19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Á þskj. 204, II. lið, flyt ég ásamt þrem öðrum hv. þm., þm. Snæf. (SÁ), þm. Dal. (ÁB) og 11. landsk. (PP), brtt. við frv. til fjárl., sem miðar að því, að fjárveiting til Heydalsvegar verði hækkuð um helming, úr 150 þús. í 300 þús. kr. Ég hygg, að ekki sé þörf á því að fara mörgum orðum um þennan veg. Ég ætla, að flestir hv. þm. þekki þessa leið nokkuð, a.m.k. af afspurn. Þetta mál hefur nefnilega oft borið á góma, síðan Heydalsvegur var tekinn í tölu þjóðvega árið 1943 eða 1944, að mig minnir. Á síðasta Alþingi fluttu sömu þm. till. um, að fjárveiting í þessu skyni, sem í frv. s.l. vetur var ákveðin 150 þús., yrði hækkuð upp í 500 þús. kr., en til vara í 300 þús. kr. Báðar þessar till. voru felldar. Því er þó ekki að neita, að talsvert hefur áunnizt í þessu máli undanfarin ár. Þjóðvegurinn um Dalasýslu út Hörðudal að sýslumörkum Dala- og Snæfellsnessýslu er nú stórbættur, sérstaklega eftir þá vegargerð, sem þar var framkvæmd s.l. sumar. Einnig hefur talsvert miðað áfram sunnan á nesinu. Eftir er þó enn talsvert drjúgur spölur yfir Heydalinn sjálfan og nágrenni hans að norðan og sunnan. Þetta verk þyrfti að vinnast til fulls á næstu tveim sumrum, en þeim áfanga verður ekki náð, meðan fjárveitingin er skorin við nögl svo mjög sem nú er gert. Hins vegar er að sjálfsögðu unnt að fara þá leið að afla lánsfjár til bráðabirgða til að fullvinna verkið, en út á þá braut er ekki hyggilegt að fara, fyrr en komið er lengra áleiðis og nær lokatakmarkinu, en nú er.

Það er víða beðið um og vonazt eftir auknu fé í vegi úti um byggðir landsins. Flestir eru vegir þessir meira og minna gagnlegir og æskilegir, en ekki jafnnauðsynlegir allir. Meðan fé er svo mjög takmarkað til vegagerðar, verður að leggja höfuðáherzlu á vissar meginleiðir, sem koma að sem mestu gagni. Þjóðvegurinn um Heydal er áreiðanlega í allra fremstu röð þeirra vega, sem hraða ber af fullum krafti. Hann verður einna lægsti fjallvegur á landinu, aðeins á annað hundrað metra yfir sjávarmál. Hann tengir saman byggðarlögin norðan og sunnan Snæfellsnesfjallgarðs og opnar greiðari vetrarleið um Vesturland og jafnframt áfram til Norðlendingafjórðungs. Ég verð því að ætla, að till. þessi eigi fylgi að fagna, a.m.k. hjá hv. þm. vestan- og norðanlands.

Það hefði verið ærin ástæða til að hreyfa fleiri till. um hækkuð framlög til nytsamra hluta, svo mjög sem þeim er haldið niðri, en ég hef þó ekki talið það fært. Þeim mun ríkari áherzlu vil ég leggja á það, að brtt. þessi um aukið fé til Heydalsvegar verði samþ.