16.05.1958
Neðri deild: 96. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ásgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og sannazt hefur við umræðurnar um frv. það, sem á dagskrá er í hv. d., þá felur það í sér gífurlega auknar álögur á þjóðina, enda þótt tillögurnar eigi um leið að vera vísir til bjargráða. Þessi stefna, að bæta sífellt nýjum álögum á, er vonlaus sem bjargráð og gerir allar raunhæfar ráðstafanir eða aðgerðir erfiðari og tilfinnanlegri fyrir fjöldann, þegar eigi verður lengra komizt á óheillabrautinni. Það hljóta allir að sjá, hvílík dýrtíðaralda af þessu rís. Ég er því fyllilega sammála þeim, sem andvígir eru þessu frv.

Einstakir liðir þessa flókna máls hafa verið nokkuð skýrðir við umræður málsins, svo að það liggur ljósara fyrir, hverju þjóðin má búast við, og ég mun ekki frekar fara út í það að sinni. En það er í tilefni af ummælum hæstv. viðskmrh., sem ég tek aðallega til máls. Hann sagði í ræðu sinni hér á Alþ. við umræðurnar um þetta frv., að einn stærsti flokkur þjóðarinnar hefði verið að æsa til verkfalla, bæði flugmenn og farmenn, og sagði þá hæst launuðu í landinu. Ég vil lýsa því sem ósannindum, að nokkur pólitískur flokkur hafi komið nálægt því, að því er við kemur Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Enginn annar tók ákvörðun um það, að þessi félög skyldu segja upp samningum og reyna að komast að samningum án verkfalls. Það voru félögin sjálf. Það er vitanlegur hlutur, að þegar félögin fá engar viðræður og engar bætur, en telja sér þær nauðsynlegar með samningsuppsögn, þá verða þau að fara í verkföll, á meðan verkföll eru leyfð í þessu landi. Það er því algerlega ástæðulaust og rangt að vera að halda þessu fram. Þetta var að vísu gert og þetta var borið út um allt land í ýmsum blöðum stjórnarinnar s.l. ár til þess að reyna að baka óvild sjómönnum og samtökum þeirra. En hins vegar tókst það ekki, því að ríkisstj. sá, að það var ekki um annað að gera, en semja við þessa menn eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins, og hún viðurkenndi með samningunum, sem gerðir voru við mennina, að það var rétt, sem þeir fóru fram á, að þeir þyrftu að fá lagfæringar. Að vísu fengu það ekki allir á skipunum. En það var eins og vant er, að það var verið að reyna að skipta mönnum í flokka eftir því, hvaða stöðu þeir höfðu á skipunum, og þeir, sem höfðu verið hæst launaðir, fengu að vísu ekki neitt, en allir hinir fengu nokkrar bætur og sumir allverulegar. Og það er vissulega óhætt að þakka það, vegna þess að þeim bar það og það var nauðsynlegt fyrir þá. En ég vil, um leið og ég segi frá þessu, taka það fram, að hæstv. viðskmrh., Lúðvík Jósefsson, kom á marga fundi með okkur og talaði mjög vinalega og vinsamlega við okkur um það, að allir flokkarnir fengju einhverja lagfæringu, meira að segja sendi hann okkur tryggingarfræðing til þess að kenna okkur, hvort heppilegra væri fyrir okkur að taka lífeyrispólisur, sem eru skattfrjálsar, heldur en fá hærri kauphækkanir, sem yrðu svo teknar aftur að mestu leyti í sköttum og útsvörum. Þetta var sönnun þess, að þessi hæstv. ráðh. leit þannig á, að það væri ekki rangt, að allir fengju eitthvað. En hins vegar varð raunin sú, að það urðu ekki nema þeir, sem voru lægra launaðir á skipunum, sem fengu allverulega lagfæringu. En það er alveg ágætt. Þetta sýnir þá og sannar, að þessi hæstv. ríkisstj. er að reyna að búa til þá flatsæng fyrir þjóðina, sem hún sjálf hefur búið sér. Hún vill láta alla vera við sömu jötuna, alla hafa sömu laun, hvaða stétt sem þeir tilheyra og hvaða stöðu sem þeir hafa í þjóðfélaginu, eftir þessari stefnu að dæma. Ég vil ekki á nokkurn hátt vita það. Það getur vel skeð, að það sé það réttasta og bezta, að allir séu jafnir í launum. En ég verð að segja, að það er alveg sannanlegt, að það verður ekki til þess að ýta undir það að fá ötula og góða menn í ábyrgðarstöðu að gera þá jafna við þá, sem þeir eiga að stjórna. Og það þekkist víst ekki í neinu landi, nema það væri á Íslandi, eins mikið jafnræði, sem er að sumu leyti gott, en getur farið út í öfgar, eins og hér hjá okkur.

En það, sem ég vildi segja enn fremur í sambandi við þetta mál nú, er það, að löngum hefur verið talað um það, að gjaldeyrir sá, sem sjómennirnir fá, sem er um 30% af launum þeirra, þegar þeir fara til annarra landa, bæði fiskimenn og farmenn, eigi að vera hlunnindi fyrir þá. Það hefur verið flaggað mikið með það, að það væru hlunnindi fyrir sjómennina að fá þennan gjaldeyri. En nú eiga þeir að borga 55% af honum. Og þegar maður aðgætir það, að áður voru það hlunnindi, sem þeir áttu að fá fyrir það, að þeir voru útilokaðir frá félagslífi og heimilislífi og frá því að laga fyrir sjálfum sér á heimilum sínum eftir venjulegan vinnutíma eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins geta gert, þá er sannarlega ráðizt einmitt á þessa stétt nú í þessu frv. Og það vil ég undirstrika, að það er mjög mikil óánægjualda meðal sjómanna einmitt t. af þessu atriði. Ef menn vilja gera sér ljóst, að þetta 55% álag á sjómannagjaldeyrinn er hvorki meira né minna en 16.6% launalækkun fyrir þessa menn, og það er ekki svo lítið, þegar það áður var miðað við það, að þeir fengju það einmitt fyrir að vera sjómenn, og þegar maður enn gætir frekar að því, að það hefur komið til mála, að sjómenn fengju meira eða minna skattfrelsi á launum sínum, þá væri hér gullið tækifæri einmitt fyrir ríkisstj. til þess að sætta sjómennina við það að vera á sjónum og jafnvel til þess að hæna fleiri að því að koma á sjóinn að láta ekki þetta gjaldeyrisákvæði ná til sjómannanna líka. Það hljóta allir góðir menn að sjá. Nú er það vitað, að við höfum orðið á undanförnum árum að fá menn í hundraða- og jafnvel í þúsundatali frá annarri þjóð til þess að sigla á skipunum okkar, vegna þess að sjómennirnir hafa fengið betri laun annars staðar, en á sjónum og talið sér heppilegra að vera í landi og vinna við önnur störf, þá væri þetta einmitt tækifæri til þess að reyna að breyta því og útiloka þessa þörf fyrir erlenda menn á skipunum með því einmitt að láta sjómennina íslenzku fá þennan gjaldeyri á því verði, sem hann er löglega skráður á, þó að þetta hafi verið sett í frv., að það skuli borga 55% gjald af þessum peningum eins og öðrum. Það er sem sé mjög alvarleg ábending til hæstv. ríkisstj., að hún athugi þetta gaumgæfilega, áður en gengið verður frá frv, hér á þingi.

Mér þykir leitt, að hæstv. viðskmrh. var ekki viðstaddur, þegar ég sagði þessi orð um verkfallið. Ég sagði, að hann hefði sagt, að stærsti flokkur þjóðarinnar hefði verið að æsa til verkfalla þá hæst launuðu í landinu, svo sem flugmenn og farmenn, og ég mótmælti því harðlega, vegna þess að það er enginn fótur fyrir því. Það hefur enginn stjórnmálaflokkur komið nálægt því máli. Það ákváðu mennirnir algerlega sjálfir án þess að tala við nokkurn stjórnmálamann. Og það veit hæstv. ráðh. líka, að í þeim samtökum eru menn úr hans flokki, og hann hefði getað fengið upplýsingar um það hjá þeim, ef hann tekur ekki mín orð trúanleg.

Ég vil svo ekki orðlengja meira um þetta, en ég vil aðeins segja það, að mér þykir leitt, að þessu skyldi hafa verið blandað inn í umr. hér á hinu háa Alþ., og ég vil fyrir hönd sjómannasamtakanna eða fyrir hönd yfirmannasamtakanna lýsa því yfir, að það er mjög mikil og hörð óánægja, einmitt út af þessu ákvæði, því að þeir telja sig þarna verða fyrir mjög miklu óréttlæti, vegna þess að áður var viðurkennt, að þeir ættu að fá þessi hlunnindi fyrir það að vera sjómenn.

Þá vil ég að lokum aðeins geta þess, að það er einn hópur þarna um borð í skipunum enn þá, einn af þessum fastlaunuðu, sem ekki hefur annað en sín föstu laun við að búa, sem verður fyrir þeim heiðri, að hæstv. ríkisstj. heiðrar hann öðru sinni með því að láta þann flokk einan verða undanskilinn því að fá þessi vesölu 5%.

Það gerir ekkert til. Við erum mjög ánægðir með það og þökkum hjartanlega fyrir, að það skyldi einmitt verða tvívegis á sama árinu, að ríkisstj, heiðraði okkur. En við viljum ekki að hún heiðri okkur með því að segja ósatt um samtökin okkar eða okkur yfirleitt.