06.02.1958
Efri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og hv. alþm. er auðvitað ljóst, er það mikið vandamál, hvernig eigi að halda uppi allri þeirri þjónustu, sem þjóðin vill að ríkið hafi með höndum, án þess að kostnaðurinn vaxi alveg yfir höfuð. Vafalaust eru þessi mál óviða jafnörðug viðfangs og hér vegna þess, hve kostnaður er gífurlegur á mann við margvíslega þjónustu, en þjóðin vill búa nýtízku búskap í öllum greinum.

Kröfur um fjárframlög af hendi ríkisins eru hér sennilega meiri og almennari, en annars staðar gerist, og bæjarfélög og sveitarfélög eru hér óvenju fámenn og eiga erfitt með að standa í stórræðum. Þess vegna beina menn áreiðanlega meira kröfum sínum hér til ríkisins, en jafnvel nokkurs staðar annars staðar, og þótt mönnum þyki mikið um þann kostnað, sem bæjar- og sveitarfélög verða að standa undir víða, þá mun það sönnu næst, að ríkið leggur meira til opinberra mála hér tiltölulega, en nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli.

Undanfarið hafa ríkinu verið bundnir þungir baggar með löggjöf frá Alþingi, og mjög mikill hluti af ríkisútgjöldunum, er þess vegna lögboðinn. Þó er allverulegur hluti þeirra, sem ekki er beinlínis lögboðinn, og það er sá beini kostnaður við sjálfa ríkisstarfræksluna. Þessi kostnaður, þótt hann sé mikill minni hluti ríkisútgjaldanna, er eigi að síður mjög þýðingarmikill þáttur, og þjóðin á mikið undir því, að hægt sé að halda honum innan eðlilegra takmarka. Það eru sífellt gerðar atrennur til þess að hamla á móti því, að þessi kostnaður vaxi, eins og við þekkjum, og sú orrahríð stendur auðvitað látlaust í ráðuneytunum, og þar er ýmist sótt eða varizt. Sumar stofnanir og sum ráðuneyti sækja þá á að auka þennan kostnað, af því að þeim þykir nauðsyn til bera, en önnur ráðuneyti og þá einkanlega fjmrn. reyna að verjast, vegna þess að það kemur á það ráðuneyti að standa fyrir tekjuöfluninni á móti, og hv. Alþingi reynir áreiðanlega, eftir því sem það telur sér fært, að hamla einnig á móti óeðlilegum vexti kostnaðarins.

Stundum hafa verið skipaðar sérstakar sparnaðarnefndir og raunar æði oft, og því fer fjarri, að ég vilji halda því fram, að störf þessara sparnaðarnefnda hafi yfirleitt orðið til einskis. Nefndir þessar hafa oft kynnt sér mjög rækilega eða nokkuð rækilega ýmsa þýðingarmikla þætti í ríkisbúskapnum og oft gefið ýmsar gagnlegar bendingar. En það hefur sannast að segja verið sameiginlegt einkenni á störfum allra þessara sparnaðarnefnda, að þær hafa orðið að láta sér nægja að gefa bendingar, miklu fremur, en að gera ákveðnar, rökstuddar tillögur. Nefndirnar hafa sjaldan getað kynnt sér einstaka þætti svo rækilega, að þær hafi beinlínis treyst sér til þess að byggja á þeirri kynningu eða þeirri rannsókn nákvæmar till. um það, hvað ætti að gera. T.d. hafa þær oftast nær ekki treyst sér til þess að dæma um það, hvort hægt væri að koma við sparnaði, t.d. um mannahald, húsnæði, bifreiðaafnot o.s.frv., o.s.frv., hjá þessari eða hinni stofnuninni, þó að þær hafi oft bent á, að sýna þurfi ráðdeild í þessum efnum.

Þetta er ekkert óeðlilegt, þar sem það mun sanni næst varðandi slík atriði, sem þó eru oft mjög þýðingarmikil, og raunar þau atriði, sem eru þýðingarmest eða með því þýðingarmesta í þessu sambandi, að sparnaðarnefndir, sem sitja tiltölulega stuttan tíma, hafa varla möguleika til þess að fella í þessu efni dóm, en verða af eðlilegum ástæðum að gefa bendingar. Þess vegna er vitaskuld takmarkað gagn að sparnaðarnefndunum, þó að þær geti haft mikla þýðingu. Og ég vil alls ekki gera lítið úr því, að þær hafi þýðingu, því að sannast að segja eru þessi mál þannig vaxin, að hér verður aldrei neitt gert, sem stendur langa hríð, heldur þarf ævinlega að vera að vinna að þessum málum. Ef á að vera sæmilegt aðhald í þessum efnum, þá verður það að vera með því að vera af og til alltaf að endurskoða þau, og raunar af og til þannig, að nýir kraftar koma að til þess að benda á það, sem betur mætti fara.

Í því efni hafa sparnaðarnefndirnar gert gagn. En þær ná ekki til botns í verkefninu, sem ekki er von.

Nú hefur oft verið um það rætt, með hverjum hætti væri unnt að skapa aukið aðhald frá því, sem verið hefur í ríkisbúskapnum, og stundum hefur komið til orða að stofna ráðsmannsembætti, embætti eftirlitsmanns, fastskipaðs eftirlitsmanns, sem ætti a.m.k. að hafa tillögurétt um það, hversu koma skyldi fyrir einstökum greinum ríkisbúskaparins. En það hefur ekki orðið úr því, að það hafi verið lögfest að setja upp slíkan ráðsmann, og sumir hafa óttazt, að fastskipaður embættismaður í svona starfi mundi ekki, þegar til lengdar lætur, verða það aðhald, sem aðrir hafa vonazt eftir, og þess vegna hafa ýmsir mjög hikað við að setja slíka löggjöf.

Í 22. gr. fjárlaga hefur nokkuð lengi verið ákvæði um, að ríkisstj. væri heimilt að ákveða, að fjölgun starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana skuli vera háð samþykki fjmrh., þar til sett verði lög um ráðstafanir til að draga úr kostnaði við opinberan rekstur. Það hefur sem sé um nokkuð langa hríð verið gert ráð fyrir því, að sett yrðu lagaákvæði um þessi efni, en til bráðabirgða verið samþykkt ár frá ári þetta ákvæði í 22. gr. fjárlaga. Undanfarið hefur það verið ætlun ríkisstj. af og til a.m.k. að framkvæma þessa heimildargrein, en það hefur jafnan farið út um þúfur, og það hefur orðið á þann hátt, að einstök ráðuneyti og stofnanir hafa farið sínu fram, þrátt fyrir það þótt ákveðið hafi verið að nota þessa heimild, og fjmrn. hefur enga aðstöðu haft til þess að spyrna fótum við, m.a. vegna þess, að ráðningar á fólki hafa verið alveg fullgildar að lögum, þótt fjmrn. hafi alls ekki um þær fjallað. Það er því alveg augljóst mál, að þetta ákvæði, sem var reynt til bráðabirgða, veitir ekki neina fullnægjandi stoð í þessu efni.

Nú hefur verið athugað undanfarið talsvert gaumgæfilega, hvað hyggilegt mundi vera að gera til þess að reyna að skapa meira aðhald um þessi efni en verið hefur, og það hefur orðið ofan á að gera þær till. til nýrrar löggjafar, sem felast í þessu frv. Í frv. er ekki gert ráð fyrir sparnaðarnefnd, sem sitji stuttan tíma, en þó er vitaskuld alltaf hægt að skipa slíka nefnd eða nefndir þrátt fyrir ákvæði frv. Það er heldur ekki gert ráð fyrir því í frv. að skipa fastan embættismann til eftirlits af ótta við, að það fyrirkomulag mundi ekki, þegar til lengdar léti, reynast það aðhald, sem menn hafa viljað fá. Á hinn bóginn er reynt að fara í þessu efni leið, sem ætti að geta falið í sér nokkra af kostum þess að hafa fastan mann til þess að líta eftir í þessu efni og jafnframt að hafa það í sér fólgið, að þarna væri veruleg hreyfing á einnig. Þetta er hugsað þannig, að í frv. er gert ráð fyrir að fela þremur sérstökum trúnaðarmönnum aðhald og eftirlit. Einn þeirra sé embættismaður, þ.e.a.s. ráðuneytisstjórinn í fjmrn., einn sé skipaður af ríkisstj. í heild og einn sé kosinn af fjvn. Alþingis til eins árs í senn. Það yrði þá hlutverk þessara manna, eins og segir í frv., að gera till. um aðhald og sparnað í ríkisrekstrinum, og er gert óheimilt með lögum að stofna til nokkurrar nýrrar stöðu nokkurs staðar í ríkisrekstrinum, nema málið hafi verið borið undir þessa þremenninga, og sú ráðning ógild, sem gerð væri án þess, að málið hefði verið undir þá borið. Að sjálfsögðu er valdið til þess að ákveða endanlega um það, hvort starf skuli sett upp, ekki tekið af hlutaðeigandi ráðherra, því að slíkt er ekki talið fært, en það er skylt, að málið gangi í gegnum þennan hreinsunareld, og ef ráðherra fer ekki eftir till. trúnaðarmannanna, þá er honum samkvæmt frv. gert skylt að gera fjvn. Alþingis grein fyrir því, af hverju hann fór ekki eftir till. trúnaðarmanna, hver voru rökin fyrir því, að hann taldi svo brýna nauðsyn til þess t.d. að fjölga starfsliðinu, að hann samþykkti, að það yrði gert, þótt nefndin væri á annarri skoðun.

Ég ætla af langri reynslu í þessum efnum, að það ætti að mega vænta sér verulegs stuðnings fyrir Alþingi og ríkisstj. af þessu fyrirkomulagi, og þetta er einmitt hugsað þannig, að tveir af trúnaðarmönnunum séu með nokkrum hætti á vegum ríkisstj., en einn á vegum Alþingis, þ.e.a.s. fjvn., og er það einmitt gert til þess, að þarna skapist tengiliður varðandi þessi efni milli hv. Alþingis og framkvæmdavaldsins.

Ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um, að ef þetta verður vel rækt af þeim, sem hér er gert ráð fyrir að komi til aðhalds, þá ætti að mega hafa af þessu gagn.

Þá er loks gert ráð fyrir því, að þessir trúnaðarmenn fjalli ekki aðeins um starfsmannafjölda og veiti aðhald í því efni, eftir því sem þeim sýnist fært, heldur einnig stungið upp á, að undir þá skuli bera allar ráðstafanir, sem verulegum kostnaðarauka geta valdið, svo sem aukningu húsnæðis, bifreiðakaup og fleira þvílíkt, sem lýtur að starfrækslunni. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að þeim sé skylt að íhuga eða endurskoða starfsrekstrarkostnað yfir höfuð og gera till. um hagfelldari vinnubrögð í ríkisstofnunum til að spara mannahald og annan rekstrarkostnað, eins og það er orðað í 3. gr. frv.

Með þessu móti er ætlazt til, að saman geti farið, að meðal trúnaðarmanna í þessum efnum sé jafnan einhver, sem hefur nákvæma þekkingu á ríkisstarfrækslunni, þ.e.a.s. ráðuneytisstjórinn, sem er fastur trúnaðarmaður samkvæmt frv., en jafnframt komi aðrir tveir til, sem eru sérstaklega tilnefndir fyrir stutt tímabil í senn og ættu að geta tryggt, að fleiri sjónarmið, en aðeins sjónarmið embættismannanna einna komi þarna til greina.

Mér finnst mjög hyggilegt að lögfesta þetta og gera tilraun, hvernig það gefst. Ég skal ekki færa fyrir þessu fleiri ástæður, en vil leyfa mér að lokum að óska eftir, að málinu verði vísað til hv. fjhn. d. að lokinni þessari 1. umr.