12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. lét þau orð falla við 2. umr. málsins í gær, að það væri nánast hótfyndni af okkur sjálfstæðismönnum að vera að inna eftir frekari upplýsingum um þetta mál, málið lægi ljóst fyrir, og ef ég man rétt, tók hann svo djúpt í árinni að segja, að það mundu vera fá mál, sem hefðu verið lögð fyrir þingið á öllu gleggri hátt ,en þetta mál. Ég býst nú við, að í sjálfu sér sé þetta engin fjarstæða, ef borið er saman við frágang ýmissa annarra stærri mála, sem fyrir þingið hafa verið lögð og liggja, og hef ég þar m.a. í huga fjárlagafrv. það, sem nú stendur til að ræða, en kostur gefst á því að koma að því í öðru sambandi. Hvað sem þeirri spurningu nú líður, hvort meðferð þessa máls sé nokkuð sérstæð, miðuð við undirbúning ýmissa annarra mála, sem fyrir þingið eru lögð, og svo hygg ég að ekki sé, þá er það víst, að þegar þetta frv. var fyrst lagt fyrir þingið, var það aðeins texti bráðabirgðalaganna án nokkurra frekari skýringa á honum. Þegar málið svo kom til umræðu í fjhn., gátu fulltrúar stjórnarflokkanna í þeirri nefnd ekki gefið neinar frekari skýringar á málinu. Við 1. umr. málsins upplýsti frsm. n., hv. þm. V-Húnv., hins vegar, að hæstv. sjútvmrh. hefði fylgt þessu máli úr hlaði með nokkrum orðum í Ed., og las þau ummæli upp. Aðalefnið í þeim var það, að tilgangurinn með frv. væri tvenns konar: í fyrsta lagi sá að afla tekna í útflutningssjóð, en í öðru lagi sá að bæta, eins og það var orðað, samkeppnisaðstöðu innlendra skipafélaga í samkeppninni við hin erlendu leiguskip, Þar voru engar frekari skýringar gefnar. Ég vakti athygli á því við 2. umr. málsins, að ef í orðin „bætt samkeppnisaðstaða“ ætti að leggja þann skilning, að íslenzku skipafélögin ættu vegna þessara ráðstafana að fá meira í sinn hlut af viðskiptunum en áður, og sá skilningur tel ég að sé í fullu samræmi við almennt mælt mál, þá kæmi það í bága við það sjónarmið að afla útflutningssjóðnum tekna, því að ætti það ekki að vera ljóst mál, að eftir því sem íslenzku skipafélögin fá meira í sinn hlut af þessum flutningum, — en þau eru undanþegin gjaldinu, — eftir því hlýtur auðvitað að koma minna í útflutningssjóðinn? Ég bætti því að vísu við, að verið gæti, að annan skilning bæri í þetta að leggja, en það væri þá æskilegt, að það kæmi fram.

Þegar hæstv. sjútvmrh. svo tók til máls síðar við umr., taldi hann, að þessi skilningur lýsti aðeins vanþekkingu minni á málinu. Það læt ég mér út af fyrir sig í léttu rúmi liggja, því að hefði ég vitað allt um málið, var auðvitað engin ástæða til þess að spyrja frekar út í það. En hvað sem því leið, varð þetta m.a. til þess, að hæstv. sjútvmrh. leysti nokkru meira frá skjóðunni, en áður hafði verið. Hann fór þá að tala um farmannadeiluna á s.l. sumri og gaf þær upplýsingar, að þetta væri liður í ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefði orðið að gera í sambandi við þá deilu, í þeim tilgangi að gera íslenzku skipafélögunum kleift eða sumum þeirra a.m.k. að hækka farmgjöldin frá því, sem áður var. Það var út af fyrir sig gott, svo langt sem það náði, að fá þessar upplýsingar. En hvers vegna komu þær þá ekki fram strax? Ef svo hefði verið hefði mátt spara a.m.k. nokkuð af þeim umræðum, sem fram hafa farið um þetta mál.

Ýmsir hlutir, sem innt hefur verið eftir af hálfu okkar þingmanna Sjálfstfl., sem í þessu máli höfum talað, eru hins vegar með öllu óupplýstir enn, eins og t.d. upplýsingar um það, hvað útflutningssjóðurinn hafi fengið miklar tekjur af þessu, í hverju hafi komið hin bætta aðstaða skipafélaganna o.s.frv. Í því efni varðist hæstv. sjútvmrh. allra svara. Ég geri mér nú daufar vonir um það, að þessar upplýsingar, þó að miklu máli skipti, komi fram hér eftir, og skal ekki fjölyrða meira um þá hlið málsins. En ég vil aðeins leyfa mér að víkja að öðru atriði, en það eru launa- og kaupgjaldsmálin, sem mjög eðlilega hafa fléttazt inn í þær umræður, sem orðið hafa um þessi mál, af því að fram hefur komið, að hér er um að ræða lið í ráðstöfunum í sambandi við lausn farmannadeilunnar á s.l. sumri.

Í sambandi við þetta hefur verið minnzt á flugmannaverkfallið, sem stóð hér á s.l. vetri, og í síðustu ræðu hæstv. sjútvmrh. um það mál kom fram nokkuð nýtt, sem ég tel mjög athyglisvert og rétt að vekja athygli hv. þdm. á. Hæstv. sjútvmrh. nefndi það nú sem rök fyrir því, að sanngjarnt hefði verið að hækka kaup flugmanna svo sem varð, að miðað við launakjör flugmanna í okkar nágrannalöndum stæðu íslenzkir flugmenn mjög höllum fæti, eða m.ö.o., að launahlutföllin milli flugmanna hér á landi og annarra þjóðfélagsstétta væru óhagstæðari, en gerðist erlendis. Mér finnst það mjög athyglisvert sjónarmið hjá hæstv. ráðherra, að hann viðurkennir þarna, að samanburður við launakjör erlendis sé réttmætur og eðlilegur grundvöllur fyrir kröfum íslenzkrar launastéttar um hækkað kaup. Það situr sízt á mér út af fyrir sig að ámæla hæstv. ráðh. fyrir að hafa sett þetta sjónarmið fram og fyrir það, að hann virðist nú aðhyllast þessa skoðun. Ég hef, eins og ýmsum hv. þdm. er kunnugt, einmitt um alllangt skeið verið formaður samtaka opinberra starfsmanna, og ein þeirra röksemda, sem við höfum borið fram til stuðnings okkar launakröfum, hefur gjarnan verið sú, að miðað við Norðurlöndin t.d. væru launakjör opinberra starfsmanna og þá fyrst og fremst þeirra, sem búa við skárri launakjörin, miklu lakari, en gerist í okkar nágrannalöndum. Það má nefna sem dæmi um þetta, að við bentum á það fyrir nokkrum árum, að svo væri komið, að ráðherralaun væru aðeins rúmlega tvöföld laun sendla í stjórnarráðinu, en í Noregi, þar sem jafnaðarmannastjórn hefði lengi setið við völd, væru laun hæst launuðu ríkisstarfsmannanna tíföld á við laun hinna lægst launuðu. Að vísu höfum við aldrei farið fram á neitt, sem mundi nálgast það að leiðrétta þetta misræmi að fullu, en við höfum þó leyft okkur að benda á það. Þetta hefur hingað til mjög lítinn hljómgrunn fengið, og ekki sízt á það við um flokk hæstv. sjútvmrh., og er þó skylt að meta það og þakka, að oft og tíðum hefur hans flokkur veitt ýmsum okkar kröfum stuðning. En jafnan hefur það verið með þeirri forsendu, að sanngjarnt gæti verið að vísu að hækka launin við þá, sem verst væru settir, en alls ekki við hina hærra launuðu embættismenn. Og ég man, að á s.l. þingi hældist hæstv. sjútvmrh. einmitt mjög yfir afstöðu síns flokks í þessu efni, en afstaðan til launalaganna á sínum tíma hefði verið sú, að þeir hefðu að vísu verið því hlynntir, að hækkuð yrðu laun þeirra, sem verst væru settir, en alls ekki hinna betur launuðu embættismanna. Nú virðast skoðanir hæstv. ráðh. breyttar í þessum efnum. Nú telur hann eðlilegt, að vegna þess að flugmenn séu hér á landi, miðað við aðrar stéttir, verr settir, en í nágrannalöndunum, þá fái þeir þetta bætt upp. Þetta finnst mér mjög athyglisvert. Annars dreg ég mjög í efa, að það sé rétt hjá hæstv. sjútvmrh., að launakjör flugmanna hér, miðað við aðrar stéttir, hafi jafnvel fyrir lausn verkfallsins verið lakari, en hvað snertir ýmsa starfshópa aðra. Hæstv. ráðh. bar ekki fram neinar tölur máli sínu til sönnunar, og ég hugsa, að það mundi vera út í bláinn að inna hann eftir slíkum tölum, og mun hlífa honum við því. Hann mundi sjálfsagt í því efni vísa til annarra ráðuneyta o.s.frv., enda býst ég við því, að þess gerist ekki þörf á þessum vettvangi, því að mér þætti ekki ólíklegt, að hann kynni að verða inntur eftir því síðar á öðrum vettvangi.

En ég dreg mjög í efa, að íslenzkir flugmenn hafi í þessu efni staðið meira höllum fæti en margir aðrir, og efa ég það þó alls ekki, að sjálfsagt hafa launakjör þeirra verið til muna lakari, en gerist í nágrannalöndunum.

Ég vil svo leyfa mér að lokum, því að fundi mun sennilega bráðum ljúka og ég skal ekki tala fram yfir þann tíma, að nefna af handahófi einn starfshóp, sem ég af eðlilegum ástæðum er mjög kunnugur, við hvaða launakjör býr, bæði hér og í okkar nágrannalöndum, en það eru prófessorar. Laun þeirra hér nú eru um 7.000 kr., og hafa þeir þó ekki — það skal játað — neina sérstaka ástæðu til að kvarta yfir meðferð á sér í sambandi við launalögin, þeir fengu þá meiri hækkanir, en ýmsir aðrir. Í Svíþjóð eru laun prófessora 3.200 sænskar kr. á mánuði. Það er vandi, eins og hér hefur komið fram í umr., að umreikna þetta þannig, að á sé að byggja, í íslenzkar krónur. En sé tekin sú tala, sem nefnd hefur verið af efnahagsmálaráðunautum hæstv. ríkisstj., að íslenzka krónan sé ofmetin við gengisskráninguna um 60%, þá lætur nærri, að sænsk króna sé reiknuð á fimm íslenzkar. Sumir telja að vísu og hafa leitt að því rök, að íslenzka krónan sé ofmetin, meira en þetta, en ég skal halda mér að lægri tölunum. Ef reiknað væri með því, að sænska krónan væri fimm íslenzkar, þá mundu laun sænskra prófessora vera 16 þús. ísl. kr. á mánuði eða meira en tvöföld laun íslenzkra prófessora. Ég efast um, að hlutfallið milli launa íslenzkra flugmanna og þeirra, sem vinna hjá SAS, sé óhagstæðara en þetta, og enn fremur efa ég, að prófessorar séu hér verr settir, en margar launastéttir aðrar. Ég býst við, að þessi ummæli hæstv. ráðh. muni vekja athygli út í frá, og ekki örgrannt um það, að einhverjir telji sig með nokkrum rétti þá geta byggt launakröfur á þeim. —[Fundarhlé.]