19.05.1958
Neðri deild: 100. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að leiðrétta eitt atriði, sem ég fór með, þegar ég talaði hér síðast um mál það, sem liggur fyrir. Mér dettur í hug í því sambandi, að mjög kunnur norskur stjórnmálamaður sagði eitt sinn við norskan hagfræðing: Þið eigið gott, hagfræðingarnir, að mega viðurkenna það, að ykkur hafi skjátlazt, það megum við stjórnmálamennirnir ekki. — En ég er nú í þeirri aðstöðu að vera bæði prófessor og stjórnmálamaður, og með tilliti til þess vona ég, að litið verði á það mildari augum, þó að ég gerist til að leiðrétta það, sem ég því miður fór rangt með síðast. En ég gerði ráð fyrir því og þá ályktun virðist mér einfaldast að draga af því nál., sem fyrir liggur um hjónaskattinn, að þau réttindi, sem giftar konur, sem vinna úti, hafa til frádráttar vegna kostnaðar við húshjálp, mundu halda áfram, þó að þessar brtt. væru samþykktar. Hv. 8. þm. Reykv, benti mér á það, að þetta væri ekki rétt. En þar sem hún á nú ekki sæti á þinginu, þá tel ég rétt, að ég leiðrétti þetta sjálfur.

Það mun vera gert ráð fyrir því, að ef giftar konur, sem vinna úti, fái þau hlunnindi, sem þarna er um að ræða, þá hafi þær ekki rétt til þess að draga frá kostnað vegna aðstoðar við heimilishjálp. Nú hefði þetta auðvitað átt að koma fram í áliti þeirrar n., sem sérstaklega hefur athugað þetta, en ég treysti því, að það væri ekki villandi, sem þar stendur, og af þessu er þessi missögn sprottin. Af þessu leiðir svo aftur það, að bilið milli þeirra kvenna, sem vinna úti, og þeirra, sem vinna að heimilisstörfum, verður minna en mér hafði sýnzt í upphafi og þessi skattfríðindi fyrir þær konur, sem úti vinna, verða auðvitað langtum minni, en ella hefði orðið, og getur jafnvel verið í sumum til- fellum, að þetta frv. verði verra, en það fyrirkomulag, sem er nú, því að í núgildandi lögum er heimild til þess að draga frá 2/3 af kostnaði vegna heimilishjálpar, en nú verður ekki heimilt að draga frá nema helming af tekjunum, þannig að ef þau störf, sem konan vinnur úti, eru illa launuð, þannig að þau geri lítið meira en hrökkva fyrir húshjálpinni, þá getur það verið þannig, að hún lendi í hærra skatti, eftir að búið er að samþykkja þetta, heldur en áður var, þó að ég geri nú annars ráð fyrir því, að hér sé frekar um undantekningu að ræða.

Það var eitt atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl., hv. þm. V-Húnv, (SkG), sem ég vildi við þetta tækifæri gera athugasemd við. Hann sagði, að misræmið, sem um yrði að ræða eftir samþykkt þessa frv. milli þeirra giftu kvenna, sem vinna að heimilisstörfum, og þeirra, sem vinna úti, væri að því leyti ekki fyrir hendi, að vinna húsmóðurinnar á heimilinu væri verðmæti og þau væru skattfrjáls. Það, sem liggur til grundvallar því vandamáli, sem hér er um að ræða, er auðvitað hin mikla stighækkun tekjuskattsins, eins og ljóst er, sem bitnar að sjálfsögðu einnig á þeim heimilum, þar sem konan vinnur að heimilisstörfum. Nú er þetta sjónarmið hv. þm. V-Húnv. að vísu rökrétt, að það er ekki nokkur vafi á því, að vinna konunnar að heimilisstörfum er verðmæti, sem hægt væri að meta til peninga. En þeirri reglu mun nú alls staðar vera fylgt, að svo er ekki gert, þegar þjóðartekjur eru t.d. gerðar upp o.s.frv., þá er vinna húsmæðra að heimilisstörfum ekki metin til tekna. Ef farið væri inn á þá braut, þá mundi auðvitað leiða af því ýmislegt annað, sem mundi þykja fráleitt. Það má þá eins meta til tekna vinnu heimilisföðurins, ef hann passar stundum börnin, o.s.frv., en ég hugsa, að fáum dytti í hug að gera það. Jafnvel mætti þá fara að meta mönnum það til tekna, ef þeir raka sig sjálfir eða veita sér aðra persónulega þjónustu, því að auðvitað er það sparaður peningur, þannig að þótt ég viðurkenni, að sjónarmið hv. þm. V-Húnv. sé að vísu fyllilega rökrétt, þá mundi það leiða út í öfgar. Þetta er dálítið hliðstætt spurningunni um það, sem bar hér á góma við efnahagsmálaumræðurnar, hvort fjárlögin væru í rauninni núll.