05.12.1957
Neðri deild: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég verð að undrast, að svo samvizkusamur þm. sem hv. þm. V-Húnv. skuli ekki taka því fegins hendi að fá þetta mál að nýju til athugunar í nefndinni, til þess að meginatriði þess megi verða upplýst, áður en það er afgreitt héðan úr þinginu.

Hv. 5. þm. Reykv. gerði glögga grein fyrir því, að mjög skortir á, að Alþ. hafi verið sagt rétt og til hlítar frá upphafi þessa máls, ástæðu til þess, að brbl. eru sett, og gerð grein fyrir efni þeirra og framkvæmd. Ég veit ekki, hvort það er einber tilviljun, en ég var að spyrja skrifstofustjóra Alþ. áðan um það, hvort hann gæti látið mig fá stjórnartíðindin, sem brbl. hefðu verið birt í, og hann tjáði mér, að það hefti þeirra, sem sagt var að þau hefðu komið f, hefði aldrei hingað til Alþ. komið. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé ekki af ásettu ráði ríkisstjórnarinnar, og vonast til þess, að ekki hafi gleymzt að gefa lögin út í stjórnartíðindahefti á sínum tíma, eins og lög standa til, og ekki þannig, að einungis hafi verið reynt að bæta úr því einhvern tíma síðar. Ég vil ekki gera ráð fyrir því, að slík mistök hafi átt sér stað. En það er alveg táknrænt um meðferð málsins, ef þannig vill til, að þetta eina stjórnartíðindahefti er alls ekki borið í alþingishúsið. Það gefur þá mynd, sem rétt er að menn hafi í huga, að hér er verið að leyna þingmenn eftir föngum orsökum þess, að þessi lög eru sett, hvert efni þeirra er og hvernig um framkvæmdina hefur farið.

Það var greinilegt af ummælum hv. þm. V-Húnv., að hann hafði ekki íhugað neitt af þessum atriðum, a.m.k. hélt hann þeirri íhugun sinni vandlega leyndri fyrir þingheimi, og er því sízt að ástæðulausu, að n. fái málið aftur til meðferðar og veiti því þinglega athugun. En eins og hv. 5. þm. Reykv. réttilega drap á, þá er ástæðan til þess, að brbl. voru sett, þó að um hana sé þagað í grg. til forseta Íslands fyrir setningu laganna, þá er sú raunverulega ástæða fyrir lagasetningunni, að nauðsynlegt var talið að veita íslenzkum skipafélögum viss hlunnindi í sambandi við lausn hins langvarandi farmannaverkfalls, er stóð hér í sumar. Ég hygg, að það hafi verið síðast í júlí eða um mánaðamótin júlí–ágúst, sem sú ákvörðun var tekin, og það eitt er athugunarefni fyrir sig, hvernig stendur á því, að brbl. voru þá ekki gefin út þegar í stað, heldur látið dragast að gefa þau út þangað til um miðjan september og þá vandlega þagað um, af hvaða tilefni þau væru gefin út. Það er ómögulegt að verjast þeirri hugsun, að ástæðan til þessa sé sú, að það hefur átt að leyna almenning því samhengi, sem hér er á milli, þeirri óhjákvæmilegu verðlagshækkun, sem hlýtur að leiða af þessu frv., og orsökunum til hennar. En eins og hv. 5. þm. Reykv. sagði, þá er það óskiljanlegt, úr því að ríkisstj. taldi nauðsynlegt að gera þessa verðlagshækkun til lausnar á farmannadeilunni, að það skyldi ekki boðið fram löngu fyrr og deilan þá þann veg leyst.

Nú hefur mörgu fáránlegu verið haldið fram um upptök og eðli þessarar deilu, og það má lesa það jafnvel enn í málgagni hæstv. forsrh. og öðru hvoru í málgagni hæstv. sjútvmrh., að deilan hafi nánast orðið til fyrir illvilja og undirróður okkar sjálfstæðismanna og hafi alls ekki verið um raunverulega kaupdeilu að ræða, heldur einungis skemmdarverk. Nú vil ég spyrja þessa menn, sem bera ábyrgð á setningu brbl. og þeirri verðlagshækkun, sem af þeim hlýtur að leiða, ef þeir trúa sjálfir á sinn málflutning, að hér hafi verið um pólitíska skemmdarstarfsemi stjórnarandstöðunnar að ræða og einungis sáralitlum hóp manna beitt fyrir í því skyni, hvernig stendur þá á því, að þeir skuli leysa deiluna með almennri verðlagshækkun í landinu í stað þess að fylgja því ráði, sem vitað er að hæstv. félmrh, vildi fylgja og hvað eftir annað lét á sér skilja, að hann ætlaði að beita sér fyrir, og að lokum efndi beinlínis til fundarsamþykkta og bréfaskrifta um, að þessi deila yrði leyst með lögbanni við þeim skemmdarverkum, sem hann virtist sannfærður um að hér ættu sér stað. Sá hæstv. ráðherra virtist í þessu samkvæmari sjálfum sér, en starfsbræðurnir. Hann virtist vera reiðubúinn til þess að fylgja sinni trú, þó að röng væri og á misskilningi byggð, þá virtist hann vera tilbúinn að fylgja henni í verkunum og láta setja lögþvingun á. En ríkisstj. í heild vildi ekki á það fallast, heldur samþykkti að leysa deiluna með þessari og annarri verðlagshækkun á vörum landsmanna. Með því sannaði hún svo áþreifanlega sem á verður kosið, að þeir menn, sem fyrir þessu beittu sér og á því tóku ábyrgð, trúa ekki í raun og veru á það orðafleipur, er þeir hafa sjálfir viðhaft og látið aðra viðhafa, að þarna hafi verið um annað að ræða, en venjulega kaupdeilu. Ef um annað var að ræða, þá var vitanlega eðlilegt, að til sérstakra ráðstafana yrði gripið svipaðra þeim, sem hæstv. félmrh. vildi láta upp taka og Akureyrarsamþykktin fræga beinlínis orðaði og gerði kröfu um.

Hitt verður að segjast eins og er, að þessi kaupdeila, svo skaðsamleg sem hún var fyrir þjóðina, er fyrst og fremst að kenna handvömm hæstv. ríkisstj, og alveg sérstaklega dæmafáu ábyrgðarleysi hæstv. sjútvmrh. Hann hóf snemma afskipti af þessari deilu. Ég veit ekki, hvort það var með samþykki sinna meðráðherra eða ekki, en í upphafi lét hann þann boðskap berast, að hann væri ekki að skipta sér af deilunni sem ráðherra, heldur einungis sem einstaklingur. Hann mun snemma hafa horfið frá því og gert sér grein fyrir, að sú persónuklofning, sem í þessu átti að felast, gat illa samræmzt við raunveruleikann, og tiltrúin til hans persónulega var ekki ýkjamikil, þó að menn vitanlega vildu hlusta á það, er hann segði sem ráðherra. En þá lét hann þau boð út ganga, að fyrstu sáttatill., sem fram væri borin, þyrftu menn ekki að taka svo hátíðlega, vegna þess að eftir hana mundu koma tvær viðbótartillögur. Þetta varð auðvitað til þess, að deiluaðilarnir, sem hæstar kröfurnar höfðu uppi, biðu ósköp rólegir, þangað til þessar þrjár umferðir voru búnar að eiga sér stað, sem hæstv. sjútvmrh. hafði boðað, og ekki var gengið til alvarlegra samningatilrauna fyrr, en eftir að þessi einkennilegi forskrípaleikur hæstv. sjútvmrh. var um garð genginn, en tekið hafði töluvert á annan mánuð að ljúka. Það má segja, að margt furðulegt hefur skeð í stjórnartíð núverandi hæstv. ríkisstj., en ég efast um, að nokkuð sé á borð við fálm hennar, ráðleysi og óheilindi í þessu tiltekna máli. Og þess vegna er það út af fyrir sig skiljanlegt, að hún vilji gera ráðstafanir til þess að lauma þessu frv. í gegnum þingið með sem allra minnstri athugun og hæstv. ráðherrar láti sem allra minnst á sér bera við meðferð málsins.

Það má segja, að við því verði ekki gert héðan af, sem orðið er. Skipin lágu bundin nær sjö vikur í sumar vegna ráðleysisfálms og sundurlyndis hæstv. ríkisstj. En það er alveg rétt, að það sé berum orðum sagt hér á hv. Alþ., hverjir ábyrgð bera á því tjóni, sem af þessu varð, og að sú verðlagshækkun, hvort sem hún er mikil eða lítil, sem leiðir af þessu frv., er tillag stjórnarinnar til að leysa þessa deilu. Og það verður að ítrekast og leggjast áherzla á það, að ef hæstv. ríkisstj. á annað borð taldi nauðsynlegt, að slíkar ráðstafanir væru gerðar, þá var með öllu óverjandi annað, en hún byði þær fram fyrr og gengi til raunhæfrar lausnar á málinu, löngu áður en skrípaleik hæstv. sjútvmrh, var lokið.