19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það verður að játa, að þetta er óvenjulegur tími til þess að taka þátt í og eiga nú fyrst færi á því að taka þátt í einu umr. um fjárlögin, því að eins og störfum hefur verið háttað, þá er sannleikurinn sá, að nú fyrst við þessa svokölluðu 3. umr. liggja hinar endanlegu till. stjórnarinnar fyrir, hæstv. stjórnar, ef till. skyldi kalla, þær till., sem áttu að vera fyrir hendi, strax og Alþingi kom saman í haust. En þar sem ákveðið er að leyfa mönnum ekki að tala nema nú í nótt um þetta mikilvæga mál, þá mun ég ekki láta þann tíma nætur, sem nú er, varna mér máls, heldur taka fram þau atriði, sem ég tel að á þurfi að minnast.

Ég vil þá fyrst óska hæstv. fjmrh. til hamingju og viðurkenna það, að hann er í raun og veru sigurvegarinn í þessu máli, enda lýsti það sér glögglega í því, að sá eini þm., sem lagt hefur lið þeirri afgreiðslu fjárlaganna, sem nú er ráðgerð, er einmitt 3. þm. Reykv. (EOl), að það eru þeir félagsbræður, sem saman fóru til Moskvu á dögunum, sem nú hrósa sigri og hafa að velli lagt hinn mikla fjármála-, ja, mér leyfist kannske að segja dólg, hæstv. forseti, ég veit ekki, hvort það er þinglegt orðbragð, — hæstv. fjmrh., sem hafði svo sterk orð um það í haust, um það bil sem Alþingi kom saman, að nú þyrfti mikilla og stórra átaka, enda mundi nú ekki standa á stjórnarflokkunum um að koma með hin varanlegu úrræðin, sem svo lengi hefur verið lofað. En þá var það, að upp reis enn meiri fjármálajöfur, hæstv. félmrh., klappaði á kollinn á hæstv. fjmrh. og sagði í alþjóðar áheyrn, að ekkert væri að marka orð þessa blessaða óvita, hann væri að tala um mál, sem hann hefði lítil kynni af, í bezta lagi væri hann að berja sér, sem góðum búmanni sæmdi, en raunin mundi verða sú, að hægt væri að hækka tekjurnar, án þess að skattar yrðu auknir, og draga eitthvað úr gjöldunum, þannig að allt væri í stakasta lagi. Það er þessi stefna, sem nú hefur orðið ofan á, og það er vissulega ekki að ástæðulausu, að hæstv. fjmrh. er eini ráðherrann, sem ekki skammast sín fyrir að vera viðstaddur þessar umr. Allir hinir hafa verið í felum í dag, fundið sér til hinar og þessar ástæður til að skjótast á burt. Hæstv. fjmrh. mest af öllu tekur kollhúfur, ef hann kemur inn í deildina, og reynir að láta sem minnst á sér bera, en sá, sem veit, að hann hefur sigrað, situr hér brosmildur og ánægður og fagnar því, sem orðið hefur, og hann hefur líka fulla ástæðu til þess, hæstv. ráðh., og ég endurtek mínar heillaóskir honum til handa.

Hv. 3. þm. Reykv. kom hér og hélt snarplega ræðu um það, að sjálfstæðismenn hefðu aðeins eitt úrræði ákveðið og fyrirhugað og það væri gengisfelling og þeir mundu, strax og þeir hefðu færi á, nota þetta sitt uppáhaldsúrræði. Ég hef ekki séð neins staðar á þessum vetri eða undanfarna mánuði stungið upp á gengisfellingu nema í einu blaði og að vísu af einum rithöfundi. Það er aðalefnahagsmálaráðunautur ríkisstj., Haraldur Jóhannsson, sem hefur skrifað greinaflokk um fjárfestingarmál í Þjóðviljann. Þar hefur hann ýtarlega og hvað eftir annað sagt, að íslenzka krónan væri ofskráð, og hann hefur sagt, að ekki væri von til þess að menn mundu sækjast eftir að stunda sjávarútveg, nema þessi ofskráning yrði lagfærð. Hann hefur að vísu tekið fram, að ýmsar fleiri ráðstafanir þyrfti að gera samtímis, en aðallega hefur hann getið þess, að það þyrfti að gera svo mikla útreikninga í þessu sambandi, að þeir mundu taka nokkra mánuði. Þetta var sagt — hygg ég — í október–nóvember, Nú, það sýnist vera, að nokkrir mánuðir muni verða liðnir skömmu eftir að bæjarstjórnarkosningum er lokið, svo að það skyldi þó aldrei fara svo, að 2. þm. Árn. yrði sannspár um það, að eftir einn eða tvo mánuði talaði hv. 3. þm. Reykv. jafnfjálglega hér um nauðsyn gengisfellingar eins og hann talar nú fjálglega um nauðsyn og sífellt nánara samstarf við hernámsflokkana, landráðamennina, sem hann hefur áður lýst og ofan á allar sínar fyrri syndir hafa beinlínis svikið þau loforð, sem þeir óneitanlega gáfu hv. 3. þm. Reykv., þegar hann tók ákvörðun um það í fyrra að láta sína menn ganga í stjórn með þeim? Nú á hann ekki nógu fögur orð um það, að eftir því sem þeir kynnist betur, hann og þessir svikarar, þeim mun betur muni með þeim á fallast, og ætli það verði þá ekki til þess að bræða þá endanlega saman, ef þeir í sameiningu svíkja öll loforð um það að standa aldrei að gengisfellingu og hún í einu eða öðru formi komi áður, en mjög langt um líður?

Um það skal ég ekkert segja nú og ekki gerast neinn spámaður. Við vitum það allir, að þetta tal um úrræðin, sem eiga að vera á næstu grösum og hver er að heimta af öðrum, er í raun og veru tómt tal. Það er alger misskilningur, sem sagt hefur verið, að á undanförnum árum hafi allt verið komið hér í strand og hrörnun. Sannleikurinn er sá, að atvinnulíf og framkvæmdir hafa aldrei á Íslandi verið örari, en nú samfleytt síðasta einn og hálfan áratuginn. Með eðlilegum hætti hefur á mismunandi árum þessa tímabils verið lögð ólík áherzla á ólík viðfangsefni. Á vissu bili var eðlilega lögð mikil stund á það að endurnýja togaraflotann. Þá varð um skeið, m.a. fyrir þröngsýni og þvermóðsku Framsfl., landbúnaðurinn aftur úr. Það var eðlilegt, að síðan yrði að gera átak til þess að koma landbúnaðinum í sæmilegt horf. Það er eitt af því, sem þessi efnahagsráðunautur ríkisstj. hefur haldið fram í Þjóðviljanum og Tíminn hefur aldrei gefið sér tíma til að mótmæla, eitt af því, sem þessi ráðunautur hefur haldið fram að sé ískyggilegast í þróun efnahagsmála Íslands, það mikla fé, sem farið hafi í að byggja upp landbúnaðinn, og sú óhófseyðsla, sem lýsir sér í því að rafvæða sveitirnar.

Ég skammast mín ekki fyrir, verandi bæjarmaður, fæddur hér, uppalinn, þm. fyrir Reykvíkinga og unandi mínum hag hér vel, að ég tel, að íslenzku þjóðinni sé ekki síður nauðsyn á því að efla sinn landbúnað, heldur en sjávarútveginn og það sé þjóðarvoði, meiri en orð fá lýst, ef sveitirnar færu í meiri auðn en komið er. Íslenzk menning er fyrst og fremst sveitamenning, og ég vona, að við eigum engir okkar og engir Íslendingar eigi eftir að lifa þann tíma, að íslenzkur landbúnaður verði ekki eftirsóttur og þannig að hér geti þróazt holl menning og æskumenn telji framtíð sinni vel borgið með því að gerast bændur í sveit, jafnframt því sem það er nauðsynlegt, að menn vilji sækja sjóinn og starfi við iðnað. En allt þetta verður að haldast í hendur.

Og ég segi það líka skömmustulaust, að Ísland, sem engar járnbrautir hefur og er háð farartækjum, þarf ekki að skammast sín fyrir að endurnýja öðru hvoru sína bílaeign. Það er rétt, að bílarnir taka mikið benzín, og það má vel vera ágreiningur um það, hvort þeir eigi að vera hundraðinu fleiri eða færri. En stuðningsmenn núverandi ríkisstj., sem leyfa með hverju skipi 10, 20, 50 nýja bíla inn í landið, hafa ekki ástæðu til þess að koma og býsnast yfir því, að bílainnflutningur undanfarin ár hafi verið allt of mikill. Og hverjir voru það, sem á sínum tíma báru fram till. um það að hjálpa togaraflotanum eitt ár með sérstökum skatti af bílainnflutningi, af því að gömlu bílarnir voru orðnir of margir hlutfallslega og borgaði sig ekki að halda þeim út? Það var n., þar sem sjálfur núverandi sjútvmrh. var einn fulltrúinn í og hæstv. núverandi forsrh, var einnig fulltrúi í, þó að hann að vísu hafi, að því er ég hygg, fengið annan mann til þess að vinna starfið fyrir sig, eins og honum er stundum hent. Sú ráðstöfun er út af fyrir sig ekkert til þess að skammast sín fyrir. En hún er heldur hvorki til að þakka né kenna neinum einstökum flokki, vegna þess að af fáum bjargráðum, sem gerð hafa verið á seinni árum, þá hygg ég, að þetta sé það eina bjargráð, sem allir flokkar stóðu að. — Ég held ég hafi gleymt einu stórmenninu, sem var með í að gera till. af núverandi stjórnarsinnum, hæstv. forseta Sþ. Ég man ekki betur, en hann væri einnig í þessari n., sem till. bar fram um þetta. Svo tala þessir menn um það sem eitthvert ódæði, að bílarnir hafi verið fluttir inn. En hvernig ætla þeir að komast um þetta land án þess að hafa bíla? Og af hverju stöðva þeir þá ekki algerlega bílainnflutninginn sjálfir nú?

Nei, tilfellið er það, að við höfum haldið áfram látlausri uppbyggingu í þessu landi, örari, stórfenglegri og nytsamari, en í nokkru öðru þjóðlandi, á sama tíma og breytingarnar á Íslandi til góðs frá því, sem var fyrir 20 árum, eru ævintýri líkastar.

Samfara þessu hafa svo skapazt ýmis vandamál. Ég er alveg sammála því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það er í raun og veru ofboðslegt, þegar verið er að tala um það, að hér sé alltaf allt að kollsteypast vegna þessara vandamála. Við eigum vissulega við mikla örðugleika að etja. En þessi fjárhagsvandamál eru ekki meiri en svo, að hver einasta ríkisstjórn, fyrrverandi stjórnir allar, góðar eða bölvaðar sem þær hafa verið, og núverandi ríkisstj., jafn frámunalega léleg sem hún er, hafa allar ráðið við það verkefni að halda atvinnuvegunum gangandi. Og það getur verið, að það sé vafamál, hvaða úrræði á hverjum tíma sé heppilegast til þess að gera þetta. En þetta hefur út af fyrir sig alltaf lukkazt. Og það, sem við gagnrýnum núverandi hæstv. ríkisstj. fyrir, bæði nú og í fyrra, er út af fyrir sig ekki, að hún heldur áfram á þeirri sömu braut og lagt hafði verið inn á. Við bendum á, að ríkisstj. geri þetta, þó að hún væri búin að lofa því að finna nýjar leiðir og hennar tilvera helgaðist af því, að gömlu leiðirnar væru svo bölvaðar, að eitthvað nýtt yrði að reyna. Auðvitað bendum við á það sem hennar andstöðumenn og sem hafandi fengið deilur fyrir að fylgja gömlu leiðinni, þá bendum við á: Þið getið ekkert annað eftir öll ykkar stóru orð, heldur en fetað í okkar fótspor og sannast að segja magnað og gert allt miklu verra af því, sem var hæpnast í okkar ráðstöfunum.

En það varhugaverðasta er út af fyrir sig ekki þetta, heldur að eftir að búið er að taka þann hátt upp, að ríkið á að sjá fyrir öllu með samningum um hver áramót og vitanlega að setja sér fjárlög nú eins og áður, svo sem stjórnarskráin mælir fyrir um, þá er Alþingi svipt möguleikanum til þess að átta sig á, hvers eðlis þær ráðstafanir eru, sem gerðar eru. Það var svipt möguleikanum til þess í fyrra. Ráðstafanirnar komu þá ekki fram fyrr, en á síðustu stundu. Og við þurfum ekki að ræða um það hér, við vitum það allir, að engir alþm., allra sízt við í stjórnarandstöðunni, en heldur ekki þið, góðir stjórnarliðar, fenguð þá að vita, hvert var raunverulegt efni þess, sem verið var að samþykkja. Það er heldur ekkert leyndarmál, að hinir stjórnarflokkarnir hafa sett sérstaka eftirlitsmenn með hæstv. sjútvmrh. nú, sem fylgja honum eftir hvert fótmál í þeim samningum, sem standa yfir þessa daga og nætur, til þess að þeir viti, hverju hann lofar, hvað hann segir, svo að flokkarnir standi ekki uppi jafngersamlega eins og glópar og í fyrra eftir samninga hans við útgerðarmenn, þegar enginn í ríkisstj., enginn á Alþingi og sennilega ekki ráðh. sjálfur vissi, hvað hann hafði samið um. Það eru slíkir stjórnarhættir, sem við erum að vita, og það vita allir, að það er ekkert vit í því og ekki hægt til þess að ætlast, að stjórnarandstaða, sem fyrst fær að sjá till. tveimur eða þremur dögum áður, en þær endanlega eru samþykktar, till., sem sérfræðingar hafa unnið að vikum og mánuðum saman, — að stjórnarandstaða geti á þeim tíma gagnalaust byggt upp sjálfstæðar till. Hún hefur rétt til þess, og hennar skylda er að benda á veilurnar.

Við höfum sagt og segjum enn: Í þessu eru engin töframeðul til, og menn verða að feta sig áfram til þess að sleppa úr og frá þeim erfiðleikum, sem fyrir höndum eru. — Við teljum, að hæstv. ríkisstj, og hennar fylgdarliði hafi tekizt þetta miður en skyldi og þó hafi aldrei keyrt jafnt um þverbak eins og nú, þegar meðferð Alþingis og áhrifavald þess á fjárlög ríkisins er í raun og veru tekið burt. Það má segja: Það hefur sótt í þetta far undanfarin ár, munurinn er ekki ýkja mikill nú frá því, sem verið hefur, það munar þó ekki nema tveim, þrem dögum, viku eða eitthvað svoleiðis. Það er bitamunur, en ekki fjár. — Ja, það er hér eins og ella. Það má benda til þess versta og hæpnasta, sem gert hefur verið, magna það, taka það versta til fyrirmyndar og gera það þeim mun verra, að það er gert að hreinni skrípamynd. Það er það, sem nú er verið að gera, og ég segi ykkur, að fjárlagaafgreiðslan núna verður í þingsögunni talin lágmark þess, sem Alþingi láti bjóða sér, hún verður talin slíkt hneyksli, að hún verður að eilífu höfð sem víti, er beri að varast.

Ég hef ekki löngun til þess að segja spádóma, en þetta þori ég að segja, og ég segi, að það verða fáir þingmenn, hvaða stjórnar sem er, er situr héðan í frá, sem láta bjóða sér svipaða meðferð og hv. fjvn. hefur nú, — ja, af eðlilegri hollustu við þá ríkisstj., sem hún fylgir, látið yfir sig ganga, — og þó að stjórnarliðar allir á morgun rétti upp sína hönd, og eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði: Við það, sem maður var búinn að semja um, það stendur maður. Þetta skiljum við. En auðvitað berið þið allir skömmustu í ykkar brjósti. Þið vitið, að þið eruð að gera rangt. Þið vitið, að þið eruð að draga niður virðingu og sæmd Alþingis, gera ykkar trúnaðarstarf að engu, það, sem fólkið hefur falið ykkur, og það er ósköp eðlilegt, að fjmrh. skammist sín fyrir að vera viðstaddur þær umr., sem hann hefur leitt Afþingi út í með þessum hætti, enda það sjaldan sem hann rekur inn hausinn, þá hverfur hann burt aftur eins og draugur, ef hann sér mennska veru, sem ekki er hinu illa, ofurseld.

Með leyfi hæstv. forseta, þá segir svo í athugasemdum við sjálft fjárlagafrv., 4. mgr. o.s.frv.:

„Samkvæmt stjórnarskrá ber að leggja fram fjárlagafrv. í upphafi Alþingis.

Ríkisstj. telur sér engan veginn fært að ákveða það án náins samstarfs við þingflokka þá, sem hana styðja, hvernig leysa skuli þann vanda, sem við blasir í efnahagsmálum landsins, þ. á m. hvernig mæta skuli þeim mikla halla, sem fram kemur á fjárlagafrv.

Ríkisstj. hefur ekkert tækifæri haft til þess að ráðgast við stuðningsflokka sína á Alþingi um fjárlagafrv. né viðhorfið í efnahagsmálunum, eins og það er nú eftir reynsluna á þessu ári.

Þess vegna er fjárlagafrv. lagt fram með greiðsluhallanum, en ríkisstj. mun í samráði við stuðningsflokka sína á Alþingi taka ákvarðanir um það, á hvern hátt tryggð verði afgreiðsla greiðsluhallalausra fjárlaga.

Niðurstöður frv. gefa á hinn bóginn glöggt til kynna, að slíkt er ekki auðvelt viðfangsefni.“

Þarna sögðu þeir satt einu sinni, vegna þess að fjmrh, hefur hreinlega gefizt upp og stungið af, sannast að segja. Þarna segir hann: Ég neyðist til þess að leggja frv. fram, vegna þess að stjórnarskráin fyrirskipar það. — En í þessu felst játning á því, að frv. er ekki eins og það á að vera, Hann segir: Við munum vitanlega tryggja þetta. — En hvar er tryggingin? Ja, við vitum allir, hvernig frv. er. Önnur eins ósköp hafa aldrei sézt né þvílíkur málflutningur til stuðnings. Svo lýsir það nokkuð andanum, sem þessir menn lifa í og hrærast, hvernig orðbragðið er. Ríkisstj. telur sér engan veginn fært að ákveða, hvernig leysa skuli vandann. Svo segir: En ríkisstj, mun í samráði við stuðningsflokka sína á Alþingi taka ákvarðanir um það, á hvern hátt tryggð verði afgreiðsla greiðsluhallalausra fjárlaga. Ég hefði nú haldið, að venjulegir menn hefðu sagt: ríkisstj. mun gera till. um það til Alþingis, til þess að Alþingi ákveði. Ég hef ekki vitað enn, að búið væri að breyta stjórnarskrá íslenzka lýðveldisins á þann veg, að ríkisstj., jafnvel þótt vinstri stjórn sé, eigi að ákveða þetta. Hún getur ákveðið sínar till., en það er Alþingis að ákvarða, Nei, hún segist ætla að ákveða í samráði við þá, sem ákvörðunarvaldið hafa eftir lögum. Ja, þessir herrar kunna að taka stórt upp í sig, en þeir kunna heldur ekki að standa við stóru orðin. Þegar kemur að efndunum, þá verður minna úr. Þá eru þeir fegnir að fela sig og hafa sig ekki inni í þingsalnum.

Svo var hæstv. fjmrh. Hann kom hér og sagði, að það væri algerlega rangt, sem sagt hefði verið, að sú aðferð við afgreiðslu fjárlaganna, sem fyrirhuguð hefur verið, væri til þess löguð, að menn héldu, að fjármálavandinn væri leystur, að fjárlögin væru í raun og veru afgreidd tekjuhallalaust. Hann kom með mjög örugga heimild í því sambandi, það var Tíminn, jafnsannsögull og hann nú er, og hann vitnaði í Þjóðviljann. Ég hygg nú, að það sé fróðlegt að athuga, hvað Þjóðviljinn segir. Þjóðviljinn er þó málgagn stærsta stjórnarflokksins og þess flokks, sem ofan á hefur orðið um afgreiðslu fjárlaganna, — og hvernig hljóðar fyrirsögnin í þessu málgagni stærsta stjórnarflokksins? „Fjárlagafrv, verður afgreitt án tekjuhalla.“ Þetta er aðalfyrirsögnin. Það er að vísu rétt, að í undirfyrirsögn kemur nokkur fyrirvari og síðan tekin upp aðvörunarorð úr nál. hv. frsm. fjvn. Þjóðviljinn hefur þarna nokkuð haft vaðið fyrir neðan sig. En það er hér annar, sem hefur tekið þetta heldur of bókstaflega. Það er málgagn næststærsta stjórnarflokksins, Alþýðuflokksins. Alþýðublaðið í morgun segir:

„Fjárlögin tekin til 3. umr. á Alþingi í dag. Meiri hluti fjvn. hefur lagt fram brtt. sínar. Fjárlög hallalaus að þeim samþykktum.“

Og þó að greinin sé lesin með logandi ljósi, sem frá þessu segir, þá er ekki vikið einu orði þar að því, að brotttaka þessara milljónatuga úr frv. sé ekki annað, en blekking. Það er ekki vikið einu orði að því, að svo sé, að þarna sé verið að leika skollaleik. Nei, þeir, sem lesa Alþýðublaðið, hljóta að telja, að um raunverulega hallalausa afgreiðslu fjárlaga sé að ræða. Auðvitað var hæstv. fjmrh. búinn að lesa þetta og vissi, hvernig hans eigið stuðningsblað tók hans till., þegar hann kom hér upp og var að vitna í blöðin, alveg gagnstætt því, sem þau raunverulega segja, alveg eins og hæstv. fjmrh. leyfir sér að koma hingað og vitna til ummæla hv. þm. G-K., Ólafs Thors, þar sem hann skoraði á stjórnarandstæðing að koma með sínar till., vegna þess að á neikvæðum belgingi lifir enginn til lengdar. Það er alveg rétt, að Ólafur Thors viðhafði þessi orð 1953, en Ólafur sagði töluvert meira. Ólafur byrjaði það, sem hann segir um þetta, svona: „Stefna og aðgerðir stjórnarinnar er kunn“ o.s.frv.

Getur nokkur maður sagt nú, að stefna og aðgerðir þessarar stjórnar sé kunn? Nei, þeir segja sjálfir: Ja, það er vandi. Við vitum bara ekkert hvernig á að leysa hann. Við ætlum að fresta honum fram yfir bæjarstjórnarkosningar.

Þetta er það eina, sem við heyrum. Er þetta stefna? Ég mundi halda, að þetta væri stefnuleysi, þetta væri uppgjöf, þetta væri flótti, slíkur sem hæstv. fjmrh, sýnir í verki, þegar hann þorir ekki að vera við þessar umræður. En svona leyfir þessi hæstv. ráðh. sér að koma og lesa bæði upp úr blöðum og alþingistíðindum og gefa alranga mynd af því, sem sagt hefur verið. Maður jafn veraldarvanur og jafngreindur og Eysteinn Jónsson, sem leiðist til slíkra vinnubragða, er vissulega orðinn mjög að þjarmaður, hans málefnaaðstaða er orðin svo veik, að hann kann ekki lengur að rökstyðja hana. Hann kann ekki lengur að berjast með heiðarlegum og ærlegum vopnum, hann þarf að grípa til þess, sem ekki fer hjá að hann viti sjálfur að eru blekkingar.

Hvenær hefur það heyrzt, að fjmrh. leyfi sér að leggja til, að fjárlagafrv, sé afgreitt og kallað tekjuhallalaust, með því að vísa á það, að einhvern tíma síðar og helzt einhverjir aðrir eigi að nokkrum mánuðum liðnum að finna úrræðin til þess að bjarga fjárlögunum? Og ef taka má þessar 65 millj. burt af fjárlögunum, af hverju mátti þá ekki alveg eins taka þær 40, sem eftir eru, og skaffa þannig bara drjúgan tekjuafgang?

Svo eru vinnubrögðin. Auðvitað vitum við allir og höfum raunar vitað þessa síðustu 10 daga, að ríkisstj. ákvað, hvað gera skyldi, á ríkisstjórnarfundum 7. og 8. des., áður en hæstv. forsrh, og hæstv. utanrrh. fóru á Parísarfundinn. Það er óhugsandi, að hæstv. forsrh. hafi horfið úr landi án þess að vita, hvernig slíkt meginatriði skyldi afgreitt, enda var einmitt á þeim fundum, sem haldnir voru, áður en þessir ráðherrar fóru, ákveðið að afgreiða fjárlögin.

Hið minnsta, sem hægt var að gera vegna virðingar Alþingis, — látum vera tillitið til stjórnarandstöðunnar, en vegna virðingar Alþingis og vegna virðingar við kjósendur og íslenzku þjóðina var það minnsta, að þá þegar hefði verið sagt frá því, hver úrræðin ættu að vera. Það er að vísu eðlilegt, að mennirnir skyldu skammast sín fyrir að segja frá þessu og hugsuðu: frestur er á illu beztur. En það má líka segja: bezt er illu af lokið. Og þeir hefðu þó sýnt nokkurn manndóm með því að skýra frá þessu, strax og þeir höfðu tekið ákvörðunina. Nei, aðferðin er höfð sú, að það er bókstaflega beðið fram á elleftu stundu hins 17. des. eða jafnvel 12. stundu. Þá er loksins tilkynnt, hvernig eigi að bjarga fjárhagnum og fullnægja þeim metnaði hæstv. fjmrh. að leyfa honum að afgreiða fjárlögin fyrir áramót, að nafninu til tekjuhallalaus, með þeim félega hætti, sem það er gert. Þá er það vitað, að stjórnarandstaðan, þó að hún hefði viljað búa sig undir, hvernig þessu átti að taka, hafði engan frest. Hæstv. fjmrh. hafði neitað aðspurður að skýra frá þessu í vikunni áður, sem hann þá sannanlega hlaut að vita, en það sýnist einungis vera gert til ögrunar. En það er fyrst og fremst til þess að gera mennina enn þá minni sjálfa, að vera að þessum skollaleik, sem engum kemur að gagni, en sýnir einungis þeirra illu samvizku.

Sparnaðartill. eru svo fólgnar í því, að reynt er að níðast á Reykjavík. En Reykvíkingar eru því ekkert óvanir, þegar þessir vinstri herrar eru við völd, að á þeim sé níðzt. Menn muna ósköp vel eftir framkomu hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. á eymdarárunum 1934–39 og þeim anda, sem þá blés til höfuðstaðarins. Menn bjuggust við því, að sami blásturinn kæmi aftur, og hann er kominn. Það munar kannske ekki svo mikið um þetta fé, en við skiljum, hvað er á ferðum. Við vitum, hvers er von, og Reykvíkingar munu kunna að svara fyrir sig.

Það er reynt að hverfa frá samningum, sem gerðir voru um rekstur — það má kalla það: fangelsisdeildar að Kvíabryggju, það er ekkert annað. Ríkinu ber skylda til þess að sjá fyrir fangelsi í þessu skyni, það er lagaskylda, staðfest með samningi. Nú á að hverfa frá þessu. Það á að níðast á Reykvíkingum og varna þeim að fá reista barnaskóla, draga úr því að iðnskólanum ljúki. Það á að hindra það, að því ófremdarástandi verði aflétt, sem er yfir fangageymslunni í kjallara lögreglustöðvarinnar við Hafnarstræti, og annað slíkt. Þetta eru mannúðarmálin, sem þessir herrar nú hreykja sér hæst yfir. Um það þarf ekki að fara mörgum orðum. Þau verk lýsa sér bezt sjálf.

Ég vildi svo víkja hér að brtt., sem ég hef flutt. Ég get vel stytt mál mitt um þær. Ég vísa til þess, sem þeir hafa sagt, samþingismenn mínir, sem eru flm.till. varðandi heilbrigðisstofnanir og skóla, leikvanginn og húsnæðismál, og sé enga ástæðu til þess að rifja það upp. Þeir hafa gert fulla grein fyrir því.

Ég vil hins vegar vekja athygli á till., sem ég og hv. 2. þm. Reykv. flytjum um að hækka framlagið til ríkisútgáfu námsbóka í 900 þús. kr. Þetta er óhjákvæmilegt, ef hin nýju lög um aukið starf námsbókaútgáfunnar eiga að hafa tilætlaðan árangur. Hafi það verið ætlunin á sínum tíma, að þær viðbótarskyldur, sem útgáfunni voru lagðar á herðar, væru tómur bókstafur, þá er skiljanlegt, að fjárveitingunni sé haldið eins og hún er. Við sjálfstæðismenn töldum ekki tímabært þá að gera þessa breytingu, vegna þess að útgáfan hefði ekki enn getað valdið því verkefni, sem henni fyrst og fremst var fengið, og vildum láta hana valda því fyrst. En úr því að lögin eru sett, þá er nauðsynlegt, að hún fái fjármagn til þess að geta gegnt skyldu sinni.

Ég vil svo almennt geta þess, að ég hef hugboð um það, að á mörgum stöðum í þessu fjárlagafrv. sé of lágt ætlað til ýmiss konar starfrækslu. Slíkt er einungis til þess að blekkja sjálfan sig og að vísu aðra einnig og kemur ekki að neinu haldi. Ég veit ekki, í hvaða skyni það hefur verið gert, en mín skoðun er sú, að útgjöldin séu að ýmsu leyti vanmetin í þessu frv., jafnvel óhjákvæmileg útgjöld.

Þá ber ég fram till. um það, að úthlutunarnefnd á listamannastyrk sé fimm menn í stað fjögurra. Ég ber fram þá till. vegna þess, að ég tel það almennt réttara, að slíkar nefndir séu skipaðar fimm mönnum, þá einnig þessi nefnd, frekar en að ég hafi nokkuð sérstakt við störf þessarar nefndar að athuga. En ég tel, að það ætti að gera gangskör að því að koma allsherjarreglu á um þetta, og mun kannske flytja frv. um það síðar á þinginu, taldi þó rétt, að sú hugmynd kæmi einnig fram hér.

Þá flyt ég till. um það að hækka fjárveitingu til sögulegra málverka. Það er hugmynd, sem ég hreyfði fyrir einu eða tveimur árum. Fjmrh. stóð þá á móti og gat stöðvað. Nú hefur hæstv. menntmrh. fengið smáfjárveitingu í þessu skyni, og met ég það og tel ágætt. En ég vil hafa fjárveitinguna töluvert hærri, hækka hana upp í 200 þús. kr., og nánari reglur um það, hvernig verkið skuli unnið: fyrst, að það séu sérfróðir menn, sem velji þau verkefni, sem mála á, og síðan sé samið af menntamálaráði við sérstaka listamenn um framkvæmd þess. En ég tel, að hér sé um verk að ræða, sem taki nokkurt árabil og ekki megi skera um of við nögl sér, en muni gera mikið gagn, áður en yfir lýkur.

Þá legg ég til, að fjárveitingin til umbóta á Þingvöllum sé hækkuð um 200 þús. kr. með það fyrir augum, að byrjað verði á framkvæmdum um tilfærslu vegarins úr Álmannagjá. Það er vitað mál, að vegurinn, þar sem hann er nú, er orðinn stórhættulegur. Það, sem mestu máli skiptir þó, er það, að það eru alger helgispjöll að láta veginn liggja þar í Almannagjá, sem hann gerir, og sannast sagt þjóðarhneyksli. Í þriðja lagi er svo það, ef hann væri fluttur úr Almannagjá, þá mundi skapast varavegur í sveitirnar fyrir austan fjall, sem kæmi oft að góðu gagni.

Þá legg ég til, að úr fjárveitingunni til menntaskólahúss á Laugarvatni verði fellt niður, að skólinn skuli vera á Laugarvatni, heldur að skólinn skuli vera í sveit. Þetta er í samræmi við þáltill., sem ég hef flutt og ekki hefur enn verið tekin afstaða til, að rannsakað verði, hvort mögulegt sé að flytja skólann og ráðlegt. Ég tel skólann illa settan á Laugarvatni, og það yrði til mikils góðs, ef hann yrði fluttur.

Þá legg ég og hv. 2. þm. Reykv. til, að fjárveitingin til byggingar stjórnarráðshúss verði hækkuð um eina millj. Það er það sama og hún hefur verið.

Við sjálfstæðismenn fengum því áorkað, þegar haldið var 50 ára afmæli innlendrar stjórnar, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að nýtt stjórnarráðshús yrði byggt. Menn féllust þá á það, að vísu með mismunandi miklum áhuga. Nú kemur í ljós, hverjir streittust þar á móti. Það á að fara að skera þetta niður. Kotungsandinn hefur náð sér á strik aftur. Núv. stjórnarráðsbygging er í sjálfu sér allsendis ófullnægjandi. Ég vil segja óýkt, að það sé beinlínis heilsuspillandi að vinna þar. Húsið er ekki hæft til starfrækslu nema þá með stórkostlegum viðgerðum, auk þess sem það er ekki hæft sökum útlits sem íverustaður æðstu stjórnar á landinu, sýnir kotungshátt, og er óboðlegt. Það er skemmtileg saga í nýkominni æviminningu Jessens skólastjóra, sem Guðmundur Hagalín hefur skrifað, þar sem Jessen segir frá því, þegar hann í fyrsta skipti kom til Reykjavíkur og átti að heimsækja ráðherrann og ætlaði að fara upp í stjórnarráð, og honum var bent á húsið hvað eftir annað, en hann fór í önnur hús, vegna þess að honum gat ekki til hugar komið, að þetta væri æðsta stjórnarbyggingin á Íslandi. Þetta mun hafa verið 1911. Það, sem þá þótti of auvirðilegt, hefur verið látið endast síðan. Ég hef ekki á móti því, að stjórnarráðshúsið gamla sé látið standa sem eins konar forngripur. Það hefur sögulegar minjar. En til að gegna því hlutverki, sem það gegnir nú, er það allsendis óhæft. Og ég vil vona, að þingmenn án tillits til stjórnmálaskoðana verði sammála um, að það taki því ekki að vera að skera þessa milljón af og draga þar með úr líkunum fyrir því, að úr þessari þjóðarhneisu sé bætt.

Þá er síðast á þessu þskj. till., sem ég gerði grein fyrir við 2. umr. svokallaða hér í Sþ., þess efnis, að umframfjárveitingar megi ekki inna af höndum, nema samþykki allra ráðherranna komi til. Þetta er hliðstætt því, sem tíðkast um bráðabirgðalög, og er sannast sagt með öllu ástæðulaust að hafa þann hátt á, að einn ráðherra geti valsað með ríkissjóðinn eins og honum sýnist, sérstaklega þegar litið er til þess, að tekjur ríkissjóðs umfram fjárlög hafa á árunum 1953–56, að báðum meðtöldum, numið hvorki meira né minna en 437 millj. kr. á þessu stutta árabili. Það er með öllu óverjandi að láta einn ráðherra hafa slíkt fé að miklu eða jafnvel þó að einungis sé að nokkru leyti til ráðstöfunar. Það er sjálfsagt, að um allar umframgreiðslur sé það fastmælum bundið, að samþykki allra ráðherranna sé fengið, eða þá önnur ámóta fullnægjandi skipun gerð.

Jafnframt vil ég benda á, að þessi mikla fjárhæð, sem komið hefur í ríkissjóð umfram það, sem áætlað hefur verið, ber auðvitað nokkuð vitni þess, hve mikið er að marka áætlanir hæstv. núv, fjmrh., hversu þær eru gersamlega út í bláinn sannast að segja. Það er og engan veginn óvarlegt, þó að við nú leggjum til að verja nokkru fé umfram það, sem segja má, að þetta slitur af fjárlagafrv. geri ráð fyrir að fyrir hendi verði, vegna þess að það er sannarlega ekki neitt að marka.

Loksins vil ég minna á þrjár litlar till., sem ég flyt ásamt tveimur öðrum þingmönnum Reykv., Gunnari Thoroddsen og Jóhanni Hafstein, þar sem við leggjum til, að starfsfræðsla í skólum fái 20 þús. kr., barnamúsíkskóli í Reykjavík fái 20 þús. kr. og starfskvennaskóli Reykjavíkur hækki um 25 þús. kr. Þetta er allt þörf starfræksla, munar litlu fyrir ríkið, þó að við þessu sé orðið, en getur komið að miklu gagni fyrir þá aðila, sem hlut eiga að máli og vinna þörf störf.