22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst benda á út af einu atriði, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Reykv., að í 3. gr. frv., fyrri mgr. hennar, segir, að þessir þrír trúnaðarmenn skuli gera till. um hagfelldari vinnubrögð í ríkisstofnunum til að spara mannahald og annan rekstrarkostnað.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði hér áðan um þær brtt., sem hann flytur ásamt hv. 9. landsk. þm. á þskj. 434. Út af 1. brtt. þeirra, við 1. gr. frv., vil ég benda á, að í 7. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að fjmrh. setji með reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna, og mætti þá að sjálfsögðu kveða þar nánar á um starfssvið trúnaðarmannanna, heldur en gert er í frvgr. sjálfri, og sýnist mér af þeirri ástæðu eigi þörf á því að gera þessa breytingu á orðalagi greinarinnar.

Ein af brtt. þeirra hv. tveggja þm. er um það að orða um 3. gr. frv., og aðalbreytingin, sem þeir leggja til að gerð verði, er sú, að Alþ. kjósi þriggja manna n., sem eigi að hafa þau störf með höndum, sem frv, gerir ráð fyrir, og komi þetta fyrirkomulag í stað þess, sem ráðgert er í frv. Ég vil aðeins benda á það í þessu sambandi, að þetta er í ósamræmi við þær till., sem hafa komið frá hv. þm. Sjálfstfl. um eftirlit í þessum efnum, og get ég þar t.d. minnt á frv., sem flutt var á þingi 1955 af hv. þáverandi þm. Barð., en þar var gert ráð fyrir því, að eftir hverjar kosningar kysi fjvn. Alþingis einn mann til þess að hafa eftirlit með ríkisrekstrinum, og má þá að sjálfsögðu gera ráð fyrir því, ef á þetta hefði verið fallizt, að sá maður hefði á hverjum tíma verið valinn af ráðandi þingmeirihluta.

Nokkuð finnst mér óljóst í þessari brtt. við 3. gr. Í fyrsta lagi er það, að ekkert er tekið fram um starfstíma þessarar n., sem Alþ. á að kjósa, hvort hún á að vera varanleg eða kosin til ákveðins tíma.

Þá er í næstu brtt., þeirri 3., kveðið svo á, að þegar fé sé veitt í fjárlögum í einu lagi til meiri háttar verka, svo sem atvinnuaukningar, skólabygginga, vegaviðhalds, hafnarbóta o.fl., þá sé skylt að hafa samráð við n. um skiptingu fjárins. Mér er ekki ljóst, hvað átt er við með því að hafa samráð við n., hvort það ber að skilja það á sama hátt og hv. þm. A-Húnv. útskýrði það orðalag í frv, því, sem hann flutti og áður hefur verið að vikið. En mér finnst það vera í ósamræmi við þær stjórnskipunarreglur og venjur, sem hér hefur verið fylgt, að setja ákvæði sem þessi, sem þarna eru till. um. Mér finnst það eðlilegt, að ríkisstj., hver sem hún er, hafi eins og áður skiptingu þess fjár með höndum, sem Alþ. veitir þannig til ákveðinna verka eða framkvæmda í einu lagi. Það mun vera venjan um margar af þessum fjárveitingum, að ríkisstj. ákveður skiptinguna að fengnum till. frá forstöðumönnum þeirra stofnana, sem um ræðir í hverju tilfelli. Þannig mun stjórnin fá álit og till. fræðslumálastjóra um skiptingu á fé til skólabygginga, frá vegamálastjóra um skiptingu á fé til vegaviðhalds, hafnarmálastjóra till. viðkomandi skiptingu á fé til hafnarbóta, og þannig mætti telja fleira, og þetta er eðlilegt, virðist mér, að stjórnin njóti aðstoðar þessara forstöðumanna og fái till. þeirra um skiptingu á þessu fé. Hitt finnst mér óeðlilegt, ef ætti að fela sérstakri þriggja manna nefnd, eins og hér er lagt til, að hafa þessa úthlutun með höndum ásamt ríkisstj., fela henni að ráðstafa þannig fé til ólíkra framkvæmda ásamt með ríkisstj.

Út af því, sem sagt hefur verið hér um aðstöðu stjórnarandstöðunnar til þess að fylgjast með þessum málum, þá vil ég benda á það, að stjórnarandstaðan hefur nú a.m.k. — og hefur svo verið undanfarið — eftirlitsaðstöðu og aðstöðu til að koma fram athugasemdum um öll þau atriði viðkomandi ríkisrekstrinum, sem hún telur ástæðu til að finna að eða gera athugasemdir við, og þetta hefur stjórnarandstaðan með því, að hún hefur möguleika, sem hún hefur notfært sér undanfarið, til að velja einn mann af þremur til að endurskoða ríkisreikningana. Og það er á verksviði þessara yfirskoðunarmanna ríkisreikninga að gera athugasemdir til Alþ. um hvað eina, sem þeim finnst aðfinnsluvert, enda hafa þeir ávallt gert það, og þeir geta þá að sjálfsögðu borið fram till. á Alþ. út af því, sem þeir komast að í starfi sínu að betur mætti fara.

Ég sé ekki ástæðu til að svo stöddu að hafa um þetta fleiri orð. Mér sýnist engin ástæða til að samþ. þessar framkomnu brtt., og um sumar þeirra, eins og ég hef tekið fram, er það að segja, að mér finnst það mjög óeðlilegt að afgr. málið með þeim hætti, sem þar er lagt til. Eins og ég hef áður tekið fram, þá er það þannig að í frv., sem fyrir liggur, er gert ráð fyrir að velja þessa trúnaðarmenn eða eftirlitsmenn aðeins til eins árs í senn, þá tvo, sem eiga að vinna með ráðuneytisstjóranum í fjmrn., sem er fastráðinn starfsmaður, og mér finnst hljóta að vera heppilegt að hafa þennan háttinn á, a.m.k. til að byrja með, þar til reynsla er fengin um árangur af þessu eftirliti og því fyrirkomulagi, sem stefnt er að með frv. að upp verði tekið.