03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki mikið lengja þessar umr., því að til þess gefst tækifæri að ræða þessi mál nánar síðar, en örfá orð vildi ég þó segja út af því, sem hæstv. fjmrh. talaði um í sambandi við mína ræðu.

Hæstv. ráðh. talaði á þá leið eins og ég hefði aldrei gert neinar aths. við reikninga ríkisins og hans fjármálastjórn. En ég held nú, að aðrir hv. þm. og jafnvel fleiri menn hafi fylgzt með því, að á mörgum undanförnum árum hef ég gert og mínir samstarfsmenn allmargar aths. árlega við reikninga ríkisins og allar þær gífurlegu umframgreiðslur, sem þar hafa átt sér stað undir handarjaðri þessa hæstv. ráðh. En það er dálítið eðlilegt, að það dragi nokkuð bitið úr vopnunum, bæði hjá yfirskoðunarmönnum og öðrum aðilum, sem hlut eiga að máli, að í hvert sinn, sem ríkisreikningur er fyrir til meðferðar, þá eru menn búnir að sjá fjárl. og jafnvel ríkisreikning, sem er enn þá verri útlits, heldur en sá síðasti. Og við, sem höfum fyrir nokkuð löngu lokið endurskoðun reikningsins 1955 og gert við hann margar aths., sem hv. þm. munu sjá innan skamms, höfum nú fengið í hendur ríkisreikninginn fyrir 1956, og þó að hinn sé að ýmsu leyti ekki fagur álits, þá tekur þó alveg steininn úr, þegar maður sér reikninginn fyrir árið 1956. Þegar við fáum tækifæri til að ræða þau mál, sem koma þar fram í dagsljósið í tölum, þá verður nóg tækifæri til þess að tala við hæstv. fjmrh.

Nú er það svo, eins og gefur að skilja, að sökin hvílir náttúrlega í raun og veru ekki á þessum eina manni, því að þar eru margir sakaraðilar, bæði í stofnunum og öðrum ráðuneytum. En það er eðlilegt, að það sé snúið sér fyrst og fremst að honum, því að hann er maðurinn, sem hefur ábyrgðina, og eini maðurinn, sem hefur tækifæri til þess að setja hnefann í borðið og skera fyrir það, sem er að gerast. En ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða það, að á því 7–8, — ja, líklega orðið rúmlega 8 ára tímabili, — við höfum nú ekki séð reikninga nema fyrir 7 ára tímabil, sem hann er búinn að vera fjmrh. í röð, — þá hefur verið eytt umfram fjárl. að meðaltali rúmlega 100 millj. kr. á hverju ári. Og það gefur auga leið, hvort ekki muni vera nokkuð margt í þeirri súpu á hverju einasta ári, sem ekki hefur verið samþ. á Alþingi, þó að menn sjái sér ekki annað fært, þegar liðið er eitt eða tvö ár, heldur en að slá striki yfir allt saman, þegar það er um garð gengið og er búið að ganga frá því, ekki hægt að innheimta peningana aftur eða taka til baka lánin og ábyrgðirnar o.s.frv.

Þetta vildi ég aðeins taka fram, en mun gera fyrir þessu nánari grein, þegar málið kemur frekar til umr.