina áfram, en á nýjan hátt, og að nýmælið væri það mest, að um þessa lausn hefði orðið víðtækt samkomulag við alþýðustéttirnar í landinu og samtök þeirra. Það var hið stórkostlega nýmæli, sem þá varð.

Þessi hv. þm. kvartar yfir því, að ekki skuli vera taldar með ríkisútgjöldum greiðslur útflutningssjóðs, sem sé það fé, sem safnað er saman og skilað aftur til framleiðendanna, sem sé það, sem of mikið er af þeim tekið og því skilað til þeirra til baka. Þetta fé vill Sjálfstfl. nú telja sem ríkisstyrk. Honum er sem sé áhugamál að setja þetta við hliðina á öðrum ríkisútgjöldum. Það mun þá vera skilningur hans á þjóðarbúskapnum, að þetta sé í raun og veru ríkisstyrkur. Við hinir lítum svo á, að með þessu sé í raun og veru verið að skila framleiðslunni til baka því, sem of mikið hafi verið af henni tekið, og að þetta eigi ekki skylt við venjuleg ríkisútgjöld eða ríkisstyrk. En Sjálfstfl. virðist líta öðruvísi á.

Þá var þessi hv. þm. að tala um það hér hvað eftir annað, hvað ómyndarlegt það væri af núverandi ríkisstj. að leggja fram fjárlagafrv. með greiðsluhallanum, að hún skyldi ekki hafa gert ráðstafanir til þess að jafna hann á einhvern hátt, áður en frv. væri lagt fyrir hv, Alþingi.

Þetta er sjálfsagt ákaflega einkennilegt frá sjónarmiði sjálfstæðismanna, sem eru vanir því, að lítil klíka hér í Reykjavík ráði öllu um afgreiðslu mála í flokknum, þingmála jafnt sem annarra mála, og eru vanir því, að þingmenn flokksins séu ekki kallaðir til annars, en segja já og amen við því, sem þessi klíka hefur ákveðið fyrir fram. En í stjórnarflokkunum er annar háttur á þessu hafður. Hingað koma þingmenn stjórnarflokkanna til þess að ráða raunverulega fram úr þessum málum, en það er ekki ráðið fram úr þeim af klíku hér í Reykjavík, áður en þeir koma þar nærri. Sjálfstfl. getur undrazt þetta eins mikið og honum sýnist, en þetta gefur okkur bara kærkomið tækifæri til þess að sýna innan í Sjálfstfl., hvernig þeir hugsa þar og álíta að afgreiðsla þingmála eigi að vera. Þingmenn eiga að koma hingað að öllu ákvörðuðu og fullgerðu til þess að segja já og amen.

Við höfum ekki þessa skoðun, og þess vegna skömmumst við okkar ekkert fyrir það, þótt við leggjum þessi mál fyrir eins og þau standa í dag, og við ætlum þingmönnunum einmitt að verja þingtímanum með okkur til þess að reyna að finna lausn á þessu máli.

Þá var þessi hv. þm. að tala um niðurskurð verklegra framkvæmda. Þó hafði ég upplýst, að þrátt fyrir lækkun á fjárfestingarútgjöldum, sem sett hafa verið á þetta frv., eru fjárveitingar til verklegra framkvæmda á því mun hærri, en í stjórnarfrv. í fyrra, og ef við berum saman við 1952, þá eru fjárveitingar til verklegra framkvæmda stórhækkaðar á öllum sviðum.

Þá var þessi hv. þingmaður að tala um fjölgun starfsmanna ríkisins. Ég gerði grein fyrir því. Ég efast um, að það hafi nokkurn tíma verið lagt fram fjárlagafrv., þar sem gert hefur verið ráð fyrir minni fjölgun starfsmanna í ríkiskerfinu en þetta fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Ég þekki vinnubrögð sjálfstæðismanna í þeim efnum og veit það manna bezt, að þeir hafa ekkert hikað við að færa út starfsmannakerfi ríkisins og hafa haugað utan að sér starfsmönnum, oft og tíðum án þess að spyrja nokkur önnur ráðuneyti ráða í því efni, og mætti færa að því mörg dæmi, ef tími væri til, og getur orðið gert síðar.

Ég gerði grein fyrir því, að núverandi ríkisstj, ætlar sér að reyna að standa með öllum ráðum á móti óeðlilegri útþenslu í ríkiskerfinu. En við getum ekki við því gert, þó að það eigi sér stað eðlileg lögboðin fjölgun starfsmanna t.d. í skólum og annars staðar, þar sem farið er eftir föstum ákveðnum reglum, sem Alþingi hefur sett.

Þá sagði þessi hv. þm. m.a., að það hefði verið dregið úr framkvæmdum í raforkumálum frá því, sem hefði verið undanfarin ár. En það mun sannast í þessu, að það hefur aldrei á einu ári verið unnið jafnmikið að framkvæmdum í raforkumálum dreifbýlisins eins og einmitt á þessu ári, sem nú er að líða.

Hv. þm. ræddi um afkomuna í ár, og sagði, að aflaleysi hefði ekkert verið. Það er ekki þægilegt að eiga orðastað við menn, sem neita staðreyndum, eins og þessi hv. þm. hefur með þessu gert. Ég sýndi fram á, að það hefur orðið stórfelldur aflabrestur, og þetta kemur gleggst í ljós, þegar athugaður er heildaraflinn og tala bátanna og úthaldsdagar hins vegar.

Þá sagði hv. þm., að Sjálfstfl. hefði haft eitt úrræði á reiðum höndum, sem menn hefðu ekki viljað notfæra sér, og það hefði verið hægt að komast hjá þeim vanda, sem við höfum verið að glíma við í efnahagsmálunum, ef það hefði verið nýtt. Og hvert var þetta úrræði? Jú, það voru tillögur Ingólfs Jónssonar hér um árið, sem hann kastaði fram, um að greiða niður verðlag á afurðum innanlands. Til þess að koma þá fram stöðvun með niðurgreiðslu mundi fyrst hafa þurft að greiða niður sem svaraði 12 vísitölustigum. Það kostaði nú ekki nema um 72 millj. kr. Þar næst hefði þurft að greiða niður önnur 4 vísitölustig til viðbótar, þannig að niðurgreiðslurnar hefðu ekki þurft að hækka nema um litlar 100 millj. kr., ef það hefði átt að gera þetta. Og annað er eftir þessu í þessum málflutningi sjálfstæðismanna í framleiðslu- og efnahagsmálunum.

Þetta voru hreinar yfirskinstillögur, sem bornar voru fram, án þess að vottaði fyrir því af hendi flutningsmanna eða annarra, hvernig ætti að afla fjár til þess að koma þessu í framkvæmd.

Síðan sjálfstæðismenn fóru úr ríkisstj., hafa þeir sífellt verið að tala um háa skatta, en þeir hafa gleymt að taka fram, að aldrei hafa beinir skattar á Íslandi verið nándar nærri því eins báir og þegar sjálfstæðismenn fóru með forustuna í fjármálunum 1939–50. Síðan 1950 hef ég haft forustu um það fyrir hönd framsfl. að lækka beina skatta stórkostlega frá því, sem þeir voru þegar sjálfstæðismenn skiluðu af sér.

Talsmaður Sjálfstfl. kom hér nokkuð inn á hin háu ríkisútgjöld og hinn mikla vöxt þeirra. Það er svo sem ekki að furða, þó að sjálfstæðismönnum komi ríkisútgjöldin á óvart, eða hitt þó heldur. Þeir hafa sem sé ekki staðið að ráðandi þingmeirihluta nema í 17 ár og aðeins eitt ár rúmlega liðið, síðan þeir fóru úr ríkisstjórninni. En ríkisútgjöldin eiga sér tvær rætur: Annars vegar verðbólguna, sem vitaskuld hefur hækkað ríkisútgjöldin gífurlega á undanförnum árum. Á hinn bóginn umfangsmikla nýja löggjöf og aukna starfsemi ríkisins, eins og ég sýndi fram á í fjárlagaræðunni. Verðbólgan hefur aukið útgjöld ríkisins eins og allra annarra gífurlega að krónutali.

Sjálfstæðismenn segja nú, að fjmrh. hljóti að hafa ráðið mestu á undanförnum árum um alla þróun efnahagsmálanna og þess vegna hljóti hann að bera sérstaka ábyrgð á verðbólguþróuninni. Ekki er þetta nú raunar í sem beztu samræmi við látlaust gort þeirra um það, að þeir hafi hér öllu ráðið á undanförnum árum um allt, sem lýtur að stórfelldum framkvæmdum og framförum.

Fjmrh. fjallar í sínu starfi um sjálfan ríkisbúskapinn. Eins og hér er ástatt og hefur verið um verkaskiptingu á milli ráðherra og stofnana, fjallar fjmrh. ekki sérstaklega um aðra þætti þjóðarbúskaparins, en sjálfan ríkisbúskapinn og er þó auðvitað ekki einn um hann. En þessir aðrir þættir efnahagsmálanna hafa ekki minna að segja um það, hvort komizt verði hjá verðbólgu, en búskaparlag ríkissjóðs.

Á undanförnum árum hefur tekizt þannig til um ríkisbúskapinn, að hann er eini þátturinn í efnahagsmálunum, sem hefur verið þannig á haldið, að stuðlað hefur að jafnvægi í fjárhagsmálum og gegn verðbólgu, enda hafa sjálfstæðismenn af og til verið að eigna sér þetta sérstaklega og m.a. ræðumaður hér áðan, þótt að því hafi að sjálfsögðu verið brosað.

En hinir þættirnir, sem engan veginn ráða minna um þróun efnahagsmálanna í heild, eins og gjaldeyrismál, viðskiptamál, bankamál og sjávarútvegsmál, hafa verið á vegum sjálfstæðismanna á undanförnum árum, og þeir hafa þess utan sjálfir hrósað sér af því, að þeir hafi haft úrslitaorðið í fjárfestingarmálunum eftir 1953 og ráðið því, að hömlum var aflétt og ný fjárfestingaralda þar með reist.

Það er stjórn sjálfstæðismanna á þessum þáttum þjóðarbúskaparins, sem ásamt öðru fleiru hefur orðið til þess að magna verðbólguna og þar með stórhækka ríkisútgjöldin, en fjármálastjórn ríkisins hefur ekki stuðlað að aukinni verðbólgu, heldur þvert á móti verkað í jafnvægisátt. Þetta er viðurkennt af öllum sérfræðingum, sem hafa íhugað þessi mál.

Ég er alls óhræddur að láta fara fram hlutlaust mat á því, hversu mitt starf í fjmrn. undanfarin ár hefur verkað á þróun efnahagsmálanna annars vegar og störf sjálfstæðismanna hins vegar að hinum þáttum þessara mála.

Það voru sjálfstæðismenn, sem 1954 reistu fyrstu stóru verðbólguölduna, þegar þeir komust til valda í nokkra mánuði, með þeim afleiðingum, að dýrtíðin óx um 89 stig á einu sumri. Þá sköpuðu þeir í rauninni það vandamál, sem hefur nagað rætur framleiðslu og efnahagslífs á Íslandi síðan, og árin 1944–46 höfðu þeir forustuna og juku dýrtíðina um 44 stig, eða samtals um 133 vísitölustig í þessi tvö skipti. Loks náðu þeir forustu 1953 og státuðu þá af því, að þeir hefðu notað aðstöðu sína til þess að slíta allar hömlur af fjárfestingunni, en gífurleg aukning hennar, strax á eftir, varð önnur aðalundirrót þeirrar verðbólguöldu sem nú síðast reis og enn er verið að glíma við.

Varðandi afskipti sjálfstæðismanna af útgjaldalöggjöf síðustu ára og aukinni starfrækslu ríkisins á öllum sviðum mætti margt segja, en það er ekkert ofsagt, að þeir hafa bókstaflega státað af þátttöku sinni í þessu öllu og verið allra manna frekastir í því að heimta og reka fram nýja útgjaldalöggjöf og útþenslu í starfsemi ríkisins á öllum sviðum, enda mun þetta verða ljósara, en áður af upplýsingum þeim, sem ég hef gefið um ástæðurnar fyrir því, að ríkisútgjöldin hafa hækkað.

Fjmrn. hefur á undanförnum árum sífellt óskað eftir tillögum um sparnað í ríkisrekstrinum, en frá sjálfstæðismönnum hefur yfirleitt ekki komið neitt annað, en kröfur um ný og ný útgjöld á öllum sviðum, sem þeim hefur verið falið að fjalla um. Alkunnugt er svo og alþekkt, að þegar þannig stóð á, að ekki þótti tiltækilegt að samþykkja kröfur sjálfstæðismanna um aukin ríkisútgjöld í öllum greinum, en eftir var sótt af einhverjum að fá framlög, þá var viðkvæði sjálfstæðismanna mjög oft: Við viljum þetta, en það stendur á Eysteini.

Sannleikurinn er sá, að þeir tala nú mest um sparnað og mikil ríkisútgjöld, sem með mestri frekju hafa barið fram aukin ríkisútgjöld á undanförnum árum. Einstök framlög áttu að vera sjálfstæðismönnum að þakka, en hækkun útgjaldanna Eysteini að kenna. Allur er þessi áróður sjálfstæðismanna svo lítilmótlegur og svo furðulegur, að fremur mætti álíta, að þeir væru að búa til skrýtlur, en að flytja mál í alvöru, enda mun leitun á, að þessi áróður þeirra sé tekinn alvarlega.

Kjarni áróðursins er í rauninni þessi: Stundum heita útgjöldin framfarir, og þá eru þær allar á vegum sjálfstæðismanna, en stundum heita framfarirnar útgjöld, og þá eru þau öll að sjálfsögðu á vegum Eysteins og framsóknarmanna. Og afstaðan er sú, að sjálfstæðismenn hafa verið með hverri einstakri fjárveitingu út af fyrir sig og heimtað meira og meira, þegar það þótti láta vel í eyrum, sbr.: það stendur á Eysteini, — en þegar búið er að leggja dálkana saman, þá þykjast þeir vera á móti útkomunni. Ég held, að það verði helzt að vorkenna þeim, sem ekki eiga nein önnur úrræði, en þvílíkan málflutning.

Það hefur komið í ljós í umræðunum, eins og reyndar áður, að sjálfstæðismenn hafa ekkert — ekkert til landsmálanna að leggja annað en pólitísk yfirboð og neikvæðan áróður. Það vottar ekki fyrir því, að þeir hafi nokkrar tillögur fram að færa um úrlausnir í framleiðslu- og efnahagsmálum. Það bólar ekki á því, eins og nærri má geta, að þeir geri hina minnstu tilraun til þess að sýna fram á, hvaða ávinningur gæti verið að því yfir höfuð, að þeim yrðu veitt meiri áhrif, en þeir hafa nú. Mun mönnum yfirleitt og það einnig mörgum, sem fylgt hafa sjálfstæðismönnum að málum, blöskra fullkomlega framkoma þeirra í stjórnarandstöðunni og hafa orðið fyrir stórfelldum vonbrigðum í því sambandi.

Það verður að gera þá kröfu til þeirra, að þeir geri sér ljóst, að það er ábyrgðarstarf að vera í stjórnarandstöðu, Stjórnarandstöðunni ber skylda til að segja, hvað hún vill, ef hún ekki fellst á það, sem ríkisstj. og flokkar hennar aðhafast. Geri stjórnarandstaðan það ekki, þá svíkst hún um að gera skyldu sína.

Í þingsköpunum er ákveðið, að fjárlagaumræðunni skuli útvarpað. Þetta er gert til þess að tryggja, að þjóðin öll fái tækifæri til þess að heyra grg. fjmrh. um fjárlögin og ríkisbúskapinn og einnig raddir frá þingflokkunum. Svo mikla áherzlu leggur löggjafinn á þetta, að það er beinlínis lögboðið að útvarpa framsögu um fjárlögin. Ég veit ekki, hvort þetta er svona annars staðar. En hvað sem því líður, þá er það víst, að hér er þetta ekki að ófyrirsynju gert. Fjármálaafgreiðslan snertir hvert mannsbarn á landinu, og ekki nóg með það, fjárlögin eru einn þáttur þjóðarbúskaparins og verða að samrýmast öðrum þáttum hans. Eins og ég hef bent á nú við þessar umræður og margoft áður, eru sumir þeirra þátta engu þýðingarminni og sumir hinna þýðingarmestu í rauninni í höndum annarra, en ríkisvaldsins. Enn fremur er það þýðingarmikið, að Alþingi og ríkisstj. geti byggt sínar ákvarðanir í efnahagsmálum á heilbrigðu almenningsáliti um þessi efni og ríkum skilningi á því, hvað hyggilegt og fært sé að gera. Framsögu mína um fjárlögin hef ég reynt að miða við þetta. Og hafi tekizt að gera þessi efni ljósari, en áður, er tilganginum náð. Og það er vitaskuld þetta, sem fyrir löggjafanum hefur vakað, þegar lögskipað var að útvarpa framsögu um fjárlögin. — Góða nótt.