13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Frsm. meiri hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Fjárlfrv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., var útbýtt í þingbyrjun, eins og venja er til, og hinn 17. Okt. var því, um leið og 1. umr. var frestað, vísað til fjvn., og hefur hún síðan unnið að athugun á frv. og brtt. við það.

Nefndin hefur, eins og frá greinir í nál. meiri hl., haldið rúmlega 40 fundi, og n. höfðu borizt, um það bil sem nál. meiri hl. var samið, um 350 skrifleg erindi. Þau erindi eru nú orðin allmiklu fleiri, og verða þau athuguð, sem þegar eru komin, og máske einhver fleiri fyrir 3. umr. málsins. Þá hafa komið í heimsókn til fjvn. ýmsir aðilar til þess að skýra málefni sitt eða þeirra stofnana, sem þeir voru fulltrúar fyrir í sambandi við afgreiðslu fjárl. Alls hafa í slíka heimsókn komið 46 menn til n. auk alþm., sem meira og minna hafa heimsótt nefndina.

Ákvarðanir um einstaka þætti í afgreiðslu frv. hófust ekki fyrr, en laugardaginn 7. des. og þá fyrst um það, hverjar heildarupphæðir þær skyldu verða, sem viðkomandi embættismenn, sem hafa með að gera nýbyggingu vega, brúargerðir og hafnarmannvirki, skyldu beðnir að gera till. um skiptingu á í fjárlfrv.

Atkvgr. um brtt. við fjárlfrv, sjálft, hófust ekki fyrr en mánudaginn 9. þ. m., og hefur n. því notað skemmri tíma til afgreiðslu mála af sinni hendi, en jafnan áður.

Minni hl. n. finnur mjög að þessu í sínu áliti, og skal ég taka undir það, að æskilegt hefði verið að hafa hér rýmri tíma til stefnu. En hinu, sem minni hl. heldur fram, að hér sé um óþinglegar aðfarir að ræða, verð ég að mótmæla, því að hvergi er í þessum vinnubrögðum vikið frá þeim reglum, sem tíðkazt hafa um meðferð mála, heldur aðeins styttir nokkuð frestir þeir, sem viðkomandi embættismönnum voru settir til þess að ganga frá drögum sínum að skiptingu fjár til einstakra mannvirkja, og frestur þm. til að skila listum yfir óskir um framlög til framkvæmda í sínum héruðum. En þingsköp mæla í engu fyrir um þessi atriði. Það er því eingöngu um styttingu fresta, sem hér hefur verið farið að nokkru hraðar, en tíðkazt hefur jafnan áður við afgreiðslu fjárl. En hinu verð ég að mótmæla, að þar sé um að ræða, að öðruvísi hafi verið farið að í einu eða neinu en tíðkazt hefur, svo langt sem ég til þekki um vinnubrögð hjá Alþingi við meðferð fjárlfrv.

Í n. hefur orðið takmörkuð samstaða, þannig að n. stendur öll að þeim brtt., sem fluttar eru á þskj. 145, með þeim fyrirvara, sem sjálfstæðismenn í n, hafa gert og birtur er m.a. í nál. meiri hl., en hann er á þessa leið:

„Fulltrúar Sjálfstfl, óska tekið fram, að hækkun á framlögum til verklegra framkvæmda sé í meginatriðum í samræmi við þeirra afstöðu. En varðandi sumar till. n. telja þeir sig hafa óbundnar hendur“ — enda eru þær till., sem fluttar eru á þskj. 145, samþ. af meiri hl. í n., frá því að vera samþ. með 5 atkv, og upp í það að vera samþ. með atkv, allra viðstaddra nm.

Það skal tekið fram enn fremur, að í þeim till., sem hér koma fram, er ekki nema hluti þess, sem fyrirsjáanlegt er að gera verður brtt. um við frv. Frestað er til 3. umr. af n. hálfu að gera till. um breytingar á tekjuhlið frv. Einnig er frestað að gera brtt. um ýmsa útgjaldaliði, sem fyrirsjáanlega verður þó að gera brtt. við, og er þar fyrst að nefna framlög til skólabygginga. Þeim er frestað til 3. umr., og hefur n. þau mál enn til athugunar og hefur fengið allmikið af gögnum frá bæði fræðslumálaskrifstofunni og skrifstofu þeirri, sem hefur með að gera fjármálaeftirlit skólanna og hefur ekki fullunnið sínar till. enn. Einnig er fyrirsjáanlegt, að einhverjar breyt. verður að gera á 18. gr. fjárl., þeirri sem fjallar um eftirlaun ríkisstarfsmanna o.fl., bæði til hækkunar og lækkunar, en samkvæmt venju bíða allar breytingar við þá grein 3. umr.

Þá má gera ráð fyrir, að brtt. verði gerðar við liði 211. gr. fjárl., svo að nokkuð sé nefnt, en á 20. gr. er um að ræða þær framkvæmdir, sem ríkið leggur sjálft til fé í og eru í eign ríkisins.

Enn fremur skal tekið fram, að meiri hl. n. vinnur að því að gera till. til sparnaðar á útgjaldaliðum og hefur sent ýmsum aðilum beiðni um upplýsingar varðandi þær till., sem enn eru ekki svo undirbyggðar, að þær gætu komið fram við þessa umr. málsins, en eru væntanlegar við 3. umr. Auk þess, sem hér hefur verið nefnt og flokkað niður á greinar, má gera ráð fyrir því, að um till. verði að ræða til breytinga á ýmsum greinum og framkvæmdaliðum.

Þær till., sem hér liggja fyrir frá n., gefa því mjög takmarkaða mynd af því, hvernig fjárlög ársins 1958 verða endanlega, þar eð svo mörg og mikilvæg atriði bíða 3. umr. En meiri hl. vill taka það fram, að við það er miðað og að því stefnt, að endanlega geri meiri hl. till. um, að fjárl. verði afgr. án greiðsluhalla.

Varðandi einstakar till., sem fyrir liggja á þskj. 145, vil ég fara nokkrum orðum til skýringar. Brtt., sem þar liggur frammi við 11, gr. frv., er þess efnis, að lagt er til, að liðurinn „annar kostnaður“ hjá tollgæzlunni í Reykjavík verði hækkaður um 84 þús. kr. Þessi hækkunartill. stafar af því, að í gildi er reglugerð um það, að tollgæzlumenn þeir, sem vinna á næturvöktum, skuli fá nokkra greiðsluuppbót á kaup sitt vegna næturvinnunnar, þeir skuli fá greitt svokallað næturvinnuálag. Þetta er tiltölulega nýtilkominn liður, eftir reglugerð, sem gefin var út fyrir um það bil tveim árum, og hefur verið áætlaður í fjárl. áður. En reynslan sýnir, að á þessum lið hlýtur kostnaður að fara fram úr áætlun, og hefur n. því viljað ætla fyrir þeirri hækkun á fjárl. og gerir till. um það, að liðurinn „annar kostnaður“ hjá tollgæzlunni í Reykjavík hækki úr 1 millj. 160 þús. kr. í 1 millj. 244 þús. kr.

Varðandi brtt. við 12. gr. er fyrst till. um að hækka launalið Hjúkrunarkvennaskóla Íslands um 56,547 kr. samtals, bæði grunnlaun og verðlagsuppbót. Sú brtt, er þannig til komin, að skóli þessi hefur litið fastráðið starfslið og of lítið til þess, að hann geti með því einu saman sinnt þeim óhjákvæmilegu verkum, sem til falla í stofnuninni, og hefur stofnunin þess vegna keypt til aukafólk, en jafnan sótt um það, bæði á s.l. ári og aftur nú, að fá að fjölga fastráðnu starfsfólki, og er hér gengið að nokkru móts við þá ósk þessarar stofnunar, hjúkrunarkvennaskólans. Hann hefur að vísu óskað eftir að fá að fastráða fjóra nýja starfsmenn, en hér er aðeins um það að ræða, að hann fái að ráða til viðbótar í sitt fasta starfslið eina hjúkrunarkonu í 10. fl. launalaga.

Enn fremur er hér við 12. gr. brtt. smávægileg um 800 kr. hækkun á framlagi til norrænnar lyfjaskrárnefndar, og er það nánast leiðrétting. Í frv. var gert ráð fyrir, að til þessa yrði varið 5 þús. kr., en áætlun ársins 1958, sem nú liggur fyrir, sýnir, að til þess muni þurfi 5.800 kr.

Á 13. gr. fjárl. er fjallað um samgöngumál, vegamál, brúargerðir, hafnargerðir og lendingarbætur og flugmál, rekstur flugmála o. fl. Það eru jafnan hvað fyrirferðarmestar till. fjvn. um atriði 13. gr. fjárl., því að í frv. er jafnan lögð fram ein upphæð fyrir hvern þessara liða, akvegagerðina, brýrnar, hafnirnar, en fjvn, tekur upp till., sem skipta þessu á einstakar framkvæmdir.

Varðandi gerð nýrra akvega gerir frv. ráð fyrir, að til þeirra verði varið 12 millj. kr. N. ákvað að gera till. um að hækka þessa upphæð um 3 millj. 980 þús., þannig að í heildinni verði skipt á milli einstakra framkvæmda í vegum 15 millj. 980 þús. kr., og er það sama upphæð og fjárl. yfirstandandi árs heimila.

Skipting þessa fjár fer fram með þeim hætti, að eftir að fyrir liggja till. vegamálastjórans um það, hvernig skipta skuli fénu í fyrsta lagi á milli einstakra sýslna í landinu og í öðru lagi á milli framkvæmda innan hverrar sýslu, hefur viðkomandi alþm. verið gefinn kostur á því að gera sínar aths. við skiptingu til einstakra vega, og eiga þeir því mestan hlut að því, hver upphæð kemur til framkvæmda hjá hverjum einstökum vegi í hans héraði, innan þess ramma, sem n. hafði gert till. um eða gert ráð fyrir að kæmi til skiptanna í hverju einstöku héraði fyrir sig.

Það er á allra vitorði, að svo hagar til á okkar landi, að við erum fámenn þjóð, sem búum í mjög stóru landi, og vegakerfi það, sem við þurfum að leggja og annast viðhald á, er meira á hvern íbúa landsins en þekkt er í nokkru öðru landi heims. Þar af leiðandi, verður það ærið takmarkað fé, miðað við þarfir, sem hverju sinni er hægt að leggja af árlegum tekjum þjóðarinnar til nýbyggingar þjóðvega og til viðhalds þjóðvegum, enda verður þess jafnan vart við afgreiðslu hverra fjárl., að ýmsum þykir þar þrengri stakkur skorinn, en hæfilegt sé. En það hefur að þessu sinni orðið algert samkomulag í fjvn. um það, hver heildarfjárhæð til veganna skyldi verða í till. n., og er því í rauninni hér um meira samkomulag að ræða, en oft hefur verið áður. Um skiptingu í fyrsta lagi á milli sýslna og í öðru lagi á milli einstakra framkvæmda innan hverrar sýslu eru vafalaust fyrir hendi deildar meiningar nú eins og jafnan fyrr.

Varðandi framlög til brúargerða hefur fjvn. lagt til, að þar yrði einnig hækkað verulega framlagið frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, og haldið þar sömu fjárupphæð og er á núgildandi fjárl., og var einnig samkomulag um það í fjvn. allri, meðal allra nm. þar. Skipting fjárins á einstakar brýr kann hins vegar að valda einhverjum ágreiningi. En það er vert að greina frá því sérstaklega, að nú hefur verið svo að farið, að sumar af þeim brúm, sem gert er ráð fyrir að leggja fé til skv. brtt. fjvn., eru þegar fullgerðar, og fjárframlag til þeirra er vegna þess, að kostnaður við þær hefur farið fram úr áætlun, og eru 764 þús. kr. af því fé, sem ætlað er til brúargerða skv. till., ætlaðar til þess að greiða upp umframkostnað á brúnum, í fyrsta lagi á Norðurá hjá Glitstöðum 100 þús. kr., á Bakkaá í Hörðudal 100 þús. kr., á Norðurá í Skagafirði 230 þús. kr., á Hrolleifsá á Siglufjarðarleið 100 þús. kr. og á Húsá í Mýrdal 230 þús. kr. Þetta fé dregst því raunverulega frá því fé, sem á komandi ári verður varið til framkvæmda um brúargerðir.

Þá vil ég einnig vekja athygli á 35. liðnum í brúargerðartillögum nefndarinnar. Liðurinn heitir virkjanabrýr í Vestur-Ísafjarðarsýslu og í Suður-Múlasýslu, 320 þús. kr. Ég vil gefa þær skýringar á þessum lið, að hér er um að ræða brýr, sem gerðar hafa verið í sambandi við raforkuvirkjanirnar í Mjólkám í Arnarfirði og á Austurlandi í Grímsá. En svo er málum háttað, að rafmagnsveitur ríkisins hafa til bráðabirgða lagt fram mestan hluta af því fé, sem í þessar brúargerðir var varið, og segir í skýringum vegamálastjórans til fjvn. um þetta efni:

„Á árunum 1955 og 1956 voru byggðar þrjár brýr í Arnarfirði á Vestfjarðavegi, til þess að unnt yrði að hefja virkjunarframkvæmdir við Mjólká. Kostnaður við þessar brýr varð kr. 824. 327,30. Þar sem engar fjárveitingar voru fyrir hendi, buðust rafmagnsveitur ríkisins til þess að leggja fram kostnaðinn í bili. Árið 1956 var að beiðni rafmagnsveitna ríkisins endurbyggð brúin á Gilsá í Skriðdal, þar sem gamla brúin á Gilsá var of veikbyggð fyrir flutning véla að Grímsárvirkjun. Varð kostnaður brúargerðarinnar kr. 705.638,92. Einnig var að beiðni rafmagnsveitna ríkisins endurbyggður vegur um Ketilsstaðatún og einnig lagður vegarspotti að Grímsárvirkjun. Kostnaður við þessa vegargerð nam alls kr. 118.004,40. Buðust rafmagnsveitur ríkisins einnig til þess að leggja fram fé þetta, þar sem engar fjárveitingar voru fyrir hendi. Alls nemur þessi brúa- og vegagerðarkostnaður vegna virkjananna því kr. 1.648.070,62.“

Það er skemmst frá að segja, að um þetta fé hefur myndazt nokkur togstreita á milli rafmagnsveitna ríkisins annars vegar og vegamálaskrifstafunnar hins vegar, og hefur staðið í þófi um það, hvor aðilinn ætti að greiða þetta. Af þessari fjárupphæð hafa rafmagnsveiturnar í bili greitt kr. 1.210.000.00, en hitt stendur eftir í rauninni sem skuld við kassa hjá vegagerð ríkisins.

Vegamálastjóri hefur mjög leitað eftir því, að úr yrði skorið, á hvern þessi kostnaður ætti að falla endanlega, til þess að hægt væri að gera hann upp með eðlilegum hætti og afgreiða hann svo sem annan kostnað vegna vega- eða raforkuframkvæmda,

Um slík atriði sem þessi er til nokkurt fordæmi, og þykir sýnt, að vegagerðin, sem hér um ræðir, eigi að koma beinlínis á kostnað vegagerðar ríkisins, en brúarframkvæmdirnar eru þess eðlis, að þar hefðu ekki verið byggðar brýr svo snemma sem raun varð á, ef ekki hefði verið vegna virkjananna.

Þegar Sogið var virkjað á sínum tíma, var byggð á það brú, sem síðar varð samkomulag

um að kostnaður af skyldi skiptast að hálfu á milli vegamálaskrifstofunnar og rafmagnsveitnanna, með því að sýnt þótti, að þótt brúin væri á þjóðvegi, þá mundi hún ekki verða byggð í nálægri framtíð, nema vegna þess að til virkjunarinnar kom. Á hinn bóginn er annað fordæmi norðan frá Laxá í Þingeyjarsýslu, þar sem endurbyggðar voru brýr á þeirri á vegna Laxárvirkjunarframkvæmdanna. En þar var alveg að því komið, hvort sem var, að brýrnar þyrfti að endurbyggja, og var þess vegna á sínum tíma samkomulag um það, að sú brúargerð skyldi borgast að 3/4 hlutum af fé til brúargerðar og að 1/4 hluta af fé til raforkuvirkjunar. Nú hefur vegamálastjóri lagt til, að á sama hátt verði hér að farið. Það verði litið svo á, að brúargerðir á Vesturlandsveginum, þær sem byggðar voru í sambandi við Mjólkárvirkjunina, hafi verið óhjákvæmilegar á næstunni og verði þess vegna greiddar af fé til brúargerða að 3/4 hlutum. En hins vegar lítur vegamálastjóri svo á, að nokkuð mundi enn hafa dregizt um endurbyggingu brúarinnar á Gilsá, þeirrar sem gerð var vegna virkjunarinnar í Grímsá, og þar af leiðandi er það hans till., að þeim kostnaði verði skipt að hálfu á milli brúargerðanna og virkjananna.

Fjvn. hefur, að svo miklu leyti sem þetta kemur til hennar kasta, viljað líta svo á, að hér væri um nokkuð eðlilega skiptingu að ræða. En með því að líta svo á, að þannig beri að afgreiða málið, reynist skuld vegna brúargerða hjá þessum virkjunum vera samtals 971.064,94 kr., en í till. fjvn. er gert ráð fyrir að veita fé í þessar brúargerðir, þannig að þær verði greiddar á 3 árum eða því sem næst, og hefur þess vegna verið gerð till. um það, að 320 þús. kr. verði á næsta ári veittar til þessara brúargerða, og kemur það fram í 35. tillögulið n, um brúargerðir.

Smábrýr teljast þær brýr, sem eru skemmri en 10 m að lengd, og eru þær ekki sundurliðaðar á frv., enda talið, að vegagerðin verði að hafa nokkuð óbundnar hendur um það, hvar ráðizt er í slíkar framkvæmdir, og fara þar frekar eftir því, hvar þörfin reynist vera mest til smábrúargerðar, heldur en eftir fyrirframgerðri áætlun.

Alls er því gert ráð fyrir að fjárveiting til brúargerða, þeirra sem taldar eru upp undir þeim lið í fjárlagafrv., verði 9 millj. 840 þús., eða sama tala og á gildandi fjárlögum.

Endurbygging gamalla stórbrúa hefur verið á fjárl. að undanförnu með sérstaka fjárveitingu og er á gildandi fjárl. með 11/2 millj. kr. fjárveitingu. N. hefur gert brtt. við þennan lið, þannig að hann verði áfram 11/2 millj. kr., en liðurinn verði framvegis ekki bundinn við að endurhyggja stórbrýr. Nú þegar er lokið eða að ljúka verulegu átaki í endurbyggingu stórbrúa, þar sem eru brúin á Jökulsá í Axarfirði og Lagarfljótsbrúin, en að kallar fjöldi brúa, sem ekki geta talizt stórbrýr, og eru þar helztar gamlar járnbitabrýr, sem flestir, sem ferðast um þjóðvegi landsins, hafa veitt athygli að eru þegar orðnar mikill farartálmi á þjóðvegum landsins, miðað við það, sem farartæki nútímans heimta. Það er þess vegna gert ráð fyrir því í till. fjvn., að liðurinn heiti bara: til endurbyggingar gamalla brúa — og ekki verði bundið við það, að um stórbrýr sé að ræða, sem endurbyggðar verða af þessu fé.

Þá hefur n. gert till. um skiptingu þess fjár, sem veitt er til ræktunarvega, en sú skipting er algerlega óbreytt frá því, sem var á fjárl. yfirstandandi árs.

N, hefur einnig gert till. um það, að 200 þús. kr., sem verið hafa á fjárl. undanfarinna ára til vegagerðar vegna nýbýlamyndunar í landinu, verði teknar upp í frv. enn.

Á þessari samgöngumálagrein frv. eru einnig fjárveitingar til ferðaskrifstofu ríkisins, og einn liðurinn í því er svolítil ferðaskrifstofa eða upplýsingaskrifstofa fyrir ferðamenn, sem rekin er á Akureyri og hefur til þessa haft 20 þús. kr. framlag. Það er gerð till. um, að það framlag hækki í 30 þús. kr., enda að athuguðu máli talin þörf á þeirri skrifstofu og hún svo mörgum landsmönnum til fyrirgreiðslu, að ekki sé hægt að láta hjá líða að tryggja það, að hún haldi áfram störfum.

Er þá komið að till. n. um hafnargerðir og lendingarbætur. N. leggur til, að sá liður verði, um það er lýkur, með svipaða eða sömu heildarútkomu og er nú í gildandi fjárl. Hins vegar má segja, að þar sé mikill vandi á höndum um till. um skiptingu á því fé, enda fara skuldir ríkissjóðs skv. hafnarlögum vaxandi við hafnargerðir landsins ár frá ári og hafa gert nú að undanförnu. Það er yfirleitt unnið við hafnargerðir hér á landi núna árlega fyrir um eða yfir 30 millj, kr. Ríkið er á þessum lið greiðsluskylt fyrir 2/5 hlutum kostnaðar í flestum tilfellum, en í sumum tilfellum er það þó skylt til þess að greiða kostnað að hálfu. 10 millj. kr. fjárveiting eða 101/2 millj., eins og nú er gert ráð fyrir í frv. skv. till., hrekkur þess vegna ekki fyrir árlegum hlut ríkissjóðs í þetta, og dregur því í sundur með framlögum ríkisins og framkvæmdunum, og er viðbúið, að svo geti ekki staðið um langa framtíð, enda er það svo, að við sumar hafnarframkvæmdirnar hefur myndazt svo há greiðsluskylda af hálfu ríkisins, að í þeim till., sem hér liggja fyrir, er ekki gert ráð fyrir, að greitt verði nema lítið brot af því framlagi, sem ríkið er raunverulega skylt að leggja fram, þótt ekki séu ríkinu sett tímatakmörk um það. Þess eru dæmi, að með því framlagi, sem gert er ráð fyrir hér í till., og miðað við greiðsluskyldu ríkisins skv. hafnarlögum mundi það taka um 15 ár fyrir ríkið að borga upp þær skuldir, sem myndazt hafa hjá ríkinu við viðkomandi hafnargerðir, miðað við það, að borgaðar væru þær skuldir, sem fyrir eru í lok þessa árs, og ríkissjóðshlutinn af þeim framkvæmdum, sem áætlaðar eru á næsta ári. Á öðrum stöðum er þessu ekki svona varið, heldur er ríkið um það bil skuldlaust við ýmsar aðrar hafnir. En hér er sem sagt um verulegan mismun að ræða, og heildarafstaða til þess máls má kannske segja að sé nokkuð á reiki, en vitamálastjórnin gerir hins vegar till. og undirbyggir þær og rökstyður fyrir fjvn., og þær till. eru undirstaðan í þeim till., sem hér liggja fyrir.

Skal þá vikið aðeins að till, varðandi breytingar á 14. gr. fjárlagafrv.

Þar er fyrst till um, að læknadeild háskólans fái heimild til þess að leita til nokkurra sérmenntaðra lækna um kennslu, þó að ekki séu þeir sérfræðingar prófessorar við háskólann, heldur er ætlunin, að þeir framkvæmi tímakennslu, hver í sinni sérgrein. Er ráðgert, að þetta muni auka útgjaldalið háskólans um 70 þús. kr., og er gerð till. um, að ráð verði fyrir því gert í fjárl.

Þá er gert ráð fyrir, að framlagið til bændaskólans á Hvanneyri — eða nánar tiltekið til framhaldsdeildar bændaskólans á Hvanneyri — verði hækkað um 15 þús. kr.

Þá er till. um, að niður verði felld 10 þús. kr. sérstök fjárveiting til útgáfu námsbóka fyrir gagnfræðaskóla. Ríkisútgáfu námsbóka hefur nú verið fengið það verkefni að gefa út þessar námsbækur, sem hér um ræðir, og þykir því ekki ástæða að ætla fyrir þeim í sérstökum fjárlagalið, þar sem ríkisútgáfa námsbóka er aðili á fjárlögum.

Íþróttasjóður hefur mikla bagga á baki sér og er einn þeirra sjóða, sem hafa ekki nægar tekjur til að standa undir þeim greiðslum, sem raunverulega falla á hann árlega, en hann var á yfirstandandi ári með 1.6 millj. kr. fjárframlag úr ríkissjóði. Fjárlagafrv. gerði ráð fyrir 1.3 millj. til hans. Fjvn. gerir till. um, að hann fái sömu greiðslu úr ríkissjóði og í fyrra, 1.6 millj.

Fyrir nokkru var byggð mjög myndarleg sundlaug á Akureyri. Þegar það verk hófst, varð samkomulag um það, að ríkið greiddi vissan hluta af stofnkostnaði sundlaugarinnar skv. áætlun um kostnaðinn vegna Menntaskólans á Akureyri, sem er ríkisskóli, og ríkið leit á sundlaugina sem hluta af skólanum að því leyti, að nemendum þar yrði tryggð aðstaða til hluta af því námi, sem í skólanum átti að fara fram. Framkvæmdum við sundlaugina er lokið fyrir nokkru. Verkið fór fram úr áætlun, varð dýrara en áætlað var, og að undanförnu hefur verið nokkur deila um það, hvort ríkissjóði bæri skylda til þess að borga einnig sinn hluta í umframkostnaði sundlaugarinnar, eins og ríkið hafði áður tekið að sér að greiða hluta af áætluðum kostnaði. Sá umframkostnaður, sem á ríkið félli, ef litið yrði svo á, að ríkið hefði greiðsluskyldu vegna hans í sama hlutfalli og vegna áætlaða kostnaðarins, mundi verða um 100 þús. kr. Hér er gerð till. um, að mál þetta verði afgr. með 100 þús. kr. framlagi úr ríkissjóði, þannig að á árinu 1958 verði greitt til þess arna 50 þús. kr. sem fyrri greiðsla af umframkostnaði og síðari greiðslan fari þá fram á árinu 1959.

Íþróttasamband Íslands er eitt af fjölmennustu félagssamtökum ungs fólks á Íslandi, og hefur styrkur til þess úr ríkissjóði staðið óbreyttur um mörg ár. Er nú lagt til, að hann verði hækkaður um 25 þús. kr., úr 75 þús. kr. í 100 þús. kr.

Á síðustu fjárl. var 40 þús. kr. styrkveiting til Frjálsíþróttasambands Íslands, sem er deild innan Íþróttasambands Íslands, til þess að taka þátt í Evrópumeistaramóti í frjálsum íþróttum. Var þá gert ráð fyrir því, að þar væri um að ræða fyrri greiðslu af tveimur, og í samræmi við það hefur n. gert hér till. um, að 40 þús. kr. fjárveiting verði upp tekin sem síðari greiðsla til þessa Frjálsíþróttasambands til þess að taka þátt í umræddu Evrópumeistaramóti, sem fram á að fara á komandi sumri í Svíþjóð. En svo sem öllum er kunnugt, hefur landi og þjóð verið mikill sómi að frammistöðu okkar íþróttamanna úti í umheiminum nú að undanförnu, og leit n. svo á, að það væri ekki verri landkynning, en hvað annað að leggja nokkurt fé af mörkum, til þess að okkar íþróttamenn gætu verið með í þessu Evrópumeistaramóti.

Við 15. gr. fjárl. hefur n, gert nokkrar brtt., en þar er ekki um neinar stórvægilegar breytingar að ræða.

Það er lagt til, að heimiluð verði 20 þús. kr. fjárveiting, til þess að tryggt megi verða, að áfram verði haldið þýðingu á Kalevalaljóðunum finnsku, sem Karl Ísfeld blaðamaður hefur haft með höndum og fyrra bindi kom út af á yfirstandandi ári.

Lagt er til, að viðurkenningarstyrkur, sem William Craigie hefur haft á fjárl. undanfarin ár, 20 þús. kr., falli niður, enda er Craigie nú látinn.

Samband ísl. esperantista vinnur að útgáfu orðabókar til hagræðis fyrir þá Íslendinga, sem nota vilja alþjóðamálið esperantó, og hefur beðið um nokkurn stuðning af ríkisins hálfu til útgáfu þeirrar orðabókar. Hefur n. lagt tll, að komið yrði svolítið til móts við óskir þessa sambands með því, að veittur verði 10 þús. kr. styrkur til nefndrar útgáfu.

Til er í okkar landi félag eitt, sem ekki er mjög fjölmennt og ekki hefur látið mjög mikið á sér bera að undanförnu, Íslenzka stærðfræðifélagið. í því eru um 20 íslenzkir stærðfræðingar, mest eru það kennarar hér við menntaskólana og háskólann. Þeir eru þátttakendur í norrænu samstarfi og tímaritaútgáfu um stærðfræðileg efni og hafa farið fram á, að félagi þeirra verði sýndur nokkur sómi og fjárhagsstuðningur, einkum til þess að þeir geti staðið undir sínum skuldbindingum varðandi útgáfustarfsemi á norrænum stærðfræðitímaritum tveimur, sem þeir eru þátttakendur að. Hefur n. lagt til, að þessu félagi verði veittur 10 þús. kr. styrkur, en frv. gerði ráð fyrir 2.500 kr. styrk þeim til handa.

Ingimar Óskarsson er mikill fræðimaður um íslenzkt plöntulíf og hefur lagt mikla vinnu við rannsóknir og athuganir á íslenzku Flórunni og hefur gefið út rit um þau efni, sem hlotið hefur mikla viðurkenningu fræðimanna. Lagt er til, að Ingimar Óskarssyni verði veittur 8 þús. kr. styrkur til þessara rannsókna.

Varðandi lúðrasveitir og leikfélög gerir fjvn. þá brtt., að félögunum verði í öllum tilfellum gert að skila árlegri starfsskýrslu til menntmrn. og sanna þar með, að þau séu í lifandi starfi. En það vill við brenna, að slík félög leggi niður störf, deyi, og til tryggingar því, að ekki verði samt tekinn ríkisstyrkur til handa félögunum, þó að þau starfi ekki, hefur n. þótt vert að setja þetta ákvæði inn sem formála fyrir fjárveitingunni og sem skilyrði fyrir henni.

Af nýjum aðilum á þessum liðum leggur n. til, að tekin verði upp í frv, þrjú ný leikfélög, leikfélögin í Ólafsvík, Eskifirði og á Selfossi, og tvær nýjar lúðrasveitir, önnur á Ólafsfirði, hin á Selfossi, með sömu fjárveitingar og félög yfirleitt hafa, sem að svipuðum málefnum starfa, en það er 8 þús. kr. til leikfélaganna hvers um sig, en 10 þús. kr. til lúðrasveitanna hverrar um sig.

Árni Bjarnason fræðimaður á Akureyri ráðgerir að safna æviskrám Vestur-Íslendinga, gefa þær síðar meir út. Hann ásamt fleiri mönnum hefur í hyggju að ferðast gagngert þessara erinda vestur um haf á næstunni til þess að vinna að þessu, svo að fróðleikur um þessa Vestur-Íslendinga megi varðveitast, eftir því sem föng eru á, í okkar sögum og í okkar bókmenntum. Er lagt til, að til þessa verks verði veitt 30 þús. kr. á næsta ári.

Þorfinnur Kristjánsson prentari í Kaupmannahöfn mun vera mörgum Íslendingum, sem þar í borg hafa dvalið, kunnur. Hann hefur um langt skeið gefið út rit á íslenzku, eins konar fréttablað fyrir Íslendinga, og hefur haft til þess 3.500 kr. styrk á fjárl. En sá styrkur er bundinn við þetta blað hans, sem hét „Heima og erlendis“. Nú er Þorfinnur hættur að gefa út þetta blað, en tekinn að gefa út annað, sem að vísu er gefið út á dönsku, en eru fréttir frá Íslandi og er nú ekki síður við það miðað, að Danir geti fylgzt með því, þeir sem áhuga hafa á Íslandsmálum, hvað á Íslandi gerist. Er lagt til, að umorðaður verði liðurinn um þetta, þannig að þar verði ákveðið, að styrkur þessi verði veittur Þorfinni Kristjánssyni til útgáfustarfsemi, en ekki, að styrkurinn verði bundinn við nafn á ákveðnu blaði, einnig að styrkurinn verði hækkaður úr 3.500 kr. í 5 þús. kr.

Varðandi 16. gr. fjárl. gerir n. nokkrar till. Er þar fyrst, að komið er að því, að víðs vegar um landið valda bæði vötn og sjávarágangur tjóni, ýmist á ræktuðu landi eða landi þannig, að mannvirkjum stafar hætta af, og hefur á undanförnum árum verið veitt fé í þessu skyni til varnar. Umsjón með þessum verkum hefur ýmist vegamálastjórnin eða vitamálastjórnin. Ef um sjávarágang er að ræða, er það í flestum tilfellum vitamálastjórnin, sem stjórnar fyrirhleðslum eða sjóvarnargarðagerð, en vegamálaskrifstofan, þegar um er að ræða ágang vatna. Þó getur út af þessu brugðið, og hefur vegamálaskrifstofan nú framkvæmd þessara mála sums staðar, þó að um sjávarágang sé að ræða, ef svo hagar til, að það eru vegir, sem í hættu eru eða niður hafa brotnað. Þessir liðir hafa farið hækkandi ár frá ári að undanförnu, og svo er enn varðandi fyrirhleðsluliðina. Gerir fjvn. till. um, að þeir hækki í heildinni talið um 55 þús. kr., þ.e.a.s., að frá frv. lækki liðurinn um fyrirhleðslu í Jökulsá í Lóni úr 150 þús. kr. í 100 þús. kr., hins vegar verði teknir upp tveir nýir liðir í þessum fyrirhleðslum, þ.e. í Hofsá í Vopnafirði 35 þús. kr., en það er þannig til komið, að á s.l. ári var gerð áætlun um fyrirhleðslu þar upp á 70 þús. kr. og veitt í það í fyrra 35 þús. kr., og er þetta þess vegna áframhald og síðari hluti af þeirri fjárveitingu, og í fyrirhleðslu hjá Héraðsdal, þ.e. í Héraðsvötnum í Skagafirði, 40 þús. kr. Þar hafði áður verið hlaðið fyrir. Á s.l. ári var engin fjárveiting til þess, en var þó unnið fyrir eldri fjárveitingu, sem var geymslufé. Það verk fór eitthvað fram úr áætlun, og þykir þurfa að ætla fyrir því 40 þús. kr. á þessu ári. Með í þessari 55 þús. kr. hækkun, sem ég talaði um, er einnig til sjóvarnargarðs í Búðardal 30 þús. kr. En því hef ég talið það með fyrirhleðslunum, að það verk er undir yfirstjórn vegamálaskrifstofunnar. Og ég get vakið athygli á því, að í grg. meiri hlutans fyrir till. er ekki alveg nákvæmlega skipt í fyrirhleðslur og sjóvarnargarða, vegna þess að sjóvarnargarðurinn í Búðardal er talinn með fyrirhleðslum, þar sem í grg. hefur meiri hl. haldið sig við það að skilgreina sem fyrirhleðslur það, sem vegamálaskrifstofan hefur umsjón með, en sjóvarnargarða það, sem vitamálaskrifstofan sér um.

Um sjóvarnargarða er það að segja, að þar gerir n. till. um 1 millj. kr. hækkun frá frv. Er þar um að ræða fyrirhleðslu á Akranesi, sem þykir mjög aðkallandi og gerð er till. um að veitt verði 100 þús. kr. í, til sjóvarnargarðs í Bessastaðaós á Álftanesi 100 þús. kr., til sjóvarnargarðs í Borgarfirði eystra 25 þús. kr., til sjóvarnargarðs í Borgarnesi 50 þús. kr., til sjóvarnargarðs á Flateyri, sem ekki hefur verið veitt til áður, 200 þús. kr. Vitamálaskrifstofan skýrir svo frá, að þar sé á ferðinni mjög alvarlegt landbrot, sem varð sérstaklega mikið vart við í því hafróti, sem víða gerði um miðjan s.l. vetur, í janúarmánuði aðallega. Það er talin nokkur hætta á því samkvæmt upplýsingum vitamálaskrifstofunnar, að sjór flæði yfir innan við Flateyrina, þannig að Flateyrin gæti orðið eyja, ef ekki væri að gert. Þar er um að ræða verk, sem vitamálaskrifstofan áætlar að kosta muni ekki minna en 1.3 millj. kr., og er þetta sem sagt fyrsta fjárveiting í það, 200 þús. kr., sem nefndin gerir till. um.

Um sjóvarnargarð á Garðskaga, sem áætlað er í 50 þús. kr., og sjóvarnargarð í Grenivík, sem áætlaðar eru í 25 þús. kr., einnig um sjóvarnargarð á Ísafirði með 100 þús. kr. fjárframlagi og sjóvarnargarð í Ólafsvík, 50 þús. kr., þarf ekki að fjölyrða, enda hafa öll þessi mál komið hér fyrir áður.

Sjóvarnargarður á Seltjarnarnesi, sem nú er ætlað í 100 þús. kr., er nýr og er einn af þeim stöðum, sem lét verulega undan í fyrravetur, og er nú ekki vitað, hversu miklar framkvæmdir muni þurfa að framkvæma þar, um það er lýkur, til þess að ekki verði spjöll á landi að verulegu ráði.

Þá er það einnig kunnugt, að Eiðið í Vestmannaeyjum hefur lækkað að undanförnu, og gengur sjór yfir það í aftökum og hafnarmannvirkin í hættu, ef Eiðið ætti að brotna niður. Á s.l. ári voru veittar í það 200 þús. kr., og gerð er hér till. um, að sama framlag verði til sjóvarnargarðs í Eiðinu í Vestmannaeyjum í ár.

Þá er till. um, að sandgræðslan fái 30 þús. kr. styrk til þess að gefa út afmælisrit í tilefni af því, að hún er fimmtíu ára gömul á þessu ári, eins og menn kannast við, Ég get vakið athygli á því, að áður en till. á þskj, 145 voru prentaðar upp, var þarna prentvilla, sem hugsazt gæti að misskilningur gæti af hlotizt. Þar stóð, að það væri skógræktin, sem þessi fjárveiting væri ætluð, en er sem sagt sandgræðslan. Skógræktin er þegar búin að gefa út sitt rit, en hún er einnig fimmtug á þessu ári.

Samkvæmt lögum um dýralækna fjölgar dýralæknum í landinu á næsta ári. Það er gert ráð fyrir því, að fjórir nýir dýralæknar taki til starfa um n.k. áramót, og var ekki annað að gera, en áætla fyrir þeim kostnaðarauka, sem af því stafar, og hækka launalið hjá dýralæknum í samræmi við þetta. Alls nemur sú hækkun, sem lögð er til vegna þessa liðs, 188 þús. kr. rúmlega.

Einnig er gerð ein brtt. um launaliðinn hjá sauðfjársjúkdómavörnunum, að hann hækki, vegna þess að rangt hafi verið flokkaður eftir launalögum einn starfsmaður stofnunarinnar, og hækkar framlagið til sauðfjárveikivarnanna því um 13 þús. kr. rúmlega samkvæmt þessari brtt.

Íslendingar eru aðilar að alþjóðahvalveiðiráðinu. Hefur það sent áætlun sína um framlög aðila til ráðsins, og sýnir sú áætlun, að liðurinn verður að hækka, framlag Íslendinga verður að hækka úr 6.855 kr., sem áætlaðar voru í fjárlagafrv., í 8.300 kr., og er gerð hér till. um, að svo verði gert.

Þá er komið að 17. gr. frv., en við hana hefur nefndin lagt til að gerðar verði tvær breytingar: Að Barnaverndarfélag Akureyrar fái byggingarstyrk til dagheimilisbyggingar, 20 þús. kr. Félagið hafði á síðustu fjárlögum 20 þús. kr. styrk, og nú er lagt til, að það fái jafnháa upphæð í ár, sem byggingarstyrk. Og endurreiknað hefur verið tillag Íslands til Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, og kemur í ljós, að ekki nægja til þess 69 þús. kr., eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, heldur muni til þess þurfa 17.661 kr.

Þrjár brtt. gerir nefndin við þessa umr. við 22. gr. frv., heimildagreinina:

ríkisstj. sé heimilað í fyrsta lagi að ábyrgjast fyrir Siglufjarðarkaupstað allt að einnar millj. kr. rekstrarlán vegna síldarverksmiðjunnar Rauðku. Slík ábyrgð hefur verið í fjárlögum að undanförnu og er í gildandi fjárl.

Enn fremur að ábyrgjast allt að 200 þús. kr. lán fyrir Skipasmíðastöð Njarðvíkur h/f til smíði nótabáta úr deborine-efni, en í Njarðvík er nú farin af stað skipasmiðastöð eða réttara sagt: það er gömul skipsmíðastöð þar, sem byggt hefur allmarga mótorbáta, en nú er tekin til að byggja báta úr glerkenndu efni, gerviefni, sem nefnist deborine og hefur rutt sér mjög til rúms í Englandi á síðustu árum og margir þeir, sem að sjávarstörfum vinna og til skipasmíða þekkja, telja að eigi fyrir sér mikla framtíð, enda væri sannarlega ekki vanþörf á því, að til sögunnar kæmi eitthvert hald betra efni en sú eik, sem á undanförnum árum hefur verið notuð til skipasmiða aðallega. En eins og öllum er kunnugt, sem til þeirra mála þekkja, hafa komið fram verulegar skemmdir í bátaeik, þannig að fjölmargir bátar, sem nú eru 10–15 ára gamlir, — mest verður þess nú vart í þeim, — reynast vera með bráðafúaskemmdum eða þurrafúaskemmdum, eins og þær hafa veríð nefndar, og hefur það eitt valdið ríkissjóði verulegum útgjöldum, enda hefur hann til þessa tekið að sér að bæta í mjög mörgum tilfellum tjón manna, sem þurrafúinn hefur herjað á. Þessi skipasmiðastöð, sem hér um ræðir, er þegar að byrja að smíða smærri skip, þ.e.a.s. nótabáta, og einstaka hluta í vélbáta, svo sem stýrishús og yfirbyggingar, og getur þessi skipasmiðastöð ekki notið ríkisábyrgðar eftir þeim gildandi lið, sem nú er í fjárlögum um ríkisábyrgð til skipasmíðastöðva, því að það er bundið því, að ríkið ábyrgist ekki aðrar skipasmíðar en þær, sem eru veðhæfar og eiga aðgang að lánum úr Fiskveiðasjóði Íslands. En svo er ekki um nótabáta og tæplega líklegt, að svo verði litið á, að einstakir hlutar í vélbáta geti fallið undir þau ákvæði.

Þá er gerð till. um það, að ríkisstj. verði heimilað að afhenda Keflavíkurkaupstað til eignar svonefnda Miðbryggju í Keflavik, og enn fremur, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast lán til viðgerða á þeirri bryggju, allt að 60 þús. kr.

Ríkið eignaðist þessa bryggju á sínum tíma með þeim hætti, að hún var afhent sem greiðsla upp í stóreignaskatt, en svo sem öllum er kunnugt, hefur ríkið komizt yfir ýmislegt góss með þeim hætti á undanförnum árum, sem hefur orðið lítil tekjulind fyrir ríkissjóð, enda hefur ríkið aldrei haft neinar tekjur af þessari umræddu Miðbryggju í Keflavik. Hún er svo að segja eingöngu notuð sem höfn eða sem afgreiðslustöð fyrir trillubáta, og hefur ekki þótt fært að leggja sérstakan skatt eða afgreiðslugjöld á þau skip, þótt þau noti bryggjuna. Hún er hins vegar allmikið skemmd og hefur lítt verið haldið við að undanförnu, og liggur nú fyrir, að ef hún á að geta sinnt þessu hlutverki sínu, að vera afgreiðslustöð fyrir smábáta, sem þeim Keflvíkingum þykir nokkur nauðsyn til bera, muni þurfa að fara fram á henni viðgerð, og er í ráði að leyfa ríkinu að afhenda þessa eign til Keflavíkurkaupstaðar, sem þá framvegis viðhaldi bryggjunni og annist rekstur hennar.

Þá eru upp taldar þær till., sem nefndin að svo stöddu gerir við fjárlagafrv. En ef þær væru allar samþ., mundi það leiða til þess, að útgjöld ríkisins mundu hækka um 124.294,85 kr.

Nú er það öllum kunnugt, að fjárlagafrv., eins og það var lagt fram, var með rekstrarafgangi, sem nam sem næst 9.4 millj. kr. Ef till. fjvn, yrðu samþ., mundi það þýða, að enginn rekstrarafgangur yrði hjá ríkissjóði, heldur yrði rekstrarhalli, sem næmi rúmlega 3 millj. kr., og vil ég vekja athygli á því, að í yfirliti um þetta efni á bls. 4 í nál. meiri hlutans á þskj, 147 er ein prentvilla, þar sem segir, að rekstrarhallinn mundi þá nema 30007902 kr. Þar er einu núlli ofaukið í tölunni, á að vera 3.007.902 kr. Verður það væntanlega leiðrétt í endurprentun.

Á sjóðsyfirliti var frv. með 71 og nærri 1/2 millj. kr. óhagstæðum greiðslujöfnuði. Að samþykktum till. nefndarinnar mundi óhagstæði greiðslujöfnuðurinn nema 83.8 millj. kr. rúmlega. En þennan halla og þá útgjaldaaukningu, sem meiri hlutinn hyggst enn gera tillögur um, er eins og áður er fram tekið, ætlunin að rétta bæði með brtt. á tekjuhlið frv. til hækkunar og brtt. til lækkunar á gjaldahliðinni, og er það ætlun meiri hlutans, að um það er lýkur afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1958, verði af meiri hlutans hálfu gerðar till. um það, að fjárlög verði afgr. greiðsluhallalaus.