19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er nú svo langt liðið á nóttu, að ég mun ekki lengja þessar umr. og aðeins minnast hér á fá atriði. Hins vegar gat ég ekki vegna ýmissa ummæla hæstv. fjmrh. í tilefni af till. minni hluta n. annað en sagt hér nokkur orð þeim til andsvara.

Áður en ég vík að þeim athugasemdum mínum, vildi ég aðeins minnast örfáum orðum á ræðu þá, sem hv. 3. þm. Reykv. flutti hér áðan. Ég skildi nú ekki eiginlega, í hvaða tilgangi sú ræða var hér flutt, en engu að síður var hún þó að ýmsu leyti fróðleg, þó að hún snerti lítið afgreiðslu þess máls, sem hér er um að ræða. Í henni var að finna ýmsar töluvert eftirtektarverðar vísbendingar. Það, sem var einna eftirtektarverðast varðandi hugmyndir hv. þm. um það, hvernig ætti að leysa efnahagsvandamálin, var helzt að þjóðnýta verzlunina, og ástæðan til þess, að nauðsynlegt var að þjóðnýta verzlunina, sýndist helzt vera sú, að það þyrfti með einhverjum ráðum að koma í veg fyrir það, að fólk gæti keypt eins mikið og hv. þm. hefði orðið var við að nú ætti sér stað í verzlunum fyrir jólin. Þessi boðskapur hljómar nú sennilega nokkuð einkennilega, ekki sízt frá þessum hv. þm., og það virðist næsta kynlegt, ef það á að vera sérstök ógæfa, að fólk hafi tækifæri til þess að kaupa sér ýmsa hluti fyrir jólahátíðina, og til þess að bæta úr því þurfi að þjóðnýta verzlunina. Samkvæmt þessu virðist því ekki ætlunin með þjóðnýtingu verzlunarinnar vera sú að bæta verzlunarkjör almennings, heldur nota verzlunina sem tæki til fjáröflunar fyrir ríkissjóð, sem sannarlega hefur mikla þörf á hverju ári fyrir nýtt fé. Þetta þótti mér eftirtektarverð yfirlýsing, og sennilega hefur hv. þm. borið hana fram til þess að undirbyggja fullyrðingu sína um, að ekki yrði gengislækkun, eða a.m.k. gera hana það sennilega, að líklegt væri, að einhver hlustaði á þá fullyrðingu með alvöru.

Þá hélt hv. þm. því fram, að þetta væri svo sem allt í lagi, vegna þess að núv. ríkisstj. hefði hafizt handa um svo stórfellda eflingu atvinnutækjanna við sjávarsíðuna, að þetta mundi nánast allt lagast af sjálfu sér, þegar þessi tæki væru komin.

Það er auðvitað ekki nema gott og blessað að kaupa ný framleiðslutæki, sízt ber að lasta það. En hins vegar er ekki endalaust hægt að vitna í það, sem eigi að gera, þegar lítið sem ekkert er af því gert. Það þýðir lítið að tala um kaup á togurum, þegar ekki er hafizt handa um að kaupa neina togara, og það er enn við að glíma þann óleysta vanda, sem ríkisstj. stendur andspænis í vaxandi mæli, að það þarf að ráða erlenda menn til þess að vinna á okkar fiskiskipaflota, og það er því auðvitað ekki nægilegt að kaupa ný og góð skip, ef þarf að sækja til útlanda alla þá, sem á skipunum eiga að vinna, Það verður þá jafnframt að gera mjög róttækar ráðstafanir til þess, að líklegt sé, að Íslendingar fáist til að vinna á þessum framleiðslutækjum.

Önnur eftirtektarverð yfirlýsing var í ræðu hv. 3. þm. Reykv., sem hefur nú sennilega átt að vera afsökun á því, að ekki hefur orðið að veruleika fullyrðing hæstv. félmrh. við 1. umr. fjárlaga, að bilið milli tekna og gjalda yrði jafnað með niðurskurði útgjalda. Hv. 3. þm. Reykv. hélt því hér fram, að hann og hans flokksbræður hefðu í ríkisstj. lagt fram till. um mjög mikinn niðurskurð ríkisbáknsins, eins og hann orðaði það.

Varðandi þetta atriði hlýtur að vakna sú spurning: Hver er það, sem hefur á móti þessum sparnaði? Naumast getur það verið, að fjmrh. ríkisins hafi á móti því að draga úr útgjöldum og spara í ríkisbákninu. Það væri harla fróðlegt að fá upplýsingar um þetta atriði. Það er svo jafnan efst í huga þessa hv. þm. og raunar kommúnista almennt, að ef eitthvað þarf að spara, þá hljóti fyrst og fremst að verða að þurfa að spara á lögreglunni. Þeir mega aldrei heyra minnzt á lögregluna, þá fara þeir fyrst fyrir alvöru að sjá rautt. Af hvaða ástæðum það er, sem kommúnistar mega ekki heyra minnzt á lögreglu, skal ég láta ósagt. Ég býst við, að flestir hv. þm. renni grun í það. Hvort hæstv. forsrh. fellst á þá ósk kommúnista að afnema löggæzlu í landinu, skal ég láta ósagt um, en það væri áreiðanlega það, sem hann gæti þarfast gert til þess að greiða götu þeirra síðar meir og þeirra áhugamála.

Hv. 3. þm. Reykv. vildi gera lítið úr þeirri fullyrðingu 1. þm. Rang., að það mundi vanta stórfé til þess að jafna halla á fjárlögum og útflutningssjóði. Það eru ekki orð hv. 1. þm. Rang., að það vanti 85–90 millj. kr. til þess að jafna hallann á fjárlögum, það er yfirlýsing hæstv. fjmrh. sjálfs, sem hér er við að styðjast.

Það er auðvitað enn alger óvissa um það, hvað þarf til þess að jafna metin varðandi útflutningsframleiðsluna, og það er vissulega mjög eftirtektarverð yfirlýsing hjá hv. 3. þm. Reykv., ef það þarf ekki einu sinni 25 millj. kr. til þess að jafna þau met. Við skulum sleppa öllum fullyrðingum um það efni og bíða og sjá, hver niðurstaða verður af þeim samningum, sem nú standa yfir. Því færi betur, að ekki þyrfti meiri upphæð en þetta, en ég er nú ákaflega hræddur um, að þessi upphæð hrökkvi skammt til að mæta þeim þörfum.

Það var svo að lokum mjög skiljanleg athugasemd hjá hv. 3. þm. Reykv., að það væri ekkert nýtt að bíða fram yfir kosningar með að skella á nýjum álögum. Við vitum það mætavel, að það er einmitt það., sem á að gera nú í þetta sinn, og því eðlilegt, að hv. þm. reyni að afsaka það.

Ég vil þá leyfa mér að víkja örfáum orðum að ræðu hæstv. fjmrh. eða þeim atriðum í ræðu hans, sem sérstaklega voru gagnrýni á till. okkar í minni hl. fjvn., og þá skal ég í því efni takmarka mig við ummæli hans um sparnaðartill. okkar. Hann staðfesti það í ræðu sinni, að hann hefði synjað fjvn. um álit sparnaðarnefndar þeirrar, sem skipuð var á s.l. vori og mér er kunnugt um að mun hafa skilað till. til ríkisstj„ þannig að sú álitsgerð liggur fyrir. Það eru því hreinar vífilengjur hjá hæstv. ráðh. og undanbrögð að reyna að afsaka þetta með því, að það liggi ekki fyrir neinar ákveðnar till. frá þessari nefnd. Það er einhver önnur ástæða, sem veldur því, að ekki má upplýsa þetta mál, og þegar hann talar um það, að málið sé á því stigi, að það sé ekki hægt að koma því á almannavitorð eða dreifa því plaggi út, þá er enginn að tala um það efni. Hann gat ósköp vel afhent fjvn., sem hefur með þetta mál að gera af hálfu Alþingis, þetta plagg með þeim skilyrðum þá, að ekki yrði opinberlega til þess vitnað, en til leiðbeiningar og athugunar í sambandi við væntanlegar till., sem n. kynni að gera eða nefndarhlutar. En með þessum synjunum sínum hefur hæstv. ráðh. valdið því, að starf n. hefur torveldazt, og það hefur því ekki við hin minnstu rök að styðjast hjá hæstv. ráðh., þegar hann heldur því fram og ítrekar þá fullyrðingu sína, að minni hl. n. hafi haft nákvæmlega sömu aðstöðu til þess að bera fram sparnaðartill. eins og meiri hl.

Hæstv. ráðh. sagði, að till. okkar í meiri hl. n. um sparnað væru magrar. Ef þær eru magrar, þá lízt mér ekki á holdafarið á till. meiri hl., því að við gerum þó till. um 5 millj. kr. sparnað, en þeir um 21/2 millj.

Það var svo eftirtektarverðast af öllu — þótti mér — í ræðu hæstv. ráðh., að hann sá ekki nokkur úrræði til að fara eftir nokkurri af okkar sparnaðartill., ekki einni einustu. Og það kannske fara þá að verða skiljanleg orð hv. 3. þm. Reykv., þegar þetta er íhugað, að það sé þá eftir allt saman ef til vill hæstv. fjmrh, sjálfur, sem finnur alla annmarka á að spara á öllum sviðum. Hann sagði, að það væri enginn sparnaður að hækka póstgjöldin og jafna þannig metin varðandi þá stofnun. Hvernig er þá hægt að kalla það sparnað hjá meiri hl. n. að lækka útgjöld Skipaskoðunar ríkisins með því að hækka gjöldin þar? Það hlýtur þá að vera jafnlítilmótleg sparnaðartill., og vitanlega er það sparnaður fyrir ríkissjóð, þegar af honum er létt gjöldum, þó að það sé á þann hátt að hækka þá þjónustu, sem látin er í té.

Þá segir hæstv. ráðh., að það hafi engin áhrif á kostnað ráðuneytanna sú lækkun á fjárveitingum til þeirra, sem við gerum ráð fyrir. Ég vil alveg ákveðið leyfa mér að halda því fram, að þegar till. er gerð frá þinginu um ákveðna fjárveitingu, þá beri ríkisstj. að fara eftir þeirri till. og þeirri samþykkt þingsins og það sé óhæfilegt með öllu, að sá hugsunarháttur ríki hjá hæstv. fjmrh., að það eigi eftir atvikum að fara eftir því, svona eftir því hvernig ástatt sé hverju sinni. Sannleikurinn er sá, að þetta sýnir ljóslega árangurinn af því, sem gerzt hefur um raunar langt skeið í okkar fjármálastjórn, að ekki nema hluti af raunverulegum útgjöldum ríkissjóðs er tekinn inn í fjárlagafrv. og fjárlögin, heldur er um að ræða stórfelldar umframgreiðslur. Þetta leiðir allt til þess, að fjármálaráðherra á hverjum tíma fer að líta á fjárlögin sem plagg, sem að vísu sé gott að hafa til hliðsjónar, en hins vegar geti hann nokkurn veginn hagrætt því í hendi sinni eins og hann vill. Þetta er hugsun, sem ekki má festa rætur, og fjmrh. má ekki láta sig henda að festa í huga sínum slíka skoðun.

Ég verð að segja, að mér eru það mikil vonbrigði og bendir ekki til mikils sparnaðarvilja hjá hæstv. ríkisstj., ef hún ekki einu sinni getur hugsað sér að halda í horfinu varðandi útgjöld til ráðuneytanna sjálfra.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri mikill áhugi um það að lækka útgjöld vegna þátttöku í alþjóðaráðstefnum, en þó væri engin þörf á till. minni hl. um það efni. Ég held, að allur varinn sé nú beztur. Ef mikill áhugi er á að lækka þetta, þá ætti það ekki að koma að sök, þó að fjárveiting í þessu skyni væri lækkuð.

Ráðh. taldi mjög hæpið um lækkun á mjólkureftirliti og fann á því öll tormerki, að það fé mundi nægja, sem við leggjum til að veita í því skyni. Engin fullgild rök færði hann þó fram sínu máli til stuðnings í því efni, þannig að þær mótbárur voru ekki veigamiklar.

Varðandi húsrými skattstofunnar hafði hann það eitt að segja, að skattstofustjóri teldi, að skattstofan þyrfti meira húsrými. Mér skildist, að það hefði ekkert verið kannað nánar, heldur þegjandi og hljóðalaust fallizt á að greiða úr ríkissjóði 300 þús. rúmar til aukins húsrýmis fyrir skattstofuna. Ég held, að það verði að liggja fyrir í því sambandi, að verkefni skattstofunnar hafi aukizt mjög, því að hér er um að ræða mjög mikla stækkun á húsrými skattstofunnar, og það verði að sjálfsögðu að hafa hóf í því efni.

Þá upplýsti hæstv. ráðh., að félmrh. vildi ekki afnema húsaleigueftirlitið. Ég benti á það í minni frumræðu, að húsaleigueftirlitið í því formi, sem það er nú, hefur gersamlega enga þýðingu og hefur ekki minnsta aðhald varðandi ákvörðun húsaleigu, þannig að hér er um algerlega óþarfan útgjaldalið að ræða hjá ríkissjóði.

Mér þótti mjög einkennilegur tónn hæstv. ráðh., þegar hann fór að ræða um aðaltill. okkar varðandi sparnað á Skipaútgerð ríkisins. Það var svo sem ekki að heyra á hæstv. ráðh., að hann hefði miklar áhyggjur af þessum útgjaldalið, sem vex um milljónir á hverju einasta ári, heldur var hann nánast með skæting í garð okkar sjálfstæðismanna fyrir, að við skyldum leyfa okkur að fara að ætlast til að draga úr þeirri þjónustu, sem þarna er um að ræða.

Það er að sjálfsögðu aldrei hægt að spara, ef menn sjá alltaf draug í hverju horni, ef bent er á einhver úrræði, og það sýnist helzt vera það ástand hjá hæstv. fjmrh. Við höfum ekki lagt til að draga neitt úr þeirri þjónustu, sem hér er veitt, heldur að hafa hliðsjón af þeim breytingum, sem orðið hafa með samgöngumöguleika í landinu, og við höfum bent á það úrræði, sem bent hefur verið á áður og verið töluvert athugað og komið til orða, að selja elzta skip skipaútgerðarinnar. Við höfum bent á, hvaða sparnaður gæti af þessu orðið. Þetta er það skipið, sem rekið er með mestum halla, og við teljum, að það elgi að vera hægt með skynsamlegu móti að koma því þannig fyrir með samningum við skipafélögin, að það þurfi ekki að draga úr þjónustu við fólkið í þeim byggðarlögum, þar sem erfiðast er um samgöngur vissa tíma á árinu eða um háveturinn, þannig að mér finnst, að hæstv. ráðh. hefði átt að taka þessari till. í nokkuð öðrum anda, en hann gerði í sinni ræðu. Það kann vel að vera, að á þessu séu einhverjir annmarkar, sem við höfum ekki haft aðstöðu til að rannsaka, en hann hefði gjarnan mátt ræða málið frá því sjónarmiði, en ekki byrja á að reyna í sinni ræðu að nota þessa till. okkar í þeim pólitíska tilgangi að telja, að hún sannaði einhvern fjandskap okkar við hagsmuni strjálbýlisins. Það er auðvitað enginn kostur á því að hafa uppi neina till. til sparnaðar, ef á þeim er tekið á þann hátt, sem hæstv. ráðh. hér gerði. Og ég get vel undir það tekið, sem hv. 1. landsk. þm. (AG) sagði hér í kvöld, að það sýndist ekki vera mikill áhugi á sparnaði yfirleitt og litlar tilraunir gerðar í þá átt. Eftir alla þá yfirlegu, sem verið hefur í sambandi við sparnað í rekstri ríkisins, verður það að segjast, að það kom nokkuð á óvart, að till. meiri hl. fjvn. um sparnað skyldu ekki nema nema 21/2 millj. og helmingur þess sparnaðar fenginn með því einu að skera niður vissa framkvæmdaliði, en ekki um neinn sparnað í ríkisrekstrinum sjálfum að ræða.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að allar okkar till. um þetta efni væru málamyndatill. Þetta er auðvitað jafnan hægt að segja um allar till., ef af hálfu valdhafanna er ekki sýndur nokkur áhugi á því að sinna málunum af alvöru, heldur aðeins að tala og tala um það, að þetta þurfi að gera. Hæstv. ráðh. auglýsti eftir því við 1. umr. fjárlaga og sagðist hvað eftir annað hafa auglýst eftir sparnaðartill. Ef svo einhver minnist á sparnað á einhverjum lið, þá telur hæstv. ráðh., að það sé gersamlega ómögulegt, þetta sé ekki hægt, það sé ekkert vit í þessu, þetta sé málamyndatill. og þar fram eftir götunum. Og ég held nú sannast sagna, úr því að ráðh. hefur að engu þær ábendingar, sem til hans er beint eftir auglýsingu hans sjálfs, að þá fari að verða tímabært, ef hæstv. ráðh. ætlar eitthvað áfram að gegna þessari stöðu sinni, að óska eftir því, að hann sem ráðh. komi þá með einhverjar vísbendingar sjálfur. Það er ekki nóg að skipa nefnd eftir nefnd til þess að gera sparnaðartill. Aldrei er eftir till. þeirra nefnda farið. Þær eru lagðar niður í skúffu, og svo er ekki meira um þær talað, heldur aðeins skipuð ný nefnd, Og ef bent er á leið til sparnaðar, þá er allt ómögulegt.

Ég held, að öllum fari nú að verða ljóst, að það eru ekki þægileg viðureignar þessi mál, þegar öllum hugmyndum til úrræða í þessu skyni er tekið á þann hátt, sem hæstv. ráðh. gerir.

Ég lofaði því að vera ekki orðmargur um þetta og er e.t.v. búinn að hafa um þetta fleiri orð, en er í samræmi við þá yfirlýsingu mína. En mér fannst ég þó ekki geta annað, en rætt sérstaklega um þessi viðbrögð hæstv. ráðh. varðandi sparnaðarhugmyndir okkar í minni hl. n. Við gerum okkur fulla grein fyrir því, að hér erum við ekki að velta neinum þungum björgum úr vegi, hér er aðeins um ábendingar að ræða, sem gerðar eru nánast í skyndi, vegna þess að allur aðbúnaður að okkur til undirbúnings till. var með svo óhæfilegum hætti, að erfitt var um allan málefnatilbúning í þessu sambandi. Við höfðum vænzt þess eftir boðskap meiri hl. n. og boðskap hæstv. ráðh., að fram mundu koma viðtækar sparnaðartill. á síðasta stigi málsins, og biðum þeirra till. Þær komu fram, þessar mjög svo mögru till., á lokafundi n. á þriðjudagskvöldið, og höfðum við því litið svigrúm til þess að undirbúa okkar till., þótt við leggjum þó þessar ábendingar hér fram, sem fá svo þessar þokkalegu móttökur hjá hæstv. ráðh.

Það hefur áður verið minnzt á þá kynlegu fullyrðingu ráðherrans, að eftir að hæstv. ríkisstj, og hann þá fyrst og fremst sjálfur hefur gersamlega gefizt upp við að jafna greiðsluhallann á fjárlfrv. með eðlilegu móti, þá stendur hann hér upp í ræðustól og segist ekki vilja trúa því að óreyndu, að þessum umr. ljúki svo, að sjálfstæðismenn bendi ekki á, hvernig eigi að jafna þennan halla. Það er næsta fróðleg yfirlýsing frá hæstv. ráðh., að eftir að búið er að mynda hina svokölluðu vinstri stjórn, af því að ómögulegt sé að finna nokkur úrræði á neinu vandamáli með Sjálfstfl., þá, eftir að sú stjórn er búin að gefa sína gjaldþrotayfirlýsingu, er eina vonin sú til þess að bjarga heiðri stjórnarinnar við afgreiðslu þessara fjárlaga, að sjálfstæðismenn geti á síðasta stigi málsins bent á einhverjar leiðir, sem hæstv. ráðh. geti farið til þess að þurfa ekki að afgr. fjárlögin með þeim eindæma ómyndarskap, sem hér er lagt til.