05.12.1957
Neðri deild: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Jóhann Hafatein:

Herra forseti, Ég fæ með engu móti skilið þau undanbrögð, sem hér eiga sér stað hjá hv. þm. V-Húnv. (SkG) og hvað knýr þennan hv. þm. til þess að koma hér fram og segja, að við höfum ekki í fjhn. óskað eftir því að fá skýringar frá ráðherra um þetta mál. Hér er ekki rétt með farið. Við óskuðum ekki eftir því, að ráðherrar væru kallaðir á þann fund, stuttan fund, sem var í fjhn., og málið, eins og það liggur fyrir, virðist ekki vera flókið mál, og þess vegna skrifuðum við undir með fyrirvara. En við gerðum grein fyrir því í n., að fyrirvari okkar væri þess eðlis, að fylgi okkar við málið færi eftir því, hvaða efnisskýringar fengjust á málinu við umræðurnar í þinginu, og létum í ljós við fulltrúa ríkisstj. í fjhn. ósk um það, að þeir sæju til þess, að ráðh. væru viðstaddir þessar umræður, sem væru reiðubúnir til þess að gefa skýringar ámálinu. Þetta sagði ég í fyrstu ræðu minni. En af þessu gefnu tilefni vil ég láta það koma fram, að við létum uppi þá ósk í fjhn., að séð yrði til þess af stjórnarliðinu, að ráðherrar væru viðstaddir til að gefa skýringar á þessu máli. Og það er allt önnur meðferð máls, sem mér skilst að vaki fyrir hv. þm. V-Húnv., að hann hefur að vísu ekki mótmælt því, að umræðunum yrði frestað, en er algerlega mótfallinn því, að n. fái málið aftur til meðferðar. Við höfum ekki aðstöðu til þess, þingmenn, að fá skýringar á málum hjá ráðherrum, enga sambærilega aðstöðu til þess við það að óska eftir því beinlínis, að þeir mæti í þingnefndum og skýri þar málin. Ég vil þess vegna enn ítreka ósk um það, að um leið og þessari umr. verði frestað, verði málinu vísað til fjhn., og að sjálfsögðu dreg ég þá ekki í efa, að form. þeirrar n. mundi kalla n. saman, og við munum auðvitað koma þeirri ósk til hans og biðja hann sem formann n. að hlutast til um, að ráðh. mæti á fundi n. til að gefa efnisskýringu á þessu máli.