06.02.1958
Efri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

71. mál, Veðurstofa Íslands

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið af prófessor Þórði Eyjólfssyni í samráði við forstjóra og sérfræðinga veðurstofunnar og er óvenjulega, að okkur finnst, nm., vel upp byggt og vel samið.

Veðurstofan óx upp utan við lög. Hún byrjaði í raun og veru 1920, og voru þó angar af henni byrjaðir áður, sumpart í höndum íslenzkra sjálfboðaliða og sumpart í höndum erlendra manna. En 1920 má segja að hún verði innlend, þó utan við lög, bara eftir fjárveitingu frá Alþingi, og þannig starfaði hún nokkur ár, þangað til búin voru til lög, ég ætla 1926, sem áttu að skapa ramma utan um hennar starf. Rás viðburðanna hefur svo orðið sú og þróun í heiminum, að sá rammi er fyrir löngu sprengdur, og hún er fyrir löngu vaxin langt út fyrir þau gömlu lög, sem hún átti að lúta og eftir að fara. Það reyndist þess vegna nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að búa til um hana og hennar starf ný lög, og frv. að þeim liggur nú hér fyrir.

Eftir að nefndin hefur farið yfir það allrækilega, kemst hún að þeirri niðurstöðu, að hún mælir yfirleitt með því við hv. deild að samþykkja frv., en gerir þó við það eina breytingu, sem sumir mundu kalla lítilfjörlega, aðrir aftur mikilvæga, það er eftir því, hvernig á það mál er lítið. Í 9. gr. laganna eru ákvæði um, að reisa skuli byggingu fyrir veðurstofuna á stað, sem hentar starfseminni, svo fljótt sem kostur er á. Þarna er lagt undir dóm hennar, hvenær hún sér kost á að byggja hana, hvort sem það er með lántöku eða beinum framlögum o.s.frv. Þetta þótti okkur nm. óviðfelldið mjög og óvanalegt og breyttum þess vegna þessu í greininni og leggjum til, að hún hljóði svo:

„Reisa skal byggingu fyrir veðurstofuna á stað, sem hentar starfsemi hennar, þegar fé er veitt til þess í fjárlögum.“

Þetta er eina breytingin, sem við leggjum til að gerð sé á frv., og með þeirri breytingu mælum við ákveðið með samþykkt frv. og teljum brýna þörf á að gera það, því að í raun og veru starfar veðurstofan núna eftir löngu úreltum lögum, sem brotin eru með nauðsynlegu starfi hennar að mörgu leyti.