13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það skulu nú aðeins vera örfá orð, sem ég segi í þetta sinn, enda er við fáa að tala og orðið áliðið nætur. En ég vildi segja hér örfá orð í tilefni af ummælum hv. frsm. fjvn., og ég byrja á því að þakka hv. frsm, fyrir það, að hann gaf loforð um það — ég tók það svo — að taka til nánari athugunar fjárveitingar til Skagastrandarhafnar, enda er á því mikil þörf, eins og ég hef lýst og mun ræða nánar við nefndina og vonast eftir góðum undirtektum hjá hv. frsm. og nefndinni í heild.

Hv. frsm, sagði, að það væri rangt, sem hefði verið haldið fram, að það hefði verið nokkur þrýstingur af hálfu sjálfstæðismanna til þess að hækka fjárveitingar til þjóðvega. Þessi hv. þm. hlýtur þó að muna, að það er búið að ræða um það ekki einu sinni, heldur mörgum sinnum í samgöngumálanefndum þingsins, hvílíkt vandræðamál væri þarna um að ræða, og þar eru 4 sjálfstæðismenn, sem hafa aðallega um það rætt, hvílík nauðsyn væri á að hækka þessa fjárveitingu mjög stórkostlega. Ég hef lagt þar fram fyrir löngu, löngu áður en hv. fjvn. tók þetta mál fyrir, till. um það, að samgöngumálanefndir þingsins skoruðu á hv. fjvn. að hækka þennan gjaldalið í 20 millj. úr 12. Nú hefur það aldrei fengizt afgreitt, ekki einu sinni borið upp í samgmn. af stjórnarliðanna hálfu, þessi till., og þess vegna hefur hún ekki komizt sina eðlilegu leið. En þar sem 3 hv. nm. úr fjvn. eru í samgmn., vita þeir vilja okkar í þessu efni og það fyrir löngu, enda mátti það gefa auga leið, að það er að því hert enn þá meir, að þessi liður, sem landsbúum úti á landsbyggðinni er meira áhugamál en flest annað, yrði ekki látinn óhreyfður eins og hann var í frv. Nú hefur hv. fjvn. tekið inn á frv. — ekki alla þessa till. og ekki einu sinni hálfa, heldur svona tæplega hálfa, og má segja, að það sé þó töluverð framför frá því, sem í frv. stendur.

Hv. frsm. sagði, að í því væri mikið ósamræmi varðandi mína ræðu hér í kvöld að halda því fram, eins og ég gerði, að það væri gjaldþrotasvipur yfir þessu fjárlagafrv., en lýsa því jafnframt, að það væru nýkomnir tveir nýir bátar til Skagastrandar og von á þeim þriðja innan skamms. Í þessu er ekkert ósamræmi. Ég tók það þá strax fram og get endurtekið það, að ég er þakklátur fyrir, að þessir bátar eru þangað inn fluttir, og ég býst við, að hæstv. félmrh. eigi þar kannske mestan hlutinn að. En þó að ég sé þakklátur fyrir þetta, þá veit ég, að þarna fylgir böggull skammrifi, vegna þess að þeir bátar, sem fyrir hafa verið á þessum stað, hefðu ekki getað starfað, og svo verður væntanlega um þessa, nema með mjög miklum styrk vegna þess aflabrests, sem verið hefur á okkar flóa að undanförnu. Og ég vil mega vænta þess, að þessi útgerð fái áfram að njóta svo góðrar aðstoðar, að það sé hægt að reka hana, en hún verði ekki látin gefast upp, eins og líkur hefðu verið til, ef hún hefði ekki fengið þá aðstoð, sem nauðsynlegt var.

En varðandi hitt stóra atriðið, sem ég hélt hér fram og hvika ekki frá, er það, að það er fullkominn gjaldþrotasvipur ekki einasta yfir þessu fjárlagafrv., heldur og yfir hinum opinberu fjármálum yfirleitt, því að það er þar um meira að tala, en fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, þar sem eftir er útflutningssjóður og fleira í því sambandi, Það hefur aldrei staðið svo á undanförnum árum, að það lægi fyrir fjárlagafrv., sem á vantar yfir 100 millj. kr., til þess að það væri greiðsluhallalaust, enda er það kunnugt mál, að það er ekki líklegt, að það sé hægt að halda því áfram ár eftir ár að hækka tolla og skatta um hundruð milljóna. Og þegar komið er inn á þá leið, sem nú er komið, þá er það kannske ekkert svo mjög undarlegt, þó að hæstv. ríkisstj. standi ráðalaus yfir þeim vanda, sem hún hefur átt mikinn þátt í að koma þessum málum í.

Út í þetta skal ég ekki fara nánar nú, ég gerði það nokkuð með tölulegum röksemdum hér í kvöld og skal ekkert af því ítreka, en ég veit, að þegar jafnglöggur maður og hv. frsm. fjvn. hugsar vel um það, þá sér hann, að í þessu efni er ekkert frá minni hálfu ofmælt, því að útlitið er því miður ískyggilegra, en almenningur enn gerir sér grein fyrir.