28.04.1958
Neðri deild: 84. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

131. mál, samvinnufélög

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að láta það koma fram hér, svo að það valdi ekki misskilningi í sambandi við ræðu hv. frsm. minni hlutans, að ég sagði ekkert um það í minni ræðu, að samvinnufélögunum væri ekki þörf á að safna fé í varasjóði nú eins og fyrr. Ég sagði það eitt um þetta atriði, að ég og meiri hl. n. teldu þess ekki þörf nú, að í lögum væru ákvæði um það, að félögin legðu í varasjóð 1% af verði aðkeyptra vara og afurða. Einnig að öðru leyti virtist mér gæta nokkurs misskilnings í ræðu hv. frsm. minni hl. á eðli þess máls, sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. frumvarpsins, sem fyrir liggur á þskj. 262.

Hér er um það að ræða, hvort ákveða skuli í lögum, að tiltekin tegund félagsskapar, þ.e.a.s. samvinnufélögin, skuli leggja fé í varasjóð og hve mikið. Þetta hefur verið gert hingað til, að því er samvinnufélögin varðar. Þeim hefur með lögum verið gert skylt að leggja í varasjóð sinn, hvernig sem á stendur, 1% af verði aðkeyptra vara og afurða. Um önnur félög, t.d. hlutafélög, gilda engin slík ákvæði í lögum, og í þessu frv. er nú lagt til, að þessi lagaskylda samvinnufélaganna verði felld niður til samræmis við önnur félög. En eftir stendur þó það, að þau leggi í varasjóði allan hreinan ágóða af utanfélagsmannaviðskiptum. Þetta ætti að nægja, ekki sízt þegar einnig á annan hátt er í lögum allvel um það búið, að félögin standi við skuldbindingar sínar, en það er einmitt þetta, sem er hlutverk varasjóða. Til þess og þess eins eru varasjóðir stofnaðir að treysta fjárhagsgrundvöll þess aðila, sem safnar varasjóði.

Hv. frsm. minni hl. virðist ekki, þótt einkennilegt sé, gera sér fyllilega grein fyrir þessu meginhlutverki varasjóða, til hvers þeir eru stofnaðir og hvers vegna varasjóðsákvæðin voru á sínum tíma sett í samvinnulögin, en að þessu vék ég nokkuð í framsöguræðu minni áðan.

Ég hygg, að það sé á algerum misskilningi byggt, ef hv. frsm. minni hl. eða aðrir gera sér það í hugarlund, að fyrirtæki stofni varasjóði til þess að sjá hinu opinbera fyrir skattstofni. Það hefur heldur áreiðanlega ekki vakað fyrir löggjafanum, þegar samvinnulögin voru sett í öndverðu. Nei, varasjóðsákvæðin voru sett í lögin til tryggingar fjárhag félaganna og til þess að efla traust þeirra út á við. Og þegar þessi ákvæði eiga ekki lengur við eða þeirra er ekki af ýmsum ástæðum talin hin sama þörf og áður var, er rétt að nema þau úr lögum og láta félögin sjálf um það, hve mikið þau telja sig þurfa að leggja í varasjóðinn af því, sem inn kemur vegna viðskipta félagsmanna. Ef þau telja sér þörf á þeirri árlegu aukningu varasjóðs, sem hingað til hefur verið lögboðin, geta þau sjálf ákveðið að framkvæma hana eftir sem áður.

Það færi beinlínis alveg í bága við tilgang varasjóða, ef þeim væri sérstaklega ætlað að vera skattstofn, ef þeim væri ætlað að veikja fjárhagsgrundvöll félags í stað þess að styrkja hann. Í öðrum lögum er beinlínis ákveðið, að varasjóður félaga skuli vera skattfrjáls, ef hann fer ekki fram úr ákveðnum hluta af tekjum, eins og hv. frsm. minni hl. kom að áðan í sinni ræðu, og sýnir það, hvernig á þessa hluti er litið.

En þetta mál, sem hér liggur fyrir, er í eðli sínu ekki skattamál og í rauninni þarflaust að ræða það sem skattamál, en ég minnist aðeins á þetta af því, að hv. frsm. minni hl, ræddi um það áðan. Í samvinnulögunum segir, að um tekju- og eignarskatt til ríkisins fari eftir almennum skattalögum, ekki eftir samvinnulögunum, heldur eftir almennum skattalögum. Samvinnulögin fjalla ekki um það mál, og þá ekki heldur það frv., sem hér liggur fyrir.

Fyrir þessari hv. d. liggur hins vegar sérstakt frv. um breytingu á skattalögunum, m.a. um breytingu á tekjuskatti samvinnufélaga, þar sem þessi tekjuskattur er hækkaður til nokkurra muna. Ef hv. frsm. minni hl. eða einhverjum öðrum hv. þm. þykir það ekki nóg, vilja láta auka skatt á samvinnufélögum meira, þá stendur þeim auðvitað opið að gera tillögur til breytinga á því frv. Þar eiga slíkar breytingar heima og þar eiga líka heima þær umræður um skattamál, sem fram hafa farið í sambandi við þetta mál, aðallega af hálfu hv. minni hl. nefndarinnar.