13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla að fá að segja nokkur orð í tilefni af eldhúskafla þeirrar ræðu, sem hv. 1. þm. Reykv. (BBen) var að flytja hér áðan, þ.e.a.s. þeim kafla ræðunnar, sem hann flutti hér fyrir kaffihléið, en áður en ég vík að málfærslu hans þá, vil ég aðeins minnast á tvö eða þrjú atriði af því, sem hann tók fram nú eftir kaffihléið.

Það er þá fyrst, að það er ekki rétt, sem hv. þm. sagði, og stafar sjálfsagt af misgáningi, að Samband ísl. samvinnufélaga hafi laxár á sínum vegum. Hefur því aldrei neitt komið til minna kasta sem stjórnarnefndarmanns í Sambandinu að ákveða eitt eða annað um það, hvort slíkt væri heppilegt eða ekki.

Þá vil ég taka eftirfarandi fram út af því, sem hv. 1. þm. Reykv, sagði varðandi úthlutun atvinnuaukningarfjár: Hann sagði, að það hefði verið áhugamál sjálfstæðismanna, að úthlutun atvinnuaukningarfjár gæti farið fram þannig, að sem flestir þingflokkanna ættu þar fulltrúa. Ég segi það alveg hiklaust, að ég varð ekki var við þann áhuga hjá sjálfstæðismönnum, fyrr en hillti undir það, að þeir ættu að fara úr ríkisstj. Og ég vil upplýsa það í þessu sambandi, vegna þess að hv. þm. var að tala hér eins og einhver sérstakur sanngirnispostuli að þessu leyti og eins og það hefðu verið aðrir vondir menn, sem hefðu komið því til leiðar, að stjórnarandstæðingar hefðu hér á árum áður ekki verið kvaddir þarna með eða í önnur efni hliðstæð, þar sem um stórar ákvarðanir væri að ræða, að það var alveg sérstök krafa Sjálfstfl., að stjórnarandstæðingar t.d. kæmu ekki til greina í innflutningsnefnd, þar sem þó eru teknar einhverjar veigamestu ákvarðanir.

Hitt er svo annað mál, að þegar sjálfstæðismenn eru komnir í stjórnarandstöðu, þá finnst þeim þetta vera skakkt og vilja hafa það öðruvísi. Ég er ekki að segja, að mönnum sé ekki leyfilegt að skipta um skoðun, en það er dálítið óviðkunnanlegt, þegar þeir, sem hafa svona forsögu að baki sér, eru að koma fram eins og einhverjir sérstakir sanngirnispostular, en það hafi staðið á öðrum að sýna þá sanngirni, sem þeir hafi endilega viljað koma við.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að fjmrh. hafi á undanförnum árum tekið sér vald til þess að ákveða umframgreiðslur einn út af fyrir sig.

Þetta er nú ekki alveg rétt, því að yfirleitt hefur það verið þannig, að umframgreiðslur eru að heita má aldrei inntar af höndum nema eftir kröfu annarra ráðuneyta. Það eru þau, sem sækja á um að fá umframgreiðslurnar, því að útgjaldabálkurinn heyrir yfirleitt undir þeirra umsjón, og þess vegna er það venjulega þannig, að það eru a.m.k. tveir ráðherrar, sem eiga hlut að umframgreiðslum. Annars væri ég ekki á móti því, að það væri erfiðara, en nú að fá umframgreiðslur, og t.d. hefði þessi hv. þm., sem hér var að tala, 1. þm. Reykv., áreiðanlega haft gott af því að hafa meira aðhald, en hann gat haft frá fjmrn. einu um það að stofna ekki til umframgreiðslna, þegar hann var ráðh. Ég held það séu engar ýkjur eða neitt purkunarlaust, þó að það sé sagt, að ég hef a.m.k. fáa ráðh. þekkt, sem hafa verið ýtnari við að auka útgjöld á öllum sviðum en þessi hv. þm., bæði heimil og óheimil, og í mörgum greinum staðið fyrir því að efna til útþenslu í ríkisrekstrinum.

Ég sagði, að ég hefði kvatt mér hljóðs vegna þeirrar dæmalausu ræðu, sem hv. þm. flutti hér fyrir kaffihléið. Ég mun ekki í þessum umr. þreyta mikið kappræður við menn og því síður fara að svara hér málþófsræðum. En þar sem þessi hv. þm. mun eiga að heita eins konar forustumaður stjórnarandstöðunnar, vil ég sýna honum þann sérstaka sóma að svara fáeinum orðum strax því almenna, sem hann beindi að mér sérstaklega. En eins og hv. þm. heyrðu, var sá hluti ræðu hv. þm. botnlausar, sundurlausar, rakalausar skammir og svívirðingar og brigzl, og er þá sízt ofsagt um innihald ræðunnar. Og svo á þetta að heita forusta stjórnarandstæðinga. Þá er von á góðu eða hitt þó heldur úr þeim herbúðum, þegar þetta á að heita liðsoddurinn. Það er ómögulegt að verjast þeirri hugsun, þegar maður hlustar á hv. þm., að hann missi óvart af munni sér margt af því, sem þaðan kemur og hann vildi í raun og veru alls ekki hafa sagt. Það er eins og eitthvert afl, sem hv. þm. hefur ekki vald á, mæli fyrir munn honum. Manni dettur stundum í hug, að hv. þm. sé einna líkastur hátalara, sem óvandaður strákur hefur náð í og noti til þess að senda mönnum tóninn. Ég er alveg hissa á málflutningi hv. þm., og ég býst við, að svo sé um fleiri.

Hann þrástagast hér á því, að þessi eða hinn hafi sagt ósatt eða flutt beinar blekkingar o.s.frv., og í raun og veru er þetta aðalefni í ræðum hv. þm. Ég ætla að nefna hérna aðeins þrjú örlítil dæmi um málflutning hv. þm. sjálfs.

Eitt af því, sem hann sagði, var, að ég hefði farið upp á Akranes og fyrirskipað Akurnesingum, hvern þeir skyldu kjósa þar til forustu í bæjarmálunum. Ég hefði gefið út fyrirskipun um það til Akurnesinga, sagði hv. þm. Hann kom að þessu tvisvar í ræðu sinni. En hvað var það, sem gerðist. Ég sagði það í hófi, sem haldið var á Akranesi til að fagna þar mikilli framkvæmd, að Akurnesingar hefðu borið gæfu til að velja sér formann í bæjarmálum, mann sem sækti af álíka kappi málefni þeirra fyrir bæinn eins og þeirra beztu formenn sæktu sjóinn. Þetta var það, sem ég sagði, og ekkert annað um þennan forustumann bæjarmálanna á Akranesi. Hv. þm. segir mönnum það svo hér, að ég hafi fyrirskipað Akurnesingum, hvern þeir skyldu kjósa, — fyrirskipað, og tvítók þetta.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði hótað að beita fjárkúgun, — ég hefði hótað því hér í þingsölunum að beita fjárkúgun. Ég held, að hann hafi tvítekið þetta líka, og mér er sagt, að hann hafi sagt þetta einnig í gær. Honum þykir þetta svo snjallt: að ég hafi hótað því að beita fjárkúgun, hótað því, ef tiltekinn þm. leyfði sér að halda fram sjálfstæðri skoðun. Þetta segir hann við ykkur hér, sem heyrðuð, hvað gerðist. Það, sem gerðist, var, að við hv. 1. þm. Rang. deildum um tiltekið atriði. Ég sagði, að úthlutun atvinnuaukningarfjár færi fram af hendi ríkisstj., en hv. 1. þm. Rang. sagði, að þetta væri rangt. Þá kallaði ég fram í fyrir hv. þm. og sagði, að það borgaði sig ekki fyrir hann að halda þessu fram. Allir vissu, hvað var að gerast. Ég var að vara þm. við því að halda því fram, sem rangt var, vegna þess að það mundi koma honum í koll. En þetta segir hv. 1. þm. Reykv. að hafi verið hótun til þm. um fjárkúgun fyrir það að halda fram sjálfstæðri skoðun. Þetta segir hann ykkur, sem heyrðuð þetta. Hvernig mundi þessi hv. þm. segja frá því, sem ekki væri hægt að sannreyna?

Það er svo mál út af fyrir sig, að ekki getur þessi hv. þm. hugsað sér neitt tjón nema fjárhagslegt tjón. Ekki getur hann hugsað sér, að þessi aðvörun mín gæti átt við nokkuð annað, en einhvern fjárhagslegan skaða. Það gat ekki verið, að honum dytti í hug, að menn yrðu fyrir álitshnekki út af því að halda fram röngu máli. Nei, það hlaut að vera fjárhagslegt, sem hér var átt við, það hlaut að vera hótun um að beita fjárkúgun.

Þá er enn eitt lítið dæmi um það, hvernig þessi hv. þm. gerir mönnum upp orðin og svarar síðan, en um það eru svo mýmörg dæmi í máli hans, að ég minnist ekki að hafa heyrt annað eins á Alþ. Hann sagði, að ég hefði sagt við 1. umr. fjárl., að menn yrðu að ganga hægt um dyr framfaranna. En hvað sagði ég? Ég sagði, að menn yrðu að sækja skipulega fram um framfaranna dyr. Og hvernig lagði svo hv. þm. út af þessu, þegar hann var búinn að laga það til? Jú, það var vottur þess, hvað þessi hæstv. ráðh. er íhaldssamur, er á móti framförum og annað þar fram eftir götunum. Þetta er málflutningur í lagi. Hvað mundi svona maður leyfa sér af því, sem ekki er hægt að sannreyna?

Svo er það út af fyrir sig, að það skuli vera til formaður stjórnarandstöðu, sem ekki viðurkennir, að hér sé um ofþenslu í fjárfestingu að ræða. Það ber vott um það, hvern skilning þessi hv. þm. hefur á hlutverki sínu sem formaður í stjórnarandstöðunni. Hann telur, að hann beri enga ábyrgð og geti sagt hvað sem honum sýnist og þurfi ekki að taka neitt tillit til staðreynda. Það er eins og honum finnist það vera sérréttindi stjórnarandstöðunnar að tala svart og taka ekkert tillit til þess, hvernig ástatt er, enda er það raunar ekkert einkennilegt, þegar maður athugar, hvernig flokkur hans hagar sér í stjórnarandstöðunni.

Þá var það eitt af því, sem þessi hv. þm. bauð mönnum upp á, að segja, að stjórnarliðið, þ.e.a.s. hv. þm. stjórnarflokkanna, sem sátu hér fyrir framan hann og aftan og allt umhverfis, — við þá sagði hann, að þm. stjórnarflokkanna hafi ekkert fengið að fylgjast með ráðagerðum ríkisstj. um fjárlögin og efnahagsmálin. Hver einasti þm. stjórnarflokkanna, sem hér er og á þetta hlustar, veit, að þetta er ósatt. Hv. þm. veit sem sé ekkert, hvað hann er að segja, og hefur í þessu dæmi engin skilyrði til þess að vita það. Samt sem áður leyfir hann sér að fullyrða þetta upp í opið geðið á þeim, sem hér sitja allt umhverfis hann. Svo fyllir þessi hv. þm. allar sínar ræður af tali um ósannindi, sem hinir og aðrir haldi fram, blekkingar og annað þar fram eftir götunum. Ég held, að það væri ráð fyrir þennan hv. þm. að reyna að komast upp á hærra „plan“ í málflutningi sínum, en honum hefur tekizt.

Ég skal ekki nefna fleiri dæmi um þetta. Ég vil svo aðeins benda á það út af þessum umr., að hv. þm. deildi mjög á mig og ýmsa fleiri fyrir, að fjárl. væru afgr. sér í lagi og útflutningssjóðurinn væri aftur hafður í öðru lagi. En ég verð að segja, að mig rekur ekki minni til, að sjálfstæðismenn væru nokkuð neyddir til þess að hafa framleiðslusjóðinn sér og fjárl. sér. Ég man ekki til, að um það væri neitt ósamkomulag. Ég man ekki til annars, en það væri samkomulag um að hafa þetta hvort í sínu lagi, enda var það ekkert óeðlilegt, að þetta væri hvort í sínu lagi, því að það er auðvitað allt annað mál, hvaða ráðstafanir eru gerðar til þess að færa fjármagn frá þjóðinni yfir til atvinnuveganna, en hitt, hversu há ríkisútgjöld eru höfð.

Ég skal svo ekki hafa þessa ræðu miklu lengri. En ég vil þó minnast hér á einn þátt í málflutningi hv. þm. að lokum. Hv. þm. hafði hér hin mestu stóryrði við í garð ríkisstj. og í minn garð alveg sérstaklega út af því, að ég hefði leyft mér að gera ráð fyrir, að sjálfstæðismenn gerðu till. um það, hvernig ætti að afgr. fjárhagsmálin. Og hvað sagði hv. þm. um þetta atriði, sem er vitanlega kjarninn í öllu þessu máli, sem sé þetta, að hv. stjórnarandstæðingum er skylt að gera till. um það, hvernig afgr. skuli höfuðmálin, ef það á að taka alvarlega málflutning þeirra? Hann sagði m.a.: Hvar hefur hæstv. ráðh. verið, að láta sér detta aðra eins fjarstæðu í hug og það, að stjórnarandstæðingar geri till. um, hvernig á að afgreiða fjárhagsmálin? — Það má kannske segja, að það sé undarlegt, að mér skuli hafa dottið í hug, að Sjálfstfl. gerði þetta. Það má kannske segja það. En ég ætla að leyfa mér að halda því fram, að það sé ekki einkennilegt, að fram á þetta sé farið og á þetta sé bent, því að þetta er skylda stjórnarandstæðinga að gera, Hv. þm. sagði, að ég væri launaður til þess að gera till. Stjórnarstuðningsmenn og ríkisstj. munu líka gera sínar till. um þetta efni. En ég er ekki launaður til þess að gera till. fyrir stjórnarandstæðinga. Þeir verða að gera svo vel að gera sínar till. sjálfir og standa við sinn málflutning sjálfir. Ég á að gera till. fyrir ríkisstj., og það mun verða gert. Ríkisstj. mun gera sínar till.

Þá sagði 1. þm. Reykv. að lokum, að það sjái allir, að stjórnarandstæðingar geti ekki gert till., af því að þá vanti upplýsingar. Þeir hafa alveg sömu upplýsingar og stjórnarstuðningsmenn hafa um þessi mál.

Og hv. þm. sagði meira. Hann lækkaði sig meira á flóttanum, því að hann sagði, að hv. stjórnarandstæðingar hefðu ekki þekkingu til þess að gera till. Þeir eru búnir að vera í stjórnaraðstöðu í 17 ár og eru nýlega farnir úr stjórninni. Þeir hafa aðgang að öllum sömu upplýsingum í fjvn. og annars staðar um fjármál ríkisins og annað og stjórnarstuðningsmennirnir. En samt heyrum við, að þeirra flótti er svo hraður, að þeir segjast ekki hafa upplýsingar og þeir segjast ekki hafa þekkingu til þess að gera till. um fjárhagsmálefni landsins. En þeir hafa þekkingu til þess að fella hvern sleggjudóminn öðrum þyngri um aðra og til þess að fella hvern sleggjudóminn öðrum þyngri um fjárhagsmálin yfir höfuð. Þá vantar ekki upplýsingarnar og þekkinguna. Halda menn, að það sé hægt að bjóða mönnum upp á málflutning af þessu tagi? Er hægt að hugsa sér aumari frammistöðu, en þessa hjá mönnum, sem allt þykjast vita hversdagslega og öllu þykjast hafa ráðið undanfarið, að því er mönnum skilst? Ég held, að það sé ekki hægt, og það mun verða tekið eftir því, hvaða till. koma frá stjórninni eða stjórnarstuðningsmönnum um þessi mál, en það mun líka verða tekið eftir því um allt land og í þingsölunum, hvort það koma till. frá stjórnarandstæðingum eða ekki.