27.05.1958
Neðri deild: 105. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh., sem mælt hafa með samþykkt frv. um útflutningssjóð, hafa verið með ýmsar fullyrðingar um ágæti þess og þá miklu blessun og bætta fjárhagsafkomu, sem af því muni leiða fyrir atvinnuvegina og allan landslýð, ef samþykkt þess væri tryggð hér á Alþingi.

Mér er óskiljanlegur slíkur málflutningur. Það þarf mikil brjóstheilindi til að halda því fram, að það sé til blessunar fyrir aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, að lagt sé 55% yfirfærslugjald á allar nauðþurftir þeirra. Það á að auka framleiðslu sjávarafurða með því að framkvæma þær aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins að skattleggja allar nauðþurftir sjávarútvegsins með 55% yfirfærslugjaldi.

Á þennan hátt, segir í grg. með frv., á að setja hömlur á ofnotkun veiðarfæra og olíunotkun hjá fiskiskipaflotanum. Þetta er hæpinn málflutningur hjá hæstv. ríkisstj., málflutningur, sem ég veit að muni reynast erfitt að sannfæra íslenzka sjómannastétt um, að með því að stytta línuna, fækka netjum á þorsk- og síldveiðum, spara olíunotkun og að sjálfsögðu að fækka þannig róðrardögum eigi að vera unnt að fá meiri afla á fiskiskipin. Því er beinlínis haldið fram í grg. með frv., að með 55% yfirfærslugjaldinu eigi þessi árangur að nást. Þeir, sem hafa rekstur útgerðar með höndum í dag, leggja ekki trúnað á slíka fjarstæðu, og ég fullyrði, að sjómennirnir okkar séu á sama máli um rökþrot þessarar fullyrðingar í grg. Og til þess að tryggja rekstur fiskiskipanna á svo að leggja 55% yfirfærslugjald á þann gjaldeyri, sem færeyskir sjómenn fá yfirfærðan af aflahlut og kaupi sínu á fiskibátum og togurunum. Ég óttast, að með þessari ákvörðun séu stöðvaðir allir möguleikar íslenzkra útgerðarmanna með ráðningu færeyskra sjómanna á fiskiskipin, sem mun hafa þær afleiðingar óhjákvæmilega, að fjöldi fiskibáta og nokkrir togarar munu verða að stöðva rekstur sinn vegna vöntunar á sjómönnum. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur verið allmikill fjöldi færeyskra sjómanna bæði á fiskibátunum og togurunum nú mörg undanfarin ár, og á vetrarvertíðinni 1957 mun tala þeirra hafa numið um 1.400. Það er sagt, að það sé nokkru minna núna á þessu ári, en þó eru það ábyggilega svo margir sjómenn, að það mundu myndast mjög miklir örðugleikar fyrir íslenzku fiskiskipin að bæta það með sjómönnum héðan úr landi, og er ég því mjög hræddur við þær afleiðingar, sem þetta kann að hafa. Ég veit t.d. með togarann Þorstein þorskabít, að á honum eru tólf Færeyingar, sem allir hafa lýst því yfir, að um leið og þetta gjald verður sett á, muni þeir allir ganga í land og fara heim til Færeyja, Og ég er hræddur um, að þannig verði einnig með allan fjöldann, ef ekki hvern einasta Færeying, sem er núna á íslenzka fiskiskipaflotanum.

Þá er samkvæmt 9. gr. frv. gert ráð fyrir 55% álagi á útflutningsgjald sjávarafurða samkvæmt 1. gr. l. frá 1957, en álagið skal renna til Fiskveiðasjóðs Íslands. Þessi vinnubrögð eru fráleit. Hækkunin, sem frv. gerir ráð fyrir á útflutningsgjaldi sjávarafurða, nemur rúmlega 11/2%, útflutningsprósentu. Til að tryggja rekstrarafkomu sjávarútvegsins hyggst hæstv. ríkisstj. að leggja á sjávarútveginn ekki einvörðungu 55% yfirfærslugjald, heldur og einnig 55% hækkun á útflutningsgjaldi á sjávarafurðum. Ég held, að þessi vinnubrögð hæstv. ríkisstj. séu ekki til þess fallin að auka henni traust, hvað sem öðru líður, og var þess þó full þörf.

Það skal viðurkennt, að Fiskveiðasjóður Íslands þarfnast meira fjár til umráða til að geta sinnt þeim margþættu verkefnum í þarfir sjávarútvegsins, sem sjóðnum er ætlað. En ég held, að fáir Íslendingar hefðu lagt trúnað á það, að til að afla fiskveiðasjóði nauðsynlegs fjármagns til sinna þarfa yrði reynt að taka það með þessum hætti, sem hæstv. ríkisstj. leggur til í 9. gr. frv., eða með álögum í formi hækkaðs útflutningsgjalds á sjávarafurðir. Það verður að álykta, að hæstv. ríkisstj. hefði borið skylda til að verja stærri hluta af þeim 500 millj. kr., sem hún hefur þegar tekið af lánum erlendis, til þeirrar stofnunar, sem sér aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, fyrir nauðsynlegum lánum. Það hefðu verið eðlilegri vinnubrögð en það, sem nú er reynt að vinna að í frv., að stórhækka útflutningsgjald á sjávarafurðum til þess á þann hátt að afla fiskveiðasjóði tekna.

Þá hafa hæstv. ráðh. haldið því fram í ræðum, er þeir hafa flutt í sambandi við frv., að með samþykkt þess mundi hefjast stórkostleg þróun í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, útgerðin muni stóraukast og þar með aukin atvinna hjá öllum almenningi og fullar búðir varnings fyrir fólkið. Hins vegar hafa þessir sömu ráðh. haldið því fram, að ef þessar aðgerðir fengjust ekki samþ. hér á Alþingi, mundi óhjákvæmilega myndast hér mikið atvinnuleysi, svartamarkaðsbrask og tómar sölubúðir.

Svo mörg eru þau orð. Það er hins vegar álit mitt, að þær aðgerðir, sem hæstv. ríkisstj. hyggst að ná fram með samþykkt þessa frv., hafi í för með sér aðra og verri tíma fyrir allan landslýð. Í kjölfar þessara aðgerða hæstv. ríkisstj. mun óhjákvæmilega sigla minnkandi þátttaka í aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, atvinnuleysi og vöruþurrð og þar með svartur markaður í stærri stíl, en nokkru sinni hefur þekkzt hér á landi.

Ef það meiddi ekki hæstv. forseta að viðhafa þau ummæli um hæstv. ríkisstj., að hún hafi í þessu máli talað gegn betri vitund, stæði það skapi mínu næst. Hæstv. ráðh. ættu manna bezt að þekkja til aðalatvinnuvega þjóðarinnar, Það gildir sama, hvort rætt er um landbúnaðinn eða sjávarútveginn í þessu efni. Aldrei hefur verið meira um framboð á jörðum, en í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Ber að skilja orð hæstv. fjmrh. á þann veg, að þær óeðlilegu kvaðir, sem gert er ráð fyrir með lögfestingu þessa frv. að lagðar verði á bændastéttina, verði henni bættar á annan hátt en þann, er frv. gerir ráð fyrir? Er það spor, sem nú er stigið með þeim gífurlegu álögum á landbúnaðinn, til þess fallið, að bændur landsins uni ánægðari við atvinnurekstur sinn en áður? Ég tel, að það sé ekki ofmælt, að þær álögur, sem frv. leggur bændastéttinni á herðar, hljóti að hafa í för með sér frekari aðgerðir frá bændastéttarinnar hálfu til að hverfa frá hinum þjóðhollu störfum, sem bændur landsins hafa á öllum tímum látið þjóðarbúinu í té, og verði því miður hvatning til enn frekari aðgerða frá þeirra hendi til að yfirgefa jarðir sínar og flytja á mölina í kaupstaði og kauptún landsins. Og eiga svo fulltrúar bænda hér á Alþingi að ljá stuðning sinn við að lögfesta þessar aðgerðir, sem hljóta að hafa í för með sér óheillavænleg eftirköst fyrir landbúnaðinn, atvinnuveg, sem öll þjóðin hefur brýna þörf fyrir að sé rekinn með eðlilegum hætti?

Hæstv. ríkisstj. hefur staðið að samningum um kaup á tólf vélskipum 240 smálesta frá Austur-Þýzkalandi. Atvinnutækjanefnd, sem hefur á hendi á vegum ríkisstj. úthlutun þessara skipa, hefur tjáð mér, að henni hafi borizt miklu fleiri umsóknir um kaup á þessum skipum, en tala þeirra nemur. Þá hef ég fengið upplýst, að kaupverð skipanna muni nema um 4.2–41/2 millj. kr. Ef lítið eða ekkert af andvirði skipanna hefur verið yfirfært, mun yfirfærslugjaldið hækka verð þeirra um 2.3–2.5 millj. kr. á skip, og verður þá endanlegt verð þeirra ca. 61/2–7 millj. kr. Það er gert ráð fyrir, að þessi tólf skip komi til landsins á næstu mánuðum, og eiga þau öll að vera komin hingað heim fyrir áramót. Það hlýtur að valda miklum vandkvæðum fyrir væntanlega kaupendur þessara báta að komast frá kaupum á þeim, þó að mér sé fyllilega ljóst, að þá fyrst harðnar á dalnum, er eigendur þeirra eiga að fara að greiða afborganir og vexti af endanlegu stofnverði skipanna ásamt yfirfærslugjaldinu. Endanlegt kaupverð þessara báta, sem ég hef nú nefnt hér, verður að telja hreina fjarstæðu og þá sérstaklega vegna hins óeðlilega háa yfirfærslugjalds. Það mun nú sýna sig, að væntanlegir kaupendur skipanna munu ekki hafa ráð á að ganga frá kaupunum, nema ríkisvaldið veiti þeim stórvægilega fyrirgreiðslu í einni eða annarri mynd.

Þó að hæstv. fjmrh. hafi rætt hér á dögunum um þau miklu hlunnindi, sem frv. gerir ráð fyrir í sambandi við hækkun á fyrningu á skipum, sem á að vera fólgin í hækkun útflutningsbótanna, koma þau hlunnindi tæplega til greina í sambandi við fyrningu austur-þýzku skipanna, þar sem það má teljast mjög hagstætt, ef útgerð þeirra getur staðið undir vaxtaþunga stofnlánanna og öðrum föstum útgerðarkostnaði skipanna.

Margt hefur stuðlað að því, að sjávarútvegurinn hefur gefið erfiða raun fyrir þá aðila, sem veitt hafa honum forstöðu. Mörg aflaleysisár á síldveiði norðanlands og raunar einnig á Suðvesturlandi og lélegar vetrarvertíðir á þorskveiðum hafa lamað þennan mikilvirka atvinnuveg. Af þessum ástæðum og vegna skorts á skilningi valdhafanna fyrir nauðsyn þess, að sjávarútvegurinn sé rekinn með þeim þrótti, sem þessi atvinnugrein krefst, hefur rekstur hans gengið mjög erfiðlega um langt tímabil, svo að til vandræða horfir. Útgerðarmenn og útgerðarfyrirtæki eru yfirleitt fjárvana og hafa því ekki ástæður til margir hverjir að gera skip sín út til fiskveiða hvað veiðarfæri og annan útbúnað snertir með þeim hætti, sem telja verður nauðsynlegt. Þær ráðstafanir, sem ríkisvaldið hefur orðið að grípa til hvað eftir annað til að forða fiskiskipaflotanum frá því að stöðva reksturinn, að ákveða með lögum að fresta afborgunum af stofnlánum útgerðarinnar við stofnlánadeild sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóð Íslands, hafa ekki verið til þess fallnar að auka traust lánardrottna á atvinnuveginum.

Þá hafa hin lögboðnu skuldaskil sjávarútvegsins með fárra ára millibili ekki orðið til álitsauka fyrir þá menn og fyrirtæki, sem ríkisvaldið hefur dæmt til að sæta slíkri meðferð. Og það er spá mín, að þær aðgerðir, sem væntanlega verða lögfestar á næstu dögum, ef frv. það, sem hér er til umr., verður samþykkt, séu fyrirboði um stórkostlega hrörnun á sviði alls athafnalífs hér á landi, og mun þó koma þyngst niður á aðalatvinnuvegunum, landbúnaði og sjávarútvegi. Samþykkt frv. mun hafa í för með sér lamandi áhrif á allt framtak, og þó að hæstv. ríkisstj. hafi í umr. hér í hv. d. viðurkennt, að gera megi ráð fyrir, að þessar aðgerðir, sem frv. fjallar um, muni aðeins duga fram á haustið, hefur hún þó reynt að mæla þeim bót sem spori í rétta átt.

Hæstv. sjútvmrh. upplýsti í ræðu, er hann flutti hér fyrir nokkrum dögum í hv. d., að tekjur útflutningssjóðs hefðu numið rúnum 500 millj. kr. á árinu 1957. Hins vegar taldi hæstv. ráðh., að gera mætti ráð fyrir, að tekjur útflutningssjóðs á árinu 1958 kæmu til að nema tæpum 1.200 millj. kr., ef frv. það um útflutningssjóð, sem hér er til umr., yrði lögfest. Þessara stórauknu tekna til útflutningssjóðs, sem að sjálfsögðu verða mun hærri, en hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir, á m.a. að afla með 55% yfirfærslugjaldi af öllum rekstrarvörum atvinnuveganna. Kemur þetta hvað harðast niður á sjávarútveginum og landbúnaðinum, þó að þeim sé að nokkru bætt með hækkuðum útflutningsbótum á útflutningsafurðirnar. Eftir þá samninga, sem hæstv. sjútvmrh, gerði við Landssamband ísl. útvegsmanna 30. des. s.l., þar sem skýrt var fram tekið, að þeir ættu að gilda fyrir allt árið 1958 hvað snertir þær framleiðsluvörur sjávarútvegsins, sem samningurinn fjallaði um, er ekkert tiltökumál, að útvegsmenn og þeir aðrir aðilar, sem samningurinn tók til, undrist háttalag hæstv. ríkisstj. að rifta samningnum eða líta á hann eins og hann hefði aldrei verið gerður.

Ég tel, að hæstv. ríkisstj. hafi rofið samninginn við L.Í.Ú. frá 30. des. hvað þessi atriði snertir: Í fyrsta lagi að fella niður greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskibátanna frá 15. maí og fram til áramóta, en samningurinn kvað á um, að iðgjöldin skyldu greidd af útflutningssjóði allt árið 1958. Nú hefur fyrsti minni hl. hv. fjhn. gert að sinni till. að heimila útflutningssjóði að greiða vátryggingariðgjöld bátanna fram til áramóta. Hér er raunar aðeins um heimild að ræða, svo að ég hef hugsað mér að gera brtt., sem ég ber þá fram við 3. umr., um það, að þetta verði ákveðið, hér sé ekki aðeins heimild til útflutningssjóðs að greiða þetta iðgjald, heldur verði ákveðið í lögunum, að það skuli greitt. Í öðru lagi, að rn. lofaði að beita sér fyrir því, að lánveitingar og lánskjör bankanna til útvegsmanna yrðu ekki óhagstæðari á árinu 1958, en þau voru á árinu 1957 svo og að samræmdir yrðu vextir og lánskjör þeirra til útvegsmanna. Þrátt fyrir hækkun á fiskverði til hlutarsjómanna og annan aukinn tilkostnað við rekstur útgerðarinnar hefur útvegsmönnum og vinnslustöðvum enn ekki tekizt að fá lagfæringu á útlánum bankanna til samræmis þessum aukna tilkostnaði. Hér er því um hreinar vanefndir að ræða, sem hafa valdið bæði útgerðarmönnum og vinnslustöðvum margs konar erfiðleikum, og verð ég að víta þá framkomu hæstv. ríkisstj., að hún skuli ekki hafa séð um, að þessum málum væri komið í rétt horf. Í þriðja lagi segir í bréfi L.Í.Ú. til hæstv. sjútvmrh., dags. 31. des. s.l., meðal annars, með leyfi hæstv. forseta:

„Tilboð hæstv. ríkisstj. var lagt fyrir fulltrúafund L.Í.Ú., sem haldinn var í gær, og var gerð eftirfarandi samþykkt í trausti þess, að samningar tækjust milli ríkisvaldsins og fiskkaupenda.

Fulltrúafundur L.Í.Ú. samþykkir fyrir sitt leyti þann starfsgrundvöll fyrir vélbátaútveginn, sem felst í bréfi sjútvmrn., dags. 30. 12. 1957, að því tilskildu, að fjárhagsafkoma vélbátaútvegsins verði ekki rýrð með nýjum álögum af hálfu ríkisvaldsins á árinu 1958 frá því, sem felst í nefndu bréfi.“

Þessu skilyrði var ekki mótmælt af hæstv. rn., enda var hæstv. sjútvmrh, samþykkur því í samtölum við fulltrúa L.Í.Ú. Á þessum forsendum ákvað stjórn L.Í.Ú. að gefa meðmæli sín til allra meðlima innan L.Í.Ú. að hefja róðra strax upp úr áramótunum. Verður að telja, að þar sem hæstv. ríkisstj. neitaði ekki kröfu L.Í.Ú. í þessu efni, hafi hún þar með undirgengizt, að engar breytingar yrðu framkvæmdar á árinu 1958 af hennar völdum, sem rýrðu fjárhagsafkomu vélbátaútvegsins. Við þessa kröfu L.Í.Ú. hefur ekki verið staðið, þar sem frv. það, sem hér er til umr., leggur sjávarútveginum þungar byrðar á herðar, sem stjórn og fulltrúar L.Í.Ú. telja að mikið vanti á að fáist bættar með hækkun þeirri á útflutningsbótum sjávarafurða, sem frv. gerir ráð fyrir.

Auk þess má fullyrða, að vinnslustöðvar og útvegsmenn, sem annast kaup og útflutning á afurðum sjávarútvegsins, verði fyrir allverulegum fjárhagslegum þunga vegna þessara aðgerða hæstv. ríkisstj. Það er sem sé augljóst, að margvíslegur kostnaður og hækkun vinnulauna í sambandi við framleiðslu sjávarafurða frá 1. jan. til 14. maí mun enn eiga eftir að koma á nefnda framleiðslu, án þess að frv. geri ráð fyrir nokkrum bótum til vinnslustöðva eða útgerðarmanna til að standa undir þeim aukna kostnaði, sem frv. hefur í för með sér.

Eins og hæstv. ríkisstj. má vera ljóst, er mikill hluti sjávarafurða af framleiðslu þessa árs enn í vörzlum vinnslustöðvanna. T.d. er öll skreiðarframleiðsla þessa árs enn hangandi uppi á hjöllum. Meginhluti kostnaðar við skreiðarframleiðsluna, svo sem að taka hana niður af hjöllunum, flytja hana í hús, flokka hana og pakka og koma í skip, er enn óframkvæmdur og hlýtur að hafa stóraukinn kostnað í för með sér, ef frv. hæstv. ríkisstj. verður samþ. Það má fullyrða, að í sambandi við þessa grein sjávarútvegsins muni vera eftir sem svarar 2/3 af vinnulaunum og kostnaði. Sumir halda fram, að hér sé um að ræða 3/4 hluta eða 75% af kostnaðinum. Í frv. er ekki gert ráð fyrir, að þetta sé bætt á nokkurn hátt. Sama má segja um ýmsar aðrar afurðir sjávarútvegsins, sem framleiddar hafa verið á þessu ári, svo sem saltfiskinn, hraðfrysta fiskinn og fleiri sjávarafurðir. Stór hluti þessara afurða liggur enn hér á landi, og á eftir að hlaðast á þær margvíslegur aukinn kostnaður, án þess að gert sé ráð fyrir því í frv., að sá aukni kostnaður, sem samþykkt frv. hefur í för með sér, verði bættur.

Hér hef ég afrit af bréfi frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, sem einmitt bendir á eina grein þessa atvinnuvegar, sem sé þurrkun saltfisks, sem er töluvert unnið að.

„Reykjavík, 19. maí 1958.

Eftir að hafa fengið í hendur og athugað frv. til laga um útflutningssjóð o.fl. kemur það glöggt í ljós, að hin nýju fyrirmæli munu valda þeim fiskeigendum, sem ætla að þurrka þann saltfisk til útflutnings, sem veiddur er á tímabilinu 1/1–11/5, verulegu fjárhagslegu tjóni af eftirfarandi ástæðum: Öll verkun fisks þessa, sem mun nema um 7–8 þús. tonnum, er framkvæmd á tímabilinu frá 14. maí til miðs vetrar, og eykst því kostnaðurinn við framleiðslu fisksins sem nemur hækkun á eftirfarandi liðum:

1) Olíuhækkun, sem áætlað er að verði um 80 kr. pr. hvert þurrt tonn af fiski.

2) Lögboðin vinnulaunahækkun, sem áætlað er að nemi um 100 kr. pr. hvert þurrt tonn.

3) Hækkun á yfirfærslugjaldi umbúða, pappírs, striga og kassa, áætluð um 40 kr. pr. hvert þurrt tonn.

Auk þess er gert ráð fyrir, að útflutningsgjöld hækki um 55% og e.t.v. yfirfærslugjald á erlendum umboðslaunum og konsúlagjöldum.

Allar þessar hækkanir munu því valda þeim saltfiskeigendum, sem í hyggju hafa að verka framleiðslu sína, tjóni, er nemur 2–3 millj. kr., eftir því sem lausleg athugun hefur sýnt. Þetta er því alvarlegra fyrir útflutning vorn, þar sem nokkrir af félagsmönnum vorum hafa þegar tilkynnt oss, að þeir muni alls ekki verka saltfisk sinn af þessum ástæðum, heldur selja hann óverkaðan úr landi. Verði viðbrögð fiskeigenda almennt á þessa leið, mundi það í fyrsta lagi verulega rýra gjaldeyristekjur þær, sem fengjust fyrir fiskinn, og mikilsverð atvinna tapast hér heima. Og í öðru lagi mundum við ekki geta haldið við þeim mörkuðum, sem unnizt hafa mörg undanfarin ár og skipt hefur verið við. Það er því eindregin ósk vor, að svo verði séð um, að framangreindir kostnaðarliðir á saltfiski þeim, sem veiðzt hefur frá 1. jan. til 14. maí og fluttur er út eftir 14. maí 1958, hækki ekki frá því, sem var fyrir 14. maí, vegna hinna nýju ráðstafana eða að séð verði um, að saltfiskframleiðendum verði á annan hátt bættur sá aukni kostnaður, sem leiðir af hækkun á framangreindum liðum.“

Ég geri ráð fyrir, að hvorki hæstv. ríkisstj. né þeir ágætu menn, sem hafa unnið að þessum málum fyrir hana, hafi gert sér grein fyrir þessum afleiðingum, en hér er um mjög alvarlegt mál að ræða. Ef þetta verður ekki bætt á einn eða annan hátt af útflutningssjóði, þá er fyrirsjáanlegt, að þjóðin getur haft mikið tjón a., Það gæti orsakað tap á mörkuðum, sem við höfum unnið mikið upp á undanförnum árum, og mundi valda okkur töluverðu tjóni í sambandi við gjaldeyrismissi. Ég mun því, áður en þessum umr, lýkur, koma með till. í þá átt, að útflutningssjóði verði falið að bæta sannanlegt tjón, sem vinnslustöðvar og aðrir þeir aðilar, sem hafa vinnslu sjávarafurða með höndum, hafa orðið fyrir eða verða fyrir, eftir að þetta frv. hefur verið lögfest. Það á að vera ákaflega auðvelt að færa heim sanninn um það, hvað sá kostnaður er mikill, og verður að teljast sjálfsagt og eðlilegt, að það verði bætt þeim aðilum, sem verða að sæta því að fá þennan aukna kostnað á þessar afurðir.

Allt eru þetta vanefndir í samningi hæstv. ríkisstj. við L.Í.Ú. frá 30. des. s.l., — vanefndir, sem Landssambandið hefur ekki átt að venjast af ríkisvaldsins hálfu í sambandi við slíka samninga á undanförnum árum. Það er álit mitt, að hæstv. ríkisstj. eða trúnaðarmenn hennar, sem samið hafa frv., hafi ekki gert sér grein fyrir þeim afleiðingum um aukinn tilkostnað af völdum frv., sem ég hef hér bent á og einvörðungu snertir þær sjávarafurðir, sem þegar er búið að framleiða. Leiðir af sjálfu sér, að þetta mun verða að lagfæra í meðferð þingsins eða stjórn útflutningssjóðs verði falið að bæta útflytjendum þann aukna tilkostnað, sem samþykkt frv. hefur í för með sér hvað snertir þær afurðir, sem enn liggja hér á landi og ekki eru tilbúnar til að sendast á erlenda markaði.

Ef leggja má trúnað á málflutning hæstv. ríkisstj. varðandi þetta frv. um þá blómaöld, sem á að sigla í kjölfar þess fyrir allan landslýð, er augljóst, að heildartekjur útflutningssjóðs hljóta á þessu ári að fara langt fram úr þeirri upphæð, sem útgjöld hans samkv. frv. koma til að nema. Ég hef raunar heyrt fullyrt eftir trúnaðarmönnum ríkisvaldsins, að gera megi ráð fyrir, að tekjurnar verði hærri, en útgjöldin, kannske allt að 100 millj. kr., og virðist því eðlilegt, að reynt sé að ganga lengra til móts við aðalatvinnuvegi þjóðarinnar í sambandi við útflutningsuppbæturnar. Ég mun því við 3. umr. frv. leyfa mér að bera fram brtt. við frv., sem mætti orsaka nokkra lagfæringu á því til hagsbóta fyrir útflutningsatvinnuvegina og til að leiðrétta misfellur, sem lögfesting þess veldur.

Ég vil að lokum segja þetta: Þegar það er haft í huga, að gert var ráð fyrir, er frv. var lagt fram hér í hv. d., að það færi hraðbyri gegnum þingið, verður að telja það ámælisvert, að í sambandi við 21. og 36. gr. frv. um innheimtu yfirfærslu- og innflutningsgjalda skuli vera vitnað í vissar gr. og kafla tollskrárinnar í stað þess að tilgreina nöfn vörutegunda þeirra, sem þessi gjöld eiga að takast af, annaðhvort í frv. sjálfu eða í grg. þess. Það ættu að vera sjálfsögð vinnubrögð ríkisstj. á öllum tímum að gera sér far um, að frv. þau, sem lögð eru fram á Alþ. í nafni þeirra, séu skýr og greinileg, svo að alþm. þurfi ekki að leggja allt of mikla vinnu fram til að komast að niðurstöðu um innihald frv. eða tilgang þeirra. Ég er ekki að segja, að það sé í eina skiptið nú, sem þessi vinnubrögð séu viðhöfð, en það er full ástæða, að alþm. finni að þessum vinnubrögðum og krefjist, að það séu höfð betri vinnubrögð á þessu í framtíðinni.

Eins og ég tók fram áðan, mun ég við 3. umr. koma með nokkrar Brtt. við frv., án þess að ég geri mér beina von um, að þær fáist samþ. hér í hv. d. Ég mun þó gera tilraun til þess með því að bera þær fram, hver sem árangurinn verður. Á þessu stigi málsins hef ég ekki fleira að segja, en ég endurtek þau orð mín, að ég er undrandi yfir þessu frv., hvernig það ber að, og sérstaklega er mér óskiljanlegt, hvernig þeir hv. stjórnmálaflokkar, sem að ríkisstj. standa, treysta sér til þess að leggja þær kvaðir á aðalatvinnuvegi þjóðarinnar eins og gert er með þessu frv. Það er reynt að halda því fram, að þær kvaðir séu bættar upp með hækkuðum útflutningsbótum. En eftir því sem ég hef reynt að gera mér grein fyrir, er víðs fjarri, að þær útflutningsuppbætur geti bætt þann feikilega tilkostnað, sem þessir atvinnuvegir koma til að hafa í sambandi við yfirfærslugjöldin.

Hæstv. ríkisstj. hefur raunar sjálf gefið undir fótinn, að þessar aðgerðir séu ekki til frambúðar. Hæstv. ráðh. hafa gert ráð fyrir, að þessar aðgerðir ættu að duga fram á haustið. M.ö.o.: Hæstv. ríkisstj. telur, að hér sé aðeins tjaldað til einnar nætur og að enn verði að taka þessi mál alvarlegum tökum, er fram á haustið kemur. Það væri óskandi, ef henni entist það langt líf að lifa fram á haustið, að hún geti þá komið með jákvæðari aðgerðir í þessum málum en þær, sem birtast í frv. því, sem við ræðum hér í dag.